Kratar klókir í morgun og klaufskir í kvöld...

Ríkisstjórnarfarsinn heldur áfram. Ég er aftur á móti ekki of viss um að Ingibjörg Sólrún hafi spilað vel úr þeim kortum sem Björgvin G. gaf henni. Í morgun stóð flokkurinn keikur og spjótin beindust að Sjálfstæðisflokknum að hann yrði að gera eitthvað. Láta einhvern fara eða tapa atkvæðum ella.

Frá sjónarhóli þeirra sem hæst hrópa og reiðastir eru stjórnvöldum hefur Samfylkingin kannski gert rétt í að láta kné fylgja kviði og heimta afsögn Davíðs. Ég held aftur á móti ansi margir sjái í gegnum þennan leik og þá um leið að kratarnir ætla að gera allt til að komast út úr ríkisstjórninni og setja þessvegna kröfur á íhaldið sem það getur ekki svarað.

Þar með gerist það svo að íhaldið verður hinn ábyrgi sem reynir að halda einhverjum sjó og viðurkennir samt kosningar. Í morgun var svo augljóst að Geir var með svartapétur í höndunum en í kvöld er ég ekki eins viss. Veit ekki nema honum hafi tekist að lauma honum í pilsvasann hjá Imbu um leið og hún gekk út.

Verst er að á sama tíma og karpað er um algjör aukaatriði, eins og hvort Davíð situr mánuðinum lengur eða skemur þá brennur hér landið og heimilin engjast í skuldunum. Það var ekki að heyra að það skipti miklu máli í dag- það var enginn að tala um að færa niður skuldir almennings eða aftengja verðtrygginguna. Og ekki að auka fjármagn til samhjálpar eða lækka byrðar hinna lægstlaunuðu.

Nei, nei, - stjórnmálamennirnir eru að hugsa um hlutverkin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bjarni:

Það er með stjórnmálin eins og fyrirtækjarekstur, þau snúast ekki um stundarhagnað heldur langtímahagnað.

Aðalatriðið fyrir stjórnmála eru því ekki tímabundnar vinsældir, heldur langtímavinsældir. Reyndir stjórnmálamenn og þeir sem eitthvað vit hafa á stjórnum vita þetta.

Samfylkingin hugsar eflaust með sér að það besta fyrir þjóðina í dag sé að rétt skref séu tekin, t.d. að stjórn og framkvæmdastjóri Fjármálaeftirlitsins víki. Með þessu er sett pressa á Sjálfstæðisflokkinn að stjórn Seðlabankans segi af sér og að öðrum spilltum stjórnmálamönnum verði vikið úr starfi. Auðvitað spila Evrópumálin þarna inn í. Samfylkingin veit sem er, að stærstur hluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins vill inn í ESB, þótt forustan og jafnvel meirihluti landsfundarfulltrúa sé því andsnúinn.

Þetta snýst sem sagt um málefni, en ekki persónur.

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn verður að átta sig á er að stærstur hluti flokksins vill Davíð og stjórn Seðlabankans í burtu og vill sem fyrr segir skoða viðræður við ESB - með ströngum skilyrðum þó! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.1.2009 kl. 20:30

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góð ádrepa Bjarni!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 25.1.2009 kl. 20:38

3 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Verð nú að gera athugasemd við þessa athugasemd þína Guðbjörn.  Það er einfaldlega rangt hjá þér að stærstur hluti kjósenda XD vilji inn í ESB.  Ég er algerlega sannfærður um það að þegar til kastanna kemur munum við, mjög stór og þögull meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins segja NEI við aðild.  Eða eins og ég vil kalla það JÁ við áframhaldandi fullvalda Íslandi.

Ég var staddur á fundi Heimssýnar í dag og vil þakka þér Bjarni fyrir góðan fund.  Þær umræður og þau sjónarmið sem þar komu fram sannfærðu mig enn frekar um það að við eigum ekkert erindi í ESB.

Og ég er eindreginn stuðningsmaður Davíðs Oddssonar.  Ég gæti vel hugsað mér hann aftur í landspólitíkina, og ég er sannfærður um að ef á hann hefði verið hlustað, þá væri íslenzka þjóin ekki í jafn slæmum málum.

Með því að þvinga Sjálfstæðisflokkinn til að reka Davíð þá hefur Baugsveldinu og nokkrum óprúttnum (vonandi fyrrum ) Framsóknarmönnum tekist ætlunarverk sitt, með hjálp spilltasta stjórnmálaflokks síðari tíma, Samfylkingunni. 

Ég er sannfærður um að þá mun fyrst verulega hrikta í Sjálfstæðisflokknum. 

Sigurður Sigurðsson, 25.1.2009 kl. 20:47

4 identicon

"..auka fjármagn til samhjálpar eða lækka byrðar hinna lægstlaunuðu."

Ehm, ég veit að þú varst ekki á þingi síðustu vikur fyrra árs en, hvernig væri amk. að vera sanngjarn.

Tilfærslurnar voru auknar um á annan tug milljarða króna, heildaraukning til félagsm.ráðuneytis var yfir 22%. Á sama tíma voru skattbreytingar sem bættu stöðu allra sem hafa undir þingfararkaupi, persónuafslátturinn hækkaður verulega og skattleysismörk nú ríflega 118 þús.

Og þetta með verðtrygginguna.... þú hefur semsagt skipt um skoðun, eða hvað? En við vitum amk. eitt - ESB er dottið uppfyrir hlýtur að vera.

Fer að kíkja á þig á skrifstofuna. Hilsen.

-sigm. (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 21:17

5 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

ESB hefur bara ekkert með okkar stöðu að gera á þessum tímapunkti, hreinnt ekki neitt.

Við komum til með að þurfa að taka mjög stífft til í ríkisrekstrinum, svo stífft að ja "Bakkafjöruframkvæmd" verðu að öllum líkindum slegin af í tvö til þrjú ár, hætt verður að greiða niður samgöngur í lofti og á landi. Jöfnunasjóðir verða aflagðir, niðurgreiðsla á orku verður aflögð þar hefði ég viljað að næði einnig til Álverana að þeir yrðu skikkaðir til að greiða hærra gjald fyrir sína orku eða að almenningi verði boðið uppá sömu kjör, þannig að ekki sé um misbeitingu að ræða í þeim efnum.

Það er allt að hækka í kringum okkur sem neytendur en við höfum engar varnir nema að við verðum að draga saman okkar neyslu á öllum sviðum þannig að sem flestir gefist upp að vera með þjónustu við okkur. Fara ekki í stórmarkaðina og versla í matinn reyna að komast af með því að versla beint við framleiðendurna en þeir þurfa einnig að gera okkur það kleift með einhverjum hætti. Hvers vegna eru lægri verð í stórmörkuðum en í smáverlsunum það er úrvalið sem heldur uppi þeim kostnaði sem hver vöruflokkur þarf að bera, en við greiðum einnig niður þessa þróun með því að koma til þeirra á okkar bifreiðum og komum þannig með neytendann til markaðarins.

Bjarni hvenær verður sagt frá framboðinu?

Friðrik Björgvinsson, 25.1.2009 kl. 22:35

6 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekkert að gera. Vertu feginn að Björgvin sýndi þetta hugleysi, fylgið mun hrinja af honum, sannaðu til. Vonlaus maður þar !

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 00:14

7 identicon

Guðbjörn: ég er sammála þér um að stjórnmál og rekstur fyrirtækja ætti að snúast um langtímasjónarmið.

Er ekki alveg ljóst miðað við viðskiptamódel bankanna að í þeim efnum er veruleikinn ekki endilega eins og við myndum kjósa? Voru bankarnir með nægilega styrkar stoðir undir sínum rekstri til lengri tíma. Þá dugir ekki að segja að "þá féll Lehmann" því þeir voru rúnir trausti á alþjóðlegum mörkuðum síðasta eina og hálfa starfsár þeirra.

Og stjórnmálamenn. Þeir hafa gert hvað sem er til að forðast óvinsældir. Þeir hafa blásið hagkerfið upp eins og blöðru mörg ár í röð svo þessi "mjúka lending" sem allir biðu eftir í mörg ár kæmi eftir kosningar - niðurstaðan var gengi sem var svo hátt skráð að hálf þjóðin átti Land Cruiser og við fengum lítið sem ekkert fyrir útflutning. Niðurstaðan var náttúrulega halli á viðskiptum og skuldsetning en það er í lagi til skamms tíma. Ekki til langs tíma.

Er þá ekki nóg sagt um þessa ágætu draumsýn?

Annars finnst mér þessi pistill góður. Ingibjörg klýfur stjórnina og íhaldið fær tíma til að safna liði, hvítþvo sig fyrir kosningar og minna svo alla á að það megi ekki treysta kommunum fyrir ríkisfjármálum.

Árni Valur (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband