Af sótthita ESB umræðunnar

Ég vék aðeins að því í síðustu grein hvernig fjölmiðlamenn landsins voru á útrásartímanum mataðir af guðum líkum eigendum sínum og tóku þá í tugatali ESB trú upp eftir húsbændum sínum. Kaþólskastir urðu gömlu láglaunakarlarnir á RÚV sem vonuðust til að verða gjaldgengir á markaðinum nokkur ár enn með því að láta nú ekki sitt eftir liggja.

Rétt afstaða til útrásarinnar, ESB og nokkurra annarra lykilhagsmunamála fjárglæframannanna íslensku var lykillinn að starfsframa í fjölmiðlastétt þar sem RÚV marði á botninum í launakjörum og virðingu.

Afleiðingin er sú að um árabil hefur verið slík slagsíða á ESB-umræðunni að leita þarf inn á íþróttadeildir til að finna sambærilegan sótthita. Máske jafnaðist fjölmiðlaumfjöllun um Breta í landhelgisstríðunum við það sama en fullvíst að sambærileg slagsíða var aldrei í gömlu herstöðvadeilunni sem samt klauf þjóðina alvarlega líkt og ESB deilan gerir núna.

Þá voru þeir dagar að fjölmiðlarnir skiptust mjög í tvö horn í þessum efnum og sumir þeirra stóðu opnir í báða enda eins og gamli Tíminn og stundum Alþýðublaðið.

Um árabil hafa þáttastjórnendur, ritstjórar og fréttamenn valið fréttir, viðmælendur, viðtalsefni og sjónarhorn til mála eftir barnalegum naívisma ESB afstöðunnar. Hamrað er á þeim ranghugmyndum að setja samasemmerki sé milli ESB og alþjóðavæðingar. Af sömu ástæðu er andstaða við inngöngu lögð upp sem fornaldarleg einangrunarstefna, þjóðernishyggja eða hreinlega sögð stafa af ofstæki og heimsku.

Samt eru nú 500 síðan það varð heyrinkunnugt á okkar menningarsvæði að heimurinn er stærri en bara Evrópa, reyndar svo miklu stærri að Evrópa er bara pínulítill hluti heimsins og í dag sá hluti sem hvað þyngst horfir fyrir í efnahagsþróun komandi ára og áratuga. En þetta hefur ekki spurst ennþá inn til leiðarahöfunda eða aldraðra spegilfréttamanna. Mestu skiptir þar að tímgunarvandamál Evrópumanna eru meiri en í nokkurri annarri álfu.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hreyta fréttastofur stóru ljósvakamiðlanna, Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins og launaðir fastapennar blaðanna staðfastlega fúkyrðum yfir alla þá sem ekki fara rétt með löngu úreltar ESB - möntrur Jóns Ásgeirs, Bakkabræðra og Kaupþingsdrengja. Talsmenn sömu útrásarvíkinga sem veittu forstöðu milljarða sparnaði landsmanna í gegnum lífeyrissjóði, EXISTA og önnur pappírstígrisdýr eru ennþá vinsælustu viðmælendur fréttastofanna og taldir þess megnugir að segja þjóð sem þeir hafa sett á hausinn hvert hún eigi að fara. Skreyta sig þá jafnvel með forsæti í ASÍ eða Viðskiptaráði.

Hvenær ætla íslenskir blaðamenn að axla ábyrgð, gera upp hegðan sína á útrásartímanum og temja sér í framhaldi hlutleysi í störfum sínum?

(Mbl. 3. júní 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það verður gaman að fylgjast með umræðunum núna.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.6.2009 kl. 11:06

2 identicon

Eitt af þessum döpru innleggum kom í Speglinum um daginn ... þar var ESB-prófessor spurður hvers vegna þátttaka í Evrópukosningum væri svona léleg - af hverju almenningur í aðildarlöndunum tæki ekki meiri þátt... Mjög gild spurning.

Svarið var eitthvað á þá leið að fólk hugsaði meira svæðisbundið...

Jahá... gagnlegt að vita það... segir nákvæmlega ekkert. En svo var bætt um betur og farið að tala um alls konar vísindastyrki o.fl. frá ESB...  

Eftir stendur spurningin: Hvers vegna er þátttaka almennings í aðildarlönum ESB svona léleg í kosningunum? Óska eftir innleggi fræðimanns um þetta.

ragnar (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 11:34

3 identicon

Félagi Bjarni !

 Snjöll skrif - að vanda ! Einnig spurning Ragnars.

 Hefur nokkur heyrt fjölmiðla upplýsa atvinnuástand ESB landa ?

 Heilög Jóhanna sagði daginn fyrir kjördag.: " ESB snýst um vinnu og velferð"

 Financeal Times  birti í síðustu viku eftirfarandi um atvinnuleysi í ESB., löndum. Býsna fróðleg lesning. Þar má lesa.:

 Spánn 17,5% atvinnuleysi - Hækkandi

 Lettland 13% atvinnuleysi. Hækkandi.

 Litháen 13,9% atvinnuleysi . Hækkandi

 Írland 1o, 8% atvinnuleysi. Hækkandi.

 Svíþjóð 11,2% atvinnuleysi.

 Bretland 9,4% atvinnuleysi. Hækkandi.

 Frakkland 8,7% atvinnuleysi.

 " ESB snýst um VINNU" !!!

 Var einhver að hlæja eða gráta ??!!

 Ekki orð um þetta í Morgunblaðinu - né öðrum fjölmiðlum ! Athyglisvert.

 Þögnin um þessa stöðu á vinnumarkaði ESB landanna - ærandi - frá upphafi til enda.

 Eða sem Rómverjar sögðu.: " Ab ovo usque ad mala" - þ.e. " Frá upphafi til enda" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 20:38

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst það svo einnig talandi um framtíðarvægi Íslands í þessu úlfagreni, að þeir beiti hótunum til að fá sínu fram. Á það ekki að vera nóg til að láta þessa óra róa, að Hollendingar og Þjóðverjar hafi í efnahagshótunum við okkur? Nei, heilög Jóhanna kyngir því og lætur undan í von um að þetta sé bara undantekningartilfelli. Trúir því líka að fiskveiðipólitík bandalagsins hrynji til grunna ef við komum ekki sem fyrst til bjargar sambandinu.

Spegillinn á rúv er svo blygðunarlaus í evrópusambandstrúboðinu að maður heldur stundum að þetta sé grín.  Það er rétt sem þú bendir á. Þetta eru síðustu leyfar af landsölustefnu Oligarkanna okkar og enn kyrja fjölmiðlar þeirra þessa möntru, enda eiga þeir fjölmiðlana enn. Jafnvel RUV virðist vera. Hvenær ætlar fólk að rumska?

Eftirminnnilegt er viðtal Sigmars og fréttakonu við frambjóðendur eftir kosningar, þar sem Ástþór talaði af miklu viti, öllum að óvörum. Þar hömuðust spyrjendur við að beina umræðunni um stjórnarmyndun inn á brautir evrópumála. Létu hreinlega í það skína að búsáhaldabyltingin hefði snúist um það.  Að bæði skyldu ekki rekin fyrir það, er mér óskiljanlegt. Steingrímur J. las þeim pistilinn þar ásamt fleirum, en það virðist ekki hafa dugað til.  Landsala skal það verða. Það er dogmað og vei þeim, sem mælir gegn því.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.6.2009 kl. 00:59

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Aldeilis frábær grein og tímabær.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.6.2009 kl. 01:01

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Frábær pistill Bjarni.

Innilega sammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.6.2009 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband