Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ráðstefna um sjávarútveg og ESB

Reglan um svokallað „relative stability" í úthlutun fiskveiðiheimilda ESB er gjarnan nefnd sem rökstuðningur þess að Íslendingar þurfi í reynd ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni þrátt fyrir innlimun. En á hverju byggir þessi regla um veiðireynslu heimamanna og hversu örugg er hún í regluverki ESB.

Er möguleiki að Ísland fengi undanþágu frá þeirri meginreglu ESB að öll yfirráð fiskimiðanna á Íslandi flytjist til Brussel?

Um þessa hluti og fleira í fiskveiðistefnu ESB fjallar norski þjóðréttarfræðingurinn Peter Örebech á ráðstefnu sem Heimssýn boðar til í Þjóðminjasafninu á morgun, sunnudaginn 11. janúar klukkan 15. Auk Peters eru þar ræðumenn frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins á Íslandi en sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson setur ráðstefnuna.


Þjóðarmorð á ábyrgð Vesturlanda

Palestina_minnkun
 

Félagið Ísland Palestína boðar til fundar í Iðnó klukkan 16 í dag og full ástæða til að hvetja alla sem heimangengt eiga að mæta. Meðal ræðumanna er aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Sjálfur er ég ekki í þeim hópi að komast - er bundinn við bókabúðina hér á Selfossi en ákvað að leggja málinu lið með smá bloggi. Komst reyndar á Palestínufund í Reykjavík á  næstsíðasta degi ársins og birti hér eina mynd sem Egill Bjarnason tók á þeim fundi og aðra sem sýnir þróunina á svæðinu frá stofnun Ísraelsríki 1947. Fyrsta kortið sýnir skiptingu Sameinuðu þjóðanna árið 1947, næsta eins og ástandið eins og það var t.d. 1982 og þær seinni tvær þróun síðustu ára með auknum landnemabyggðum ísraela og múrbyggingu umhverfis gettó Palestínumanna.

Sjálfur kynntist ég þessu svæði vel fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan þegar ég bjó í Palestínu og Ísrael í hálft ár. Þá var að vonum talað um aðstæður Palestínumanna sem óásættanlegar og hörmulegar sem þær vissulega voru og heimsbyggðin öll sammála um að eitthvað þyrfti að gera til þess að þjóð þessi ætti möguleika á mannsæmandi lífi. Síðan þá hafa aðstæður bara versnað og versnað mjög mjög mikið. Kortið hér að ofan sýnir það og fréttir dagsins í dag fjöldamorðum ísraelska hersins á íbúum Gaza eru staðfesting á því sama. frid_i_palestinu

Allt er þetta þyngra en tárum taki því við erum að tala um raunveruleg mannslíf, kynslóðir sem koma og fara án þess að sjá nokkurn tíma út úr augum með niðurlægingu, eymd og kúgun. Og allt gerist þetta með velþóknun Vesturlanda, einkanlega Bandaríkjanna. Við Íslendingar höfum lengst af fylgt þeirra stefnu dyggilega og verið með dyggustu bandamönnum Ísraelsmanna. Þessvegna höfum við líka ríkar skyldur og ábyrgð gagnvart ástandinu og þá ábyrgð öxlum við ekki nú nema ganga fram og slíta tafarlaust stjórnmálasambandi við land sem ástundar nú fjöldamorð á almennum borgurum á Gazaströnd.

Palestínufarinn sonur minn birti annars sl. mánudag ágætis dæmisögu um ástandið í Morgunblaðinu sem lesa má hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/767490/


Þögull mótmælafundur á Selfossi í hádeginu á morgun

Í hádeginu á morgun, föstudag verður þögull mótmælafundur á Selfossi þar sem gengið verður milli banka bæjarins. Safnast saman við Landsbankann og gengið þaðan að Kaupþingi og Glitni. Engar ræður verða fluttar að þessu sinni en fólk er hvatt til að taka með sér kröfuspjöld. 52motmaeli_selfossi002

Það er eins og við fyrri mótmæli hér á Selfossi hópur fólks, m.a.  af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem stendur að mótmælunum og það er full ástæða til að hvetja alla til að mæta. Með samstöðu sýnum við mátt okkar og að ekki verður liðið að skuldakröfum auðmannaævintýris sé fleygt á herðar almennings.

Mótmælin hefjast klukkan 12:30 og sem fyrr segir framan við Landsbankann á Austurvegi á Selfossi.

Myndin er frá síðustu mótmælum sem efnt var til í desembermánuði
en þá mættu vel á annað hundrað manns.


Farinn úr Framsóknarflokki

Í morgun sagði ég mig úr Framsóknarflokknum. Ákvörðun um það tók ég endanlega þegar Guðni Ágústsson sagði af sér sem formaður en ákvað að leyfa hátíðunum að líða án nokkurra aðgerða. Ég var aftur á móti ákveðinn í að koma úrsögninni frá mér fyrir flokksþing enda þykir mér ekki heiðarlegt að taka þátt í formannsslag og stefnumótun í flokki sem ég ætla mér alls ekki að starfa fyrir.

En ég er ekki hættur í pólitík. Ég hef eins og lesendur þessarar síðu þekkja skrifað nokkuð um nauðsyn þess að brjóta upp það staðanaða ægivald sem flokkakerfið hefur yfir stjórnmálum landsins. Við sjáum hvað setur!

Er eiginlega búinn að segja svo mikið í samtali við hin ýmsu blöð að ég ætla í bili að láta duga að vitna í það. Hér og hér.

Baráttan er rétt að byrja!


Hvern er verið að plata...

Finnar fengu besta mögulega landbúnaðarsamning við inngöngu í ESB mest vegna þess að þeir eiga lönd norðan við hinn byggilega heim. Líkt og við Íslendingar. Og hvað skyldi þá vera svo gott í þessum samningum, styrkir frá Brussel, markaðsaðgangur umfram það sem áður var....

Nei, - fyrst og fremst fá finnsk stjórnvöld leyfi til að styrkja bændur í norðurhéruðum Finnlands meira heldur en aðra bændur landsins, ráðstöfun sem útaf fyrir sig orkar tvímælis og verður nú til þess að mjólkurframleiðsla landsins flyst yfir í norðurhéruðin! Þetta kemur fram í ESB úttekt Moggans í dag.

Vita ESB sinnar að Ísland hefur í dag leyfi til að styrkja bændur á Ströndunum tíu sinnum meira en bændur í Mýrdalnum og ég hef samt aldrei heyrt að það séu sérstök hlunnindi að mega slíkt. Og ekki einu sinni Strandamaðurinn Jón Bjarnason leggur það til!

Í sama blaði kom fram að 80% af byggðastyrkjum ESB renna til landa þar sem meðaltekjur eru undir 75% af meðaltali ESB. Þrátt fyrir kreppuna nú og hennar svartsýnustu spár á Ísland langt langt í land með að tilheyra þessum hópi fátæklinga. Og við getum ekki fengið eystyrki eins og Kanarí enda alltof þróaðir!

En það getur vel verið að ef evrópukratar allra flokka ráða Ísland samfellt í mörg kjörtímabil komust við þannig á hnén að bændur hér í Flóanum fari að ferðast um á puttanum eins og var vel þekkt í gamla Íslandi þegar við vorum meðal fátækari landa vesturheims. Og þá fáum við Brusselstyrki, ligga ligga lá...

En þrátt fyrir talsverða Stephensenslagsíðu á köflum vil ég þakka Morgunblaðinu fyrir vandaða ESB umfjöllun. Ég er nefnilega einn fjölmargra ESB andstæðinga sem vil sem mesta umfjöllun um málið... lítið ólæsi í landinu og miklar upplýsingar um ESB draga úr líkum á innlimun Íslands!


Bónusfánann á Alþingishúsið aftur

Ég held að það hafi verið mistök að taka Bónusfánann af Alþingishúsinu þar sem Haukur Evuson kom honum svo smekklega fyrir einhvern af mínum síðustu þarvistardögum. Núna þegar útrásarvíkingarnir okkar eiga landið algerlega skuldlaust - því þeir hafa falið okkur að borga skuldir sínar!

Eitt grófasta dæmið er bruna-yfirtaka Icelandic express (Pálmi víkingur í Fons) á Ferðaskrifstofu Íslands og daginn eftir kemur Bjarni Ármannsson heim og kaupir sér aflátsbréf fyrir innan við helming af því sem honum var greitt fyrir að fara. Hvað með allar þær skrilljónir sem hann fékk greiddar fyrir að keyra útrásina á sínum tíma enda var Bjarni mikill frumkvöðull í ofurlaunatöku. Ekki svo að skilja að það sé ekki fallega gert af Bjarna að borga Glitni til baka en betur kynni ég við að menn skiluðu öllu en ekki bara litlu.

Og nöturlegt að sjá hann halda því fram að meginástæðan fyrir því hve illa fór hafi verið gjaldmiðillinn og að Rei málið hafi verið mistök. Það fór illa útaf glannaskap og nú hrynja bankar í evrulöndum, það veit nafni minn vel. Hann veit líka að Rei málið var plott, siðlaust plott, sem mistókst - en að bera það á borð að menn hafi bara ætlað sér óvart að stela sameiginlegum eigum Reykvíkinga er utan við allt velsæmi...


Alvarleg misnotkun á lýðræði

Það er rökrétt að draga þá ályktun af ýmsum ummælum Ingibjargar Sólrúnar að formaður Samfylkingarinnar vilji ekki að Sjálfstæðisflokkurinn nái samstöðu á landsfundinum um það hvernig staðið skuli að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Það er merkilegt fyrir þær sakir að það er eina hugsanlega leiðin til þess að málið komist á dagskrá við núverandi aðstæður...

Þannig skrifar alþingismaðurinn Ármann Kr. Ólafsson sem situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kraganum. Hér er talað tæpitungulaust um það að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi það hlutverk að koma aðildarviðræðum við ESB á koppinn. Hvernig má það vera þar sem nær allir hinna 25 þingmanna voru kjörnir á Alþingi út á þá stefnu að vilja ekki í ESB og ekki í aðildarviðræður. 

Telja þingmennirnir að þeir geti breytt umboði sínu með einfaldri fundarsamþykkt á landsfundi. Það er þá alvarleg misnotkun á lýðræðinu og sannast hér það sem fleiri hafa orðið til að benda á að á Íslandi er flokksveldi ekki lýðveldi.

Skrifaði aðeins um þetta flokksveldi í Morgunblaðinu í gær og þá grein má skoða nánar hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/762204/


Ný og betri fornbókabúð

 

IMG_7681

Nú um áramótin voru vistaskipti í fornbókabúðinni okkar og allar óseldu bækurnar frá síðasta ári fóru í orlof í kjallara bóksalans en nýjar komu í staðin. Búðin öll endurskipulögð og mikið af forvitnilegu efni.

Þetta er búið að vera reglulega skemmtilegt - þó auðvitað taki í að bera mikið af bókakössum. Þá kemur sér vel að eiga unga og fríska syni!

Nánar um brot af því sem nú hér er að finna á vef bókakaffisins...

http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/

 


Hugvekja um fyrirgefningu á krepputímum

- Kristin lífsskoðun trúleysingja

Þrátt fyrir þrálátan heiðindóm hefi ég að þessu sinni lagt eyru eftir orðum presta í kringum þessi jól. Var enda mjög ánægður með viðtal RÚV við séra Þorbjörn Hlyn Árnason prófast á Borg sem talaði um réttláta reiði almennings í Speglinum nokkrum dögum fyrir jól. Sóknarprestur okkar Tungnamanna, séra Egill Hallgrímsson bætti um betur í stórgóðri stólræðu á jóladag þar sem hann vék meðal annars að því að guð stæði við hlið þeirra sem mótmæltu óréttlætinu. Frelsarinn sjálfur var enda slíkur mótmælandi fyrir tvöþúsund árum síðan.

Mig langar samt að bæta hér við úr vopnabúri hinnar kristnu siðfræði. Grundvöllur hennar sem stendur okkur næst á jólum er einmitt kærleiksboðskapur og fyrirgefningin. Elska skaltu óvini þína og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Kannski er þessi boðskapur það sem sker kristnidóminn frá öðrum trúarbrögðum með afdráttarlausari hætti en nokkuð annað og lyftir siðferðisboðskap kristninnar á stall ofar þeim siðaboðskap sem gerir hefndina að aðal atriði.

Nú kann einhverjum að þykja undarlegt að nefna elsku að óvinum og fyrirgefninguna í dag þegar samfélagið allt logar af réttlátri reiði gagnvart stjórnvöldum og útrásarvíkingum. Ég hef enda gengið með þessa hugmyndir sem ég hér festi á blað í maganum í nokkra daga í ótta við að kannski sé ég að verða kaþólskari í minni kristnu lífsskoðun en þeir báðir klerkarnir sem ég nefni hér að ofan. Og er ég þó opinber trúleysingi og utankirkjumaður.

Að geta fyrirgefið

Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Þessi lína úr faðirvorinu gerir ráð fyrir að rétt eins og við getum sjálf vænst fyrirgefningar, þegar við biðjum um hana, vegna eigin yfirsjóna þá eigum við að fyrirgefa þeim sem gera á okkar hlut,- þegar þeir beygja sig og biðja um það sama.

En hvaða merki hefur íslensk þjóð um það að þeir sem freklegast hafa brotið á rétti okkar ætli sér nokkuð að biðjast fyrirgefningar. Fyrir utan ofurlitla auðmýkt hjá Björgólfi Guðmundssyni í einu Kastljósviðtali þá hafa hinir íslensku útrásarvíkingar í engu gefið í skyn minnstu eftirsjá. Og þeir hafa með stofnun fyrirtækja eins og Rauðsólar og pappírsviðskiptum með bréf Existu sent okkur skýr skilaboð um að þeir ætli sér að halda leiknum áfram. Fara annan hring.

Á meðan situr máttlítil ríkisstjórn og talar í tæpitungu um að engin ástæða sé til þess að leita sökudólga. Við fáum að vita að enginn ráðherranna hefur í hyggju að segja af sér, engin breyting sé fyrirhuguð í stjórnarráðinu nema stólaskipti til hagræðingar fyrir þá sem þar vinna. Það ætlar semsagt enginn að beygja höfuð sitt fyrir íslenskri þjóð og biðjast fyrirgefningar. Meðan svo er getur ekki orðið af neinu slíku og reiðin er áfram ráðandi.

En reiðin er svo sannarlega ekki uppbyggjandi eða heilbrigð kennd. Hún skilar samfélagi okkar ekki áfram og meðan hún ræður för nær íslensk þjóð ekki vopnum sínum. Og þau okkar sem mest hafa gert á hlut hagkerfisins ná engri sátt við íslenska þjóð nema til komi uppgjör milli þessara aðila. Það kann því að vera bjarnargreiði stjórnvalda við fulltrúa hinna gömlu útrásarvíkinga að leyfa þeim áfram að valsa með eigur okkar og skuldir.

Sjálfur sat ég nokkra fundi í Framsóknarflokki þar sem þáverandi formaður, Guðni Ágústsson, vék að því að ef til vill þyrfti flokkurinn að gera upp við kjósendur hvern þátt hann ætti í því sem miður fór. Svör núverandi formanns og þáverandi varaformanns, Valgerðar Sverrisdóttur, við þessum aðfinnslum voru öll á þá leið að þetta væri óþarfa hjal. Nú hefur Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður staðfest að hann taldi það mikilvægt verkefni að hann og hans stuðningsmenn innan flokksins stöðvuðu að þessi orðræða Guðna færi í hámæli. Eftir þau ummæli tel ég mér skylt að vekja athygli á henni. Hér bregðast þau Valgerður og Jón samt síst verr við en leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem í engu ætla sér að axla ábyrgð á þeim óförum sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir. Um VG og Frjálslynda er minna að tala enda aðkoma þeirra að völdum minni.

Samtrygging flokka og fjármálafursta

Í raun og veru má í þessu sambandi tala um ákveðna samtryggingu stjórnmálaflokka og útrásarvíkinga. Meðan allir þræta sem sprúttsalar og viðurkenna ekki þumlung af eigin ábyrgð mun þar við sitja. Ef annarhvor aðilinn opnar á að leita sátta við þjóð sína verður erfiðara fyrir hinn að hreykja sér í hroka sínum. Útrásarvíkingarnir geta gert það með því að ganga frá matadorborðinu. Stjórnvöld með því að efna til kosninga.

Árið 2009 verður ár uppgjörs. Ekki einasta milli ESB andstæðinga og ESB sinna eða milli braskara um uppskiptingu þrotabúa. Það verður ekki síður uppgjör við það stjórnkerfi sem við búum við þar sem samtrygging flokkakerfisins og samtrygging viðskiptablokkanna verður hvorutveggja brotið á bak aftur af þeim breiða hópi almennings sem nú stendur frammi fyrir lífskjararýrnun, gjaldþrotum og eignamissi.

(Skrifað millum hátíða og birt á Smugunni á gamlársdag.)


Ólafur Ragnar með vopnum sínum

Ólafur Ragnar Grímsson flutti gott nýársávarp til þjóðar sinnar og meira en bitamunur á ávarpi hans í dag og ávarpi forsætisráðherra í gærkvöldi. Ólafur talaði hér kjark í þjóðina en sérstaklega fannst mér mikilsverð sú hugmynd hans að við þyrftum nú á að halda nýjum sáttmála um grundvallarskipan mála. Ég held að þetta geti verið rétt og að í slíka skipan þurfi þá jafnvel að fastsetja hluti eins og gegnsæi stjórnsýslu, valdtakmörk stjórnmálaflokka, launamun, sameign þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar og raunverulega aðkomu almennings að stærri ákvörðunum löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Ólafur hefur mjög legið undir ámæli í haust fyrir þrennt; stuðning sinn og jafnvel dekur við útrásarvíkingana meðan allt lék í lyndi, misráðna valdatöku þegar hann stöðvaði hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp og í þriðja lagi fyrir að birta nú ævisögu þar sem reynt er að gera upp pólitískan ágreining. Fyrir allt þetta hafa margir eins og mín uppáhaldsblaðakona Agnes Bragadóttir farið mikinn og raunar eru margir í mínum vinahópi sem sjá Ólaf með einhverjum þeim gleraugum sem ég hef aldrei skilið. Ekki frekar en Davíðs-hatrið sem hrjáir marga þeirra sem ekki þjást af óþoli gagnvart Ólafi. Ég tilheyri þeim sjaldgæfa miðjuhópi sem sé margt gott við báða þessa menn en sé líka á margra þeirra verkum missmíði.

Í ávarpi sínu í dag baðst Ólafur afsökunar á að hafa um margt gengið of langt í lofi sínu um fjármálaútrásina en benti um leið á það sem rétt er að margt í okkar útrás hefur tekist vel. Ég hef raunar ekki sannfæringu fyrir því að Ólafur hafi gert eitthvað rangt með því að greiða götu íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Hann tók ekki þar með að sér að skrifa upp á að sömu menn hefðu alltaf rétt við í viðskiptum. Hann eins og við flest gekk út frá því að svo væri en það var einfaldlega hlutverk annarra að sinna því verki að setja held lög og hafa með þeim eftirlit. Stærstu mistök okkar voru að hafa falið ESB það hlutverk að setja lög og reglur um fjármálaheiminn. Reglur sem reyndust lekar og stórhættulegar fyrir okkar litla en góða hagkerfi.

Þá hefi ég afgreitt að nokkru þá einu yfirsjón sem Ólafur talaði um í nýársávarpi sínu. Um hitt talaði hann ekki en ég vona að hann muni á komandi ári taka til umfjöllunar og vonandi endurskoðunar afstöðu sína til fjölmiðlafrumvarpsins sáluga. Um ævisöguna er minna að segja og má raunar telja að fullrefst sé þeim báðum, honum og Guðjóni Friðriksson með þeim dræmu viðtökum sem bókin hlaut


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband