Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Forsmekkur að vetrinum

Stundum höfum við hjónakornin skroppið út fyrir landsteinana snemma vors eða á útmánuðum í vorsulti eftir sól. Núna snerum við dæminu við og fengum aðeins forsmekk að vetrinum með helgarleyfi á Akureyri sem er frábært. Erum í kennaraíbúð við Hótel Kea og njótum þess að labba um í ævintýralegum Kjarnaskógi og hanga endalaust inni í Eymundsson. Gott að vera á bókakaffi og þurfa samt ekki að gera neitt. Hér er skemmtilegt haustveður með stillum, kulda og norðlenskum píkuskrækjum í Hafnarstrætinu.

Ofbeldi endurtekningar og skrifræðis

Stjórnvöld sem ekki fella sig við vilja almennings hafa haft ýmsar aðferðir til að fara sínu fram. Algengast er að banna óæskilega stjórnmálaflokka, takmarka ritfrelsi og málfrelsi almennings og þeir sem lengst ganga hafa fangelsað og tekið af lífi stjórnarandstæðinga sem ógna völdum þeirra. Allt eru þetta frekar klunnalegar aðferðir og verða oft til að magna andstöðu og óróa.

Skrifræðisbákn Vesturlanda sem rís hæst í Brussel hefur því fundið upp alveg nýjar aðferðir og ísmeygilegri. Ein sú algengasta þar er að láta fólk kjósa aftur og aftur þar til það annaðhvort samþykkir eða hreinlega gefst upp á að mæta á kjörstað. Slíkri aðferð er nú beitt vegna Lissabonsáttmálans á Írlandi. Írar þurfa í dag að kjósa aftur um sáttmála sem þeir höfnuðu fyrir ári og kemur ekki á óvart að kjörsókn sé talin léleg.

Þetta er langt því frá að vera eina aðferðin sem ESB-notar til að koma sér hjá lýðræðinu eða að ESB sé eitt um aðferðir eins og þessar. Samskonar nauðgun á lýðræði hefur verið viðhöfð á Íslandi við sameiningu sveitarfélaga þar sem íbúarnir fá að kjósa aftur og aftur þar til þeir hafa samþykkt og þá aldrei að nýju.

Af öðrum tækjum sem ESB hefur á takteinum gegn lýðræðinu má nefna að völd eru falin embættismönnum en ekki kjörnum fulltrúum, almenningi jafnt sem kjörnum fulltrúum er gert að velja milli tveggja eða fleiri kosta sem allir eru óskiljanlegir. Samningar, regluverk og lagagreinar er allt haft í svo löngu máli og á svo flókinni kansellímállýsku að enginn skilur og áfram mætti telja. Að síðustu má nefna það snjallræði að breyta einfaldlega nafni á því sem fólk hefur hafnað í kosningum og setja það á með einföldum stjórnvaldsaðgerðum en einmitt þannig er Lissabonsáttmálanum troðið upp á Frakka og Hollendinga sem höfnuðu honum í þjóðaratkvæði en fengu svo ekki að kjósa um hann nafnbreyttan.

Það er vísast að Leoníd Brjesnev heitinn og Aldinborgararnir dönsku liggi allir með tölu öfundsjúkir í gröfum sínum yfir ráðkænskunni í Brussel.


Að rembast við níð

Það gladdi mig að sjá Morgunblaðinu núna í vikunni pistil eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann. Ekki vegna þess að ég hafi verið ánægður með skoðanir Kolbrúnar heldur af því að ég unni því að Mogginn hafi margar vistarverur og vonandi nær hann að halda þeirri stöðu.crop_500x_916713.jpg

En þessi tiltekni pistill sem ég las heitir Hin vonda þjóðremba og mig minnir til að hafa lesið sömu skoðun áður í pistli hjá Kolbrúnu. Ef það er hægt að kalla það skoðun að afgreiða andstæðinga sína í pólitík sem þjóðrembur og telja málið þar með útrætt. 

Það er alveg rétt hjá Kolbrúnu að hverskyns þjóðrembubelgingur er ógeðfelldur og ég vil bæta því við að hann er líka miður gáfulegur og vitnar um einhverskonar harðlífi andans. En hitt skil ég ekki hvernig blaðamaðurinn fær það út að eigna svo lágkúrulegum hvötum að andstaða við ESB-aðild hefur aukist eða að við andstæðingar ESB-aðildar séum útsettari fyrir þjóðrembu en hinir sem aðhyllast ESB. Ég mótmæli þessu enda tel ég sjálfan mig svo langt frá því að aðhyllast þjóðrembu sem vera má. Raunar er þessi rökræðuaðferð um ESB álíka gáfuleg eins og að útmála alla ESB-sinna sem þjóðníðinga og alla VG menn sem kommúnista. Getur í hæsta lagi hentað sem gamanmál á þorrablótum en slík sleggjudómaumræða hæfir ekki upplýstu og vel skrifandi fólki eins og Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

Sjálfur er ég ESB-andstæðingur og alþjóðasinni, meiri alþjóðasinni en sumir þeir sem telja einfaldlega að heimatúnið hafi nú færst ofan úr Sumarhúsum, niður á Austurvöll og þaðan alla leið suður til Evrópu. Heimavöllur frjálsborinna manna á 21. öldinni er stærri en Evrópa og fram til þessa hefur samstarf okkar við hina heimóttalegu skrifræðisstofnun í Brussel aðallega orðið til að loka landi voru fyrir jafnt Afríku- og Asíumönnum sem er afar háskalegt og heimskulegt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband