Vil ég aftur í Framsóknarflokkinn!?

Ég ætlaði að stilla mig um að blogga mikið meira um Framsóknarflokkinn að sinni. Vil helst gefa mönnum á því heimili vinnufrið og mun víst ekki af veita. Þráfaldlegar óskir manna að ég gangi aftur í flokkinn og taki undir með hinum nýja og glæsta formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, kalla samt á að ég svari þeirri ósk á opinberum vettvangi. Get þá að einhverju leyti losnað við að útskýra þetta í löngu máli í samtölum með því að vísa í þessa færslu.

Því er þá fljótsvarað. Ég er ekki á leiðinni inn í minn gamla flokk og ástæðurnar eru:

Í fyrsta lagi þá hefur Framsóknarflokkurinn stigið mjög örlagaríkt og alvarlegt skref á móti sjálfstæði landsins með því að álykta sl. föstudagskvöld að hann vilji í aðildarviðræður við ESB. Það þó að þar við séu sett ýmis skilyrði, meira og minna óraunhæf skiptir í raun engu máli. Ingibjörg Sólrún hefur haft á orði að hún setji yfirráð okkar yfir fiskimiðunum sem skilyrði fyrir aðild. Allir vita þó að henni er engin alvara með því enda óraunhæft og sama á í raun og veru við um skilyrði Framsóknarflokksins. Þau eru meira að segja þannig að það er ekki hægt að taka sum þeirra alvarlega - sum ganga til dæmis lengra en náðist í EES. Þar af leiðandi falla þau öll um sjálft sig og við vitum fullvel að þeir sem fengu þessari ályktun framgengt í flokknum eru fæstir mjög þjóðhollir og hafa engan áhuga á að halda skilyrðum þessum til streitu.

Í öðru lagi þá hefi ég ekki sannfæringu fyrir því að mjög margt muni breytast til hins betra í flokknum. Meðan ég starfaði á Alþingi fyrir flokkinn var mjög mætur maður formaður og skoðanir okkar fóru um margt saman. Mér sýnist að núverandi formaður sé einnig mjög mætur maður skoðanir hans einnig fari mjög saman við mínar. Ég hefi aftur á móti efasemdir um að hann nái nokkuð betri tökum á flokki þessum. Vonandi hefi ég rangt fyrir mér þar því eins og staðan er nú þarf Ísland á öllum þjóðhollum mönnum að halda. Ég hefi þegar sent Sigmundi Davíð heillaóskir en geri það hér með opinberlega og mér er full alvara þegar ég óska honum þess að honum takist það sem Guðna mistókst!

Í þriðja lagi þá er það misskilningur að nýtt Ísland verði til með því að setja nýtt fólk í forystu allra gömlu stjórnmálaflokkanna. Í því er fólginn sá misskilningur að kerfið hafi í raun og veru verið í lagi, aðeins að það hafi of gamalt fólk setið í stólum þessa kerfis of lengi. Ég held þvert á móti að það kerfi flokksræðis sem við höfum  byggt upp í landinu sé vandamálið og að nokkru orsök ófara okkar. Ekki hvaða fólk valdist til starfa þó víst hafi margir setið of lengi. Þessi gagnrýni mín beinist ekki sérstaklega að Framsóknarflokki en um þetta hefi ég skrifað, t.d. hér og mun skrifa meira á næstunni.

Ég er semsagt genginn úr Framsóknarflokki og eins og fulltrúar á flokksþingi hafa væntanlega heyrt í kveðju minni sem ég fól framkvæmdastjóra flokksins að flytja þá kveð ég þann flokk í friði, þakka samvistina og óska vinum mínum sem þar vilja starfa velfarnaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það verð ég að segja Bjarni, að af þeim pólitíkusum sem hafa eitthvað tjáð sig um pólitík hér á blogginu ert þú sá eini sem meikar eitthvað sens og ert um leið sjálfum þér samkvæmur.

Niðurlag pistilsins er mergur málsins sem margir vilja gleyma.  Gamla kerfið, nýir kallar...segja flestir og halda að það sé lýðræði. Þeir sjá enga leið framhjá gamla flokkakerfinu, þekkja ekki annað og geta því ekki viðurkennt að flokkakerfið íslenska er ekki lýðræðislegt heldur geræðislegt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.1.2009 kl. 21:55

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Viljum við Framsóknarmenn Það ? Nei

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 20.1.2009 kl. 22:04

3 identicon

Ég vona að þú sért bærilegur bóksali og þú getir haft framfærslu af því starfi.

Frambærilegur pólitíkus ert þú hins vegar ekki, hvað sem flokkurinn heitir, sem þú býður fram fyrir.  Þú ert froðusnakkur, sem ég mun ekki greiða atkvæði mitt, jafnvel þótt þú værir einn í framboði.

Farðu af vettvangi !

Stefán (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 22:08

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gott hjá þér, ég er ánægð og sátt með þessa skýringu þína.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.1.2009 kl. 22:20

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Get tekið undir hvert orð hjá þér Bjarni.  Eins og Svanur tek ég þó sérstaklega undir  "í þriðja lagi" hluta pistilsins.

Sigrún Jónsdóttir, 20.1.2009 kl. 22:22

6 identicon

Bjarni, sumum hentar betur að vinna á bak við tjöldin, en hvernig veist þú hvernig ný forusta Framsóknarflokksins ætlar að breyta kerfi því sem nú er fallið á vettvangi stjórnmálanna ? Þú mátt ekki vera svona fljótfær að álykta. Þú átt að koma með okkur og hætta þessari fýlu. Það þarf að sjálfsögðu nýtt kerfi. Allt þarf að breytast en það gerist ekki að sálfu sér og án forustu og leiðtoga. Auðvitað breytir Framsóknarflokkurinn í takt við kröfurnar í samfélaginu. Til þess var sáð og þannið verður uppskorið með þinni hálp auðvitað.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 22:26

7 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Bjarni, þú ættir að skoða þær hugmyndir sem settar voru fram á þinginu um helgina og sjá það sem þar var samþykkt, margt af því rótækar og góðar hugmyndir um breytingar á íslenskri stjórnsýslu.

Reyndar hefa svipaðar hugmyndir komið fram áður, en forustan ekki fylgt því eftir, en nú verður ekki gefin afsláttur af því, ný forusta var kjörin til að fylgja hugmyndafræði grasrótarinnar eftir og koma henni í verk.

Ég vil meina að margar af samþykktum þingsins séu tímamóta samþykktir og þeim beri að fylgja og hvet sem flesta til að skoða þær um leið og búið er að koma þeim á prent í endanlegri útgáfu.

KvER

Eiður Ragnarsson, 20.1.2009 kl. 22:54

8 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Bjarni og gleðilegt ár.

Ég hef gagnrýnt þig fyrir eitt og annað - og fengið bágt fyrir hjá þér- m.a. það hversu sannfærður þú ert um að þú sért þess umkominn að ákveða hverjir eru þetta eða hitt. T.d. hverjir eru þjóðhollir og hverjir eru alvöru framsóknarmenn.

Þegar ég les þennan bitra pistil þinn sé ég þó að líklega ertu eftir allt algerlega ekta framsóknarmaður, rétt eins og þú hefur sjálfur haldið fram.

Ég merki það á því að það sem þú kýst að kalla sáttavilja framsóknarmanna, og telur flokknum til tekna, hafa menn í gegnum tíðina séð að hefur oftar en ekki verið hrein og klár hentistefna, eða tækifærismennska. Það er líklega það sem framsóknarmenn hafa verið frægastir fyrir, þ.e. að hafa einfaldlega uppi þá stefnu sem best hefur hentað hverju sinni.

Þetta kristallast í þínum málflutningi þessa dagana: Þegar þú ert búinn að mála þig gjörsamlega út í horn í eigin flokki, þá er ekki lengur töff að tilheyra gamla flokkakerfinu .

Það sorglega er að ég gæti ekki verið meira sammála þér með flokkakerfið. En að þú skulir allt í einu núna halda þessum skoðunum á lofti, einmitt þegar þú ert gjörsamlega búinn að klúðra gengi þínu í flokknum - sem var svo frábær fyrir nokkrum mánuðum síðan - er því miður svo greinileg hentistefna að það er í besta falli hlægilegt.

Með bestu kveðju,

Heimir Eyvindarson 

Heimir Eyvindarson, 20.1.2009 kl. 23:13

9 Smámynd: Arnbjörn Eiríksson

Sæll Bjarni það er allveg rétt hjá þér að flokkakerfið er rotið  eins og því hefur verið beytt allavega á síðustu áratugum og hef ég oft sagt að þar að leiðandi er ekkert lýðræði á Íslandi. Allt flokka og stjórnkerfið hér hjá okkur er gjörspillt og rotið. og allveg með ólýkindum að þingmenn skuli ekki sjá sóma sinn í að ganga út úr þinghúsinu.  Baráttu kveðja.

Arnbjörn Eiríksson, 20.1.2009 kl. 23:19

10 identicon

Sæll Bjarni.

Ég þekki þig ekkert og ætti ekki að dæma þig.

En að verkum þínum verður þú dæmdur.

Sá sem ekki getur sagt skoðanir sínar hreint og beint við anstæðinga sína öðrvísin en að senda nafn lausbréf á ekkert erindi á Þing.

ps. Framsóknarmaður.

Gunnar B Sigfússon.

Gunnar B Sigfússon (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 23:24

11 identicon

Leist svona þolanlega á nýja formanninn í fyrstu þegar hann sagðist ætla að setja umhverfismál framarlega. Þarna hélt ég meira að segja að Framliðnir ættu von. Svo kemur hann í Kastljós og hótar að ÁLA yfir Ísland. En snjöll framtíðarsýn til atvinnusköpunar fyrir þjóðina. Sýnir líka berlega hvað hann á eftir að verða samkvæmur sjálfum sér þessi!

En ég er hræddur um að Framliðnir tapi nú einhverjum atkvæðum á því að hafa valið "sléttfeita drenginn með pönnukökukinnarnar" (al la Bragi bóksali) í varaformannssætið!

Helgi (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 23:25

12 identicon

Takk sömuleiðis Bjarni minn!

Gangi þér vel. Lít í kaffi til þín næst þegar ég er á Selfossi.

Kveðja

Hallur

Hallur Magnússon (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 23:26

13 identicon

Komdu aftur.  Það vantar heiðarlega stjórnmálamenn eins og þig.

Guðmundur (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 23:42

14 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessu Bjarni/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.1.2009 kl. 00:04

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er ekki alveg með á svörtu nótunum eins og stundum áður.

Hafi ég skilið ályktanir flokksþingsins rétt þá var samþykkt tillaga um stjórnlagaþing með það að markmiði að segja gamla flokkakerfinu stríð á hendur. Og samkoman var svo vel stödd með markvissan undirbúning fyrir þessa umræðu að þarna var í hópi þingfulltrúa formaður stjórnarskrárnefndarinnar sem eftir öll þessi ár hefur ekki náð samstöðu um sameiginlegar breytingartillögur. Ég hef litið svo á að þessi samþykkt hafi verið tímamót í því að íslenskur stjórnmálaflokkur játar að núverandi kosningakerfi er hættulegt lýðræðinu og krefst breytinga í flestum efnum!

Álverastefnan þó hógvær megi kallast er mér ekki að skapi. Ekki verður á allt kosið og allra síst get ég sett fram kröfur því ég gekk úr flokknum um svipað leyti og þú gekkst í hann Bjarni.

Árni Gunnarsson, 21.1.2009 kl. 00:42

16 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Jaja já Bjarni. Ef Framsóknarflokkurinn væri eins og þú og margir aðrir mætir, þá hugsa ég að ég væri í flokknum.

Þess vegna er ég sammála þér með að þú egir ekki að ganga aftur í flokkinn að svo stöddu.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 21.1.2009 kl. 00:43

17 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

"Ef Framsóknarflokkurinn væri eins og þú og margir aðrir mætir vilja"

Átti þetta að vera (svona er að gleyma yfirlestrinum áður en vistað er)

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 21.1.2009 kl. 00:45

18 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mig skal ekki undra þótt þú viljir halda þig frá Framsókn um sinn. Hinn nýi ræðustíll er ekki til að trekkja íslenskumenn, eins og þig, að hópnum. Sigmundur Davíð á mikið starf fyrir höndum við að siðmennta arftaka Guðna. 

Ragnhildur Kolka, 21.1.2009 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband