Dómsmálaráðherra skrifar um ESB mál

Björn Bjarnason er tvímælalaust einn afkastamesti penni þjóðarinnar um þjóðfélagsmál. Bæði í bloggi og blaðagreinum. Nú hefur Bókafélagið Ugla - sem ekki er nú nein vinstri sjoppa - gefið út úrval af greinum hans um ESB mál frá allra síðustu árum, tengsl Íslands við hnattvæðinguna og skyld efni. Bókinni sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu fylgir góður inngangur ritaður laust fyrir jól. Þar leggur bókarhöfundur mat á stöðuna í samtímanum og dregur ekkert af sér í þeirri afstöðu að Íslandi beri að vera utan ESB. Hún sé óþörf þar sem hagsmunum Íslands sé borgið með Shengen samstarfi og EES.

Fyrir okkur sem erum skoðanabræður Björns í þessu tiltekna máli er bókin kærkomin, ekki hvað síst nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er mjög með mál þetta í deiglunni. Greinar Björns eru skrifaðar af mikilli þekkingu og rökfestu. Vitaskuld er hægt að deila við Björn um ýmis smáatriði þessa máls, eins og Shengen samstarfið og þá ekki síður hugmynd hans um að þjóðin eigi að kjósa um það hvort farið verði í aðildarviðræður. Slíkar kosningar gætu verið slæmt veganesti íslenskri samninganefnd sem væri þá enn frekar skyldug til að koma með aðildarsamning til þjóðarinnar eftir aðildarviðræður, jafnvel þó að skilyrði ESB væru - sem þau verða - algerlega óásættanleg.

Hugmyndinni um að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu fylgir líka sú míta að með því að fara í gegnum ferlið megi koma málinu út af borðinu en það er ekki reynsla nágranna okkar á Norðurlöndum sem þurfa þá bara að kjósa aftur og aftur, þar til innlimun er samþykkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

flott hjá þér Bjarni

gisli hjalmarsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 10:16

2 Smámynd: Baldur Hermannsson

Alltaf ertu nú frekar skynsamur Bjarni, ertu ekki til með að ganga til liðs við Íhaldið og fara á þing í næstu kosningum fyrir okkur? Mér líst ekki alveg á að þú farir að stofna nýjan flokk fyrst Framsókn valdi Sigmund.  Sjálfstæðisflokkinn vantar menn eins og þig sem eru ritfærir, málsnjallir og skemmtilegir. Við kennum þér á lyklaborðið og svo bara tekurðu eitthvert þægilegt ráðuneyti, því okkur vantar líka almennilega ráðherra!

Baldur Hermannsson, 21.1.2009 kl. 11:14

3 identicon

Sæll Bjarni

 Ég spyr þig, telur þú að ESB umræðan fari burt?
Ég tel að við þurfum að klára þessa umræðu.

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að fólk sem er á móti ESB vilji ekki losna við umræðuna.
Ég held að það sé tímabært, fyrir menn eins og þig Bjarni, að finna ykkur annað baráttumál því að aðildarviðræður eru nauðsyn til þess að unnt sé að ljúka þessu.

 Kv. úr Mýrdalnum

Einar Freyr Elínarson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 14:36

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Einar, þú losnar aldrei við umræðuna, hvort sem þú ert með eða móti, innan eða utan.

Baldur Hermannsson, 21.1.2009 kl. 14:43

5 identicon

Mér sýnist að áður en lengra er haldið í þessari umræðu um aðildarviðræður þurfi þjóðin að koma sér saman um samningsmarkmið. Væri ekki þjóðráð að kanna hvort þjóðin vilji frekar ódýrar kjúklingabringur eða yfirráð yfir auðlindum sínum?

Ragnhildur (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 15:22

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

þetta er góð umræða. baldur er ómetanlegur húmoristi og þó ég geti vel þegið leiðsögn í fingrasetningu þá eru engar líkur á að ég þiggi félagskort í sjálfstæðisflokknum sem er reyndar ekki stjórnmálafélag heldur varðsveit valdsins á hverjum tíma. varðandi esb umræðuna, einar, þá er það rétt sem baldur segir, þú losnar aldrei við hana. það er eins og að ætla að losna við baráttuna fyrir frelsi og mannréttindum. fullveldisbarátta smáþjóðar er ævarandi og ekki eru norðmenn lausir úr neinu enn og hafa þó kosið tvisvar og nú er talað um hvernig þriðju kosningarnar eigi að vera...

Bjarni Harðarson, 21.1.2009 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband