Nýtt lýðveldi - burt með flokksveldið!

Heimasíðan Nýtt lýðveldi, http://nyttlydveldi.is/ opnaði í dag og safnar nú undirskriftum þeirra sem vilja tafarlaust senda þingið heim og koma á embættismannastjórn í nokkur misseri sem bæði tekur til og breytir landinu úr flokksveldi í lýðveldi. Sem yrði þá annað Íslenska lýðveldið, kannski þriðja því þjóðveldið var í raun og veru einhverskonar lýðveldi en hvað um það...

Hugmyndasmiðurinn hér bakvið er Njörður P. Njarðvík og ég hef áður lýst yfir hrifningu minni yfir hans hugmyndum. Verð þó að taka fram að ég hefi ekki skrifað undir. Ég set einfaldlega fyrirvara við það að koma hér á bráðabirgðastjórn sem ekki er skipuð mönnum sem bera ábyrgð gagnvart kjósendum. Ekki að þetta sé neitt útilokuð hugmynd en ég held að þetta sé ekki sú besta.

Við sjáum nú gríðarlega marga sem eru með svipaðar hugmyndir. Þar má nefna mjög merkilega hreyfingu undir forystu Egils í Brimborg sem hefur með fleirum stofnað heimasíðuna um lýðveldisbyltingu, http://lydveldisbyltingin.is, sjálfur hefi ég talað fyrir tillögum í sömu veru, m.a. hér á blogginu, það hefur Skúli Helgason hjá Samfylkingunni gert líka, VG menn og mín orðhvata vinkona og arftaki Helga Sigrún Harðardóttir er einnig í þessum sömu pælingum ásamt fjölda samflokksmanna. Þessar tillögur ganga ekki endilega í takt en heldur ekki hver gegn annarri og með smá málamiðlunum er hægt að samhæfa þær.

Allir þessir og held eiginlega allir í landinu nema þá Sjálfstæðismenn sjá nú hið augljósa að Alþingi hefur verið máttlaus stofnun vegna þess að flokkarnir og framkvæmdavaldið hafa ráðskast með þá stofnun. Það er ekki bara að ógöngur okkar inn í bankahrunið sé að nokkru leyti hægt að skrifa á máttleysi Alþingis. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í dag er líka afleiðing af flokksræðinu.

Hvar sem einhverjir þrír Íslendingar eiga hagsmuna að gæta nýtur að minnsta kosti einhver einn þeirra verndar annaðhvort Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar. Ráðherrarnir og þingmenn þessara flokka eru ekki í vinnu hjá kjósendum sínum, þeir eru í vinnu hjá flokkunum sem er alls ekki það sama. Það fær enginn að vera þingmaður ef hann lendir í ónáð hjá sínum flokki. Flokkarnir hafa svo það hlutverk að halda utan um hagsmuni sinna manna, síns fólks eins og ættbálkur í Afríku eða Sturlungu.

Þessvegna þarf að brjóta niður ægivald flokkanna yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum, fyrr nær Alþingi ekki vopnum sínum gagnvart framkvæmdavaldinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirgefðu Bjarni, varst þú ekki um hríð hluti af Alþingi.

Kv. úr Húnaþingi, Valdemar Ásgeirsson, Auðkúlu. LÍF OG LAND......

Valdemar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 21:26

2 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég held Bjarni, að flokkshollusta sé nauðsynleg upp að því marki að flokkar geti framfylgt þeirri stefnu sinni sem þeir eru kosnir útá.

Flokkshollusta á hinsvegar ekki að ná utfyrir almenna skynsemi og þar þarf hver og einn alþingismaður að eiga við samvisku sína.

Við núverandi aðstæður er til dæmis dapurlegt að sjá fólk sem allajafna virðist vera heiðvirt og vel gert reyna að verja gerðir sem það greinilega er ekki sátt við sbr. sjónvarpsfréttir í kvöld

Hjalti Tómasson, 22.1.2009 kl. 22:06

3 identicon

Fyrirmyndar hreyfingar sem þú vekur hér athygli á , þó deila megi um smáatriði. Njörður er á réttri braut og Neyðarstjórn nú er eina lausnin en hún á Ekki að einskorðast við "embættismenn " heldur sérvalda innlenda sem erlenda aðila sem best eru til fallnir að leysa úr þessum dæmalausu hörmungum sem að Samfylkingin með aðstoð ESB arms Sjálfstæðisflokksins er búin að koma okkur í

Jón Ingi Gíslason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 22:12

4 Smámynd: Adolf Dreitill Dropason

Þetta er allveg rétt hjá þér Bjarni.

Þessvegna er ekki rétt að kjósa strax því það er ekkert í boði fyrir okkur núna nema sama gamla flokks froðan.  það væri bara eins og að hræra í drullunni.  við þurfum nýtt krydd í pottinn, nýja áhöfn á skútuna við förum ekki kosningar meðan eldar brenna á austurvelli, fólk er ringlað.  það ætti að ákveða með afgerandi hætti kosningar næsta haust og gera stjórnar sáttmála þangað til. þá fær lýðræðið tíma til að átta sig og byggja upp nýtt blóð!  fólk vill breytingar

Adolf Dreitill Dropason, 22.1.2009 kl. 23:05

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góður pistill hjá þér félagi Bjarni! Básaskipting flokkana hindrar lýðræði. Held að það sé mjög mikilvægt að hluti af endurskoðun á lýðræðinu sé að hreinsa út ýmsa smákónga kerfisins, sem plantað hefur verið af Sjálfstæðisflokki sérstaklega, en einnig Framsóknarflokki. Veit ekki hvort að flokksskírteini í Samfylkingu hjálpar í atvinnuleit eða reddingum um bitlinga.

Mér finnst hugmyndin að embættismannastjórn skynsamleg á meðan að leikreglur lýðræðis eru endurskoðaðar og kosningar væru e.t.v. næsta haust. Það gefur svigrúm á að leyfa grugginu að setjast og fólk búið að fá ráðrúm til að meta stöðuna. Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 23.1.2009 kl. 00:08

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvernig væri að þetta fólk leiddi saman hesta sína. Mér sýnsat markmiðin vera ansi skyld og aðeins ólíkir byrjunarleikir að þeim. Þarna er greinilega kröftugt og fókuserað hugsjónafólk á ferð. Það gæti orðið efni í öfluga hreyfingu. Auðvitað er málið breyting á stjórnarfyrirkomulaginu. Þetta er ekki lýðræði, þar sem alþingi lýtur duttlungum fárra ráðherra með vildarvinahagsmuni að leiðarljósi.

Það er svo vert að benda á að í öllu tali um lýðveldi, er evrópubandalagsumræðan út í hött, því aðild að því þýddi erlent embættismannaveldi með leppum þess á þingi. Mig hryllir við slíkri framtíðarsýn.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2009 kl. 00:21

7 Smámynd: Jónas Egilsson

Sæll Bjarni.

Það kemur mér svolítið á óvart að jafn fróður maður um sögu og stjórnmál skuli halda að það þurfi ekki meira en 1 stk. breytingu á umbúðunum til að innihaldið breytist, þ.e. einföld kerfisbreyting lagi málin. Stöðugar mannabreytingar í ítölsku stjórnmálum hafa engu breytt. Vandamálið er að þau öfl sem þú ert að tala um laga sig að breytingunum, berjst á móti þeim í fyrstu, en síðar koma upp á yfirborðið aftur í einhverri breyttri mynd. Kötturinn kemur alltaf standandi niður - eins og sagt er. Þessar aðferðir eru álíka árangursríkar eins og að lemja hafið til að hefna fyrir brimið! Ágæt líkamleg útrás eins og nýleg Austurvallaævintýrin bera vott um, eða allt bloggið okkar.

Hér þarf hugafarsbreytingu, að mínu mati. Ekki eins og Pol Pot framkvæmdi í Kambódíu á 8. áratug síðustu aldar eða þeir andlegu fóstbræur Lenin og Stalin.

Það þar ákveðna vitundarvakning og hugafarsbreytingu. Ekkert auðvelt, en ástandið núna skapar ákveðinn grunn til breytinga, í stjórnkerfinu, stjórnmálum, viðskiptalífinu og ekki síst hjá okkur sjálfum. Nokkrar góðar hugmyndir hafa komið frá Obama t.d. um það stjórnmála- og embættismenn þurfa að hafa það í huga fyrir hverja þeir eru að vinna - almenning og þjóðfélagið í heild. Þeir eru of fastir í regluverkinu að mínu mati.

Innleiða þarf nýtt siðgæði í umhverfi viðskipta. Gróðinn eða stórgræðgin má ekki vera endanlegt markmið, heldur áhald og sem hluti af aðferðafræði. Þá þarf að taka upp e.k. "stjórnsýslulög" í viðskiptum, aukið gegnsæi, skýrari reglur um eignahald o.fl. í þeim dúr - t.d. í þá átt sem fjölmiðlalögin sálugu voru hugsuð.

Almenningur verður eitthvað vakandi næstu misserin, en hvað það endist er óvíst. Áhuginn endurspeglast mikið eftir því hvernig ástandið er. Helst vilja menn láta stjórnmálin eiga sig.

Jónas Egilsson, 23.1.2009 kl. 09:17

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 23.1.2009 kl. 13:12

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

ég er búin að skrá mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2009 kl. 14:07

10 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það er alltaf gaman þegar ég get verið sammála þér Bjarni. Hugmyndin er frábær en bráðabrigðastjórn velkist fyrir mér.

Ævar Rafn Kjartansson, 23.1.2009 kl. 16:42

11 identicon

Það var nú ekki mikið að þessu þegar þú varst með í þessu. Síðan málar þú þig út í horn og þá er þetta allt ómögulegt því enginn vill hafa þig í sínum þingflokk.

Einar Freyr Elínarson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 17:05

12 identicon

Ég hef reynt að tala fyrir slíku í mörg ár! En bara fengið skammir fyrir. Njörður má vel sitja á mínum pilsfaldi; það er alveg sama hvaðan gott kemur...

Skorrdal (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 19:24

13 identicon

Það er svo sem hægt að láta sig dreyma um samfélag þar sem hagsmunapot hefur ekki áhrif á pólitíkina og það er hægt að búa til nýjan heim á teikniborðinu – eða bara í huga sér:

 

Hugsað get ég himin og jörð en hvorugt smíðað

af því mig vantar efnið í það

 

sagði einhver sem taldi sig vita formúluna fyrir betri heimi. Það hefur víst aldrei verið neinn skortur á svoleiðis fólki.

 

Stjórnskipan okkar er í megindráttum lík þeirri dönsku og norsku. Lönd sem bú við þessa stjórnskipan hafa sloppið skár við spillingu og pólitískt rugl en flest önnur.

 

Það er vinsælt að skammast út í stjórnmálaflokka og býsnast yfir máttleysi Alþingis. Sannleikurinn er samt sá að flokkarnir eru leið til þess að virkja mikinn fjölda fólks til þátttöku í stjórnmálum og flokkshollusta þingmanna er ekki meiri en svo að á lýðveldistímanum hafa flestir þingflokkar klofnað og stundum hafa þingmenn tekið sig til að myndað nýjan stjórnarmeirihluta á miðju kjörtímabili og sparkað forsætisráðherra og öllu hans liði.

 

Nú þarf sjálfsagt að breyta ýmsum lögum, t.d. um banka og eftirlit með þeim. Kannski þarf líka að rétta yfir einhverjum sem höfðu rangt við í viðskiptum. Það er víða þörf á tiltekt. En nýja stjórnarskrá þurfum við ekki og síst af öllu stjórnarskrá sem er samin í bráðræði af fólki með litla reynslu af stjórnmálum.

Atli (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 20:50

14 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Tek undir með þér Bjarni. Ég er sammála greininguog stöðumati Njarðar á nyttlydveldi.is en ekki endilega sammála ályktunum hans út frá henni og þeim leiðum sem hann vill fara til leiðréttingar á ástandinu, ég sé ekki fyrir mér að neyðarstjórn eða utanþingsstjórn muni njóta trausts nógu lengi til að gefa stjórnlagaþingi nægilegt tóm til að fara vel yfirmálin. Stjórnlagabreytingar eru eflaust nauðsynlegar en þær munu þurfa langan tíma og á meðan sá tími líður þarf trúlega að notast við núverandi flokkakerfi þó gallar þess séu mörgum augljósir. En til bráðabirgða eru ýmsar leiðir færar, t.d. handahófsval þingmanna í réttu hlutfalli við hlutfall auðra atkvæðaseðla. Sjá t.d. pistilinn Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber.

B.kv.

Ragnar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 24.1.2009 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband