Um gylliboð Íslandsbanka

Forsíðufrétt birtist í Morgunblaðinu í vikunni sem ótrúlega litla umræðu hefur hlotið og ekki málefnalega. Íslandsbanki sem einu sinni hét Glitnir býður skuldurum erlendra lána að taka fjórðung þeirra á sig gegn því að skuldrarar breyti þeim í innlend óverðtryggð lán.

Tónn fréttarinnar í Morgunblaðinu var að loksins væri nú eitthvað gert fyrir skuldara þessa lands. En er það svo? Á sínum tíma plötuðu bankarnir stóran hluta landsmanna til að taka erlend lán á tímum hágengis. Þegar að er gáð er það afar óskynsamlegt að skuldsetja sig í erlendri mynt þegar gengi krónunnar er mjög hátt og skuldabyrði þessa fólks er mikil í dag. Sjálfur er ég í þessum hópi þó í litlu sé því ég skulda um 8,5 milljónir í erlendu myntkörfuláni og gerði það í miklu grandaleysi að samþykkja uppástungu bankans um að lánið væri með þeim hætti.

En þó að slæmt hafi verið að taka erlent lán á hágengistíma er ennþá verra að vera svo vitlaus að skipta því láni yfir í innlent lán á lággengistíma. Með því að bjóða 25% afslátt af láninu er Íslandsbanki í raun og veru bara að veðja á að íslenska krónan muni hækka um 20-30%. Birna Einarsdóttir bankastjóri sagði í samtali við Morgunblaðið: "Við værum ekki að bjóða upp á þessi lán ef við teldum ekki að þetta hjálpaði okkar viðskiptavinum." Afhverju segir bankastjórinn ekkert um það hvernig þetta kemur við hagsmuni bankans, hvar bankinn ætlar að hafa fyrir þessum 25% en kemur fram eins og sá jólasveinn sem gefur fólki eftir 25% skulda.

Staðreyndin er að bankinn er ekki að gefa þessum skuldurum neitt, hann er að reyna að hafa enn meira af þeim. Ef og þegar krónan hefur styrkst um 40% þá hefur bankinn grætt umtalsvert á þessum lánabreytingum og lánþeginn sem áður var plataður til að taka erlent lán á hágengistíma situr aftur uppi með að hafa verið plataður. Það er vissulega mikil óvissa um gengisþróun næstu missera en miðað við að hér sé um að ræða lán til nokkurra ára er enginn vafi á að áhætta við að taka hinu frábæra tilboði er algerlega óásættanleg. Þannig sagði Baldur Pétursson hjá Endurreisnarbanka Evrópu í samtali Morgunblaðið í síðustu viku að gengi krónunnar væri í reynd 30% of lágt skráð og fullvíst má telja að innan fárra ára mun krónan hækka um að minnsta kosti þau 30%.

Þar fyrir utan er mér mjög til efs að hægt sé að lækka greiðslubyrði af láni með þessum hætti. Sjálfur prófaði ég að setja mitt 8,5 milljón króna lán í þennan reiknifarveg en mánaðarleg greiðslubyrði af því í dag eru 71 þúsund krónur og fer lækkandi. Lánið er til ársins 2022. Ef ég nú færi þessar 8,5 milljónir niður um 25% í 6,4 milljónir í íslensku óverðtryggðu láni með 12% vöxtum þá verður mánaðarleg afborgun 106 þúsund sem er síðast þegar ég vissi hærri tala en 71 þúsund. Ef ég stilli íslenska lánið af í jafngreiðslum verður afborgunin samt hærri en af því erlenda eða 82 þúsund. (Í fljótu yfirliti get ég ekki séð á heimasíðu Íslandsbanka hvaða vexti bankinn miðar við í þessu sambandi en jafnvel þó miðað sé við umtalsvert lægri vexti t.d. 7% þá verður afborgunarbyrði engu að síður liðlega 80 þúsund).

Ef krónan styrkist þó ekki sé nema um 25% þá lækkar afborgunarbyrðin hjá mér á erlenda láninu niður í um 53 þúsund meðan sá sem skiptir samskonar láni í krónulán hjá Birnu borgar áfram 80-105 þúsund og er því með allt að tvöfalda greiðslubyrði við það sem vera þyrfti.

Í einkavæddu bönkunum sem nú hafa sungið sinn söng ríkti einhver undarleg bábylja um að allir gætu alltaf grætt, skuldarar og fjármagnseigendur, bankar og viðskiptavinir. Greiningadeildir þessara banka stóðu í að halda að okkur glansmyndum skuldasöfnunar sem stóðust enga skoðun. Það er mín tilfinning að sami andi svífi enn yfir vötnum í Íslandsbanka og 25% niðurfellingin hafi verið sett fram með þeim öfugsnúna hugsunarhætti að báðir gætu grætt. Staðreyndin er að bankinn hefur samt reiknað sinn gróða út með meira öryggi og líklegast að þeir sem hlýða fagurgala Íslandsbanka nú sitji innan skamms uppi með enn verri stöðu. Samt er þetta einmitt sá hópur sem mál er að bankarnir hætti að hafa að féþúfu. Það er aldrei gott að höggva tvisvar í sama knérunn.

(Birt í Mbl. um liðna helgi)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er hárrétt Bjarni. Það eina sem lántakendur gengistryggðra lána geta sætt sig við er að höfuðstóllinn verði skrúfaður að fullu aftur að lántökutíma. Þá má breyta í óverðtryggð eða verðtryggð lán allt eftir aðstæðum. Lántakendur gengistryggðra lána hafa greitt margfalda upphæð miðað við alla aðra undanfarið ár eða tvö. Upphæðin er jafngildi þess sem lántakendur verðtryggðra lána af sömu stærðargráðu borga á 4-5 árum. Bankinn héldi þessari upphæð sem sárabót upp í leiðréttingu höfuðstólsins. Það er engin önnur lausn til á þessu dæmi. Ef bankarnir ganga ekki strax í að bjóða fulla leiðréttingu mega þeir búast við holskeflu málshöfðana til riftunar á ólöglegum lánum. Ég skuldaði upphaflega ekki mikið gengistryggt en er samt farinn að undirbúa slíka málshöfðun. Hvet alla sem eru með  gengistryggð lán til að gera hið sama. Leiðin er samtakamáttur og best væri sennilegast að gera þetta í gegnum hagsmunasamtök heimilanna.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 13:32

2 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Bjarni, gaman að lesa þessa grein þína og hún sýnir okkur í hnotskurn við hvað er að eiga varðandi íslensku krónuna. Enginn getur sagt til um hvað muni um hana verða hvorki í náinni framtíð, né til lengri tíma litið. Því er það að við verðum að komast út úr þessu íslenska hagkerfissvartholi sem við höfum búið við og er til þess eins ætlað að þeir sem betur mega sín geti hrifsað til sín auð þjóðarinnar. Þetta hefur ætíð verið tilgangur hrunflokkanna, hugsjónir hafa þeir engar átt og tilvera þeirra til þess eins ætluð að gæta hagsmuna sem birst hafa í hermangi, einkavinavæðingu og helmingaskiptum.

Ingimundur Bergmann, 5.10.2009 kl. 13:45

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Já og þar á ofan er fallinn úrskurður að ég held hjá Neytendaráði um að einhver hluti þeirra sé ólöglegur !  En bankarnir ná kannski að hreinsa út myntkörfulánin með tilboðum sínum um 25% niðurfellingu ,,gjaldeyrismunar" á láni sem nú þegar er búið að ,,afskrifa" í kerfinu til bankans.

Góður pistill

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 5.10.2009 kl. 14:22

4 identicon

Vel að orði komist.  Það var talið sleppa að höggva einu sinni í ættartréð, því slíkt var hægt að leysa með bótum.  Ef þú gerðir það tvisvar voru blóðhefndir óhjákvæmilegar.  Þess vegna má segja að samfélagssáttmálinn sé ónýtur.

Gunnar Kristinn Þórðarson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 15:11

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Bjarni

þetta útspil Íslandsbanka var eins og við var að búast óprúttin tilraun þeirra til að reyna að féfletta viðskiptavini sína.

Það er ótrúlegt að þessum banka skuli enn vera stjórnað af sama fólki og setti hann í þrot.

Það er ótrúlegt að þetta fólk skuli ekkert hafa lært og að allt starf þeirra gangi enn allt út á það að reyna að plata viðskiptavini sína inn í fjármálagjörninga sem viðskiptavinir bankans munu tapa stórlega á.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.10.2009 kl. 10:22

6 Smámynd: Ragnar L Benediktsson

En elsku drengirnir, við hverju er að búast frá sætunni sem veit ekki hvort hún á milljónir eða ekki. Krónan er jafn ónýt hvort heldur sem er. Laungu tími til að henda henni í hafið.

Ragnar L Benediktsson, 7.10.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband