Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Regnboginn einn talar skýrt í ESB málum - segir Hjörleifur!

"Fulltrúi VG minntist hér ekki orði á aðildarsamning en samt á að »leiða málið til lykta«.Umfram allt verði að koma málinu »í búning« og botna viðræðurnar. Í raun er hún að heimta að gerður verði aðildarsamningur, helst innan árs.

En það voru fleiri frá fjórflokkunum en Svandís á flótta í þessu máli. Fulltrúi Framsóknarflokksins átti í miklum erfiðleikum með að skýra afstöðu eigin flokks, sjálfur eindreginn ESB-andstæðingur. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar þrátt fyrir sinn landsfund í gátum um það, hvernig hann hyggst höndla framhaldið, m.a. hvað eigi að spyrja þjóðina um áður en lengra verði haldið.

Það var aðeins fulltrúi Regnbogans sem talaði skýrt í þessu örlagamáli. Þátturinn í heild sýndi að hvað sem skoðanakönnunum líður ríkir mikil óvissa um framvindu ESB-viðræðna að kosningum loknum og fólk sem vill standa vörð um sjálfstæði Íslands þarf að halda vöku sinni sem aldrei fyrr."

Svo skrifar Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra í miðopnu Morgunblaðsins í dag. Sjá nánar. 


Boðið til byltingar!

- Það ætla ég að vona að Framsókn fái meirihluta í þessum kosningum, sagði vinur minn sem oft lítur við í Bókakaffinu hér við Austurveginn. Kannski var ég eitthvað seinn til svars því einhvernveginn átti ég ekki von á að þessi maður af öllum kysi minn gamla ástkæra flokk. Það bærðust í mér blendnar tilfinningar undrunar, klökkva og kvíða fyrir því hvert þetta samtal ætlaði.

Þegar ég var búinn að færa tékknesku pari á næsta borði tvo moccabolla leit ég samt yfir og sagði svoldið hægt eins og ég væri að herma eftir gömlum Skeiðamanni:

- Meiri-hluta!

- Já, já, meirihluta og þá fyrst verður gaman að lifa. Hefurðu áttað þig á því hvað ástandið er alvarlegt og hvað gerist þegar þessir andskotar svíkja þetta allt saman...

- Neeeeeei, sagði ég og var nú alveg hættur að látast.

- Svíkja, það er hreinlega ekki hægt að efna neitt af þessu sem þeir eru að lofa og ef þeir reyna þá fer samfélagið algerlega á hvolf, það verður óðaverðbólga og við förum öll á hausinn. Og ef þeir reyna ekki þá verður allt vitlaust hérna og gott ef ekki blóðug bylting. Ætli það sé ekki bara það sem við þurfum hérna á skerinu. Þetta hættir ekki fyrr en einhver hefur verið drepinn!

Svo dró aðeins niður í þessum vaska spámanni. Hann setti í brýrnar og hvíslaði næstum því eins og tékkarnir væru að njósna um okkur.

- Þessar kosningar verða mjög merkilegar hvernig sem fer. Þegar veruleikatengslin í umræðunni eru næstum því engin og fólk fer á kjörstað í von um að fá pening þá hriktir í.

Ég ætlaði að segja eitthvað án þess að vita hvað það ætti að vera en í sama mund kom frelsandi amerísk fjölskylda inn í kaffihúsið, fimm saman á ferð um Ísland og ég losnaði úr þessari umræðu.

Ég var samt enn að hugsa um þetta meðan ég fræddi amerískan menntaskólakennara um Sturlungu þar sem sagt er frá því hvernig íslenskir oflátungar brutu fjöregg þjóðarinnar. 

(Birt í Mbl. 24. apríl 2013) 


Kjósendur fari gætilega með atkvæði sitt

Fullveldi Íslands er ekki í vari fyrr en áróðursöfl ESB hafa verið send heim og mútusjóðum þess hafnað. Meðan umsátursástand ESB varir verða kjósendur að fara gætilega með atkvæði sitt og vera þess fullvissir að þeir kjósi ekki aðra en fullveldissinna á þing.  

Sjá nánar í grein okkar Guðmundar í Sunnlenska fréttablaðinu í dag en hana má einnig lesa hér.  


Löglaus uppboðsgerð stöðvuð

Í morgun var stöðvuð löglaus uppboðsgerð hjá nágranna mínum eins og lesa má um hér og sjá hér á myndbandi:

 


Við Lára Hanna og Framsókn...

Lára Hanna Einarsdóttir mentioned you in a comment.
Lára Hanna ritaði "Ég held að hann Bjarni Harðarson hafi vitað - og viti enn - alveg nákvæmlega hvað hann var að segja þarna. Honum ofbauð og hann sagði sig úr flokknum. Við vitum öll, eða þeir sem hafa haft augu og eyru opin, að spillingaröflin í Framsóknarflokknum hafa verið gríðarlega sterk og valdamikil. Af hverju þessi afneitun? Til hvers er hún? Af hverju að kjósa yfir okkur tvo af gjörspilltustu auðmannadekurflokkum landsins fyrr og síðar?

Mér finnst þetta í alvöru talað hámark ábyrgðarleysis hjá kjósendum.

http://blog.pressan.is/larahanna/2013/03/01/hvad-sem-thad-kostar/"

Þjóðin á rétt á að kjósa

...

Þjóðaratkvæðagreiðslur um stór hagsmunamál eru vitaskuld lykill að farsælli nálgun mála. Við sem barist höfum gegn ESB aðild og hverskyns fullveldisskerðingu höfum margoft farið fram á þjóðaratkvæði um þau mál. Við vildum þjóðaratkvæði um EES, við vildum þjóðaratkvæði um það hvort hefja skyldi viðræður um ESB aðild og það hefur réttilega verið nefnt að Shengen samstarfið verðskuldar að vera sett í þjóðaratkvæði.

Þegar áróður ESB hér innanlands hefur verið stöðvaður með lokun Evrópustofu, slitum á viðræðum og stöðvun siðlausra aðlögunarstyrkja þá er sjálfsagt og eðlilegt að efna til kosninga þar sem allt samstarf okkar við viðskiptaþjóðir okkar í Evrópu og ESB verður lagt undir.

Aðildarsinnar hafa um áratugi hundsað allar okkar tillögur um þjóðaratkvæði og barist gegn þeim með oddi og egg. Látum þá ekki blekkja okkur nú með því að það séu þeir sem standi fyrir lýðræðinu á móti þjóðarmeirihlutanum sem vill svo sannarlega, eins og kannanir hafa margoft sýnt, taka ESB brautarteinana úr sambandi.

Kjósum með Íslandi og fullveldi þess. Kjósum fólk sem þorir að berjast gegn ESB aðlögun. Setjum X við J á kjördag.

Sjá nánar í grein minni á Smugunni, http://smugan.is/2013/04/vid-viljum-tafarlaus-vidraeduslit/


Sovéskar kosningar...

Lýðræðisumræða ESB sinna minnir okkur óþægilega á að í gömlu kommúnistaríkjunum var almúginn oft og einatt rekinn á kjörstað til að kjósa en var samt alltaf jafn fjarri því að ráða nokkru um sitt samfélag.

Sjá nánar á hinum glæsilega vef Neiesb.is http://neiesb.is/2013/04/pakkakikir-platar-sifellt-fleiri/


Pakkakíkir platar sífellt fleiri

Ef nógu margir menn endurtaka sömu ósannindin aftur og aftur þá kemur að því að þau eru höfð fyrir satt. Grængolandi Samfylkingarlygi um „samningaviðræður" við ESB og pakka sem hægt sé að kíkja í hafa nú verið tuggin upp í fjölmiðlum í meira en áratug. Nú er svo komið að þeir sem tala fyrir því að stöðva aðlögunarferlið að ESB eru taldir sérlegir ójafnaðarmenn og hatursmenn lýðræðis en flokkar sem hugsa stórt í komandi kosningum þora illa annað en að friðmælast við lygina og taka undir með að kíkt sé í pakkann.

„Líka Brútus," sagði félagi minn úr baráttunni þegar talið barst að þeirri þögn sem er um ESB málið í kosningabaráttunni. Ég var smá stund að átta mig enda oft seinn að skilja orðaleiki en við kvöddumst dulítið daprir yfir að þeim öflugu liðsmönnum Heimssýnar sem nú keppast við þegja fullveldisbaráttuna af sér.

Sjá nánar á hinum glæsilega vef Neiesb.is http://neiesb.is/2013/04/pakkakikir-platar-sifellt-fleiri/

 


Að ekki mætti bera fé á dóminn...

Í þá tíð þegar formaður VG talaði enn svolítið sem andstæðingur ESB aðildar notaði hann orðtækið að ekki mætti „bera fé á dóminn" í hinu lýðræðislega ferli ríkisstjórnarinnar sem átti að geta af sér aðildarsamning. Það mætti semsagt ekki leyfa ESB að koma hér inn með sérstaka styrki og áróðurspeninga enda myndi slíkt brengla algerlega hina lýðræðislegu nálgun að þjóðin gæti hlutlaust og yfirvegað tekið afstöðu til aðildar að fengnum „aðildarsamningi".

Við sem hlustuðum á formanninn héldum að nú myndi hann hjálpa okkur að stöðva óeðlilega tilburði ESB til að koma upp áróðursskrifstofum og auðvitað var það nú dregið sem strik að aðlögunarstyrkir yrðu ekki samþykktir meðan VG væri á stjórnarvaktinni. Eða það héldum við. Sjá nánar í grein minni á Smugunni, http://smugan.is/2013/04/vid-viljum-tafarlaus-vidraeduslit/


Þrjár ástæður fyrir því að EKKI á að kjósa um ESB

Það eru þrjár augljósar ástæður fyrir því að EKKI á að efna til kosninga um meintar ESB viðræður. Í fyrsta lagi af því að það hafa engar viðræður farið fram, í öðru lagi vegna þess að ESB hefur borið fé á dóminn og í þriðja lagi vegna þess að ferlið er frá upphafi grundvallað á lygi, ofbeldi og afbökun lýðræðis.

Við ESB andstæðingar höfum barist fyrir þjóðaratkvæði um fullveldismál í áratugi en andstæðingar okkar komið þar í veg fyrir. Við viljum enn efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB mál en það verða að vera hlutlausar kosningar án utanaðkomandi afskipta. 

Sjá nánar í grein minni Smugunni, http://smugan.is/2013/04/vid-viljum-tafarlaus-vidraeduslit/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband