Lýðræðiskrafan í ESB málinu

Við skyndilegt fall krónunnar og hrun bankanna óx þeirri kröfu ásmegin meðal þjóðarinnar að sækja ætti um aðild að ESB. Þó svo að vilji til aðildar hafi ekki verið meirihlutaskoðun þá voru á tímabilum á árabilinu frá 2006-2009 meirihlutafylgi fyrir því að láta reyna á hvað fengist út úr aðildarviðræðum.

Allan þann tíma vöruðum við andstæðingar ESB aðildar við því að slíkar könnunarviðræður væru ekki í boði. Allmargir ESB-andstæðingar voru þó til í að láta undan kröfum aðildarsinna, sumpart til þess að þjóna lýðræðinu og sumpart sem málamiðlum í refskák stjórnmálanna. Eftir kosningarnar 2009 var þessi krafa og vígstaða ESB-sinna í landinu sterkari en nokkru sinni.

Nú ári eftir að Alþingi samþykkti aðildarviðræður hefur það komið rækilega fram að hér eru ekki hlutlausar viðræður á ferðinni heldur aðlögunarferli þar sem ESB leggur þegar til atlögu og ítaka í íslensku stjórnkerfi án þess að þjóðin hafi verið spurð. Á sama tíma er peningum ausið til áróðurs fyrir málstað stórveldisins.

Íslenska þjóðin er mjög meðvituð um þetta og nú hefur mjög skipt um í fylgi við hinar svokölluðu aðildarviðræður. Aukinn meirihluti Íslendinga eða um 2/3 hlutar þjóðarinnar vill hætta viðræðunum þegar í stað.

Aðildarsinnar hafa nú komið fram í blöðum og lagt áherslu á að halda verði ferlinu áfram til þess að leiða það til lykta. Það er rétt að ljúka verður málinu með einhverjum hætti og þar kemur margt til greina. Það er ljóst að aðlögunarferlið mun kosta okkur milljarða og hafa veruleg og ólýðræðisleg áhrif á íslenska stjórnsýslu.

Rétt eins og það voru ákveðin lýðræðisrök fyrir því að fara í viðræður vorið 2009 þá er lýðræðisleg krafa í loftinu nú sem stjórnvöld verða að koma á móts við. Það geta þau gert með því að draga umsóknina til baka en þau geta líka vísað þessu máli til þings og eftir atvikum þjóðar í almennri atkvæðagreiðslu.

En það er fráleitt að halda áfram að ausa hundruðum milljóna í verkefni sem aukinn meirihluti þjóðarinnar leggst nú hart gegn. Enginn lýðræðislega þenkjandi stjórnmálamaður getur réttlætt það við þessar aðstæður að gera ekki neitt við þessa sterku kröfu almennings.

(Áður birt í Morgunblaðinu 15. júlí 2010)

Játningar Össurar

Stærsta  míta ESB-sinna hefur verið að Ísland geti náð góðum samningum um fiskimiðin. Að ávinningar okkar í landhelgisdeilum við Evrópu haldi sér. Nú hefur Össur bakkað, hann játar að þetta sé "very difficult." Þetta er fyrsta skrefið að því undirbúa þjóðina undir að kyngja því að láta fiskimiðin af hendi.

Um hvað er þá deilt. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur þegar sagt að það eigi að hætta þessum viðræðum og nú viðurkennir Össur að hann sé búinn að tapa í okkar stærsta hagsmunamáli.

Vituð þér enn, eða hvað!


mbl.is Kína markaður fyrir fisk og ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætum öll

Mætum öll á Austurvöll, blá, græn og rauð. Rekum flóttann og ESB-óværuna af okkur.


mbl.is Útifundur gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Svavar Gestsson ESB-sinni?

Nýleg grein Svavars Gestssonar fv. alþingismanns í Fréttablaðinu um ESB málið vekur stærri spurningu en hún svarar. Hér er réttilega bent á að innan Sjálfstæðisflokks eru til þeir menn sem eru hálfvolgir með ESB-aðild en samt til í að mótmæla núverandi  umsókn því hún er lögð fram af öðrum flokkum. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur á köflum talað þannig þó að síðasta ályktun Landsfundar geri henni nú ókleyft að halda því áfram.

En Svavari verður tíðrætt um þá sem eru á móti aðild en telja samt rétt að koma málinu frá með aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið. Þetta hefur verið gert tvisvar í Noregi og enginn hefur svarað því hversu oft þarf að gera þetta á Íslandi. Málið er ennþá ekki úr sögunni í Noregi og baráttan bæði fyrir og gegn ESB-aðild síkvik þar ytra.

En látum það vera. Það er rétt að Steingrímur J. og margir aðrir ESB-andstæðingar í VG hafa þessa sýn, að þeir geti losað okkur endanlga við þennan draug og þetta er skoðun sem er alveg góð og gild í umræðunni þó að hún sé umdeild í VG.

Það sem vekur undrun mína er að Svavar talar um þennan hóp okkar VG-ara í þriðju persónu, sbr:

Rök þessa fólks í VG hafa verið þau að það verði að afgreiða þetta mál ella hangi það yfir höfði landsmanna eins og óleyst gáta sem truflar alla eðlilega pólitíska einbeitingu. Þess vegna sé skynsamlegt að láta á málið reyna efnislega. Og svo er sagt að þjóðin ráði því sem mestu skiptir: Lokaafgreiðslu málsins. Með lýðræði. Raunar telja þessir andstæðingar ESB aðildar jafnvel að aðildin verði felld og að þetta sé greiðasta leiðin til að útkljá málið svo þeim líki. (Sjá greinina í heild hér.)

Það er hægt að finna dæmi þess að fólk sem kemst til nokkurra metorða tali um sig í fleirtölumynd fyrstu persónu, við og vér. 19. aldar almúgafólk hér á Íslandi talaði stundum um sig í þriðju persónu eintölu; 'henni finnst þetta nú ekki gott' í merkingunni 'mér finnst þetta ekki gott.' En að einhver tali um sig í þriðju persónu fleirtölu eins og Svavar virðist hér gera er alveg nýtt.

Nema þá að Svavar Gestsson sé orðinn ESB-sinni og þá er nú bleik brugðið.


Vitræn verkalýðsumræða

Það alvarlegasta sem átti sér stað við hrunið eru ekki gengistryggðu lánin eða allir peningarnir sem töpuðust í sjóðum og bréfum. Það alvarlegasta er að við hrun krónunnar lenti verulega stór hópur láglaunafólks í þeirri stöðu að geta ekki framfleytt sér af sínum launum.

Þetta fólk er sjaldnast með dýr bílalán heldur keyrir það um á ódýrum bílum og býr flest í leiguhúsnæði. Með hagsýni og ráðdeild sem mörgum í þessum hópi er gefin umfram annað fólk, komst það af, hafði til hnífs og skeiðar og gat séð börnum sínum fyrir lágmarks lífsgæðum eins og fæði í skólum og þátttöku í félagslífi með öðrum krökkum.

Allt í einu var þetta ekki hægt. Og í stað þess að eygja einhverjar leiðir í stöðunni heyrði fólk þetta talað um að nota yrði ríkisfé til að færa niður skuldir, mest hjá hinum ríku. Og svo var komið upp fátækrahjálp. 

Auðvitað er það rétt hjá Vilhjálmi Skagamanni að laun sem eru mikið undir 200 þúsundunum eru okkur öllum til skammar,  verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum og stjórnvöldum.


mbl.is Lágmarkslaun ekki undir 200 þúsundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er enn líf í Hrútadal...

gu_run_fra_lundi_normal.jpgGuðrún frá Lundi var meira en ástarsöguhöfundur. Hún var hinn íslenski fræðimaður í kvenbúningi, hinn dæmilgerði sveitarithöfundur sem notaði pennan til að brjótast út úr fjötrum einangrunar.

Ég veit ekkert hvað aðrir ætla en ég ætla mér að fjalla um þessa hlið á hinni íslensku menningarfabrikku á ráðstefnu sem haldin verður í Fljótunum 14. ágúst næstkomandi og helguð verður nefndri Guðrúnu. Þar verða meðal framsögumanna Guðjón Ragnar Jónasson rithöfundur, afkomandi Guðrúnar, Marín Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur, Ármann Jakobsson prófessor og Ásta Kristín Benediktsdóttir magister. 

Ráðstefnan er öllum opin og verður frábær skemmtan með þjóðlegu balli þar sem hin rafmagnaða rómantík Hrútadalsins mun svífa ofar vötnum.

Sjá nánar hér.


Í landi forheimskunnar

Andlegt harðlífi er líklega það versta ástand sem hægt er að koma sjálfum sér í. Þegar sjónarhringurinn einkennist af því að leita uppi það sem hægt er að skeyta skapi sínu á og hafa uppi fordóma sína og illmælgi. Fer þá mörgum svo að tapa bæði hæfileikanum til að hugsa og lesa.

Í gær birti ég mér og öðrum til gamans pistil um plágur ferðaþjónustunnar, skrifað í hráum og villimannslegum stíl sem beinist svo sem ekki gegn neinu né neinum. Til þess að allt rímaði nú við Gamla Testamentið þá hafði ég plágurnar sjö og endaði á fabúlu um bankaglæpi, ESB umsókn og Jón kallinn Gnarr. Þetta hefur vakið útrúleg viðbrögð og farið víða, bæði á vefsíður aðrar og ljósvaka en það sem fór mest fyrir brjóstið á fólki hljóðaði semsagt svona: 

7.  Bankahrun, ESB og Jón Gnarr mynda samanlagt sjöundu pláguna. Fyrst frétti heimurinn að hér byggi þjóð sem kynni ekki á reiknivélar. Síðan fréttist að hér byggi geðsturluð þjóð sem sækir um að ganga í félög sem hún vill ekki ganga í. Þó útlendingar séu misjafnir eins og annað fólk veit þar hver maður að ekkert er eins óþolandi eins og þegar heimskt og geðsturlað fólk reynir að vera fyndið. 

En fyrir fólk sem er illa þjáð af andlegu harðlífi hefi ég kannski lagt fyrir það einhverja málfarslega gildru því ef hratt er lesið geta einhverjir misskilið þetta þannig að ég sé í fyrsta lagi að tala illa um ESB og í öðru lagi að ég telji Jón kallinn Gnarr veikan á geði og heimskan sem alveg fráleitur skilningur á setningunni hér að ofan. Ekki nema fólk telji hann vera þjóðina sjálfa og í ofanálag einhvern sérstakan orsakavald í því að sækja um ESB aðild án þess að vilja þar inn. 

Þórbergur heitinn talaði um land forheimskunnar, o tempora, o mores.

PS: Og eins og allar færslur hér er þessi opin fyrir öllum athugasemdum hversu nafnlausar og skítlegar sem þær geta verið, nafnleysingjarnir skaða aldrei neitt nema eigin sjálfsmynd.


Sjö plágur ferðaþjónustunnar

Við sem vinnum við ferðaþjónustu erum því vanastir að það sé fjölgun milli ára og sumir hafa miðað sínar fjárfestingar við það. Í slíku getur fækkun eins og sú sem núna verið mjög bagaleg og jafnvel riðið mönnum að fullu. Mér telst til að plágur okkar sem vinna í þessum geira séu samtals sjö þó að þrjár séu þar öðrum stærri.

1. Eldgos sem hræðir túrista frá landinu því þeir eru flestir heybrækur og vilja bíða þess að hraunið kólni.

2. Öskugos sem hamlar flugi. Bitnaði á ferðabændum í útlöndum líka.

3. Velmegunarflensa í hrossum svo landsmót er blásið af og fjöldi hættir við að koma.

4. Kreppa í Evrópu svo sumir þar komast ekki að heiman af annríki við mótmæli.

5. Málgleði forseta Íslands sem komst í útlensku blöðin út á það að Ísland væri alveg að springa í loft upp. Útlensku heybrækurnar settu flugmiðana sína í pappírstætara.

6. Heimsmeistarakeppni í boltavitleysu. Í stað þess að ferðast lúrir mannkynið framan við flatskjái og er með dýrahljóðum.

7.  Bankahrun, ESB og Jón Gnarr mynda samanlagt sjöundu pláguna. Fyrst frétti heimurinn að hér byggi þjóð sem kynni ekki á reiknivélar. Síðan fréttist að hér byggi geðsturluð þjóð sem sækir um að ganga í félög sem hún vill ekki ganga í. Þó útlendingar séu misjafnir eins og annað fólk veit þar hver maður að ekkert er eins óþolandi eins og þegar heimskt og geðsturlað fólk reynir að vera fyndið. 

Miðað við allt þetta er nú furðu vel sloppið að samdrátturinn sé ekki nema 10%. Líklega vegna þess að það eru jafnmörg atriði sem vinna með okkur þó að fæst séu mér eða þér að þakka!


mbl.is Gistinóttum fækkar um 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjá þeir ekki ljósið...

Mark Flanagan landsstjóri AGS á Íslandi kvað í vikunni upp með þá skoðun að kreppan á Íslandi væri grynnri og minni vegna þess að landið er með sinn eigin gjaldmiðil. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar tók í sama streng. Þessu hafa efasemdarmenn um ESB aðild lengi haldið fram.

Össur Skarphéðinsson hafði fyrir nokkrum vikum áhyggjur af því að Jón landbúnaðarráðherra sæi ekki ljósið. Nú er greinilegt að það eru fleiri sem ekki sjá þetta ljós. Þeir einu sem hafa látið þá skoðun í ljósi síðustu daga að íslenska þjóðin eigi að ganga í ESB eru Belgar og örfáir belgingslegir menn sem gengu á dyr á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Til gamans birti ég hér mynd sem Kristinn Ingvarsson ljósmyndari á Morgunblaðinu tók af tveimur mönnum að ráðslaga á flokksráðsfundi Vinstri grænna. Myndin er hreint listaverk þó mennirnir séu ekki smáfríðir. Það sama á við um þá og Flanagan, þeir hafa ekki séð ljósið.

bjarni_og_asmundur

 


mbl.is Erfiðara að bregðast við efnahagsáföllum með evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG vinnur ESB slaginn

Helgin núna markar ákveðið upphaf. Það er hafin vinna við að koma íslenska ESB draugnum fyrir kattarnef. Eins og jafnan í draugafræðum er þetta flókin aðgerð og vandasöm en bæði Sjálfstæðisflokkur, VG og Jóhanna Sigurðardóttir hafa nú lagt hér gott til.


mbl.is Koma þessum draug frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband