Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Morgunsvefn, jarðarför og brúðkaup

Það var hreinlega biðröð á húninum við bókabúðina þegar ég loksins opnaði hana í morgun. Konan farin upp í sveitir í Bláskógaskokk og við feðgar tveir sem heima vorum sváfum yfir okkur enda morgunsvæfir með afbrigðum. Við búðardyrnar beið mín Árni Valdimarsson fasteignasali með meiru ásamt pólskum vini sínum og erindið var að kaupa pólsk-íslenska orðabók.

hansina

Þessa stundina er ég svo að búa mig undir jarðarför. Vinkona mín Hansína Stefánsdóttir er borin til grafar í dag. Hún lést fyrir viku á sjúkrahúsinu hér í bæ eftir erfið veikindi. Hansínu kynntist ég fyrst þegar ég kom til starfa á Þjóðólfi, blaði Framsóknarmanna árið 1988. Raunar var það minn fyrsti vinnustaður á Selfossi og þá var Hansína með skrifstofu í sama húsi á Eyraveginum. Um áratug síðar var Hansína hjá mér í ígripavinnu við prófarkalestur og þá fyrst kynntist ég því að marki hvílík afburða kona hún var um margt. En lífið fór ekki alltaf mildum höndum um þessa konu og var henni heldur ekki örlátt í æviárum þegar hún kveður nú á besta aldri.

Í beinu framhaldi af jarðarför tekur svo við brúðkaup vina minna Hlínar Pétursdóttur frá Keldnakoti og Einars Jóns Einarssonar og veisla þeirra í Iðnó í Reykjavík.


Loksins kaffibar!

Sumarfrí frá þingstörfum hefur farið í allskonar snatt við verkefni sem var frestað í allan vetur. Eitt það brýnasta er að búa Sunnlenska bókakaffið sómasamlega úr garði þannig að þar geti farið fram kaffisala með öllum þeim leyfum sem slík starfssemi útheimtir.

Í dag kom smíðameistarinn Gylfi frá húsatóftum en hann mun sjá um að smíða eldhús og kaffibar en hugmyndin er að við feðgar getum sjálfir slegið upp salernum tveimur og unnið aðrar framkvæmdir. Samhliða þessu eru Hlaðamenn úti með penslana á lofti þannig að von bráðar verður húsið alllt hið snyrtilegasta bæði utan og innan og sólin brosir auðvitað við okkur hér í Flóanum. En það er enginn tími til að standa í bloggi á framkvæmdadögum...


Jónsmessudraumar á Eyrarbakka

(Úti er albjört Jónsmessunótt og varla að ég tímdi inn en ég var áðan ræðumaður við Jónsmessubál okkar Eyrbekkinga en til þeirra tel ég mig alltaf enda bjuggum við þar í rúm 5 ár. Var búinn að semja þessa ræðu á blaði aldrei þessu vant og var svo að bauka við í dag að lesa hana og taka úr henni stikkorð til að geta flutt hana blaðlaust en komst að því eftir smá æfingu yfir minni góðu konu að líklega væri bara betra að flytja hana af blaði. Og ekki nema nokkrar vikur síðan ég ræddi það við kollega í kaffistofu þingsins að ræður af munni fram væru alltaf betri en af blaði - en líklega er með þann sannleika eins og annan að hann á oft við en ekki alltaf. Ræðan var auðvitað alvarleg, kannski of alvarleg við þær aðstæður að fólk var að staupa sig á bjór og viskíi en samt var gerður að henni góður rómur fannst mér og margir lögðu vel við hlustir. Semsagt, takk Eyrbekkingar fyrir kvöldið sem var bæði fagurt og skemmtilegt. Meðfylgjandi mynd tók forseti Hrútavinafélagsins, Björn Ingi Bjarnason. Já og ég er í peysunni sem Dóra í Stærri Bæ og vinkonur hennar í Grímsnesinu gáfu mér í kosningabaráttunni. )

Gleðilega Jónsmessu - er óvanaleg kveðja og þó á þessi hátíð sér talsverða samsvörun við jólin. Sex mánuðum á undan meistaranum mikla frá Nasareth fæddist Jóhannes skírari eða Jón babtisti eins og miðaldamenn íslenskir kölluðu þann mann og eftir þeim manni dró nafn sá fyrsti Íslendingur sem kallaður var þessu stutta og skemmtilega nafni, Jón, semsagt Jón Ögmundsson biskup á Hólum á 11. öld og messa þessi síðan helguð þeim nöfnum báðum, Jóni helga á Hólum og Jóni babtista í Jórdánardal...1182643938bjarnihabakkanumvideld

En Jónsmessan er merkileg fyrir fleira en bara nafnstyttingu Jóhannesar skírara. Messa þessi er um aldir messa alþýðunnar, ekki kannski sérstaklega hér á Íslandi en samt vel þekkt. Um alla Evrópu vóru á þessari nóttu dansar, söngur og ærsl við Jónsmessubálin, víðar en hér á Bakkanum. Í stað hinnar trúarlegu helgi sem jólanóttin réði yfir ríkti á Jónsmessunni náttúruhelgin. Hjáguðadýrkun sögðu hinir sanntrúuðu. Hátíð manna og landvætta. Hátíð jarteikna og kraftaverka.

Og hér hafa vissulega orðið kraftaverk og eitt þeirra birtist okkur nú á 21. öldinni þegar gömlu húsin á Bakkanum verða að þeim verðmætum að Eyrarbakki á sér kannski aðra og meiri möguleika en nokkurt annað sambærilegt pláss. Þökk sé þeirri sögu sem dæmdi Eyrarbakkann til útlegðar frá hagkerfinu þegar verslunin hvarf héðan til Reykjavíkur og svo á Selfoss. Þeim þungbæra dómi þegar Bakkinn tapaði helmingi sinna íbúa í burtu og engin þörf var því á að ryðja gömlum bárujárnshúsum um eins og annars er regla á Íslandi.

Hin íslenska húsbrotsstefna verður mér reyndar alltaf jafn mikið umhugsunarefni og við sjáum af þeirri umræðu og þeim atburðum sem nú eru bæði eru orðnir á Selfossi og í henni Reykjavík,- að þar hefur ekkert breyst. Eyrarbakki einn stendur uppi sem raunverulegt griðland þeirrar bárujárnsmenningar feðra vorra sem í fagurfræðilegu tilliti tekur samt langt fram öllu sem útlærðir arkitektar hafa fært þjóðinni síðustu 50 árin.

Og stundum dettur mér í hug að landið allt sé í menningarlegu tilliti ekki hluti af Evrópu eins og haldið er fram í sögubókum heldur Ameríku. Við séum einhverskonar Amerískt klondike með kostum þess og göllum. Allt nema Eyrarbakki.

En ég var að tala um kraftaverk sem er kannski það eina sem á að tala um á nóttu sem þessari. Og það hafa vissulega búið kraftaverkamenn hér á Bakkanum. Nafni minn Herjólfsson þeirra merkastur en öfugt við það sem gjarnan er fleiprað um þá var það hann Eyrbekkingurinn sem fyrstur fann þá Ameríku sem þá var týnd öðrum en þeim vísu og góðu skrælingjum sem höfðu á sama tíma týnt Evrópu. Sú er saga Bjarna Herjólfssonar frá bænum Drepstokki við Eyrarbakka að hann lagðist ungur í ferðalög og þegar hann kom heim úr einu þeirra voru kofar hans hyskis hér á Bakkanum tómir og hann frétti að fólkið hefði þá farið til Grænlands og lagði auðvitað þegar í stað á eftir sínum foreldrum en hreppti hafvillur og kom að Hellulandi. Seinna fór svo Strandamaðurinn Leifur Eiríksson á sömu slóðir, líklegast að vísan skipverja Bjarna.

Ástæðan fyrir því að heiðurinn er yfirleitt eignaður Leifi fremur en Bjarna er að sá fyrrnefndi steig fyrstur á land í heimsálfu þessari en Bjarni vissi sig engin erindi eiga í lönd þessi og sigldi hjá.

En nú hafa kraftaverkin fleytt okkur til í tíma og rúmi. Ég minntist á það hér fyrr að Ísland væri eins og Ameríka og fráleitt má skilja það sem áfellisdóm yfir okkar samfélagi. Í hinni gömlu Evrópsku heimsmynd skiptist heimurinn í tvennt, nýja heiminn sem numinn er af hvítum mönnum eftir að miðöldum lauk og gamla heiminn sem byggður hefur verið sama ættfólkinu um árþúsundir. Skilgreining Evrópu verður til það snemma að þá er hugtakið nýi heimurinn ekki til enda fyrrgreindar ferðir Bjarna og Leifs gleymdar. Kaninn okkar Þorfinnur karlsefni farinn sinn veg.

En þegar sagan er skoðuð sjáum við glöggt að í heimssögunni er ekki nema augnablik millum þess að Evrópumenn nema Ísland og Ameríku, rétt 600 ár sem er stutt í mælikvarða bronsalda, járnalda og steinalda. Og í þjóðareðlinu erum við Íslendingar um margt líkari könum en Evrópubúum sem er stærsta ástæðan fyrir því að okkur gengur enn vel í efnalegu tilliti meðan stjórngleði, uppdráttarsýki og stöðnun eitra nú okkar gömlu álfu miklu meira en grannana í vestri. Hagfræðingar telja margir að Evrópa sé nú komin 20 ár aftur fyrir Ameríku í hagrænni þróun og það bil aukist enn. Ísland stendur aftur á móti með því fremsta sem gerist í Ameríku og það er gott.

En hin íslensk-ameríska gróðahyggja á sér sínar skuggahliðar og þær stærstar í heimsku jarðýtunnar. Þess hugsunarháttar sem einkenna öll hin amerísku samfélög að alltaf megi ýta yfir það gamla fyrir nýja. Alltaf megi ryðja hinum veikari úr vegi fyrir sterkari. Alltaf megi peningurinn ráða för. Þessa sjáum við illu heilli merki hvevetna í okkar samfélagi í dag og höfum séð um áratugi. Eins og í öllu er ekkert algott og ekkert alrétt. Allt er í senn rétt og rangt.

Mitt í þeirri ómennsku og heimsku og dýrmætt að eiga að minnsta kosti einn gamlan Evrópskan bæ eins og Eyrarbakka sem þvert á lögmál samfélagsins verndar hið gamla. Við skulum dansa og skála í nótt fyrir því dýrmæti sem Eyrarbakki er og á eftir að verða geðheilsu íslenskrar þjóðarsálar.

Ps. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning og af gefnu tilefni eftir umræðu við bálið, - með vísan í húsbrotsstefnu á Selfossi og Reykjavík er ég ekki að taka undir með þeim sem vilja nú enn og aftur stöðva miðbæjarskipulagið á Selfossi. Þó svo að ég hefði helst viljað sjá menn þyrma Ingólfi og gömlu húsunum við Eyraveg þá tel ég samt að öllu vandaðri stjórnsýsluvinnubrögð hafi ekki verið hægt að viðhafa og við það situr að ég er í þessum húsamálum hér við Ölfusá - í Klondækinu sjálfu - í miklum minnihluta. Og þá er að sætta sig við það!)


Útrýmum rangfeðrunum!

Þjóðlendumálin íslensku eru sprottin af mikilli nauðsyn. Þeirri nauðsyn að útrýma réttaróvissu. Um aldir hafa afdalamenn haldið fram eignarhaldi sínu á fjöllum og firnindum. Veifað til þess landamerkjabréfum og fengið þeim þinglýst hjá sýslumönnum. Einstöku sinnum hafa að vísu komið upp ágreiningsmál um tiltekna skækla í byggðum og óbyggðum og þá hafa dómstólar þurft að erfiða við að skera úr um slíkt. Það heita landamerkjamál og þykja ekkert spennandi, enda með ólíkindum flókin þó um litla skækla sé að ræða. En svo er þetta eiginlega leiðinlegt af því að oftar en ekki hafa hinir meintu eigendur landsins - reynst vera eigendur þess með réttu! Sem sumum þótti óskaplega skrýtið og erfitt. Picture 035

Svo skrýtið raunar að það ku hafa rænt menn svefni. Það að landamerki í landinu séu öll meira og minna eins og bændur segja og vilja er mörgu fólki móðgun. Eina leiðin til að breyta þeirri mynd er að heyja öll landamerkjamál í senn og gera það helst með miklum flýti og helst mjög hratt þannig að grauta megi upp örnefnunum. Þannig hefur gamall prófastur í Rangárþingi bent mér á þjóðlendudóm úr sinni sveit þar sem öllum örnefnum á hans gamla afrétti var snúið á haus. En þannig er nú leyst úr réttaróvissum á Íslandi og telst einkar þarft verk.

Nú þegar þjóðlendumál eru hálfnuð umhverfis landið er eðlilegt að stjórnvöld undirbúi næstu skref í því að eyða réttaróvissunum og þar er vissulega af mörgu að taka. Þannig mætti til dæmis hugsa sér að taka næst upp öll lóðamerki í kaupstöðum á Íslandi en eins og kunnugt er var húsum hér fyrr meir dritað niður eftir bendingum misviturra oddvita sem sögðu einfaldlega, þú mátt byggja hér eða þú mátt byggja þar. Ef pappírar þessir eru skoðaðir ofan í kjölinn kemur auðvitað í ljós að þar rekst hvað á annars horn og eins víst að limgerði eins sé inni í þinglýstri lóð annars og af þessu öllu gæti orðið hreint organdi skemmtilegur ófriður og lögfræðiveisla.

Annað óvissumál sem brýnt er að leysa úr eru faðernismál í landinu. Alþjóðlegar rannsóknir benda til að tiltekin prósenta allra fæddra barna séu rangfeðruð. Það er aðeins misjafnt eftir þjóðum hvað sú prósenta er há en allir unnendur réttlætisins hljóta að sjá að við svo afleita stöðu er óbúandi. Í landinu eru nú orðnir talsvert margir milljónerar og nokkrir trilljónamæringar. Finnst okkur hægt að rangfeðruð börn þessara manna deili arfi með hinum sem réttfeðruð eru. Og að börn sem sömu menn kunna að eiga utan síns heimilis og eru feðruð kennarablók eða róna fari á mis við allan þann auð sem þau sannarlega eiga heimtingu á. Slíkt óréttlæti nær auðvitað ekki nokkurri átt og skiptir þá engu hvað milljóneranum, spúsu hans og hjákonu kann að finnast í lagi. Hér er verið að tala um óréttlæti sem kemur niður á börnum og barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum löngu eftir að allir núlifendur hér á storði eru gengnir veg sinnar veraldar.

Krafan hlýtur að vera að þegar þjóðlendunefnd hefur lokið störfum stofni ríkið faðernisnefnd sem skyldi alla einstaklinga til að sanna tafarlaust faðerni sitt fyrir dómi með DNA rannsóknum. Aðeins þannig útrýmum við óréttlæti og réttaróvissum,- auk þess sem við sköpum óteljandi lögfræðingum og sérfræðingum atvinnu um ókomin ár!

(Áður birt í dálkinum Alvurulaust í Sunnlenska fréttablaðinu - Myndin hér með átti eiginlega að birtast með síðasta bloggi en hún er tekin í hjólaferð okkar félaga inn í austfirsk fjöll og þoku, - um fjallvegi þar sem til forna urðu til rangfeðruð börn og í afdal sem þjóðlenduríkið á enn eftir að skella sínum ránshrammi yfir. Ljósmyndari var sexhjólarinn Christhoper Wöll.)


Höfðinglegar móttökur

Hefi eytt dögunum með okkar kære nordiske venner á Vestnorrænni þingmannaráðstefnu á Húsavík. Lærdómsríkt og skemmtilegt fyrir nýliða og þarna í hópi margir eftirminnilegir karakterar. Að öðrum ólöstuðum verða þeir mér eftirminnilegastir þjóðfrelsismaðurinn færeyski Högni Hoydal og Jónatan Mosfeld foringji Grænlendinga. !cid_A99281A5-B3D0-4D0B-B72E-3CB7BD8C2E11@local

Þingeysk veðursæla, gráðugar hvalskepnur og alúðlegir heimamenn, - allt tók þetta á móti okkur þingmönnunum af miklum höfðingsskap og rausn. Kvöldferð á Skjálfandaflóa í blankalogni og miðnætursól tók flestu fram. Við fréttum að það hafi reyndar verið upppantað í allar hvalaferðir þegar við komum en Árni Johnsen náði samningum við fyrirtæki Stefáns Guðmundssonar, Gentle Giants Whale Watching sem á heiður og þökk skilda fyrir frábæra þjónustu.

Á laugardag fórum við í langan og góðan bíltúr um Þingeyjarsýsluna þá nyrðri, Dettifoss, Ásbyrgi, Hljóðakletta og enduðum á Mývatni. Komum til Húsavíkur aftur klukkan 10 og þá tók ég blátt strik austur á Egilsstaði til þess að geta þvælst um erinda minna um Austfirði næsta dag. Sá dagur varð reyndar stuttur mjög í annan endann af þeirri ástæðu að þegar ég kom í hús hjá stórhöfðingjanum Lofti Jónssyni biðu þeir félagar hann og Frosti í ofvæni eftir að komast í hjólaferð inn í nóttina. Strákarnir höfðu semsagt klambrað til aksturs og skeytt númeri á gamlan Dakargrip Lofts en sjálfur ekur hann um á 400 kúbika Hondupriki þessi misserin. Gamli Dakarinn er í eigu Hjalta hins Borgfirska sem heldur hefur sýnt honum litla rækt en Frosti fór um hjólið alúðarhöndum nosturs og særinga þannig að hvorki voru nú í því skrölt né demónar. Og svo var ekið inn dal mikinn sem liggur upp frá Sandfelli í Skriðdal eftir nýlega lögðum línuvegi þar sem gnæfa þau tröllkynjuðustu rafurmagnsmöstur sem mín augu hafa barið til þessa. Ef ekki hefðu verið Austfjarðaþokur í fjallaskörðum þá hefðum við séð niður í gullbæinn Reyðarfjörð um óttubil en þar á miðjum vegi urðum við sneypast til baka vegna fannfergis sem útséð var að mín færni og farskjóti réði við hvað sem hænsnaprik þeirra Lofts og Frosta hefðu gert enda öll léttari og meiri tryllitæki. En fráleitt jafn virðuleg og alvöru Dakar.

Fjórði maður í hópnum, þýski skógfræðingurinn Kristó var í ferðalaginu á sexhjóli sem einnig átti orðið í þæfingi.

Eftir höfðinglegar og frábærar móttökur Þingeyinga verður þó að játast að næturævintýri upp af Skriðdal tók þó öllu öðru fram...

(Myndin er af okkur ráðstefnufélögum, fræðimönnunum Gunnari Haraldssyni, Magnúsi Árna Magnússyni og mér á merkum sögustað á leiðinni, semsagt Ystafelli við minnisvarða um stofnun Sambands íslenskra samvinnufélaga.)


Til hamingju, Valgerður!

Við kusum Valgerði Sverrisdóttur varaformann okkar í gær og er það vel. Með góðu samstarfi þeirra Guðna og Valgerðar staðfestum við nú að Framsóknarflokkurinn er ein heild og mun vinna samtaka að þeirri endurreisn sem framundan er.

Fundurinn sem haldinn var á Grand Hóteli í Reykjavík einkenndist af hreinskiptnum umræðum þar sem flokksmenn sögðu sína skoðun á því hversvegna fór sem fór í kosningunum. Auðvitað sýnist þar sitt hverjum en það er nauðsynlegt að hreinsa andrúmsloftið með umræðu sem þessari. Nú eru þeir tímar að baki og sjálfur tel ég óþarft að skipa stóra nefnd eða semja skýrslur um málið. Aðalatriðið er nú að sækja fram og ég treysti þeim Valgerði og Guðna fullkomnlega til að koma því verki í gang. Framundan er vinna og aftur vinna.

 


mbl.is Valgerður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrepparnir eru sérstök heimsálfa

Frá blautu barnsbeini hef ég vitað að það væri eitthvað verulega dularfullt við Hreppana. Við þetta fjalllausa og meiningarlitla heiðarland handan við ána, land töffara og milljónera. Sem krakki millum þeirra vita að vera pæjum aðhlátur en húsfreyjum skelfir fékk ég stundum að fara á bíósýningar austur á Flúðum og gleymi því ekki meðan ég lifi hvað mér jafnan þóttu jafnaldrar mínir þar ógnvekjandi og skrýtnir enda sjálfur allra unglinga minnstur og pervisnastur. Franskbrauð fram eftir árum. Rumarnir sem áttu salinn voru stórir og stæðilegir, hávaðasamir eins og þeir einir geta verið sem eiga eitthvað undir sér. hreppaflekinn

 

En að ég skildi þá hvað það var sem þeir áttu var fjær mér en nokkuð og algerlega óskiljanlegt. Og hefur verið það til þessa þrátt fyrir að hafa í gegnum árin kynnst þjóðflokki þessum millum Þjórsár og Hvítár betur með ári hverju og líkað giska vel við. Lesið öll þau neftóbaksfræði sem fyrir liggja um Hreppana eins og aðrar sveitir Suðurlands og hvergi fundið neitt. Ekkert sem miklar þessa menn yfir alla aðra og samt halda þeir áfram að vera í huga mínum og líka sínum eigin einhverskonar aðall Suðurlands. Stórir, vambsíðir og flestir ófríðir sem karlkyns teljast en konur þar ægifríðar fjallkonur og tígulegar með sinn svellandi barm og dillandi hlátur. Ekki eru það minningar um Bjarna í Hörgsholti og sturlaða Reykjadalsklerka sem gefa þeim þetta allt. Nú eða lygin í séra Árna.

 

Ég hef vitaskuld aldrei nennt að lesa Hreppasögu Guðmundar Kjartanssonar frá Hruna enda fjallar hún um fjöll og jarðfræði en ekki fólk og bæjaferðir. Hefði þó betur gert því loksins nú rann upp fyrir mér hvað það er sem gerir hreppamenn að því sem okkur sýnist þeir vera og raunar miklu miklu meiru. Var semsagt að hlusta á erindi þess merka manns Páls Einarssonar á fundi á Laugalandi þar sem hann útskýrði jarðskjálftafræði Íslands útfrá landrekskenningunni sem í grófum dráttum gengur út á að Ameríkuflekann á vesturkanti Íslands rekur frá Asíuflekann (- Evróasíufleki þó að það taki nú varla að nefna Evrópu svo lítil sem hún er á heimsvísu- ) sem nær yfir landssvæðið austan Sprengisands en myndin er samt ekki svo einföld. Fyrir utan þessar tvo meginfleka jarðfræðinnar er til sá þriðji:

 

Hreppaflekinn sem liggur laus millum hinna tveggja og gerir bara það sem honum sýnist. Liggur í vestrinu í dag og getur kippt sér austur á morgun. Landrekssprungur alheimsins ganga semsagt upp sinn hvoru megin við Hreppana og enginn getur sagt að Hrepparnir tilheyri Ameríkuflekanum og ekki heldur að hann tilheyri Evróflekanum. Því hann gerir hvorugt og mun aldrei gera. Hann er sérstæður, einstætt fyrirbrigði í allri landrekskenningunni sem er sjálf veraldarsagan allt frá því heimsálfurnar urðu til úr einu landi sem fór að reka í sundur og aka ákveðna stefnu, sumt til austurs og annað til vesturs. Líklega þegar guð hrinti Babelturninum og allt fór á tjá og tundur. Allt nema Hrepparnir.

 

Ekki það að Hreppamenn viti þetta,- þeir hafa ekki frekar en ég nennt að lesa Guðmund sveitunga sinn almennilega enda aukaatriði. Þeir bara finna það í blóðinu, landrekinu, moldinni, loftinu sem þeir anda að sér og smælingjahætti nábúa sinna. Finna að þeir þurfa ekki að vera sérstök þjóð, ættbálkur, menningarkimi, klíka eða drykkjufélag. Nei, þeir eru meira en allt þetta. Þeir eru án þess að hafa nokkurntíma nokkuð fyrir því, sérstök heimsálfa og slíkt toppar enginn.

(Áður birt í Sunnlenska - myndin er úr jarðfræðiverkefni nemenda í Menntaskólanum við Sund sem útskýrir þessa flekamyndun Hreppanna.)


Af þorskkvóta, fyrirtækjasósialisma og byggðamálum

Það er auðveldast að blogga um hégóma eins og það að ég ákvað að mæta í vinnuna í grænni skyrtu í dag,- þeirri sömu og ég var í við myndatökur í prófkjörsbaráttunni og skilaði mér vel þar. Nú er sjá til hvernig hún tekur sig út í þinginu,- eiturgræn og framsóknarleg. thorskur

Það er meira krefjandi að skrifa um mál málanna í dag sem er skerðing þorskkvótans og vanda sjávarbyggðanna í landinu. En áhugi á þeim vandamálum er samt það sem rekur mig til að taka þátt í pólitík. Við Íslendingar megum EKKI (orð þetta vantaði upphaflega í færsluna en er hér með bætt inn!) undir nokkrum kringumstæðum tapa svæðum eins og Vestmannaeyjum og Vestfjörðum úr byggð.

Það er einföld lausn að kenna kvótakerfinu og gloppum í vísindum Hafrannsóknarstofnunar um allt saman og segja svo bara; veiðum bara sem mest. Slíka stjórnarandstöðu geta þeir leyft sér vinir mínir í Frjálslynda flokknum enda held ég að þeir geri svosem ekkert ráð fyrir að verða nokkurn tíma kallaðir til þeirrar ábyrgðar að fara með völd í þessu landi. Staðreyndin er sú að við verðum að styðja sókn okkar í sjávaraflann þeim vísindum sem við höfum. Það er ekki valkostur að taka þá áhættu að Hafrannsóknarstofnun hafi ef til vill rangt fyrir sér og ef til vill megi hundsa ráð hennar. Hvað ætlum við þá að segja þegar síðasti þorsktitturinn hverfur okkur sjónum líkt og gerðist við Nýfundnaland?

Ég hef fylgst náið með umræðunni á bloggsíðu flokksbróður míns Björns Inga Hrafnssonar formanns borgarráðs og að mörgu leyti dáðst að hans viðhorfum í þessum málum. Hann varpaði fram þeirri djörfu tillögu um helgina að þegar kæmi að því að auka sóknina að nýju ætti að færa þær aflaheimildir beint til sjávarbyggða í vanda eða svo ég vitni orðrétt í ræðuna:

 Nú þegar blasir við að verulegur samdráttur verði í aflaheimildum við þorskveiðar á næsta fiskveiðiári virðist mér tímabært að stjórnvöld velti upp þeim möguleika, að þegar aðstæður leyfa að hámarksafli verði aukinn á ný, muni þeirri viðbót sem þá kemur til úthlutunar ekki verða sjálfvirkt skipt upp milli eigenda aflahlutdeildar heldur verði einnig skoðað að beita henni með markvissum hætti til að efla og styrkja með svæðisbundinni fiskveiðistjórnun stöðu þeirra byggða sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og sjávarútvegi.

Síðan hafa margir rekið upp ramakvein, hæst reyndar fyrst þegar Morgunblaðsvefurinn eignaði þessi orð sjávarútvegsráðherra og útgerðarmenn sáu þar sæng sína útbreidda. Frjálshyggjumenn hafa óskapast og leiðarahöfundar Reykjavíkurblaða látið eins og stunginn grís. Björn Ingi hefur svarað þessari gagnrýni málefnalega á síðu sinni.

En samt, eins falleg og þessi tillaga er þá er ég ekki viss um að hún sé framkvæmanleg nema að mjög litlu leyti. Það er - við getum auðvitað tekið hluta af kvótanum á öllum tímum og úthlutan sem byggðakvóta og það ber okkur að gera. Heldur stærri hluta en við gerum í dag. En við getum ekki notað kvótakerfið í heild til byggðaráðstafana. Hér verður að fara mjög varlega. Það er einfaldlega mjög varasamt að ætla að leggja byrðar byggðastefnunnar óskiptar á herðar sjávarútvegsins.

Það er bæði varasamt sjávarútvegsins vegna sem er í lengd og bráð undirstöðuatvinnuvegur okkar. Sá atvinnuvegur verður þessvegna að vera arðbær og njóta þess frelsis sem nauðsynlegt er til þess að svo sé. Í öðru lagi er þessi stefna varasöm vegna þess að við gerum landsbyggðinni engan greiða með því að segja - ykkur reddum við með sjávarútveginum. Slíkur ríkisstýrður sjávarútvegur verður eins og ég man hann á þeim árum þegar ég byrjaði að fylgjast með pólitík, endalaust vandræða- og styrkjabarn stjórnvalda og staða sjávarbyggðanna verður eftir því.

Það er aukinheldur ekkert í hendi hvenær við getum aukið sóknina í þorskkvótann aftur og staðreyndin er að staða landsbyggðarinnar þolir ekki endalausa bið. Fjarri því. Við verðum þar að bregðast við með öðrum og skjótvirkari ráðstöfunum. Ég tel að við eigum að skoða nánar þær leiðir sem Norðmenn og fleiri Skandínavar hafa farið í sínum byggðamálum með lægri skattprósentu í jaðarbyggðum. Hljómar mjög róttækt að hafa hér tvennskonar skattaumhverfi en ég er samt viss um að slíkar ráðstafanir eru miklu mun ódýrari, skilvirkari og réttlátari heldur en sá fyrirtækjasósíalismi sem við höfum reynt að beita í mörg mörg ár með skelfilega litlum árangri. Meira um fyrirtækjasósíalistana og skattamálin síðar...

(Myndin er frá Hafrannsóknarstofnun og sýnir þann einstakling sem mestu uppnámi veldur.)


Jómfrúarræðan var auðvitað um þjóðlendumál!

"Þú erð ekki jómfrú út í sumarið, strákur," sagði dimmraddaður formaður Framsóknarflokksins á þingflokksfundi. Jæja, ég bæti því nú kannski við upp á stílinn að hann hafi sagt strákur um hæstvirtan þingmann en sagan er betri og skemmtilegri þannig. kaldidalur_skjaldbreidur En það heitir semsagt jómfrúarræða sú fyrsta sem þingmenn flytja fyrst í þingsalnum og ég get alveg viðurkennt að ég var með svolítinn glímuskjálfta fyrir flutning hennar. Var miklu rólegri þegar ég talaði svo blaðlaust í umræðum í gærkvöldi.

Ég hafði semsagt það verkefni um helgina að semja tveggja mínútna jómfrúarræðu fyrir óundirbúninn fyrirspurnartíma og auðvitað spurði ég um þjóðlendumálin, - kosningaloforð Árna Mathiesen sem hann er greinilega búinn að gleyma og auk þess svo valdalítill nú að hann á ekkert í að efna þau ef marka má svör hans í þinginu sem má lesa á þingvefnum, sjá tengil hér að neðan. En svona var ræðan: 

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstvirts fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen varðandi þjóðlendumál.

Á undanförnum árum hefur fjöldi Íslendinga verið sviptur eignum sem ríkið hefur til áratuga jafnvel um aldir skilgreint sem einkaeignir og skattlagt sem slíkar. Sumt þetta land hafði ríkið sjálft selt aðilum við verði en sölsar nú undir sig bótalaust með ofríki. Tilviljanakennd varðveisla pergamentpappíra og skrýtlur úr Landnámu hafa ráðið úrslitum um það hvort einstaklingar teljist geta uppfyllt barnalega sönnunarbyrði sem júristar í pappírsleik hafa búið til.

Framkvæmd þjóðlendulaga hefur öll verið á hendi ráðherra Sjálfstæðisflokks og var frá fyrstu tíð mótmælt af Framsóknarflokki, fyrst ráðherrunum Páli Péturssyni og Guðna Ágústssyni og oft síðan.

Það er fyrst nú í aðdraganda kosninga árið 2007 sem ljáð er máls er breyttum vinnubrögðum við framkvæmd laganna. Þar með voru gefin fyrirheit um að - eins og segir orðrétt í stjórnmálaályktunum Sjálfstæðisflokksins frá því í aprílmánuði síðastliðnum - með leyfi forseta, að

"...við meðferð þjóðlendumála verði þess gætt í hvívetna að eignarréttur landeigenda og þinglýstar eignarheimildir séu virtar ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum sem jörðum fylgja."

Sá sem hér stendur hefur, öndvert við málflutning Sjálfstæðisflokks, haldið því fram að breytt vinnubrögð muni í engu breyta niðurstöðum ef ekki komi til endurskoðun þjóðlendulaga. Nú ber svo við eftir kosningar að á forsíðu Morgunblaðsins er skýrt frá því að þessu sé einmitt svo farið að breytt verklag,- með leyfi forseta: breyti ekki niðurstöðu - óbyggðanefndar og dómstóla.

Í huga landsmanna er Morgunblaðið að fornu og nýju talið málgagn Sjálfstæðisflokks og því er það spurning mín til hæstvirts fjármálaráðherra sem sér um að afla ríkissjóði þjóðlendna:

Er hans skilningur á hinu breytta verklagi hið sama og Morgunblaðsins og ef ekki mun Sjálfstæðisflokkurinn þá hirða um að koma réttum skilaboðum á framfæri til landeigenda og lesenda Morgunblaðsins.

Í öðru lagi,- mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því að þjóðlendulögin verði endurskoðuð á næstunni eins og fyrirheit voru gefin um í ályktunum Landsfundar flokksins.

(Sjá nánar á þingvefnum og þar sést að ég braut hér öll þingsköp með annarrar og þriðju persónu ávörpum - en Guðni Ágústsson segir að fall sé hér fararheill og guð láti þar gott á vita. Myndin er af Skjaldbreið sem er gott dæmi um land sem ríkið seldi og fékk heila jörð fyrir en stal svo aftur með þjóðlenduránskapnum. )


Sjómaðurinn í útrýmingarhættu

Guðmundur Ólafsson leikari flutti bráðskemmtilega sjómannadagsræðu í Grindavík í gær þar sem hann tegundagreindi sjómenn hafsins og lýsti lífsháttum þeirra, vaxtarlagi og mögulegum ógnunum stofnsins. Þ.e. stýrimanna sem orðnir eru vambmiklir og læradigrir af inniveru, skipstjóra sem eru enn verr á sig komnir og sægreifum sem eru einhverskonar myrkaverur sem forðast aðra af tegundinni.DSCN1281

Þetta innlegg var gott í umræðu sem er mjög alvarleg þessa dagana um samdrátt í þorskveiðum og morguninn í morgun fór í að hlusta á sérfræðinga Hafró um þau mál og vonandi næ ég að skrifa vitrænt um þau mál seinna.

En helgin var góð og best þegar við dakarfélagar spændum okkur inn jeppaslóða á Hrunamannaafrétti þó svo að leysingar í ám gerðu ferðir þær endasleppari en til stóð. Myndin hér á síðunni er af okkur Baldri og Hlyn inni í Tungufellsdal aðfaranótt laugardags!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband