Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
Kjósum af okkur Icesave
30.6.2009 | 11:31
Ég er í þeim hópi sem hefur óákveðinn þegar kemur að Icesave-málinu en eftir því sem meira í þeirri gjörð allri skýrist því mikilvægara sýnist mér að við Íslendingar höfnum samningunum eins og þeir liggja fyrir í dag og setjumst að nýju niður með "vinaþjóðum" okkar í Evrópu.
Auðvitað er samningsstaða okkar vond en þó ekki svo slæm að ekki megi útkljá málið fyrir dómsstólum og allt tal um að við verðum frystir í alþjóðasamfélaginu er hræðsluáróður. Því sama var hótað í landhelgisdeilunni og það er mikill misskilningur að halda að heimurinn versli við Ísland af vorkunnsemi. Við erum matarkista og það gildir meira en gagnslausar hótanir gamalla nýlenduvelda.
Nú er kominn af stað undirskriftasöfnun á vefnum kjósa.is þar sem heitið er á forsetann að sýna myndugleik og vísa Icesavemálinu til þjóðarinnar. Skrifum öll undir!
Kjarkur til sparsemi og kiðfættir vinstrimenn
28.6.2009 | 18:56
Mörg undanfarin ár hefur þjóðin verið á eyðslufylleríi og hið opinbera hefur þar gengið á undan. Nú þegar harðnar á dalnum er aðalleið ríkisins út úr vandanum að auka skatta. Það eru kiðfættir og klaufalegir ráðherrar sem nú stautast um án þess að þora öðru en að skattpína.
Ríkisvaldið ætlar áfram að ganga á undan með eyðslu og flottræfilshætti og skírasta dæmið þar um eru fyrirætlanir um að klára hið forkostulega tónlistarhús við höfnina. Fyrir brot af þeim peningi sem kostar að klára þá fordild mætti reisa fullt nógu stóra, fábrotinn en notadrjúgann tónlistarsal sem byggði á fjórum veggjum og þaki.
En það er ekki bara fordildin í tónlistarfólki sem má skera utan af nú þegar að kreppir. Hvarvetna sjáum við bruðl í rekstri sveitarfélaga sem reisa skólahús margfalt dýrari en þyrfti, leikskólar sem fyrir fáeinum árum gátu húsast í venjulegum húsakynnum eru nú tífaldir að verðlagi við íbúðarhús sem þó eru engir kofar á Íslandi. Í nútíma skólastofum sitja grunnskólabörn á snúanlegum skrifborðsstólum eins og þeim sem við systkinin öngluðum saman í handa karli föður okkar sextugum fyrir nokkrum árum af því að við héldum honum það hollt fyrir bakið, gömlum manninum.
Ríkið hagar sér ekkert betur í þjónustu sinni og byggir frekar 100 milljón króna hús fyrir fjóra á fjörtíu manna biðlista fatlaðra frekar en að sinna öllum og byggja ódýrt. Eins manns sjúkrahúsherbergin eru vitleysa af sama meiði.
Verst er þó bruðl Íslendinga þegar kemur að samgöngumálum og þegar kreppan reið yfir fyrir tæpu ári síðan var enn lag að stöðva fjölmargar óþarfar framkvæmdir. Ég ætla að taka hér til dæmis nokkur verk sem eru í gangi hér í nágrenni Selfoss og ég þekki ágætlega til. Framkvæmdir sem má réttlæta í góðæri en sjálfsagt að slá á frest í harðæri. Þar má nefna Bakkafjöruhöfn sem ólíkt ódýrara væri að leysa með hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar, Suðurstrandarveg sem tengir saman Grindavík og Þorlákshöfn og er ferðamannaleið sem nægilegt væri að sleikja malbiki ofan á gamla Ögmundarhraunsveginn í bili, Bræðratungubrúna sem engu mun breyta um megin samgönguleiðir í uppsveitum Árnessýslu en er þægilegur lúxus fyrir ferðamennsku og atvinnusókn Tungnamanna yfir í Gullhreppinn. Það fjórða sem var dæmafátt kjarkleysi hjá samgönguráðherra að skera ekki niður er fjórföldun á Suðurlandsvegi yfir Hellisheiði þar sem talsvert gagn gerir að gera veginn bara þríbreiðan að sinni og slá þá um leið á frest nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.
Það sem okkur vantar er stjórnmálamenn og flokkar sem þora að boða sparsemi og aðhald. Öðru vísi komumst við aldrei í gegnum þann skafl sem fram undan er...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þjóðarsátt eða krataklastur
27.6.2009 | 12:32
Ég veit að það er ljótt að stela og tekst yfirleitt að stilla mig um allt slíkt en þegar talið berst að hinni nýju þjóðarsátt get ég ekki stillt mig um að birta mynd sem datt inn í tölvuna mína af Moggavefnum. Hún segir eiginlega allt sem segja þarf um það að þetta sem kallað er stöðugleikasáttmáli og ku sátt um það eitt að Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson verði sammála um að Ísland lúti stjórn Jóhönnu og sigli inn í Evrópu. O tempora o mores...
(Semsagt, listræn ástarmynd rænt í pólitískum tilgangi af Moggavef, ljósmyndari að ég held Axel.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Æska landsins er mikilvægari en Icesave
26.6.2009 | 09:26
Samtök Fullveldissinna lýsa yfir andstöðu við fyrirliggjandi Icesave-samninga og lýsa undrun sinni á tilraunum ríkisstjórnarinnar til að hræða almenning og Alþingi með áróðri um einangrun þjóðarinnar frá alþjóðasamfélaginu verði samningarnir ekki samþykktir.
Samtök Fullveldissinna minna á skyldur ríkisstjórnar og Alþingis við æsku landsins og hvetur þingmenn til að minnast loforða sinna um að standa með þjóðinni í endurreisn landsins. Það er ekki gert með auknum skuldbindingum sem geta vegið að afkomu allra þegna hennar til frambúðar.
Alþingi ber skylda til að standa á rétti Íslands í Icesave-málinu og láta fara fram ítarlega úttekt á þeim þjóðréttarlegu atriðum sem það varðar. Í núverandi gerð stenst samningurinn ekki lög og milliríkjasamninga. Ákvæði EES samningsins og lög um Tryggingarsjóð Innstæðueigenda undanskilja ábyrgð ríkisins, sbr álit Ríkisendurskoðunar.
Sjá ályktunina í heild ásamt greinargerð: http://l-listinn.blog.is/users/a6/l-listinn/files/yfirlysing_25_06_2009.pdf
Klókindi eða kosningasvik?
21.6.2009 | 15:15
Páll Vilhjálmsson, Guðrún Guðmundsdóttir, Hans Haraldsson, Bjarni Harðarson og Erla Jóna Steingrímsdóttir skrifa:
Undirrituð sem eiga það sammerkt að hafa við síðustu kosningar kosið Vinstri hreyfinguna grænt framboð gera þá kröfu til þingflokks VG að hann standi heill og óskiptur að baki þeirri stefnu að berjast nú sem fyrr gegn ESB innlimun Íslands.
Fyrir kosningar lýsti formaður VG því yfir í sjónvarpsviðtali að flokkur hans væri í ESB málinu stefnufastur flokkur. Eftir kosningar lýsti sami formaður því yfir að það væri utan þess sem til greina kæmi í samstarfi við Samfylkinguna að lögð yrði fram aðildarumsókn að ESB þegar á yfirstandandi sumri.
Þrátt fyrir þessi loforð er nú komnar fram á Alþingi Íslendinga tvær tillögur sem báðar gera ráð fyrir að Ísland leggi fram umsókn um innlimun í Evrópusambandið. Framkomin tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undirstrikar að ESB andstæðingar áttu fáa valkosti í nýafstöðnum kosningum.
Nú er það ekki okkar sem kusum VG án þess að vera þar félagsmenn að ákveða í smáatriðum með hvaða hætti þingmenn þess flokks kjósa að standa við gefin kosningaloforð. Séu það klókindi og hluti af refsskák stjórnmálanna að VG leyfi Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að leggja fram almenna og opna tillögu fyrir Alþingi Íslendinga um samningaviðræður án þess að ætla að tryggja þeirri tillögu brautargengi er það ekki okkar mál. Þingflokkur VG hefur enn tækifæri til að standa við gefin kosningaloforð og möguleg vilyrði VG við samstarfsflokk sinn geta aldrei vegið þyngra á metum en svardagar sem gefnir voru kjósendum.
Nýleg Gallup könnun segir okkur að 76% allra kjósenda telur mikilvægt að efnt sé til þjóðaratkvæðis áður en Ísland leggur inn umsókn um aðild að ESB. Þar af telja 6 af hverjum 10 mjög mikilvægt að orðið sé við þessari kröfu. Undirritaðir sem kusu VG einkanlega vegna meintrar stefnufestu flokksins í Evrópumálum telja það mögulega málamiðlun að VG beiti sér fyrir slíkri kosningu en lengra geti flokkurinn ekki gengið til móts við ESB sinna án þess að hafa fyrirgert öllu trausti kjósenda sinna.
(Birt í Morgunblaðinu 19. júní sl.)
Í vornóttinni í miðsveitaröræfunum
20.6.2009 | 10:56
Það er ekkert sem kemst í hálfkvisti við það að ganga einn inn í vornóttina, fótblautur og hugsandi með eggjabrauð og vindlapakkann sinn eftir sögustund með Halldóri bónda á Litla Fljóti.
Þegar komið er upp fyrir fjölskrúðugar mannvistarleifar Litla Fljóts taka við miðsveitaröræfin með sínum lækjarlontum, mýrisnípum, köngulóm og endalausum mýrarkeldum, þjóðsagnalegum örnefnum eins og Draugatjörninni í landi Kervatnsstaða, fjárhústóftinni hans Odds í Arnarholti og Stjánatóttinni sem ku kennd við Kristján Gottfreð vinnumann.
Á miðri leið verður í veginum stóð sem trúir því að ég eigi brauð en samlokurnar báðar eru búnar og ekki laust við að ég verði skömmustulegur yfir græðginni. En það gleymist hálftíma seinna yfir rjómaís hjá Sævari bónda og skáldkonunni hans í Arnarholti sem hlæjandi ekur mér til baka að mínum bíl í hlaðinu hjá Halldóri.
Meðan sólin kúrir sig augnablik ofan í Brúarárskörðunum...
(PS: En allt kostar, í dag hefi ég harðsperrur og er sem betur fer ekki kona nú á kvennahlaupsdaginn!)
(PPS: Myndir: Litla-Fljótslækur, Draugatjörnin og Flókatjörn fjær, neðst Stjánatóttin í landi Kervastaða.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Loksins rök með ESB aðild
18.6.2009 | 13:24
Ég svaf frekar illa í nótt enda stöðugt með hugann við þá pólitísku klemmu sem ég er kominn í. Fram undir þetta hefi ég alltaf getað svarað því eftir bestu samvisku að það séu engin rök sem mæla með ESB aðild. Í gær og það sjálfan sjálfstæðisdaginn kom maður í búðina hjá mér og náði þar bæði skák og mát með eftirfarandi reynslusögu.
Jón nokkur býr í Hveragerði og fer dag hvern í sund. Í gær var sundlaugin í Laugaskarði lokuð vegna þjóðhátíðarfagnaðar á sundlaugarbakkanum. Ég þekki þetta, var sjálfur á svona samkomum með afa mínum ungur.
Nú varð Jón að aka allaleið á Selfoss. Ef í göngum í ESB þá verður vitaskuld óþarfi að halda upp á 17. júní og Hveragerðislaugin verður opin þennan dag.
Ergo eins og Kalli Sveins myndir segja: Það eru til rök fyrir því að Ísland eða allavega Hveragerði gangi í ESB...
Til hamingju íslenska þjóð
17.6.2009 | 11:16
Kratabelgur og ESB-sinni, stálgreindur stórvinur minn Egill Helgason skrifar um 17. júní á bloggi sínu:
Ég veit að margir spyrja sig hvernig í ósköpunum eigi að halda upp á hann, nú þegar mestallt traust er á bak og burt í samfélaginu.
Það langar engan að hlusta á innantómt ræðupíp.
Ef til vill fer fólk í bæinn og horfir bara hissa hvað á annað?
Ég er að vísu sammála þessu með ræðupípið og ekki ætla ég að gera minni sál þann grikk að hlusta á forsætisráðherra þetta árið. En íslensk þjóð getur horft með stolti yfir farinn veg þó svo að við höfum lent utan vega rétt á síðustu metrunum. Í því slysi fórst enginn og því ekki er hægt að laga.
Verum þess minnug að við erum að halda upp á afmæli manns sem fæddist 1811 í einu fátækasta ríki heims, kúgaðri Dananýlendu þar sem allar tilraunir til endurreisnar og uppbyggingar strönduðu á áhugaleysi og fjarlægð valdhafa suður við Eyrarsund.
Síðan við fórum að ráða okkur málum að nokkru sjálf og nutum endurreisnar íslenskra þjóðernisrómantíkera eins og Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar hefur okkur fleygt fram í efnalegum og menningarlegum efnum.
Áföll liðinna missera hafa fært okkur 20 ár aftur í tímann, gerum ekki lítið úr því, en samt erum við ein ríkasta þjóð heims og þar sem okkur hefur verið sjálfrátt hefur okkur farnast frekar vel. Þar sem við höfum falið útlendingum stjórn mála í landinu, s.s. með AGS og EES hefur okkur farnast illa.
Til hamingju með daginn íslenska þjóð og látum ekki bölsýni í kratabullum tala úr okkur kjarkinn.
Tortímingarhvöt íhaldsins
16.6.2009 | 08:16
Stjórnmálaflokkum sem eru komnir í vörn hættir til að taka upp einhverskonar læmingjaeðli en þjóðsögur eigna þeirri dýrategund að stunda reglubundin sjálfsmorð. Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar var haldinn slíkri veiki og nú er ekki fjarri lagi að Sjálfstæðisflokkurinn feti í spor hins þungstíga Halldórs.
Hin órofa samstaða sjálfstæðismanna í Kópavogi með áframhaldandi setu Gunnars Birgissonar í stóli bæjarstjóra er vitaskuld hrein endemi. Þó svo að Gunnar sé um margt besti kall þá er honum svo augljóslega ekki sætt lengur í stóli bæjarstjóra og á að standa upp. Það er einfalt mál.
Hér er hellt olíu á þann eld sem heitast brennur á Sjálfstæðisflokki og eiginlega grátlegt upp á að horfa.
Yfirskilvitlega verelsið
15.6.2009 | 12:34
...verelsið mitt hér undir súð á sólbakkanum er yfirskilvitlegur staður, ef til vill forn álagablettur eða viðkomustaður geimvera nema hvorutveggja sé því hér gerist það með reglubundnu millibili að það verða jarðskjálftar, hamfaraflóð af pappír, óheyrileg uppsöfnun veraldlegra auðæfa sem fyrir yfirskilvitlega krafta eru þó öll óseljanleg og þó einstök í sinni veru og allt gerist þetta þrátt fyrir svo annálaða snyrtimennsku að jafnvel í öllum árbókum espólíns hér innum og samanvið ættartölur evrópuskýrslur og goðfræði er hvergi getið um annað eins og má þó mikið vera þegar ekki er drepið fæti á atburð í þeim merku skruddum sem annars nefna allt sem nöfnum tjáir að nefna en þó þekkir espólín kallinn enga þá súð forna að tölvupóstar hafi þar jafn margbreytilega náttúru, hugmyndir jafn fjölbreytilegar birtingamyndir en konan mín sem er góð kona og ágæt og með góða endingu heldur stundum að allt hangi þetta saman við lélegt skyggni sem vill verða þegar tóbaksreykur hylur hér svo ekki sést millum herbergisenda sem þó eru innan við það sem sjómenn á loftsstöðum töldu faðm og vóru þó litlir en vegna gagnsemi tóbaksjurtarinnar fyrir alla vessastarfssemi er skilrúm þetta jafnan lokað og dugar við klausterfóbíu að leggja andlit að rúðuglugga þeim sem veit að fjöllum biskupstungna og höfuðbólum þarsveitis þar sem afar minnar konu héldu áður hreppsnefndarfundi með svipaðri mettun reyks og hafði óheyrileg áhrif á mína ungu konu sem í þá árdaga var til fósturs innanlegs og alla tíð síðan sólgin í vindlareyk annarra og ein manna fær hér fararleyfi að glugga þeim fyrrnefndnum og sér þá í og til bjarnafells þegar ekki sé tré í blóma og ský á himni og hellist þá jafnan andi yfir en skarpskyggni með þrátt fyrir andnauð reykmettun svifryk og mannaþef en hvað sem líður ást minni á óbreytt ástand hafa örlögin nú mig með harðneskju knúið til aðgerða þar sem brátt er ekki lengur rúm fyrir handarhreyfingar þær sem þarf þeim sem vill við tölvu sitja og vindil reykja utan að í fyrstu séu losaðir hrákadallar og tóbaksílát en gengið til jarðgerðar með nokkur kvartil pappírs item kaffiílát teknir til þvátta...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)