Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Af álfum og afbragðsmanni

Í fjarveru okkar góða varaformanns sem er við kosningaeftirlit í Rússlandi settist afbragðsmaðurinn Jón Björn Hákonarson frá Norðfirði á þing í gær og sló nýtt þingmet eins og frægt er orðið. Kappinn var semsagt ekki jómfrú lengur en 17 mínútur sem er fádæmi þó mörgum hafi tekist að komast í ræðustól sinn fyrsta dag. 20070112144113890

Það var í umræðu um eignarhald á bújörðum sem Jón Björn talaði í einnar mínútu ræðu en lengur megum við óbreyttir ekki tala í fyrirspurn sem þessari. Málið var kveikt af félaga Birki Jóni og er þarft umræðuefni. Sjálfur vakti ég þar athygli á nauðsyn þess að tryggja aðgang almennings að landinu, jörðunum sem æ fleiri lenda nú bakvið læst hlið svokallaðrar tvöfaldrar búsetu. Ég hef raunar lengi talið að þessir gömlu sögustaðir séu þeirrar náttúru að allir landsmenn þurfi að eiga þangað aðgang. Ræðan var reyndar bara mínútu löng og fyrir

Þó ég sé almennt hlynntur frjálsum viðskiptum með land og með jarðir þá held ég að það séu ákveðnir hlutir sem hér er að varast og við sjáum þegar smámerki um þá í því að einstakir auðmenn hafa keypt upp mjög stór landsvæði. Ég legg áherslu á það eins og ég hef gert áður í þessu ræðupúlti að við þurfum að tryggja aðgengi og við þurfum að lagfæra löggjöfina varðandi aðgengi allra að löndum og takmarka rétt landeigenda til að girða lönd alfarið af. Raunar er eignarhald á jörðum, þessum gömlu sögustöðum sem jarðirnar eru, háð nokkuð öðrum annmörkum heldur en eignarhaldi á annars konar eigum og við skulum ekki gleyma því að þetta eru menningarstofnanir, jarðirnar. Fólk rekur ættir sínar til þeirra og heima á gömlu jörðunum búa ekki bara menn, þar búa huldar vættir og draugar og lögin þurfa að taka mið af þessu öllu saman.

Nokkra athygli vakti að álfar og draugar skyldu komast í ræðupúlt  og jafnvel kátínu manna en landbúnaðarráðherra vék að þessu í lokaorðum málsins:

Að lokum þetta. Athyglisverður punktur kom fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni varðandi álfa, huldufólk og drauga. Ég er að vísu ekki vel (Forseti hringir.) kunnugur þeim efnum. En ég hef aldrei vitað til þess að álfar, huldufólk og draugar kynnu ekki sæmilega við sambýli við auðugt fólk.

Víst og víst hafa draugar gaman af ríkisbubbum en við sem lesum draugasögur, rekjum ættir okkar til manna sem gengu í björg álfa og vitum að landið er meira en bara eign á þinglýsingarskjala,- viljum eiga aðgengi að helstu kennileitum þjóðsagnanna á Myrká, Rimakoti og Háfi héreftir sem hingaðtil...

Auðvitað á ég að blogga um fjárlögin í dag á fjárlagadegi sem eru rædd hér í dag og verða rædd í alla nótt til morguns. Mikilvæg umræða og ég þarf að vera í hlutverki sem talsmaður flokksins í fjárlagamálum. Leið reyndar eins og ég væri að fara í próf þegar ég sofnaði í gærkvöldi með rit Seðlabankans um Peningamál í fanginu en meira um það allt síðar...


Þegar ég varð kaffidama...

Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur lagt fyrir þingið tillögu um að hætt verði að nota heitið ráðherra og þess í stað fundið hæfilegt kynlaust starfsheiti. Ég er þingkonunni sammála að hér er breytinga þörf en konan mín sem þekkir mig betur en ég sjálfur segir að ég sé að verða silkimjúkur í skoðunum, - gott ef ekki hálfgerð kelling! Og auðvitað er það ekki bara Steinunn Valdís sem hefur rétt fyrir sér, kona mín hefur það líka,- og hún hefur það alltaf sem er nú meira en hægt er að segja um nokkurn þingmann Samfylkingar. Elin_Gunnlaugsdottir

En jæja, þetta er orðinn svoldill inngangur að stuttri sögu. Það er nefnilega ástæða fyrir þessari afstöðubreytingu. Það er reynsluheimur (sár og djúpur )sem ég bý yfir og hef ákveðið að deila með ykkur, kæru lesendur.

Fyrir liðlega ári síðan ákvað ég að leggja fyrir mig pólitík eftir langan feril sem blaðamaður og hætti um leið í blaðamennskunni enda fer hún illa saman við pólitíkina. Um svipað leyti stofnuðum við hjónin lítið kaffihús  og ég taldi því heppilegast að starfsvettvangur minn samhliða prófkjörsbaráttu væri í kaffihúsinu. Ég starfaði semsagt við það að hella upp á kaffi, framreiða kökur og selja bækur því kaffihúsið er um leið bókabúð og notaði tvo titla sem mér þóttu báðir hæfa af þessu tilefni, semsagt bóksali og kaffidama. Það vita allir að það er ekkert til sem heitir kaffidrengur, kaffisveinn eða kaffistrákur en kaffidama er þekkt hugtak yfir starfsstúlkur sem framreiða kaffi. Í anda þess jafnréttis að konur kalla sig í dag ráðherra og skipstjóra taldi ég mig vera kaffidömu. Jæja!

Nánir vinir mínir hvísluðu að mér að þetta væri MJÖG óviðeigandi án þess að útskýra það nánar. Ókunnir sem ráku nefið inn í búðina og heyrðu þessu hent á loft brugðust við eins og upp hefði komið eitthvað óviðurkvæmilegt og ónefnanlegt. Þar sagði líkamstjáning og þögn miklu meira en nokkur orð og sagði mikið.

Þetta minnti mig á atvik sem ég lenti í sem ungur maður árið 1980. Þá vann ég í frystihúsi austur á landi, í móttökunni. Það var frekar lítið að gera og við yfirleitt sendir heim klukkan 5 og launin því fyrir litlu meiru en mat og gutlandi póstkröfum. Svo gerist það einn daginn að Lolla vinkona mín sem vann á borði inni í sal segir við mig að það sé alltaf kvöldvinna hjá krökkunum í humrinum, þau standi jafnvel við smátittir til 10 á kvöldin. Við þangað og verkstjórarnir þar tóku okkur fagnandi enda svo mikið að gera og 11 og 12 ára krakkaskammirnar dauðþreyttir á löngum degi. Þetta gekk í tvö kvöld,- þá fór að spyrjast út um húsið: Það eru strákar á borði og setningin var sögð með sömu ógeðstilfinningunni eins og það hefði átt sér stað einhver kynferðislegur glæpur inni í húsinu. Og okkur var leyft að vera gegn því að við létum okkur ekki ALDREI detta þetta í hug aftur!21680

Síðan hefur margt lagast í frystihúsunum en áfram lifa þeir fordómar að karlar geta ekki tekið sér neitt það í munn sem konu tilheyrir öðru vísi en að niðurlægja sjálfan sig. Kona skal aftur á móti verða af því montnust að mega nota titil karls. Meðan við hugsum svona næst ekki jafnrétti. Þessvegna fagna ég tillögu Steinunnar Valdísar þó ég vilji reyndar miklu frekar sjá þá breytingu verða í samfélaginu að karlar fari einfaldlega að kalla sig starfstitlum kvenna þar sem það á við!

Höfundur er alþingismaður, bóksali og kaffidama

(Birt í 24 stundum sl. laugardag.)


Spillingarumræðan og Framsóknarflokkurinn

Fátt er okkur Framsóknarmönnum eins erfitt í pólitískri baráttu eins og fullyrðingar andstæðinga okkar um að flokkurinn tengist pólitískri spillingu með einum eða öðrum hætti. Ég hefi nokkuð skrifað um þetta í blöðum og ákvað að setja þær greinar hér saman á einn stað.

Þessi umræða kemur reyndar víðar við. Finnur Ingólfsson fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins var í sjónvarpsviðtali hjá Sigmundi Erni á Stöð 2 í gærkvöldi og var þar meðal annars þjarmað að honum í þessum efnum. Í heildina þótti mér Vesturkotsbóndinn fara vel frá umræðunni þó ekki ætli ég að leggja neitt mat á einstaka þætti þess sem spurt var um. Það er mér og öðrum þeim sem nú sitja á þingi fyrir flokkinn einfaldlega óviðkomandi.

Um REI málið, spillingu og Framsóknarflokkinn

Spilling í stjórnmálum og aldur stjórnmálaflokka

Pólitískar ákvarðanir og Framsóknarhugsjónir

Stjórnmálaspillingin, samstaðan og samtryggingin


Stjórnmálaspillingin, samstaðan og samtryggingin

Fyrir ekki mörgum árum var það plagsiður í öllum stjórnmálaflokkum að liðsmenn flokkanna vörðu einfaldlega allt sem flokksbræður þeirra gerðu (flokkssystur á þeim tíma voru einhversstaðar bakvið eldavélar!) Þessi varnarbarátta fyrir allt sem til flokknum heyrði átti jafnt við í pólitík sem atvinnulífi. Menn kepptu í liðum eins og fótboltabullur.TUmorrison2

Þetta andrúm átti sér hæli í veruleika flokksblaða og var um sumt arfur frá gamalgrónu feðraveldi bændasamfélagsins og  sterkri héraðamenningu. Á þessum tíma var ekki almennt að gera greinarmun á eðlilegri samstöðu og grímulausri samtryggingu en á þessu tvennu er þó mikill munur og hverjum þeim sem tekur þátt í stjórnmálum 21. aldarinnar mikilvægt að gera hér mun á. Enn hættir mér til að hugsa á þessum nótum, bæði varðandi Framsóknarflokkinn og ekki síður ef í hlut eiga menn úr minni æskusveit, Biskupstungunum, vegna Þórbergskra tilfinninga til þeirrar sveitar.

Eðlileg samstaða flokksmanna

Innan allra félaga er það með vissum hætti dyggðugt að menn sýni samstöðu og ræði ágreiningsmál innan félags en beri þau ekki fram meðal almennings. Þegar stjórnmálamaður tekur stefnumarkandi pólitíska og fylgir henni eftir þá má hann búast við gagnrýni og það er hinn eðlilegi þáttur lýðræðisins.

Meðan umræddur gerningur er í alla staði heiðarlegur og gengur ekki gegn stefnu flokksins er eðlilegt að viðkomandi stjórnmálamaður sé á opinberum vettvangi næsta öruggur gagnvart gagnrýni eigin flokksmanna og geti einbeitt sér að orrahríð pólitískra andstæðinga. Þetta er sú heilbrigða samstaða sem stjórnmálaflokkar veita og jafnframt má alltaf búast við að einhverjir flokksfélagar vilji ræða innan flokks ágreining sinn við tiltekna stefnu eða stjórnarathöfn.

Pólitísk samtrygging

Heiðarleikinn og einlægnin í hinni pólitísku samstöðu er sambærilegur

Hjá okkur Framsóknarmönnum hafa þau sjónarmið orðið langæ að ævinlega skuli tekið til varna fyrir alla okkar liðsmenn þegar á þá er ráðist, hver svo sem málefnastaðan er. Að hluta til endist þetta okkur af því að við erum íhaldssamir á hefðir, félagatryggir og flokkshollir. Að hluta til af því að við erum fáir og finnum meira til samkenndarinnar fyrir vikið. Mest þó vegna þess að flokkur okkar er gamall og rótfastur. Allt dyggðugar hugsanir. Ég er þess reyndar fullviss að sama anda gætti lengi í Alþýðubandalaginu enda var sá flokkur arftaki hins aristokratíska Kommúnistaflokks.

Umræðan um REI málið er mjög dæmigerð fyrir það sem hér er til umræðu þar sem nokkrir óbreyttir framsóknarmenn í bloggheimi og víðar töldu sér skylt í nafni flokksins og samstöðu innan hans að verja allt í málinu sem viðkom einstaklingum sem hugsanlega voru taldir Framsóknarmenn, jafnvel kauprétti einstaklinga og forleiki málsins sem þó voru unnir í því myrkri að engri af stofnunum flokksins var þar trúað fyrir staf af því sem var að gerast. Málið var og er Framsóknarflokki, stofnunum hans og stefnu í reynd óviðkomandi og það ber að meðhöndla það með þeim hætti. Það hefur öll forysta flokksins gert og mikilvægt að óbreyttir flokksmenn skekki ekki þá mynd.

Hve lotlegur væri þá Geir

Sama á við um einstakar ávirðingar um gerðir einstaklinga í viðskiptalífinu sem síðan eru spyrtir við Framsóknarflokkinn af því að þeir hafi setið í nefnd fyrir flokkinn eða verið í öðrum störfum fyrir hann. Ekki tekur Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á öllu því sem einstakir flokksfélagar þess flokks gera enda væri þá lotlegri vor ágæti forsætisráðherra, Geir H. Haarde.

Það er fljótsagt að flokksleg samábyrgð af því tagi sem hér er rætt um er bæði úrelt og á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða samtímans. En einmitt þessi þankagangur samtryggingar er okkar stærsta sök í þeim neikvæða stimpli sem almenningsálitið hefur ranglega klínt á Framsóknarflokkinn.

Krafa samtímans er að vandaðir stjórnmálamenn allra flokka myndi breiðfylkingu gegn sérgæsku og spillingu, hvar sem hún lætur á sér kræla og hviki hvergi í þeirri baráttu þó svo að eigin flokkssystkin eigi þar í hlut.

(Aðeins birt hér á heimasíðu.)


Pólitískar ákvarðanir og Framsóknarhugsjónir

revolutionÉg hefi í fyrri greinum um spillingarmál fjallað nokkuð um þau endemi að Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn skuli taldir spilltari en önnur stjórnmálaöfl í samfélaginu, m.a. með umfjöllun um hin makalausu REI-mál. En er eitthvað í hugsjóna- eða skoðanagrunni Framsóknarflokksins sem kallar öðru fremur á þennan stimpil. Svarið við þeirri spurningu er já,- svarað af hreinskilni manns sem situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.

 

Hið faglega vald

Það vill til að öfugt við hugmyndafræðinga núverandi stjórnarflokka þá trúum við Framsóknarmenn á ágæti hins pólitíska og lýðræðislega valds. Meðal krata og sósíalista allra þjóða er títt að trúa framar öllu á svokallað faglegt embættismannavald. Grundvallarhugsunin er þá að hægt sé að mennta sig til þess að komast að réttlátum og hlutlausum niðurstöðum. Þetta á sér beina samsvörun í hina útópísku sýn gamalla kommúnista um vísindalega stjórnun samfélagsins.

Í reynd eru niðurstöður þessa að í fyrsta lagi felum við fjarlægum nafnlausum embættismönnum alltof óskorðað og yfirdrottnandi vald, líkt og gerðist í Sovétríkjunum gömlu og gerist í dag í Evrópusambandinu. Í öðru lagi er slíkt andlitslaust vald gróðrastía spillingar og misneytingar. Þetta var um vinstri síðuna og á vitaskuld ekki síður við hina stjórnunarglöðu sósíalista vinstri grænna.

Hliðarkenning við hið kratíska fagvald er trúin á beint lýðræði kosninga um einstök mál sem hin spaugilega álverskosning í Hafnarfirði er gott dæmi um og þarf þar ekki fleiri orð um að hafa.

 

Hið kapítalíska vald

Alþekkt er gum hægri sinnaðra Sjálfstæðismanna af formanni sínum Davíð Oddssyni fyrir það að hann hefði í stjórnartíð sinni dregið úr valdi sínu. Fært valdið frá stjórnmálamönnum yfir til samfélagsins. Það orkar reyndar mjög tvímælis hvort eitthvað er hæft í þessu en í þessum órum liggur draumsýn frjálshyggjumanna. Að vald skuli vera í höndum kapítalistanna sjálfra, hinna sterku.

Þannig eigi að leggja sem minnstar skorður við athafnafrelsi allra manna og leyfa helst allt sem kapítalisminn telur sér gróðavænlegt. Sömuleiðis eigi að láta hverja þá þróun sem verður í samfélaginu afskiptalausa, hvort sem er hröð samþjöppun byggðar eða aukin misskipting tekna, svo dæmi séu tekin.

En látum ekki blekkjast af því að hið kapítalíska frelsi sé vald fólksins, það er vald hinna fáu yfir hinum mörgu.

 

Framsóknarhugsjónir

Öfugt við þetta allt trúum við Framsóknarmenn á meðalhófsregluna og ágæti hins pólitíska valds í lýðræðisríki. Eigum okkar hugsjónagrunn í samhjálp, þjóðlegum gildum og átthagatryggð. Trúum á lýðræðið og að fulltrúar þess séu þeir sem kjörnir eru til að fara með valdið fyrir hönd fólksins. Kjósendur hafi enda möguleika á að kjósa sér nýja fulltrúa séu hinir fyrri þeim ekki að skapi.

Hvort sem rýnt er í söguna eða grúskað í heimspeki og stjórnmálakenningum hefur mönnum ekki tekist að finna gæfulegri leið til þess að koma valdinu til almennings. Það er því raunalegt að heyra menn nota hugtakið "pólitísk ákvörðun" eða "pólitískt vald" sem skammaryrði meðan geðþóttaákvarðanir embættismanna og alræði fyrirtækjaforstjóra er hvorutveggja talið hafið yfir alla gagnrýni og umræðu.

Við Framsóknarmenn þorum að gangast við því að vera talsmenn hins pólitíska valds enda er það brjóstvörn lýðræðis og frelsis í heiminum. Fyrir þær sakir eru við ómaklega sakaðir um pólitíska spillingu og orðið pólitík notað sem skammaryrði. Þeir sem þannig tala eru um leið að vega að raunverulegu lýðræði og frelsi almennings til að ráða sínum málum. 

(Birt í Morgunblaðinu snemma í nóvember.)


Af Jónasi, Hrafni Jökulssyni og sjálfum mér

Hef verið afar lélegur í blogginu undanfarið og helgast af mikilli vinnu enda eru fjárlög nú í lokaundirbúningi og eins gott að standa þar vaktina. Fjölmargir umsækjendur hafa samband þessa dagana og tossalistinn yfir það sem ég hefi lofað að hafa auga með er orðinn langur.

Í síðustu viku fóru lausar stundir í að banga saman fyrirlestri um Jónas Hallgrímsson sem ég var búinn að lofa Hreppamönnum á Jónasarvöku þar efra. Var með í maganum fyrir flutninginn dögum saman enda svosem enginn sérfræðingur í þjóðskáldinu. En datt samt í hug að færa rök fyrir að Jónasi hefði með öðrum þjóðernisrómantíkerum tekist að gera það sama fyrir langkúgaða íslenska þjóð og sálfræðingar gera fyrir fólk með brotna sjálfsmynd þegar þeir segja fólki að horfa í spegil,hrafn brosa í spegil og jafnvel segja við spegilinn, þú ert æðislegur, þú ert fallegur. Jafnt þó þeir viti að þetta er lygi sem þeir segja delikventunum að segja við spegilinn þá lukkast þetta og verður að lokum satt. Söm er aðferð þjóðernisrómantíkurinnar á öllum tímum. Meira um þetta síðar,- ég er að fínpússa fyrirlestur þennan og geri ráð fyrir að gera úr honum blaðagrein!

Að loknum Jónasi var komið að stórvini mínum Hrafni Jökulssyni sem sendi mér og þjóðinni allri smá part af snilli sinni í bókinni Þar sem vegurinn endar. Bók sem er í heild ein samfelld veisla fyrir fagurkera málsins, vini landsins og alla sem hafa gaman af frumlegum hugsunum. Að síðustu óður til Árneshrepps sem Hrafn á fóstur að launa og situr nú vetrarlangt með konu sinni á hveitibrauðsdögum. Öllu þessu lýsir Hrafn í þesskonar látleysi að hver maður getur samsamað sig höfundinum, hann er nálægari í stíl sínum en ég hefi lengi séð.

IMAGE_034Eftir sem áður sit ég svo hér uppi með sjálfan mig nálægastan sem mér þykir reyndar yfirleitt gott nema þegar kemur að því að taka til en í dag er draslið á skrifborðinu mínu hér í súðarherberginu á Sólbakka orðið svo yfirgengilegt að það þýðir ekki lengur að slugsa við lyklaborð tölvuskammarinnar...


Framsóknardyggðir og framtíðarsýn Framsóknar

(Ræða flutt á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í Ketilhúsinu á Akureyri laugardaginn 10. nóvember. Birtist hér í fullri lengd en var stytt nokkuð í flutningi þar nyrðra vegna eðlilegra takmarkana á ræðutíma. Hér hefur millifyrirsögnum líka verið bætt inn til að gera textann allan læsilegri. Margar gagnlegar ábendingar fékk é g á fundinum, bæði í spjalli og úr ræðustól sem ég felli ekki inn í þennan texta en sumt hefur áhrif á það hvernig ég mun skrifa um sömu mál í blöðum á næstu dögum og mánuðum. Fundurinn var allur hinn ánægjulegasti og einkar vel til fundið að halda fundi sem þessa utan höfuðborgarsvæðisins þar sem ákveðinslökun og skynsemi færist jafnan yfir þegar út fyrir mesta stresspottinn kemur. Móttökur Norðanmanna voru frábærar og ekki voru veðurguðirnir Eyfirsku lakari!)

Fyrir um ári síðan sagði við mig viðskiptavinur í bókabúð þeirri sem ég rek á Selfossi að kona sín væri haldin framsóknardyggðum, eiginlega afsakandi um leið og hann rétti mér greiðslu bókar í beinhörðum peningum. Framsóknardyggðin var semsagt að nota reiðufé í stað plasts...

Ég hváði svolítið við og fór eftir þetta að spyrja eina og aðra hvort þeir þekktu þetta hugtak, framsóknardyggðir og það var nú frekar fátíðara. En orðið, - með þessari samsetningu á dyggðum og framsókn var engu að síður merkingarbært fyrir þessu fólki og vakti mig til umhugsunar. Þeir voru vitaskuld til sem reyndu að leggja í orð þetta neikvæða merkingu einhverra  klækimennsku stórkalla.

Hinir voru þó miklu fleiri sem af vinsemd nefndu í gamansömum tón dyggðir eins og þjóðrækni, sparsemi, hófsemi, ættrækni og trúmennsku fyrir nú utan þá sem komu með spaugileg dæmi eins og það að ganga í stígvélum og lopapeysu, borða slátur, rækta kartöflur eða éta svið. Og sárasjaldan voru menn mjög ósammála í fjörlegum umræðum sem um þetta spunnust og ég gætti mín sem aldrei áður að vera hér fremur hlustandi en veitandi í orðapottinn.

310101

Einhverjum kann að þykja það ganga vitleysu næst að ræða um svo léttvæga hluti sem þessa á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. En eins og þeir þekkja sem lagt hafa stund á mannfræðigreinar að þá er yfirleitt mest alvara umræðunnar fólgin í vel heppnuðum gamanmálum. Gamanmál sem hitta eru mörkuð hinni römmu speki að þeim fylgir nokkur alvara.  Gamanmálalaus umræða er miklu oftar sennileg til að vera líka merkingarlaus og algerlega sambandslaus við umhverfi sitt og veruleikann.

En þessir undarlegu sleggjudómar um framsóknardyggðirnar hafa nú velst þráfaldlega um í mínum gráa kolli í fullan meðgöngutíma fíls og mál að láta hér nokkuð af fæðast.

 

Engar falskar nótur

Orð eru merkingabær og stjórnmál eru skorðuð af þeim merkingum. Sósíalismi og frjálshyggja eru skýrt afmörkuð hugtök þó svo að blæbrigðamunur geti verið á þeim sem þessum stefnum fylgja. Þegar kemur að hugsjónum framsóknarflokksins er vandamálið örlítið flóknara. Við getum ekki flett upp í bókum þeim sem skrifaðar eru um stjórnmálakenningar og leitað þar undir eff-inu og kannski gefur þetta okkur ákveðið frelsi til að spila af fingrum fram líkt og góðir djassarar eiga til að gera og heitir með þjóðum að impróvisera og eru þeir menn aldrei tærari í sinni list. En líkt og djassleikararnir þá byggir pólitískur fingraleikur á ákveðnum reglum og engin nóta má vera falskt slegin. Pólitískur trúverðugleiki er því enn vandasamari í svo opnu kerfi.

Ég tel að hann liggi þar að slegið sé í takti sem er í samræmi við skilning almennings á Framsóknarhugtakinu sem hefur ákveðna merkingu fyrir fólki, - kannski breiða og á köflum opna en samt merkingu. Ef tónarnir passa ekki við þá mynd er alveg sama hvernig allt annað verkast, trúverðugleikinn er fyrir bí og tónverkið, hin pólitíska sinfónía hljómar falskt.

Ég ætla ekki að gera hér að umfjöllunarefni öll smáatriði þess hvernig Framsóknarflokkurinn þarf að yfirfara og endurskoða sína stefnu. Oft er deilt um hvort í pólitík skuli horft í baksýnisspegil - hvort það sé til nokkurs yfir höfuð að horfa til baka og það er rétt að slíkt gláp er tilgangslaust nema það sé liður í því að rata inn í framtíðina. Gildir bæði í akstri og pólitík.

dyrasaga-1

Kýrrassa tók ég trú

traust hefur reynst mér sú.

Í fjósinu fæ ég að standa

fyrir náð heilags anda.

Svo orti hinn vesturheimski fjósamaður, hagyrðingur og snillingur Kristján N. Júlíusson, Káinn öðru nafni. Mig langar til að víkja aðeins nánar að þessum sérstæðu trúarbrögðum okkar Káins hér á eftir.

 

Endalok eða nýtt upphaf!

Framsóknarflokkurinn hefur glímt við þau vandamál að vægi þeirra byggða og þeirra stétta sem hann hefur helst reitt sig á hefur ekki verið vaxandi í samfélaginu og margir hafa óttast að þar með hljóti vegur flokksins að fara minnkandi. Þegar við bætast áratugalangar efasemdir ´- í meira en hálfa öld eða allt frá seinna stríði - efasemdir um þjóðræknishugsun í stjórnmálum í heimi aukinnar hnattvæðingar er okkar flokki nokkur vorkunn að villast útaf sporinu. Eða hvað hefur nokkur heimur við Framsóknarhugsun að gera nú þegar jafnvel eins og gömul vinkona mín í hreppunum sagði með þjósti,- það eru meira að segja komnar tuuuulvur.

Eru framsóknardyggðirnar ekki dæmdar til endaloka, er ekki tímabært að flokkur okkar þvoi af sér sveitasvipinn með því að henda frá okkur tveggja alda þjóðernisrómantík, útúrborulegri kýrrassatrú eða búauðgistefna að ég tali nú ekki um endalausar áherslur á átthagafræði og byggðapólitík sem ekki snertir nema fimmtung þessarar þjóðar og færri með ári hverju.

Við getum í staðin orðið borgarsækinn, alþjóðlega þenkjandi nútímalegur flokkur, laus undan rímnastagli og fjósalykt kýrrassatrúarinnar.

Það er kannski ekki fallegt að orða hlutina svo hreinskilnislega sem ég geri hér en ég held að hugsun af því tagi sem ég færði hér í óheflaðan búning hafi þráfaldlega látið á sér kræla í leit flokksins að nýjum löndum, nýjum kjósendum, nýjum stefnumiðum. Það er ekki við neinn að ásakast í þeim efnum og fjarri því að vera hermt upp á fáa leiðtoga, þetta er andrúm samfélags næstliðinna áratuga og ekkert skrýtið eða flókið við það. Framsóknarflokkurinn stendur hér millum þeirra vita, áttlaus eins og Hólamenn urðu um árið á Holtavörðuheiði og staður í að gera það upp við sig hvert skuli haldið,- endar máske eins og þeir norðanmenn á að grafa sig í fönn og verða úti. Þá er illa.

En nú eru þeir dagar upp runnir að heimsmyndin er að breytast,- ekki af því að hnattvæðingin sé fyrir bí heldur af því að hún er orðin svo mikil. Sú hugmynd að þjóðrækni og átthagatryggð væru deyjandi hugsjónir var giska algeng fyrir nokkrum áratugum en með aukinni alþjóðavæðingu, harðnandi alþjóðakapítalisma og minnkandi heimi hefur þjóðmenningin um heim allan snúist til varnar og augu heimsbyggðarinnar lokist upp fyrir því hve sérstaðan, þjóðernið og ja, raunar bara þessar gömlu rykföllnu framsóknardyggðir, eru mikið verðmætar og áherslan í þeim efnum er alltaf að aukast. map_scotland

Við sjáum þetta í landi okkar með sífellt auknum áhuga á hinni sérstæðu þjóðmenningu, nýrri og gamalli. En við sjáum þetta ekki síður á ferðalögum með sífellt vaxandi áherslu byggðalaga á rætur sínar, þjóðernishópa á sérstöðu sína, landssvæði á sjálfstæði sitt, fólksins á verðmæti hins smáa.

 Inúítar í Grænlandi og Kanada, Færeyingar, Samar og nú síðast Skotar eru allt dæmi um smáþjóðir hér á okkar hjara veraldar sem risið hafa upp á allra síðustu árum, einmitt þegar alþjóðavæðing í anda Disneys og Börs Börssonar hélt sig vera að mylja allt ofan í svörðinn. Tilraunir stórþjóða til að fletja út sérkenni hinna smáu eru ekki bara að mistakast heldur teljast þær allt að því óhæfa og illvirki í þeim samtíma sem nú er að renna upp. Greenfeld_000

Bandaríska fræðikonan Liah Greenfeld sem hingað kom 17. Júní síðastliðinn segir í bók sinn fimm vegir til nútímans að af öllum þeim ráðandi hugsjónum samtímans sé engin eins sterk og þjóðhyggjan og styrkur hennar fari vaxandi í heiminum. Til fleiri fræðimanna mætti vitna þessu sambandi en sjálfum hýrnaði mér um hjartarætur að sjálft Morgunblaðið skyldi í itarlegri umfjöllun um konu þessa nota sama hugtak til þýðingar á notkun hennar á orðinu nationalism eins og Jón Sigurðsson formaður okkar fyrrverandi notaði til að orða það mikilvægasta í stefnumáli okkar flokks.

 

Hin napra mynd af Framsókn...

Í þessum samtíma telst ekki trúverðugt að Framsóknarflokkurinn yfirgefi og fyrirlíti þau gildi fullveldis og sjálfstæðisbaráttu sem hann var talinn standa fyrir, bregðist sínum minnstu bræðrum í bændastétt og landsbyggðarlýð á ögurstund í nútímalegri krossferðarleit að kjósendum í blokkarhverfum nýrrar aldar. Því hvernig á blokkarfólkið að treysta þeim flokki sem ekki stendur með sínum gömlu liðsmönnum. Fer þá brátt fyrir okkur eins og segir í Lúkasarreglunni að frá þeim sem ekki á mun tekið verða en hinum sem mikið hefur mun gefið verða. 1438306_6-jonsig

Höfum þetta hugfast því ég held að í þessari nöpru mynd af Framsóknarflokknum liggi mikið af fylgishruni flokksins á síðustu árum og ég held líka að sóknarfæri flokksins á nýrri öld liggi í því að heimfæra hinar gamalgrónu og sveitalegu framsóknardyggðir upp á nýja tíma, varðveita þær en fordjarfa þeim ekki. Nútimavæða þessar hugsjónir og færa þær fram sem heilsteyptur flokkur og þá mun okkur vel farnast, jafnt úti á landi sem á suðvesturhorninu. Þriðjungsfylgi á landsbyggðinni getur sjálfkrafa skilað okkur sjöttungsfylgi á suðvesturhorninu og þá er betur en nú.

Auðvitað úreldast einstakar skoðanir og margt af því sem við stóðum fyrir í eina tíð á ekki erindi í dag. Mér líst ekkert á að stofna samvinnufyrirtæki í verslun í dag og hefi efasemdir um gildi kílræsa sem voru okkur í eina tíð mikil hugsjón. En það er ekki bara misskilningur heldur beinlínis heimska að halda að hugsjónir úreldist - þær eru ævarandi. Hugsjón samvinnumannanna fyrir 100 árum var að vinna að málefnum neytenda í heimi harðrar einokunarverslunar og fákeppni og þar er enn erindi og síst  minna. Hugsjónir mýrarframfræslunnar var að gera landinu gott út frá þekkingu og forsendum þess tíma og slík ást á landinu er alltaf gild.

Fullveldishugsjónir og áræði!

Fullveldishugsjón íslenskrar þjóðar er mikilvægari nú en nokkru sinni þegar skrifræðisblokk hnignandi efnahagsveldis suður í Brussel horfir gráðugum augum á okkar litla en ríka land. Allt frá dögum Hriflu-Jónasar hefur Framsóknarflokkurinn verið áræðinn flokkur í utanríkispólitík sinni og á að vera það á nýrri öld. En það er útilokað og í algerri mótsögn við grundvallarhugsjónir Framsóknarstefnunnar að gera Framsóknarflokkinn að Evrópusinnaflokki. Þjóðin á sér einn miðjuflokk með þá skoðun og það er mín trú að hún muni á næstu árum eignast stóran hægri flokk með sömu meinlokuna. Í Sjálfstæðisflokki stendur Davíðsarmurinn einn á móti og veldi hans fer hratt minnkandi. Þegar að því kemur að risaeðlan í íslenskum stjórnmálum kýs að velta sér á hina hliðina - það styttist í það - þá er mikilvægt að Framsóknarflokkurinn hafi hér náð vopnum sínum og markað sér stöðu sem flokkur andvígur Evrópusambandsaðild. Þið fyrirgefið bersöglina í viðkvæmu máli en ég hefi aldrei trúað á tæpitunguna.

En ég vil að menn átti sig á að þar með þarf enginn klofningur að verða í okkar flokki,- fjarri því. Af fjórflokkunum gömlu hefur Framsóknarflokkurinn einn borið kápuna á báðum öxlum í Evrópumálum og ekki beint hagnast af því ef marka má niðurstöður kosninga. Í Samfylkingu er til álitlegur hópur andstæðinga Evrópusambandsaðildar og aðildarsinna er að finna bæði innan Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og hefur alltaf verið. Stjórnmálaflokkar eru vitaskuld ekki þannig að þar megi ekki kveða upp úr í neinu máli nema allir séu sammála enda væru þeir þá harðla vaklandi allir. Ég geri einfaldlega ráð fyrir því að við munum áfram hafa álitlegan hóp málefnalegra aðildarsinna innan okkar flokks,- mikinn minnihluta að vísu,-  sem kjósa samt að halda sig í okkar liði því flokkur okkar komi næst þeirra hugsjónum í fleiri málum heldur en nokkur annar flokkur. Þannig virkar lýðræðið.

Dollara í stað krónu

En ég sagði að Framsóknarflokkurinn hefði verið djarfur í utanríkispólitík sinni og það var hann vissulega þegar Hriflu - Jónas þorði fyrstur stjórnmálamanna að berjast fyrir herstöð á Íslandi á friðartímum. (Sjálfur hefi ég alltaf átt erfitt með að fyrirgefa kallinum þetta en það er önnur saga). Sú tillaga sýndi djarfleik á viðsjártímum.

1_first_dollar

Í dag eru viðsjártímar í peningamálum þjóðarinnar og ég held að í þeim efnum þurfi Framsóknarflokkurinn að sýna djörfung og eigi þar að vinna út frá þeirri skoðun sem Valgerður Sverrisdóttir sló fyrst fram í umræðu hér á landi að Íslendingar gætu án Evrópuaðildar tekið upp annan gjaldmiðil en krónuna. Af nýlegum orðum seðlabankastjóra Evrópusambandsins er reyndar ljóst að okkur býðst ekki að taka upp hina margumtöluðu evru enda teldi ég sjálfur það ekki heppilegt svo mjög sem sjálfstæði okkar stafar ógn af Evrópusambandinu. Þegar talað er um að meirihluti okkar utanríkisviðskipta sé við evrulönd þá byggir það á misskilningi,- stór hluti af Evrópuviðskiptum okkar og mörg þau mikilvægustu eru einmitt við Evrópusambandslönd sem eru utan myntbandalagsins og evran dekkar lítið meira en þriðjung utanrikisviðskipta okkar.

En það er í mínum huga alveg mögulegt að á næstu misserum eða árum verði krónan of lítil og of veik til að vera sjálfstæður fljótandi gjaldmiðill í heimi hákarla og hér er í raun og veru orðið til tvöfalt hagkerfi. Eini heimsgjaldmiðillinn sem reynsla er fyrir að frjálsar og fullvalda þjóðir taki upp er ameríski dollarinn og ég hef lengi haft þá skoðun að það sé okkar næsta skref að skoða þann möguleika. Stórkostlegir möguleikar okkar sem eru nú að opnast í viðskiptum i Asíu, opnun siglingaleiða um norðurhöf og einstæð hnattræn lega gera það að verkum að með dollara sem gjaldmiðil getum við á næstu áratugum orðið alþjóðleg fullvalda fjármálamiðstöð á mörkum þriggja heimsálfa, Ameríku, Evrópu og Asíu.

Íslandi allt.


Spilling í stjórnmálum og aldur stjórnmálaflokka

Í ástum og stríði hefur aðeins einn rangt fyrir sér. Það er sá sem tapar. Sama á að breyttu breytanda við í pólitík sem er kannski sambland af þessu tvennu, ástarsjarmör frambjóðenda og hjaðningavígum keppinauta.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki farið varhluta af hinum kalda raunveruleika og títt er að almenningur telji flokk þennan öðrum flokkum fremur einkennast af spillingu og fyrir vikið talinn hugsjónum firrt hagsmunastía. REI - málið svonefnda hefur ýtt undir þessa umræðu en ég fjallaði nokkuð um þá endileysu að kenna Framsókn í heild um það mál í síðustu grein. Hér verður horft lengra í söguna.

 

Aldraður og því spilltur?

Framsóknarflokkurinn er elstur íslenskra stjórnmálaflokka, kominn á tíræðisaldur og hefur marga fjöruna sopið. Það mun ekki ofmælt að öll stjórnmálasaga Íslendinga frá millistríðsárunum sé lituð af þessum flokki sem muna má fífil sinn fegri og hefur komið að allri uppbyggingu samfélagsins í smáu og stóru.

Menn geta svo deilt um hvort vel eða illa hafi til tekist og miðað við hugmyndir manna um himnaríki er Ísland svo sannarlega ófullkomið ríki. En sé horft til annarra þessa heims ríkja, ungra og gamalla, hefur harla vel til tekist. Gildir þá einu hvort horft er til hagsældar, lýðræðisþróunar, menntunar, jafnræðis þegna eða jafnrétti kynjanna. Ísland 21. aldarinnar er grundvallað af stórhuga og fátæku hugsjónafólki sem kom úr frumstæðu bændasamfélagi með vonina eina að vopni. En auðvitað má enn gera miklu betur.

Aldurinn einn og mikil ítök í íslenskum stjórnmálum dugar því illa til að klína á Framsóknarflokkinn spillingarstimpli og halda því fram að flokkur okkar eigi sér engar hugsjónir. En þar er annað sem ræður nokkru um stimpilinn.

 

Engar útópíur

Það eru kallaðar útópíur framtíðarlönd þau sem hugsjónamenn eiga til að smíða í sófum sínum. Frægast í slíkri smíð eru draumalönd sósíalista sem snerust hvevetna í veröldinni upp í martröð. Eftir stóð þó að þeir sem draumanna áttu voru taldir miklir hugsjónamenn þar sem þeir köfðu ofan í gulnuðum Marxismanum.

Á sama tíma og allt eins í dag hafa frjálshyggjupostular á hægri kanti trúað á útópíu hins algera frjálsræðis í efnahagsmálum þar sem sá sterkasti hefur ætíð sigur og dreifir silfrinu af góðmennsku sinni og gróðafíkn til alþýðunnar.

Meðan báðir þessir hafa verið iðnir við að mála upp hita sinna hugsjóna og ömurleika samtímans strituðu Framsóknarmenn í íslenskri mold án þess að hafa þar önnur háleitari markmið en að gera gott sem fyrir var betra - með brjóstvitið eitt að vopni. Og hefur orðið vel ágengt meðan hinir skipta um markmið eins og sokka.

 

Lítill en samt valdamikill

Stærstur glæpur Framsóknarflokksins og sá sem ef til vill á mest í hinum þráláta spillingarstimpli er þó smæð flokksins og mikil völd hans þrátt fyrir smæðina. Er þar komið að hinu gamalkunna að hver sá sem tapar í kosningum hefur vitaskuld haft rangt við!

Nú er það auðvitað frumskilyrði að flokkur virði lýðræðislega niðurstöðu kosninga. Af þeirri ástæðu meðal annars töldum við margir Framsóknarmenn erfiða göngu inn í áframhaldandi stjórnarsamstarf þrátt fyrir að ríkisstjórnina sáluga hafi haldið velli með eins manns meirihluta.

Um hitt verðum við ekki sakaðir að vera þar staddir í öfgalausri miðju íslenskra stjórnmála að flokkar jafnt í landsstjórn sem sveitarstjórnum telja hag sínum og sinna umbjóðenda oft og einatt best borgið með samstarfi við Framsóknarflokkinn. Það liggur einfaldlega í því að þar með ganga menn skynsamlegu meðalhófi á hönd og það er misskilningur að Framsóknarflokkurinn hafi legið hundflatur undir Sjálfstæðisflokki í 12 ár. Miklu nær sanni er að Framsóknarmönnum tókst oftar en ekki að laða fram það besta og framsóknarlegasta í Sjálfstæðisflokknum í 12 ára stjórnartíð þó oft hefðum við mátt ná meiri árangri. En um spillingarstimpilinn og leikmenn Framsóknarflokksins mun ég fjalla í næstu grein.

(Birt í Mbl. sl. sunnudag.)


Skarpari Framsóknarflokk...

IMG_9491

(Um helgina héldum við Framsóknarmenn í Suðurkjördæmi okkar kjördæmisþing austur á Hvolsvelli sem var bæði vel sótt, hreinskilið og skemmtilegt. Þar var Birgir Þórarinsson í Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd kjörinn nýr formaður sambandsins en hann sést hér ásamt fráfarandi formanni Guðmundi Elíassyni og Guðna Ágústssyni formanni flokksins. Hér á eftir birtist ræða sem ég flutti um Framsóknarflokkinn á hátíðarfundi á föstudagskvöldinu. Sleppt er formálsorðum sem fjölluðu aðallega um samlífi okkar Bergs Pálssonar í Hólmahjáleigu sem deildi með mér herbergi á þinginu fyrir ári...) 

...Hver er vegferð Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum sínar erfiðustu kosningar allrar sinnar 90 ára sögu og slík niðurstaða kallar á umræðu og endurmat sem standa mun allt þetta kjörtímabil.

Þar með er ekki sagt að kollsteypur eða byltingar séu framundan í stefnumálum Framsóknarflokksins, það teldi ég ekki heppilegt. En ég tel nauðsynlegt að skerpa á stefnumálum Framsóknarflokksins, fornum og nýjum. Framsóknarflokkurinn er svo sannarlega ekki á leiðinni að verða lítill staðnaður flokkur sem einskorðar sig við stefnumál landsbyggðar eða hagsmuni hennar. Þvert á móti mun flokkurinn nú sem fyrr stefna fram sem aldrei fyrr sem nútímalegur framsækinn flokkur með sterka áherslu á frjálslynda þjóðlega umbótastefnu á miðju hins íslenska litrófs.

 

Samvinnuflokkur að fornu og nýju 

Rætur Framsóknarflokksins liggja í samvinnuhreyfingunni sem var neytendahreyfing síns tíma gegn ævivaldi einokunarverslunar og auðvaldi þess tíma. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við Framsóknarmenn 21. aldarinnar teljum að nú 100 árum síðar sé ekki síður þörf á sterkri hreyfingu neytenda og aðhaldi gagnvart vaxandi fákeppni. Neytendavernd og barátta gegn fákeppni verður þannig áhersluatriði Framsóknarflokksins á nýrri öld.

Hluti af baráttunni fyrir hag neytenda er að flokkurinn standi vörð um velferðarkerfið. Þar er stórt verkefni framundan að veita aðhald þeirri endurskoðun á allri trygginga- og lífeyrislöggjöf landsmanna sem ríkisstjórnin hefur nú hrundið af stað undir forystu frjálshyggjutalsmanns Sjálfstæðisflokksins, Péturs Blöndal. Baráttumál samtímans eru varðstöðu gagnvart kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðis- og menntakerfi landsmanna og krafa samtímans er vitaskuld að öll menntun, frá leikskóla til loka skyldunáms verði gjaldfrjáls.

 Skuggahliðar þenslunnar

Nátengt baráttunni fyrir framgangi neytendamála er vitaskuld áherslan á aukinn jöfnuð í samfélaginu. Hin mikla efnahagslega uppsveifla liðinna ára sem Framsóknarflokkurinn á mikinn þátt í og er með réttu stoltur af á sér sína galla eins og öll mannanna verk. Þann stærstan að hafa stuðlað að stórlega aukinni misskiptingu auðs í okkar litla samfélagi og áður óþekktu bili milli stétta.  Þó svo að allur almenningur hafi notið góðs af uppsveiflunni í kjörum sínum fylgir hinum óhefta kapítalisma líka dýrtíð og harðandi lífsgæðakapphlaup. Stórlega hækkandi verð á fasteignum, gríðarleg skuldasöfnun heimilanna og þensla sem haldið er uppi með handafli af gróðaöflum landsins. Allt er þetta áhyggjuefni sem Framsóknarflokkurinn þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar og athugunar. Í því er ekki fólgin nein gagnrýni á störf okkar í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur eðlilegt framhald og eðlileg pólitísk glíma við verkefni samtímans.

Það mætti á stundum ætla að eini liðsmaður Sjálfstæðisflokksins sem gerir sér fyllilega grein fyrir þessu vandamáli sé fyrrverandi formaður þess flokks og núverandi seðlabankastjóri. Í hans hefur komið að standa einn á handbremsu ofþenslunnar og dugir hvergi til. Það er mikill misskilningur að á Íslandi sé aðeins vandi á landsbyggðinni vegna of lítilla umsvifa þar. Vandamálasvæðin á Íslandi eru tvö og samverkandi, ofþenslusvæði höfuðborgarinnar sem kostar alþýðufólk á því svæði miklar fórnir í háu húsnæðisverði og dýrtíð. Hitt er samdráttarsvæði landsbyggðarinnar.

Framsóknarflokkur 21. Aldarinnar þarf vitaskuld að vera trúr þeirri köllun sinni að standa vörð um hag landsbyggðarinnar, bæði sjávarplássanna og sveitanna og leggja nú sem fyrr áherslu á að halda byggðahringnum á Íslandi. Sú barátta er brýnni í dag en nokkru sinni og ljóst að á dögum erfiðleika í sjávarútvegi er enn brýnna að Framsóknarmenn standi hér vörð og herði enn á frá því sem verið hefur í sinni byggðapólitík og baráttu fyrir jafnrétti millum landshluta.

 

Fullveldisbarátta í gunnfána flokks

Í gunnfána hugsjóna Framsóknarflokksins er að fornu og nýju barátta fyrir fullveldi þjóðarinnar sem mörkuð var með sjálfstæðisbaráttu, lýðveldisstofnun og eitilharðri baráttu okkar fyrir útfærslu landhelginnar. Við hvert skref hafa heyrst úrtöluraddir og hrakspár um að við séum til þessa of fáir og smáir til að standa á eigin fótum. Efnahagslegir stórsigrar hinnar litlu þjóðar hafa aftur og aftur gert hrakspár þessar heimaskítsmát en þær vakna þó alltaf með hverri nýrri kynslóð. Saga 20. aldar undirstrikar nauðsyn þess að við stöndum áfram fast í fæturna þegar kemur að umræðu um fullveldi og frelsi landsins.

 

Þegar kemur að umræðunni um aðild landsins að Evrópusambandinu á Framsóknarflokkurinn að tala skýrar en gert hefur verið. Marka ber flokknum stefnu þar sem staðið er föstum fótum í fullveldi og frelsi jafnframt því að unnið sé að opnun viðskiptalandamæra. Slík afstaða útilokar engan vegin skoðanaskipti innan flokksins og þar má benda á að meðal annarra flokka, bæði hérlendis og erlendis, sem hafa haft mun skýrari stefnu í þessum málum hafa engu að síður verið skiptar skoðanir meðal flokksmanna. Stefnuleysi Framsóknarflokksins í þessum málaflokki hefur að mínu viti reynst honum afar dýrkeypt.

Varðandi gjaldeyris og gengismál er okkur mikilvægt að halda í þau hagstjórnartæki sem innlendur gjaldmiðill er,- svo lengi sem það telst fær og skynsamleg leið. Við verðum jafnframt að vera opin fyrir breytingum á alþjóðamarkaði þar sem margir spá fækkun gjaldmiðla á næstu árum og áratugum en íslenska krónan er einn minnst ef ekki alminnsti fljótandi gjaldmiðill heims. Í þessum efnum er brýnt að horfa vítt til hagsmuna atvinnulífs og neytenda og horfa of heim allan þannig að litið sé á fleiri kosti en upptöku Evrunnar ef aðstæður knýja okkur til þess að láta af sjálfstæðri myntsláttu. Hnattræn staða Íslands og breytingar á siglingaleiðum í heiminum geta skapað þjóðinni ómetanlega möguleika sem miðstöð milli hins vestræna og hins austræna. Við þær aðstæður og sókn Íslendinga í austurvegi er mikilvægt að loka hagkerfið ekki inni í tolla- og regluverksmúrum stórvelda.

Framsóknarflokkurinn er flokkur atvinnulífs, flokkur jákvæðrar uppbyggingar og samvinnu byggða, stétta og atvinnugreina. Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna er að tryggja hag atvinnulífsins með einföldu og skilvirku stjórnsýslukerfi sem sniðið er að þörfum fólksins fremur en að líf fólks sé sniðið að regluverkinu.

 

Baráttan við spillinguna

Í umræðu um siðferði og spillingu í stjórnmálum hafa margir talið sig hafa skotleyfi á Framsóknarflokkinn og margt í þeirri umræðu svo fjarri öllum raunveruleika að varla tekur því að gera að umfjöllun. Þar er þó enginn dómari í eigin sök og víst er um það að siðferði í viðskiptum og stjórnmálum er víða ábótavant á Íslandi og um sumt lakara en í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.

Svar Framsóknarflokksins við gagnrýni almennings getur aldrei verið að fara í karp um liðna daga heldur hlýtur það að vera hlutverk okkar að taka undir með þeim almennum línum að hér sé úrbóta þörf. Flokkurinn á þannig að vera í fararbroddi fyrir bættu siðferði stjórnmála og atvinnulífs án þess að leggja mat á verk og sögu forvera okkar. Í því felst skýlaust að einstakir flokksmenn geta ekki vænst þess að eiga skilyrðislausa vernd og samtryggingu innan flokks þvert á almenningshagsmuni.

(Umrædd orð urðu til þess að ég var síðar á fundinum spurður um REI málið sérstaklega og sagði þá m.a.: Ég geri mér fulla grein fyrir að einhverjir hlutu að súpa hveljur yfir þeim orðum sem ég lét falla um svokallað REI mál og tek fúslega við skömmum þar um enda fengið þegar þakkir mjög margra málsmetandi manna innan okkar góða flokks, því meiri sem menn hafa verið betur áttaðir á alvarleika þessa máls. Í stjórnmálum er eðlilegt og sjálfsagt að stjórnmálamenn komi flokksbræðrum sínum til liðsinnis í erfiðum pólitískum málum og sýni flokkslega samstöðu þegar reynir á. Þetta á við í öllum pólitískum málum og ég taldi það því eiga við þegar skipt var um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur nú á haustdögum. Þegar kemur aftur á móti að aðdraganda þess að upp úr meirihlutasamstarfi flokkanna slitnaði og hinni einstæðu gjörð þar sem stór hluti af orkufyrirtæki almennings var með mjög óvanalegum hætti kominn í einkaeigu fárra manna þá tel ég að þar sé hin flokkslega samstaða í hæsta máta óviðeigandi. Samstaða stjórnmálamanna og flokksbræðra má aldrei verða þeirri skyldu og sannfæringu hvers stjórnmálamanns að verja hagsmuni almennings. Það sem fyrir mér vakti með afskiptum af þessu máli sem er vissulega utan míns kjördæmis var að firra Framsóknarflokkinn skaða af málinu og því fer fjarri að ég hafi þar staðið einn með mína afstöðu. Ég lét málið brjóta á mér og tel mig ekkert of góðan til þess þó að þau átök og glósur sem fylgt hafa hafi ekki verið mér sársaukalaus. Um leið lá fyrir að engir af þingmönnum flokksins færu vafasömu ferli REI- málsins til varnar og fyrir þá gæfu getum við Framsóknarmenn verið þakklátir. Þeir sem gagnrýna mig geta spurt sig að því í tómi hversvegna engir þingmenn eða málsmetandi menn flokksins hafa látið mál þetta til sín taka. Máli þessu er fráleitt lokið og ég óttast enn um orðspor borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins í þessu máli. Hér gildir hið fornkveðna að við skulum vona það besta – en vera viðbúin hinu versta.)

 

Auðlindir í eigu fólksins 

Íslendingar eru fáir að tiltölu í stóru og um margt gjöfulu landi sem býr yfir miklum náttúruauðlindum. Það hefur verið stefna Framsóknarflokksins að nýting auðlinda landsins sé best komið hjá atvinnulífinu en eignarhald auðlindanna sé fólksins, ríkis og sveitarfélaga. Það er mikilvægt að skerpa á þessari stefnu og gæta dyggilega að hagsmunum almennings gagnvart aukinni ásókn alþjóðlegra hlutafélaga í þessum efnum,- hvort sem um er að ræða háhita í iðrum jarðar, orku fallvatna á miðhálendinu  eða auðlindir sjávar.

Íslandi allt!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband