Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Af skætingi og rassálfum...

Mikill lofthiti getur oft verið vitsmunalífinu stoldið andstæður og sannaðist í gær þegar tveir blaðamenn urðu sér og stétt sinni til skammar í beinni, fyrst Sverrir Stormsker og síðan Helgi Seljan.

helgi seljansverrir_stormsker_435548

Það er reyndar dálítið út í hött að listamaðurinn Sverrir Stormsker skuli vera útvarpsmaður. Hann er að mörgu leyti skemmtilegur listamaður og þá meðal annars fyrir það að hafa engar grensur í því sem hann segir - ekki frekar en sjálfur Megas.

Ég heyrði ekki viðtal Sverris við Guðna Ágústsson í gær sem frægt varð fyrir að Guðni gekk að lokum út í beinni. Það má deila um hvort það séu rétt viðbrögð en af því sem hefur verið bloggað um þáttinn af þeim sem heyrðu er lítill vafi á að Sverrir var hér utan við allt velsæmi. Alltaf spurning hvernig eigi að bregðast við slíku en það eru nokkuð svo eðlileg viðbrögð að standa upp og fara þegar manni er misboðið.

Stormskerinn ku meðal annars haft yfir ærumeiðandi gaspur um fjarstadda menn eins og Sigurbjörn gamla biskup, Árna Matt og Steingrím J. Það er allavega ekki stórmannlegt að sitja undir hvaða rugli sem er bara af því að sá sem ruglar heldur á hljóðnema, vopni fjölmiðlavaldsins. Sumir hafa tekið þann kostinn að þegja í þáttum Stormskersins sem er þekktur fyrir allskonar subbugang og sóðatal í hljóðnemann. Skömm þessa þáttar er allavega Sverris en ekki Guðna...

Annar sem hljóp á sig í beinni var Helgi vinur minn Seljan sem gekk alltof langt í þráspurningum í viðtalivið Ólaf F. borgarstjóra. Reyndar held ég að Ólafur hafi frekar farið maður að meiri úr þeim þætti og veitir svosem ekki af að bæta aðeins við sig fylgi. Helgi minnti helst á rassálfana í myndinni um Ronju ræningjadóttur sem voru í senn fyndnir og fáránlegir. Helgi er oft góður og þá góður í að vera harður eins og fréttamaður á að vera. En það getur misst marks í dónaskap og þá er eins og Helgi lendi í að hlusta bara  á sjálfan sig. Það er vont, afar vont, í blaðamennsku.

Ég er sjálfur ekki fjarri því að borgarstjóri hafi nokkuð til síns máls þegar kemur að málefnum Listaháskólans við Laugaveg og er þar mikilstil sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni skipulagshagfræðingi - hitt er hafið yfir allan vafa í mínum huga að brottvikning hinnar mætu konu Ólafar Guðnýjar úr skipulagsráði var utan við allt velsæmi...


mbl.is Guðni gekk út í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krikketmót og fjórhjólaferð og guðdómlegur seinþroski...

Í gær efndi frú Elín til pulsuveislu og krikketmóts hér á Sólbakkanum og var sigurvegari mótsins jafnframt sá yngsti, Kjartan Tómasson sem keppti í liði með móður sinni, Barböru Gunnlaugsdóttur.

 IMG_4099

Á myndinni eru f.v. Elín, Gunnlaugur eldri í baksýn, Kristín, Gunnlaugur yngri, Helga, Valgerður, Barbara, Tómas og Kjartan.

Af öðrum tíðindum má nefna að í síðustu viku fórum við Egill í fjórhjólaferð um fjöll og firnindi Úthlíðar og Laugdæla ásamt Magnúsi Skúlasyni í Hveratúni sem segir nánar frá ferðalagi þessu og birtir á bloggsíðu sinni kvikmynd af undirrituðum, auk annarra mynda. En hér að neðan er mynd af Agli á fáknum í Úthlíðarhrauni og ég aftar en á þeirri neðstu Magnús við Kawasaki fák sinn í Lambahrauni.

fjorhjolaferd  maggiskula

Jú og að síðustu úr því að ég er farinn að segja fréttir úr heimahögum þá er Elín á förum til Parísar og verður þar í tvo mánuði í listamannaíbúð við tónsmíðar. Það verður langur grasekkilsdómur. Hún fer á föstudag en þann sama dag þarf ég að skrýðast kjólfötum til heiðurs Ólafi Ragnari.

Milli fundahalda og margskonar anna er ég að lesa frumútgáfuna af Tómasi Jónssyni metsölubók sem ég fann hér í bókaragi. Hef held ég tvisvar byrjað á þessari bók áður, síðast fyrir 15 árum en hafði þá ekki þroska til að botna neitt í svo furðulegri bók og henti henni frá mér. Nú er þetta frábær lesning og ekki eina dæmið um að ég standi sjálfan mig að því að vera guðdómlega seinþroska...


Óskabörnin skjögrandi með grjót í maganum

Í þýsku ævintýri segir frá úlfi sem sofnar sæll eftir vel heppnaða máltíð en verður fyrir því að veiðimaður skiptir út mannaketinu fyrir grjót. Bjargar um leið heimasætu sögunnar og ömmu hennar. Þegar rándýrið vaknar eru yfir því þyngsli. Það skjögrar að næsta brunni eftir svaladrykk en hrapar þar ofan í og sekkur til botns. Er úlfur sá þar með úr sögunni og engum harmdauði.

Öðru máli gegnir um íslensk fyrirtæki sem hafa líkt og úlfurinn verið skorin upp á undanförnum árum, ekki einu sinni heldur oft. Að því hefur staðið fámenn stétt nýríkra auðmanna sem með hjálp banka og annarra fjármálafyrirtækja hafa þar tekið sjóðina, eigið fé fyrirtækjanna, út úr þeim en sett skuldir í staðin. Skuldir þessar eru fyrirtækjunum þungar, þau skjögra nú um og einhver munu hrapa til dauðs líkt og úlfurinn í Rauðhettusögunni.

En ólíku er hér saman að jafna. Úlfurinn er í sögunni með illa fengna matarfylli. Íslensku fyrirtækin hafa aftur á móti fyllt sig með sjóðum í margra áratuga ólgusjó viðskiptalífsins. Lagt til þess svita þjóðarinnar og sjóðir þessir voru með vissum hætti eign þjóðarinnar allrar. Sætir eðlilega nokkurri furðu hvernig hervirki sem þetta getur átt sér stað í dagsbirtu í íslensku efnahagslífi.

 

Löglegt en siðlaust

Fórnarlömb þessara aðgerða hinna meintu auðmanna voru við upphaf leiks verðmetin út frá vexti og viðgangi á síðustu öld. Með miklu og góðu framboði af lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum var vöskum og duglegum fjármálamönnum lánað fé til kaupa á viðkomandi fyrirtæki. Í þenslu undanfarinna ára óx fyrirtækið að verðmæti og innan fárra ára var fyrirtækið sem keypt var fyrir 90% lánsfé allt í einu talið hafa verulegt eiginfjárhlutfall. Þá var leikurinn endurtekinn. Aftur var útvegað lánsfé, nú fyrir allri kaupupphæðinni og enn öðrum félagi selt fyrirtækið  eða öll hlutabréf gamla félagsins. Andvirðið notað til áframhaldandi hlutafjárkaupa og nú kom útrásin til sögunnar.

Peningar flæddu úr landi og við galopna lánamöguleika gat sá sem átti milljarð fjárfest fyrir 10 milljarða á alþjóðlegum mörkuðum. Eftir stóð gamla fyrirtækið sem gat verið flugfélag, niðurlagsverksmiðja, flutningafyrirtæki eða verslun en nú með gríðarlega skuldastöðu sem þó taldist í ársreikningum viðundandi. Allt vegna þess að verðmæti sama fyrirtækis hafði verið fært jafnt og þétt upp á við á mörkuðum sem stjórnað var af fámennum hópi í fámennu landi.

Við leik þennan réði mestu hið síðastnefnda. Fámennið og samtrygging á markaði milli fáeinna útvalinna auðmanna sem jafnframt voru stórir hluthafar í bönkum landsmanna. Með innbyrðis viðskiptum milli manna sem áttu margskonar sameiginlega hagsmuni tókst að mæla upp verðmæti einstakra hlutabréfa langt umfram það sem raunhæft getur talist. Þannig var við upphaf leiks miðað við að fyrirtækin borguðu sig upp á 5 árum en í sumum tilvikum komið upp í 40 ár þegar dansinn stóð sem hæst. Í einu tilviki voru hlutabréfakaup skuldsett fyrir fjörtíuföldu nafnverði í félagi sem nú er selt á genginu sex. Veðin bakvið þau hlutabréfalán eru í dag harla rýr.

 

Óskabörn á brauðfótum

Fyrirtæki sem fyrir áratug var skuldlítið metið á 10 milljarða skuldar nú 20 milljarða og er í ársreikningum metið á 25 milljarða. Vandamálið er að nú þegar syrtir að fer gamla matið að vera nær lagi en það nýja. Fyrirtækið sem við fyrri dýfur í íslensku efnahagslífi stóð af sér brotsjói með sterkri eiginfjárstöðu berst nú í bökkum. Ekki þarf lengi að lesa viðskiptablöð á árinu 2008 til að sjá að mörg af óskabörnum hins íslenska atvinnulífs eru nú í þessum flokki. Þessi óskabörn voru brjóstvörn okkar í fyrri efnahagsþrengingum en eru það ekki lengur.

Einhverjir munu halda því fram að umræddir athafnamenn hafi haft fullt frelsi til að gera það sem gert var. Þar er samt ástæða til að staldra við. Umrædd fyrirtæki nutu virðingar meðal þjóðarinnar sem traustar stoðir efnahagslífsins. Sum þeirra höfðu orðið til með almennum samskotum í formi hlutafjár eða stofnfjárframlaga.

Mörg þessara félaga voru um skeið á almennum markaði og einstaklingar sem hvergi komu nærri ráðagerðum um að taka eigið fé út úr fyrirtækjunum töpuðu þannig sparifé við kaldrifjað brask fárra manna.

Þegar við bætist svo það samspil sem hér var leikið milli hinna stóru hluthafa, banka og fjármálastofnana fer réttur hákarlanna að verða vafasamur bæði í lögfræðilegu og siðferðislegu tilliti. Allt þetta samspil kallar raunar á rannsókn og yfirferð mála þar sem allt er dregið undan steini.

Séreignarréttur í atvinnulífi gefur engum rétt til að hundsa almennar reglur siðgæðis og viðskipta. Atvinnulíf landsmanna mun allt súpa seiðið af þeim glannaskap og græðgi sem einkennt hefur hlutafjárbrask fámennrar klíku fjáraflamanna. Þannig hafa fáir menn vegið að þeirri sameign sem atvinnulíf og hagkerfið er þjóðinni allri. Þeir aðilar sem koma nú heim í heiðardalinn eftir að hafa tapað milljörðum eru fæstir borgunarmenn fyrir því tapi. Það er þjóðin öll sem borgar hér brúsann, beint með keðjuverkan viðskiptalífsins. Óbeint með versnandi skuldatryggingaálagi ríkis og viðskiptalífs í landinu.

 

Afsökun ytri skilyrða

Nú er auðvitað hægt að halda því fram að ef ekki hefði komið til alþjóðleg fjármálakreppa í heiminum þá hefðu hlutir aldrei farið jafn illa og nú horfir í íslensku viðskiptalífi. En það er fráleitt að ætla hinum nýríku viðskiptajöfrum þann barnaskap að þenslan héldi áfram til eilífðarnóns. Lögmál hins kapítalíska hagkerfis eru einmitt bylgjuhreyfingar upp og niður.

Og þó svo að vitaskuld sé hægt að benda á lítilsháttar hagstjórnarmistök undanfarinna ára koma þau siðleysi viðskiptalífsins harla lítið við. Ef einhversstaðar er hægt að skella skuldinni á stjórnvöld þá er það helst í vaxtastefnu Seðlabankans og því að eftirlit með fjármálastofnunum í landinu hefur verið takmarkað. Þar hljóta stjórnvöld að draga nokkra lærdóma.

Hinir nýríku munu fæstir draga af málum mikla lærdóma enda leikur þeirra gerður í fullkominni meðvitund. Með því að hola fyrirtækin að innan og setja níðþungar skuldir inn í stað eiginfjár hafa einstakir menn hagnast ótæpilega og eiga margir sitt á þurru landi erlendra reikninga. Aðrir hafa náð að tapa í gambli erlendra hlutafjárviðskipta,- en þeir töpuðu þar peningum sem fengnir voru fyrirhafnarlítið og án persónulegra skuldbindinga.

 

Endurmat frjálshyggjunnar

Vandamál þau sem hér eru rakin einskorðast ekki við Ísland þó ljóst sé að í fáum hagkerfum vestrænum hafi verið jafn langt gengið eins og hér á landi. Hér er til dæmis mikill munur á Íslandi og hinum EES löndunum tveimur, Noregi og Lichtenstein. Ofurskuldsetning er vandamál víða í ESB og einnig í Bandarísku viðskiptalífi.

Hér að framan er nefnt að ástandið kalli á virkara fjármálaeftirlit, rannsókn á því sem gerst hefur og síðast en ekki síst endurskoðun á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands sem hefur beinlínis stuðlað að útrásinni með áralöngu ofurgengi íslensku krónunnar.

En hin alþjóðlega fjármálakreppa er líka skipbrot þeirrar óheftu frjálshyggju sem riðið hefur húsum um allan heim um langt árabil. Hópur breskra hagfræðinga boðar nú endurmat í anda New Deal stefnu Roosevelts. Það er mikilvægt að við Íslendingar fylgjumst vel með þeirri umræðu og hætt verði að horfa til patentlausna í hagkerfinu, hvort sem það er Friedman, Greenpeace eða ESB hillingar sem hinir trúgjörnu vilja veifa.

(Birt í Morgunblaðinu föstudaginn 25. júlí 2008)

 


Lítið er eftir hægri grænt...

Markaðurinn birtir í dag athyglisvert viðtal Björns Inga Hrafnssonar blaðamanns við erfðaprinsana tvo í Sjálfstæðisflokki, þá Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson. Þar rekja þeir félagar hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokksins, ógöngur vaxtastefnu Seðlabankans og eru í þessu mjög samdóma því sem við Framsóknarmenn höfum verið að segja í heilt ár. Vaxtastefnan drepur atvinnulífið og mun að lokum fella krónuna. Rétt strákar!

Einhverjir hefðu kannski ætlað blaðamanninum að vekja athygli á þessari samsvörun en til þess að sanngirni blaðamanns sé gætt gagnvart kollega,- þá er það ekki raunhæft. En víst er að Geir Haarde, Seðlabankinn og fjármálaráðherrann fá það í raun og veru óþvegið í þessu viðtali við framtíðarleiðtoga Sjálfstæðisflokksins. Allir löðrungaðir hægri vinstri.

En það eru önnur stórtíðindi í viðtalinu. Fyrir kosningar hampaði Sjálfstæðisflokkurinn grænum fálka, ekki þó af því að slegið hafi í fiðurfénað þann heldur til að vekja athygli á umhverfisvænni línu flokksins. Fyrir kosningar kom fyrrnefndur Illugi Gunnarsson fram sem talsmaður hægri grænna sjónarmiða. Það er harla lítið eftir af þessum græna lit í dag og greinilegar engir fyrirvarar við neinar stóriðjuframkvæmdir lengur á borðinu. Hvergi skal gefið eftir og langt síðan jafn grímulaus stóriðjustefna hefur sést á prenti eins og einmitt í ummælum Illuga þegar hann segir í umræddu viðtali. Fyrir nú utan þá stefnu að stóriðjan skuli tosa okkur úr kreppunni segir hinn hægri græni talsmaður flokksins:

Síðan skulum við ekki gleyma því að fjárfesting í orkuöflun og orkufrekum iðnaði er ekki einungis varnaraðgerð til að brjótast út úr núverandi vanda. Við Íslendingar erum orkuframleiðendur, heimurinn hrópar á orku, og við höfum það fram yfir flesta aðra að orkan er ekki flutt út í tunnum eins og olía, þeir sem vilja nýta hana verða að fjárfesta á Íslandi. Orkan okkar er hrein og endurnýjanleg og engin þjóð lætur annað eins tækifæri fram hjá sér fara.

Hér er spilað eftir þeirri gömlu og margrispuðu plötu að við orka okkar Íslendinga sé svo hrein og óspillt að okkur beri eiginlega að virkja sem mest og þegar kemur að umræðu um Bitruvirkjun eru þeir félagar algerlega sammála um að hana hefði alls ekki átt að slá af.

Mér virðist svoldið sem Sjálfstæðismenn í Hveragerði séu hinir einu sem í dag varðveita hægri græna stefnu íhaldsins og fara kannski að verða einangraðir þar í álgráum sölum...


Alvarlegum skilnaði afstýrt...

Það er undarleg líðan að ætla sér raunverulega að segja skilið við þann sem maður ber elsku til. Fyrst í stað fylgir því léttir undan fargi erfiðrar sambúðar. Sigurtilfinning að hafa stigið skref sem oft hefur leitað á hugann.

Hreinsun því aldrei aftur stendur maður frammi fyrir svikum, vonbrigðum og niðurlægjandi uppákomum á almannafæri. Aldrei aftur standandi framan við sína heittelskuðu sótrauður af vonbrigðum og bræði. Aldrei aftur...

Síðan andvökur, sárindi og sálarflækjur. Efasemdir og endurmat. Hinn raunverulegi sigur verður þá fyrst þegar sálartetrinu tekst að hætta við áður boðaða ákvörðun. Játa ístöðuleysið gagnvart ástinni.

IMG_4021

Við fórum á miðvikudaginn á elskunni minni í tveggja daga reisu um fjöllin blá, eiginlega kveðjurúnt. Ég hef verið að undirbúa hana undir þetta í allt sumar með allskonar dekri og snurfusi. Og svo þegar við liðuðumst í skakstri öræfanna, upp og niður endalaust,  ókleifan bratta og niður í óræða gilskorninga, Skælinga og fallísk tákn, bæði Sveinstinds og Gjátinds þá rennur upp fyrir mér að til eru þau verðmæti sem aldrei verða ofmetin. Þær vammir og skammir sem alltaf eiga fyrirgefninguna skilið.

Enda var ferðalagið óborganlegt og fór ekki í baklás fyrir en á hlaðinu heima. Þá allt í einu brást hún við með þvermóðsku og leiðindum sem vörðu næturlangt. Morguninn eftir var allt í lagi eins og bara til að minna á að hún Stóra Rauð var líka með í ferðalaginu. Hafði drepið á sér í innkeyrslunni hér við Sólbakka en var komin í gott skap daginn eftir.

Og ég sem var búinn að auglýsa hana fala. Fyrir litlar 800 þúsundir. Það var að vísu svo hátt verð að enginn hefur hringt ennþá og ef einhver vogar sér þá mun ég svara eins og Jón á Loftsstöðum - með þjósti að þetta séu 800 þúsund - danskar!

Hún Stóra Rauð verður ekki seld. Ekki í þetta skiptið og máske aldrei enda áttum við hjónakornin í henni frábærar stundir sem enginn getur sagt frá,- nema fljúgandi tittlingar inn við Ljónstind og já, hún Stóra Rauð.

Hún stendur nýskoðuð, nýmáluð og stolt á hlaðinu hér á Sólbakka eins og verðlaunahryssa.

(Myndin hér að neðan er af bílnum góða en myndin að ofan er af okkur hjónakornunum uppi á Gjátindi.)

husbill001

Ábyrgðarleysi sem skaðar hagkerfið

Hversvegna ætti ríkið að taka lán til þess að hjálpa bönkunum? Spurninguna þá arna heyri ég daglega.  Í gær bætti leiðarahöfundur 24 stunda um betur og sakaði Framsóknarflokkinn um ábyrgðarleysi að kalla eftir skilyrðislausri eflingu gjaldeyrisforðans. Í tillögum sem flokkurinn lagði fram í síðustu viku leggjum við höfuðáherslu á tafalausa stýrivaxtalækkun og umrædda lántöku ríkissjóðs til stuðnings krónunni og gjaldeyrisvaraforða landsmanna.

Tillagan er ekki sett fram í ábyrgðarleysi eins og leiðarahöfundurinn heldur fram og ekki af einskærri umhyggju fyrir auðmönnunum sem ráða bönkum landsins.

Styrkjum krónuna

Efling gjaldeyrisvaraforða landsmanna hefur margþætt hlutverk sem snertir miklu fleiri en bara þá sem reka fjármálafyrirtæki í landinu. Krafan um að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil tengist einmitt veikri stöðu krónunnar.

Það er framtíðarverkefni að ræða um gjaldmiðilinn og peningastefnuna en verkefni dagsins í dag er að styrkja stöðu krónunnar. Með sterkari gjaldeyrisvarasjóði er ríkið ekki að gefa íslenskum bönkum peninga enda fengju hvorki þeir né ríkissjóður umrætt fé til brúks.

Við lánsfjárkreppuna sem ríður yfir heiminn hefur það gerst að vextir margra fyrirtækja hafa í reynd stokkið úr um 5% í blandaðri skuldasamsetningu krónu og erlendra gjaldmiðla yfir í 15% okurvexti Seðlabankans. Um leið og við styrkjum gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar aukum við líkurnar á að fyrirtækjum landsmanna bjóðist aftur kostur á að taka lán í öðru en hávaxtakrónum.

Biðin til tjóns

Ríkisstjórnin hefur marg oft viðurkennt þörfina á þessari lántöku en nú er að heyra að kjör ríkissjóðs séu ekki nógu hagstæð. Það að bíða eftir að þau batni er mikið hættuspil. Meðan beðið er blæðir hagkerfinu og það aftur er líklegast til að gera kjörin enn verri. Lánakjör Íslendinga ráðast af tvennu. Annarsvegar stöðu hagkerfisins og hinsvegar pólitísku áræði og dugnaði þeirra sem fara með stjórn landsins. Það er ekkert sem segir að við þurfum að ræða við Evrópumenn eina um lán. Stærstu peningatankar heimsins eru nú í austrinu, hjá Kínverjum, Rússum og jafnvel Indverjum og þar getur verið möguleiki að leita hófanna.

Geir H. Haarde hefur nú allt frá því á aðalfundi Seðlabankans sl. vetur boðað að til standi að ríkið taki umrætt lán og væntingar viðskiptalífsins og erlendra aðila horfa til efnda á því loforði. Þar eru þegar orðnar miklar vanefndir enda liðið hálft ár frá umræddum aðalfundi. Það er því langsótt hjá fyrrnefndum leiðarahöfundi að saka Framsóknarflokkinn um ábyrgðarleysi. Ábyrgðarleysið felst í að skapa væntingar og lofa aðgerðum til styrkingar á ímynd hins íslenska efnahagslífs og standa svo ekki við það loforð. Já og það er líka ábyrgðarleysi að leiðarahöfundar séu að mæla slíkt upp í forsætisráðherra sem helst gerir sér nú til dundurs að halda blaðamannafundi um bloggsíður samráðherra sinna.

(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 19. júlí)


Evrópa eða lífið, - nauðhyggja Geirs og Evrópukratanna!

Nauðhyggja Geirs H Haarde í evruumræðunni er leið til  að velta Sjálfstæðisflokknum í afstöðunni til ESB aðildar. En nauðhyggjan er andstæða frelsisins og það er kalt um forsætisráðherra þessa dagana... 

 

Það eru skrýtnir dagar í ráðherrapólitíkinni þessa dagana. Þeir eru flestir hættir að rífast við samstarfsflokkinn eins og þeir gerðu í vetur en rífast nú innan flokka. Krataráðherrar um virkjanir sín í milli en íhaldið um myntsláttu þar sem forsætisráðherra snuprar dómsmálaráðherra og fær svo matrónuna utanríkisráðherra sér til aðstoðar.

Það er enda sem fyrr hjónasvipur með Geir og Ingibjörgu, herpingslegur að vísu. Bæði eiga allt undir að sambúðin haldi því með henni eru taldir beggja þeirra pólitísku lífdagar. Samband þeirra er samband valdstreitunnar þar sem báðir óttast að lenda utangarðs. Verk Geirs á að vera að halda ríkisstjórn saman en orkan beinist nú ekki síður að hans eigin flokki sem sligast þessa dagana undan ESB umræðu.

Kaupmannastéttin, bankamenn og talsmenn iðnrekenda hamra nú mjög á sínum gamla flokki að snúa sér í Evrópuumræðunni og tala um málið eins og það snúi aðeins að viðskiptakjörum. Það væri eðlilegt ef ESB væri aðeins viðskipta- og tollabandalag en svo er ekki. ESB er fyrst og fremst tilraun til myndunar stórríkis með meiri miðstýringu en áður hefur þekkst í sögunni. Að vonum þykir flestum framsýnni stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokks glapræði að ganga þar inn vegna viðskiptahagsmunanna einna,- einkum þar sem við höfum í raun þá flesta unna með EES samningi. Stóra vandamálið í dag er sveiflukenndur og ótraustur gjaldmiðill sem vissulega er mikið vandamál fyrir allan rekstur, bæði heimila og fyrirtækja.

Athafnamenn og stjórnmálamenn margir hafa bent á að í leit að lausn komi margar leiðir til greina. Liðsmenn Björgúlfs Thors hafa bent á svissneskan franka, aðrir hafa talað fyrir einhliða upptöku evru, beinni tengingu við evru a la danir eða þá aðild að myntbandalagi í gegnum EES samning eins og dómsmálaráðherra ræðir nú og hafi hann þökk fyrir. Hugmyndin rímar um margt við það sem Valgerður Sverrisdóttir nefndi fyrir nokkrum árum. Illugi Gunnarsson talaði fyrir sömu hugmyndum á Iðnþingi í vetur leið. Svo hafa bæði Þórólfur Matthíasson og VG hafa bent á mögulegt samstarf um norrænan gjaldmiðil og auðvitað hafa fleiri hugmyndir skotið upp kollinum. Gallinn er að engar þeirra eru skoðaðar og þar kemur til samstaða forsætisráðherrans og evrópukratanna um nauðhyggjuna.

Þau Ingibjörg, Össur, Björgvin og sjálfur erkipresturinn Árni Páll tala jafnan svo að framtíðarsýnin sé annaðhvort ESB - aðild eða dauðinn. Forsætisráðherra hefur í þessum efnum talað nauðugur viljugur upp í eyrun á Davíðsarmi Sjálfstæðisflokks og sagt í öðru orðinu,- við erum ekkert á leið í ESB, allt er betra en evra og krónan er fín. Samt án sannfæringar. Í hinu orðinu hefur forsætisráðherra tekið undir með þeirri firru að það séu bara til tvær leiðir, annaðhvort að hafa allt eins og það er eða þá að ganga í Evrópusambandið!!!

Hluti af þessari mynd er að stöðugt er talað um Evrópumál sem sérstakan og einangraðan málaflokk og þá átt við ESB mál. Þegar við tölum um samskipti við aðrar álfur eða þjóðir segjum við ekki Asíumál, Ameríkumál eða Svisslendingamál. Við segjum bara utanríkismál, alþjóðamál, utanríkisviðskipti, alþjóðavæðing o.s.frv. Það að taka öll samskipti við ESB í sérstakan dilk er hluti af þeirri nauðhyggju að telja í raun og veru að Íslendingar eigi bara þá leið fyrir höndum að bindast ESB í auknum mæli og helst ganga í ESB. Þetta er misskilningur sem verður hverjum þeim ljós sem er nógu alþjóðasinnaður til að skoða málefni Evrópu í samanburði, samhengi og samspili við önnur utanríkismál.

Þá kemur nefnilega í ljós að Íslendingar eiga ekki val um tvær leiðir heldur óteljandi og eiga að skoða alla kosti. Sjálfur get ég ekki varist þeirri hugsun að síendurtekin mótmæli Geirs gegn öllum tilraunum til að ná umræðunni upp úr fari þessarar tveggja kosta nauðhyggju sé í raun tilraun hans til að snúa afstöðu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálunum.  Risaeðlan sé að velta sér. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér, Geirs vegna og þjóðarinnar. Nauðhyggjan er nefnilega andstæða frelsisins og það slær mig stundum að forsætisráðherra sé ekki neitt mjög frjáls þessa dagana...


Gjaldþrotin og léttúðin

Hrina gjaldþrota hangir nú yfir í íslensku hagkerfi. Fjöldi fyrirtækja og heimila er læstur í skuldafjötra og það fara einhverjir á hausinn með haustinu. Bæði einstaklingar og fyrirtæki. Auðvitað hefur verið hér gargandi neyslufyllerí en mikið er það grunnhyggið fólk sem segir að þeir sukkgjörnustu eigi bara skilið að fara á hausinn. Það verða ekki þeir - heldur allt aðrir sem verst fara.

Og það liggur í þessari heimsku mikil þversögn því auðvitað á enginn skilið að hlaupast undan skyldum sínum. Gjaldþrot þýðir að einhver er svo ófær um að geta nokkurntíma borgað upp sínar skuldir að það er hætt að innheimta þær og aðrir taka þær beinlínis á sig. Skuldir hverfa ekki, þær færast bara til.

Harmsagan af Kormáki Rakúel

Tökum dæmi af honum Kormáki Rakúel sem skuldsett hefur íbúðina sem hann keypti fyrir 30 milljónir með 27 milljóna bankaláni. Síðan skuldar hann hálfa aðra milljón í lausaskuldum og skuldar bílinn að fullu. Honum er ráðlagt að selja húsið og fara í minna en verðið sem hann fær núna fyrir íbúðina er í mesta lagi 25 milljónir, ef honum tækist að selja. Þar standa eftir standa 2 milljónir og fullt af lausaskuldum sem eru að komast í vanskil og margfaldast. Meðal annars stórar skuldir fyrir sófasetti og utanlandsferð. Og tekjurnar duga nú rétt fyrir framfærslu.

Á endanum gefast lánadrottnar upp og kallinn er gerður upp. Sem er vitaskuld mikill harmleikur fyrir Kormák  og persónulegt áfall. Sófasettið tekur sófabúðin aftur - en það er samt notað og verðlaust. Búðin tapar. Utanlandsferðinni getur Kormákur ekki skilað! Ferðaskrifstofan tapar. Bankinn tapar lika fé og  fjöldi annarra. Verst fer Kormákur Rakúel út úr þessu. Hann tapar einhverjum hluta af sjálfsmyndinni, - orðstý sem honum er eins og okkur öllum mjög mikilvægur. Næstverstu útreiðina fær 12 ára sonur Kormáks, Rakúel yngri sem tapar einhverju út úr þeirri fyrirmynd sem föðurmyndin er honum.

En Kormákur berst til þess að borga smáskuldirnar sem er betra en hjá mörgum í sambærilegri stöðu. Sumir verða bitrir, sinnulausir og allt að því samviskulausir í peningamálum eftir útreið eins og þessa. Við sem vorum í rekstri fyrirtækja á níunda áratugnum þegar gjaldþrot voru tíð munum eftir einstaklingum sem fóru ekki bara einu sinni á hausinn, heldur oft og fannst sjálfum að þeir ættu það í hvert sinn skilið! Þeim fannst  semsagt að þeir ættu það alveg skilið að eignast þetta og hitt án þess að borga nokkurn tíma nokkuð fyrir það. Árekstrarnir og sjálfskaparvítin höfðu skemmt þetta fólk og þannig er í hverju gjaldþroti fólgin mikil eyðilegging á þeim mannauði sem er í landinu.

Með þessu er ég ekki að halda því fram að gjaldþrotaleiðin sé í eðli sínu röng eða eitthvað sem hægt er að komast hjá. En við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að hún er vandmeðfarin og hún er alger andstæða þess að hver maður borgi skuldir sínar.

Illilegur misskilningur vaxtaokrara

Verst eru gjaldþrot fyrirtækja sem geta oft verið keðjuverkandi. Verktaki fer á hausinn og dregur fjölda heiðarlegra smáverktaka með sér í fallinu. Hótel á landsbyggðinni fer á hausinn. Skuldaði bónda á næsta bæ fyrir túnþökur, hestaleiguferðir og silung. Bóndinn tapar saklaus jörðinni þar sem hann var fæddur og uppalinn. Og margir tapa á bóndanum sem skuldaði hér og þar...

Hirtingin sem er fólgin í gjaldþrotinu hittir yfirleitt alla aðra fyrir en eiga það skilið enda sitja ráðgjafar bankanna, bruðlsamir stjórnendur hins opinbera og allskonar leiðtogar í sóuninni stikkfrí.

Við vitum öll að hávaxtastefna Seðlabanka Íslands mun reka miklu fleiri í gjaldþrot en nokkur ástæða er til. Sú hagfræðikenning að með henni sé verið að uppfylla hið forna lögmál gyðinga að illt skuli með illu út reka - er illilegur misskilningur.

(Birt í 24 stundum 13. júlí 2008)


Af öfugri þjóðrembu og steinsmugu í Danaveldi

Þjóðremba er eitt leiðinlegri fyrirbærum í menningunni og stafar fyrst og síðast af vanmetakennd. Þó er öfug þjóðremba verri og leiðinlegri. Hún lýsir sér í þeirri vanmetakennd að telja helst allt verra á Íslandi en í öðrum löndum og aldrei geti neitt versnað við áhrif frá útlöndum.

Vissulega er margt sem við fáum utan að til góðs fyrir samfélag og á við um innflutning bæði verkafólks og varnings sem hingað kemur. En þegar því er haldið fram að fénaðarinnflutningur sé landinu til góðs færist skörin mjög á bekkinn.

Getur leitt til örkumla

Salmonella herjar nú á frændur okkar Dani af verra tagi en verið hefur í hálfan annan áratug þar ytra. Á fjórða þúsund liggja þar þungt haldnir af því sem Politiken kallar „diarré" en slíkt hét hér áður steinsmuga í íslenskum sveitum. Ástæða veikindanna er talin sýkt kjöt af óvissum uppruna. Hluti þeirra sem veiktist var fluttur á sjúkrahús. Salmonella er alvarlegur sjúkdómur sem getur jafnvel leitt til varanlegra örkumla og örorku. Þetta er sú framtíð sem bíður okkur Íslendinga ef við heimilum innflutning á hráu kjöti.

Þarna er bara verið að tala um salmonellu. Danir telja ekki með þann fjölda sem sýkist þar ár hvert af kamfýlóbakter sem er landlægur í Evrópu utan Íslands. Hvorutveggja höfum við verið laus við úr íslenskum landbúnaði um langt árabil og það er raunverulega ótrúlegur árangur. Árangur sem á sér fáa líka í verksmiðjubúskap heimsins og árangur sem er heilsufarsöryggi neytenda mikilvægur.

Hinir öfugsnúnu sem nú vilja brjóta þessa sérstöðu niður mega vitaskuld ekki heyra á þetta minnst og telja öllu skipta að Evrópusambandið hefur innleitt mjög merkilegar og strangar heilbrigðisreglur. Staðreyndin er sú að víða um Evrópu eru reglur eitt og raunveruleikinn annar. Það á ekki síst við um hin fátækari lönd álfunnar sem enn eiga langt í land í því hreinlæti við matvælaframleiðslu sem er almenn í Norður Evrópu og best hér á Norðurlöndum. En auðvitað verður ástandið ekkert verra hér á landi en í Evrópu,- það verður einfaldlega svipað því sem hefur verið í Danmörku í sumar. Sem er ekki ásættanlegt.

Tríkín eins og í ísbirni

Rök þeirra sem vilja heimila innflutning á hráu kjöti eru af tvennum toga. Annarsvegar falsrök um að það sé nauðsynlegt vegna hagsmuna sjávarútvegsins í Evrópu. Í þeim efnum gildir að eftirspurn eftir íslensku sjávarfangi er slík að engar líkur eru á að Evrópubúar fari að vinna gegn eigin hagsmunum út á nokkrar kjúklingabringur. 300 þúsund manna markaður er Evrópu ekki stór.

Hin rökin eru mun veigameiri og snúa að frjálsum viðskiptum milli landa. Það er rétt og skynsamleg stefna að draga þar heldur úr hömlum og við Íslendingar höfum þar unnið með öðrum þjóðum. En sérstöðu okkar sem eyþjóðar verður að virða.

Fyrir nokkrum vikum voru það einmitt talin rök fyrir annars sjálfsögðu ísbjarnardrápi að sá bar hinn illvíga búfjársjúkdóm tríkin innan iðra. Við höfum verið laus við þann vágest hér á landi en verðum ekki ef hrátt svínakjöt fer að berast inn í landið.

Léttum álögum á frystu kjöti

Sjálfsagt er að koma til móts við kröfur neytenda um lægra verð og aukið frelsi í verslun með því að létta álögum á frystu kjöti en við verðum af heilbrigðisástæðum að sporna eftir mætti gegn því að hrátt kjöt verði flutt eftirlitslaust inn í landið. Koma þar til hagsmunir neytenda, hagsmunir náttúru og vitaskuld líka hagsmunir þeirra sem vinna við framleiðslu á hvítu kjöti sem á höfuðborgarsvæðinu eru jafnvel fleiri en eru í öllu álverinu í Straumsvík.

Þess er nú skammt að bíða að þjóðarsálin gefi því meiri gaum en nú er hvernig störfin verða til og mikilvægi þess að viðhalda þeim störfum sem við höfum. Þegar við bætist að matvælakreppan í heiminum mun hækka heimsmarkaðsverð á kjöti verulega á næstu árum eru komnar ærnar ástæður fyrir því að bíða með það óheillaverk að slátra heilli atvinnugrein á Íslandi.

(Birt í Fréttablaðinu föstudaginn 11. júlí 2008)


Af köngulóar- og hvaladrápi

Endaði frábæran gærdaginn á að ganga hér umhverfis húskofana mína á Sólbakka og myrða köngulær. Hér í kvosinni á Selfossi er fár af þessum áttfætlingum og ef ég ekki hreinsa það mesta öðru hvoru er ég fyrr en varði kominn með skepnur þessar á sængina mína, ofan í hálsmálið, inn í bílinn og hvur veit nema á mig berann...

En ég finn til við verk þetta enda af þeirri sort að ég hefi aldrei getað þrætt öngul á maðk af meðlíðaninni með maðkinum. Köngulær eru skynug dýr, gott ef ekki gáfuð og allavega miklar persónur. Ég held að þær viti stundum hvort ég er kominn til að myrða þær eða bara tala við þær. Skynja vel örvæntinguna hjá þessum krílum sem sjálf eru þó miklir og mér gagnlegir morðvargar. Morðferðirnar valda mér oft samviskutruflunum en ég hætti þeim samt ekki. Gæti auðvitað ráðið meindýraeyði til að hreinsa hér en kann betur við að vinna þetta skítverk sjálfur. Veit þannig af því fyrir hvað ég stend.

En því er ég að tala um þetta að í gærhvöld sat Gunnar Bergmann Jónsson útgerðarmaður í Kastljósi og þurfti þar að verja þann glæp að sjómenn hans skyldu vera morðingjar. Á móti honum Sigursteinn Másson sem einhverntíma var nú talinn með.

"Það er fullt af fólki sem ofbýður að sjá gert að þessum dýrum," sagði Sigursteinn og var þar að lýsa því þegar skrokk af nýveiddri hrefnu var flensaður um borð í litlum hvalveiðibát. "Bætti svo við glottandi,- þetta eru stór dýr."  Það tekur auðvitað enginn alvarlega að það sé meiri glæpur að drepa stór dýr en lítil, heimsk eða gáfuð, falleg eða ljót.

Ef ég tæki nú kvikmynd af köngulóarfjölskyldunni sem flýr í ofboði undan morðferð minni undir miðnótt. Eða birti ævisögu laxskepnu sem veiddur er vikulega sumarlangt og sleppt að því loknu, heyr sitt dauðastríð aftur og aftur en ekki bara einu sinni eins og við flest. Eða sýndi á kvikmynd líf galtar í íslensku svínabúi, hlekkjaður í bás á hörðum steini.

Auðvitað er hægt að ofbjóða og misbjóða tilfinningum fólks með nógu nákvæmum lýsingum á þjáningum ferfætlinga, fugla og hvalfiska. En til hvers? Ef það er gert til þess að stuðla að dýravernd og mannúðlegri meðferð á skepnum, villtum og ræktuðum þá er það hið mesta nauðsynjamál. Raunar er margt í okkar nútíma landbúnaði sem illa stenst það sem nóbilskáldið kallaði hundruðustuogelleftu meðferð á dýrum. Kannski erum við þar verri í dag en við vorum á dögum þeirra áa okkar sem lögðu sömu sultarpínuna á vinnufólk sitt og búfénað. Og skeyttu því mátulega þó það lélegasta dræpist af hor, niðursetningar og vankakindur.

En hvalveiðar eiga ekkert skylt við illa meðferð á skepnum. Fyrir utan hvað einn hvalur getur fætt miklu fleiri en til dæmis ein rækja eða ein hæna... Ef einhver fæðuöflun úr dýraríkinu er mannúðleg og heilbrigð þá eru það einmitt veiðar á villtum skepnum sem fá uns skutullinn hæfir að lifa því frjálsa lífi sem náttúran gefur. Eru enda heilnæmari matur en margt af því hormóna - og kamfýlóketi sem verksmiðjubúskapur leiðir yfir okkur...

En hvernig læt ég - Sigursteinn Másson og allir hans árar í Greenpeace og Sea Shepheard eru vitaskuld grænmetisætur, leggja sér aldrei annað en tómat og kartöflu til munns. Sjálfur ólst ég upp í gróðurhúsum innan um misvitrar grænmetisplöntur. Og man þær stundir þegar faðir minn fann snigil og myrti hann þegar með hamarshaus en ég sjálfur látinn standa með sjóðheita vatnsbunu yfir moldarbeði svo drepa mætti í því allt kvikt áður en ný ræktun var hafin. Köngulær, maðka, járnsmiðu, grápöddur, margfætlur og ótal fleiri vini míns barnshjarta. Umhverfisvæn og hreinleg morðaðferð. En hvað ætli það séu mörg líf bakvið einn rauðann tómatinn...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband