Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Þakkir frá Framsóknarkomma!
28.4.2013 | 06:25
He he
Einhverjir kunna að leggja það út sem kokhreysti að flytja þakkir eftir útreið í kosningum. En mér eru engu að síður þakkir í hug því þrátt fyrir andstreymi sem allan tímann lá fyrir þá mætti okkur Regnbogamönnum engu að síður velvild og margskonar aðstoð í kosningabaráttunni og fyrir það er ég þakklátur.
Ekki síður þakklátur þeim sem lögðu á sig nokkuð í baráttunni og þeim fjölmiðlum sem sýndu okkur sanngirni þar sem hæst ber RÚV og Morgunblaðið. Fyrir það ber að þakka enda mikils virði að búa í samfélagi þar sem þúsund blóm fá að spretta og þúsund skoðanir að heyrast. Við sem aldir erum upp í garðyrkju vitum svo að stundum fer svo að ein planta vex óðfluga og nær þá mjög að kæfa annan gróður.
Staðreyndin er að mörg okkar urðu undir í þeim mikla skriðþunga sem var á mínum gamla flokki Framsókn í þessum kosningum. Í mér bærist vitaskuld gleði yfir að hafa þó frekar orðið undir þeim ofvexti en ef verið hefði frá krötum eða íhaldi.
Við J-listamenn fórum seint á fætur á þessari baráttu og nokkuð tvíátta framan af vetri hvort fara skyldi. Tókum til verksins aðeins sex vikur og vorum þó flestir í fullu starfi með. En það er langt því frá að hér sé eftir nokkru að sjá. Þetta var skemmtilegur tími, skemmtileg umræða og okkur tókst með afgerandi hætti að koma ESB baráttunni á dagskrá. Enginn þarf þó að ætla að fylgisleysi okkar sé mælikvarði á stöðu þeirrar baráttu enda guldu allir þeir flokkar sem höfðu beina ESB aðild á stefnuskrá sinni algert afhroð.
Nú gæti ég haft á orð á að við höfum í þessu ekki búið við jafnræði í fjárráðum eða annarri aðstöðu en ég tel það þó ekki hafa skipt sköpum. Staðreyndin er að skriðþungi sveiflunnar í samfélaginu var okkur einfaldlega of þungur og fyrir henni hlutum við að falla. Nú stöndum við brosandi upp eftir glímina og mætum baráttunni á öðrum vettvangi, tvíefld að afli og reynslu.
Bókabéusinn í mér hlær nú og fagnar, því glaðastur að fá að vera hér innan um dýrðlegar skræður fremur en að vera vistaður á stofnun fyrir sunnan.
Umsátur um fullveldi
27.4.2013 | 19:27
Eftir Jón Bjarnason, Atla Gíslason og Bjarna Harðarson
Kjósendur sem vilja standa vörð um fullveldi Íslands hafa val í komandi Alþingiskosningum. Óskastaða innlimunarsinna er að sem flestir fari nú inn á þing með þá blekkingu í farteskinu að það sé rétt að kíkja í pakkann, klára ferlið, ljúka meintum samningum Íslands og ESB.
Ef litið er á heimasíðu stækkunardeildar ESB kemur aftur á móti fram að það fara engar samningaviðræður fram. ESB gengur svo langt að kalla slíkar fullyrðingar misleading". Það sem fer fram á milli Íslands og ESB er aðlögun eða með öðrum orðum hægfara innganga okkar í sambandið. Eftir svokallaðar viðræður í heilt kjörtímabil geta aðildarsinnar ekki bent á eitt atriði sem hefur verið samið" um enda ekkert slíkt í boði. Aftur á móti hafa verið gerðar umtalsverðar, dýrar og afgerandi breytingar á mörgu í stofnanakerfi Íslands, t.d. öllu innra skipulagi skattstjóra og tollstjóraembætta. Sömuleiðis í sjálfu Stjórnarráði Íslands. Allt er þetta í fullu samræmi við það sem upplýst er á heimasíðu ESB um málið, sjá t.d. http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf og http://ec.europa.eu/enlargement/policy/steps-towards-joining/index_en.htm
Af umræðuþætti Ríkissjónvarpsins síðastliðið þriðjudagskvöld er ljóst að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og VG gæla nú allir hver með sínum hætti við drauma pakkakíkis. Enginn þessara flokka þorir lengurað standa á þeirri skoðun að loka eigi hinni evrópsku áróðursstofu né að taka af skarið um að viðræðum skuli tafarlaust slitið. Þetta er mjög miður og vekur ugg um það sem framundan er. Vitaskuld eru í öllum þessum flokkum einlægir andstæðingar ESB aðildar en aðildarsinnar eru þar einnig margir á fleti fyrir.
Án þess að gert sé lítið úr öðrum málefnum þessarar kosningabaráttu þá varðar ekkert eitt mál jafn miklu um framtíðarhagsmuni Íslands eins og vörn fyrir fullveldinu. Meðan samningaviðræðum hefur ekki verið slitið, áróðursskrifstofur ESB starfa hér óáreittar og mútufé ESB flæðir óhindrað inn í landið ríkir umsátursástand. Því umsátri verður að ljúka. Við sem stöndum að Regnboganum bjóðum fram krafta okkar til varnar fullveldinu. Setjum X við J á kjördag.
(Birt í Morgunblaðinu 26. apríl 2013)
Veljum íslenskt og exum við joðið
27.4.2013 | 15:17
þá finnst mér það óskýrt og loðið.
Og ættjarðarást
má víst alls ekki sjást.
Veljum íslenskt og exum við joðið.
(Haraldur Kristjánsson í Hólum á Rangárvöllum)
Verjum fullveldið, ex við joð!
27.4.2013 | 13:38
ESB situr um fjöregg íslenska lýðveldisins. Fyrir Brusselvaldið er hér eftir miklu að slægjast og nú standa asnar klyfjaðir gulli við borgarhliðin.
Þau framboð sem samþykkja áframhaldandi starf Evrópustofu og mútufé ESB inn í hagkerfið eru í raun að samþykkja innlimun okkar í ESB.
Í þessu máli hefur Regnboginn algera sérstöðu og kannanir sýna að við eigum raunhæfa möguleika í kosningunum á morgun.
Verjum fullveldið, ex við joð!
Þjóðin á rétt á að kjósa
27.4.2013 | 11:45
...
Þjóðaratkvæðagreiðslur um stór hagsmunamál eru vitaskuld lykill að farsælli nálgun mála. Við sem barist höfum gegn ESB aðild og hverskyns fullveldisskerðingu höfum margoft farið fram á þjóðaratkvæði um þau mál. Við vildum þjóðaratkvæði um EES, við vildum þjóðaratkvæði um það hvort hefja skyldi viðræður um ESB aðild og það hefur réttilega verið nefnt að Shengen samstarfið verðskuldar að vera sett í þjóðaratkvæði.
Þegar áróður ESB hér innanlands hefur verið stöðvaður með lokun Evrópustofu, slitum á viðræðum og stöðvun siðlausra aðlögunarstyrkja þá er sjálfsagt og eðlilegt að efna til kosninga þar sem allt samstarf okkar við viðskiptaþjóðir okkar í Evrópu og ESB verður lagt undir.
Aðildarsinnar hafa um áratugi hundsað allar okkar tillögur um þjóðaratkvæði og barist gegn þeim með oddi og egg. Látum þá ekki blekkja okkur nú með því að það séu þeir sem standi fyrir lýðræðinu á móti þjóðarmeirihlutanum sem vill svo sannarlega, eins og kannanir hafa margoft sýnt, taka ESB brautarteinana úr sambandi.
Sjá nánar http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/1293180
Gunnar Rögnvalds kýs Regnbogann...
27.4.2013 | 00:41
Bloggarinn Gunnar Rögnvaldsson sem er manna fróðastur um ESB skrifar í kvöld:
"Ég ætla að verðlauna Jón Bjarnason fyrir hollustu við Lýðveldið undir einstaklega ömurlegum og erfiðum aðstæðum. Hann stóð sína vakt sem heilt bjarg og snéri hart í bak þegar þess þurfti. Hann stóð - á meðan aðrir hrukku í brauðið
Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins sýndi skýrt á kjörtímabilinu að það hefur aldrei þurft kjark til að guggna og gefast upp. Þetta hefði ekki þurft að vera þannig. Bíða og vonast margir eftir heimkomu þeirra úr samfylkingaskipaðri evrópunefnd, heim til þess sjálfstæðis sem Jón Bjarnason varði
Ég kýs því kjarkmanninn Jón Bjarnason og Bjarna harðari. Annað get ég ekki."
Sjá nánar,
http://tilveran-i-esb.blog.is/blog/tilveran-i-esb/entry/1295590/?t=1367006129
Et tu Brute!
26.4.2013 | 14:14
...
Engir íslenskir peningatankar slaga í þá gullasna sem Evrópustofa hefur nú klifjaða við borgarhliðin. Okkur er þegar lofað hundruðum milljóna í IPA styrki og líðanin er ekki ólík því sem verið hefur hjá Hansi og Grétu þegar þau sáu yfir að sætabrauðshúsinu í Vestfalíu um árið. Líkt og nammið soltnum börnum í þýskum skógi þá ráða gullasnar hjörtum og nýrum mannanna í mílna fjarlægð og komast inn um smugur þröngar sem ekki hleypa vatni í gegn.
Hagsmunir ESB sinna eru að asnar þessir fái að standa án þess að við þeim sé stuggað kosningabaráttuna á enda. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald samningaviðræðna" getur aldrei orðið annað en þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort gullið fái að koma inn um borgarhliðin.
Og snilldarlega hefur ESB trúboðið komið fyrir málum að það skuli orðið sérstakt baráttumál formanns Heimssýnar og flokksbræðra hans í Framsóknarflokki að kosið skuli um staðleysur.
Et tu Brute!
Sjá nánar í greininni Pakkakíkir platar sífellt fleiri á vefsíðunni Neiesb.is, http://neiesb.is/2013/04/pakkakikir-platar-sifellt-fleiri/
Í skjóli flokksræðis
26.4.2013 | 11:46
Afnemum verðtrygginguna, breytum kvótakerfinu, lækkum skuldirnar, styðjum litlu fyrirtækin, afnemum launajafnréttið. Allt eru þetta eins og bolsíur frá bernskutíð. Gamalkunn lygi sem þulin er upp á fjögurra ára fresti því að okkur finnst svo værðarlega gott að láta ljúga að okkur. ...
Eftir GSB og BH, sjá nánar greinina alla hér http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/1295355
Köstum atkvæði okkar ekki á glæ
25.4.2013 | 18:49
- Ég ætla ekki að kasta atkvæði mínu á glæ í þessum kosningum, sagði vinur minn úr Tungunum við mig í vikunni og ég hummaði eitthvað á móti um að ef maður greiddi atkvæði væri það nú alltaf framlag til lýðræðisins.
- Nei, það er ekkert framlag til lýðræðisins. Það er afbökun á því, svaraði þessi félagi minn og var heitt í hamsi. Ég vissi varla hvert þetta símtal var að fara. Ætlaði maðurinn að koma með þessa lummu um að við fengjum ekki nógu mikið fylgi og atkvæðið dytti því dautt niður. Tilbúinn að benda á að í þeirri einu könnun þar sem mitt nafn var nefnt reyndust 44% íbúa Suðurkjördæmis óska þess að ég yrði kjörinn. Æi, mér leiðist að halda svo sjálfhverfum hlutum fram en meðan engin önnur mæling hefur farið fram á mínu eigin fylgi gæti ég neyðst til þess... En nú gáfust ekki tímar til heilabrota, rödd þessa gamla sveitunga var í tólinu og hélt áfram.
- Síðast kaus ég VG, mest út af andstöðunni við ESB. Því atkvæði var svo sannarlega kastað á glæ og verra en það því þetta lið sem vill ná af okkur fullveldinu fékk það og þá þingmenn sem ég studdi afhenta á silfurfati. Ég var ekki svona heppinn eins og þú að hafa kosið Atla Gíslason...
- Ja...!
En ég komst ekkert að og hafði svosem ekkert mikið að segja. Maðurinn var farinn að segja mér frá föður sínum öldruðum sem var kominn með nýtt hné og hafði til skamms tíma kosið íhaldið. Þegar hann áttaði sig á að gamla hægri stjórnin hafði stolið ríkisbönkunum og allskonar fyrirtækjum fannst þeim gamla hann hafa verið svikinn. Atkvæðunum sínum stolið og hann ætlaði svo sannarlega ekki að láta það henda sig oftar að kjósa þá sem allt svíkja og öllu stela.
- Við ætlum báðir að kjósa þennan Regnboga ykkar þó að þetta sé nú hálfskrýtið nafn. Ef þetta héti bara Listi Bjarna og Guðmundar þá hefðuð þið rakað inn í skoðanakönnunum. Það veit enginn að þú sért á lista sem heitir Regnbogi en ég er viss um að þið fáið fylgi í sjálfum kosningunum. Þið farið líklega báðir inn og vertu blessaður!
- Ha, já blessaður.
Jafnrétti milli landshluta
25.4.2013 | 11:15
Þó enn sé langt í land höfum við náð umtalsverðum árangri á Íslandi í jafnréttisbaráttu milli kynja og þjóðfélagshópa. En á sama tíma hefur jafnréttisbarátta landshluta farið hallloka og staðan einkennist nú sífellt meira af því að hér er að verða til borgríki og skattlönd þess allt í kring...
Sjá nánar í grein minni í Eyjafréttum.