Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
Mikilvægt að fjalla um kennitöluflakkara
31.1.2013 | 11:38
Fréttavefur Moggans á hrós skilið fyrir að fjalla hér um dæmigerðan íslenskan kennitöluflakkara. Fyrir okkur sem erum að berjast í fyrirtækjarekstri er samkeppni frá kennitöluflökkurum og afskriftakóngum það versta sem um getur. Það er hægt að lifa við verðbólgu, sölutregðu, smávægilegt búðahnupl og eldfjallaösku frá Eyjafjallajökli þó hún kosti daglegar skúringar! En það er ekki hægt að keppa við þá sem hafa rangt við með undirboðum - og kasta skuldunum öðru hvoru í fangið á almenningi.
Góður félagi minn hér á Selfossi hætti nýlega að baka pizzur eftir margra ára farsælan og myndarlegan rekstur. Ástæðan: Dominoskarlarnir komu fljúgandi inn í bæinn á þyrlu og klipptu á borða að nýjum veitingastað. Flott skyldi það vera!
Nú er ekkert að samkeppni en hvernig á venjulegur heiðarlegur atvinnurekandi að keppa við Domionos sem undirbýður og er með allt svo flott og fínt - eftir að hafa fengið að minnsta kosti 1500 milljónir afskrifaðar. Talan er þó ef til vill hærri. Sá sem keypti Dominos 2012 af Landsbankanum og Magnúsi Kristinssyni fyrrum útgerðarmanni í Vestmannaeyjum er sá sami og seldi Magga staðinn í bólunni miðri nokkrum árum fyrir hrun. Magnús var einn þeirra sem keypti þá nokkur stór fyrirtæki, Toyota þar á meðal. Á þessum árum voru öll fyrirtæki ofmetin og vitaskuld fór ævintýri Eyjamannsins í þrot með tilheyrandi afskriftum. Hluti af þeim afskriftum tilheyra vitaskuld Dominos - hversu stór veit ég ekki.
Algerlega galið bankakerfi útrásarvíkinganna sá til þess að þeir sem seldu fyrirtækin á þessum tíma fengu þau oftar en ekki greidd út í beinhörðum peningum, þó svo að kaupandi skuldaði allt í viðskiptunum. Þessar peningaupphæðir eru grundvöllur margra þeirra sem mest berast á í dag og það er fráleitt að láta bara eins og þetta sé heiðarlega fengið fé.
Þetta er hluti af siðlausum afskriftaheimi eftir-kreppu-kapítalismans.
Ítrekuð gjaldþrot Metroborgara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyndinn og skemmtilegur Icesave dagur
28.1.2013 | 21:46
Dagurinn hefur verið mjög skemmtilegur en líka mjög fyndinn þannig að eiginlega átti maður svoldið erfitt með hlýða Steingrími J. fór fram á að menn sýndu þann þroska að vera ekki að gleðjast mjög mikið yfir þessum Icesave tíðindum.
Hlátur er til dæmis mjög óviðeigandi, sagði miðaldra kona sem kom til mín í búðina og hafði heyrt Steingrímsviðtalið. Svo hlógum við bæði.
Rétt seinna kom Össur sem ekki hefur vit á bankamálum í fréttaviðtal og var flaumósa. Hann er of mikill durni til að ná upp í falsettu en það munaði litlu. Bætti það upp með óborganlegum kommentum og sérstakri undrun yfir að þurfa ekki að borga málskostnað. (Það vita samt flestir að það er almenn regla ef þú vinnur dómsmál, þá greiðir taparinn lögfræðireikninginn þinn!)
Já, og Landsbankinn, hann bara borgar þetta að fullu, - hélt ráðherrann áfram sem er nú þekktur að því að þekkja hvorki til lögfræði né bankamála og bætti um betur þegar hann talaði um að Landsbankinn hefði greitt allar sínar skuldir og barasta 115%. (Kannski fær frúin í Hamborg þessi 15% sem eru umfram en vitaskuld greiðir Landsbankinn í reynd bara brot af þeim skuldum sem hann stofnaði til þó að almennar innistæður séu greiddar.)
Undir kvöld kom svo Sigmundur Davíð í Kastljós með Steingrími og klappaði honum varlega, minnti reyndar á að fjármálaráðherrann fyrrverandi hefði verið leiðinlegur við þá og jafnvel strítt Framsóknarmönnum þegar þeir vildu lesa Icesave samninginn yfir!! (Allt mjög settlegt og ekkert verið að ýfa það við formann VG að í þessu máli lá hann hundflatur fyrir ESB. Evrópusambandið var í þættinum en í hlutverki bleika fílsins sem enginn talar um því allir ætla að vera svo kurteisir og góðir við hvorn annan enda stutt í stjórnarmyndanir.)
Steingrímur J. toppaði svo kvöldið því hann kann svolítið fyrir sér í fornum húmor af Langanesi kenndi Svíum og Norðmönnum um það að hafa samþykkt allt sem Bretar vildu ...
Svo eru landsfeður að fara fram á að maður gleðjist ekki um of eða hlæi á svona degi!
Kíkjum í kjarnorkupakkann!
27.1.2013 | 12:50
Nú þegar Hjörleifur er genginn úr VG væri skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að kanna hvaða áhrif það hefði á byggð í Eyjum og efnahag þjóðar að reisa kjarnorkuver í miðbæ Heimaeyjarkaupstaðar.
Samhliða geta flokkarnir samþykkt ályktanir um að þeir séu alfarið á móti kjarnorkuverum. Það er nauðsynlegt að kíkja í alla pakka, til þess eru menn í ríkisstjórn!
Kjarnorkuver í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það sem fyndið á að vera ...
25.1.2013 | 22:50
Steingrímur J. boðar nú að á næsta kjörtímabili - þegar flokkurinn hefur örugglega engin völd lengur - verði VG aftur á móti ESB og setji þau skilyrði að aðlögunarferlið verði stöðvað. Tillaga um það verður að boði formanns samþykkt á landsfundi seinna í vetur.
Í dag hefur sami Steingrímur J. umtalsverð völd, meðal annars til þess að stöðva ESB umsóknina en það ætlar hann ekki að gera.
Er nema von að Hjörleifur fari. Þeir fara að verða einmana, hinir fáu ESB andstæðingar sem eftir eru í flokknum.
Segir sig úr Vinstri grænum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af holhönd utanríkisráðherra og það sem þar er að sjá!
21.1.2013 | 13:26
Það lenti á mér í dag eins og oft áður að skrifa pistil dagsins á Vinstri vaktinni. Að þessu sinni skrifaði ég um það fólk sem hefur ófreskigáfu og getur séð inn í framtíðina.
Sá sem vildi sjá það sem hinn skyggni sá þurfti ekki annað en að horfa undir holhönd hins skyggna. Hélt þá sá skyggni hendi sinni út en sá sem vildi sjá beygði sig undir armlegginn og sá allt í gegnum það sjónarhorn sem varð undir axlarkverkinni.
Þegar leið nær okkar tíma varð þetta að hrekkjarbragði að láta fákæna kjána trúa því að það sem sást svona undir holhönd væri allt andlegra og merkilegra en venjuleg útsýn yfir veröldina. Í raunsæi 20. aldarinnar er nærtækt að skýra margar þessar sagnir og sýnir hinna ófresku með vísan í hugtök geðlæknisfræðinnar. Enginn trúir því nú að hægt sé að sjá ofsjónir annars manns með því að horfa undir axlarkverkinni og gildir þá einu hvort horfa skal á álfa eða skyggnast inn í framtíðina.
En samt er eins og veröldin endurtaki sig og sé jafnan söm við sig. Töluvert stór hópur manna telur sig geta kíkt inn í framtíðina með því að sjá undir loðinni holhönd utanríkisráðherra einhvern þann pakka sem á að geyma sem gerist og gerist ekki ef Ísland gengur í ESB. Og líka hvað gerist og hvað gerist ekki ef Íslendingar fara svo illa að ráði sínu að ganga ekki í ESB.
Annarskonar virkjun Þjórsár
20.1.2013 | 16:02
Afgreiðsla rammaáætlunar er fagnaðarefni fyrir okkur sem höfum haft efasemdir um ágæti virkjunar neðri hluta Þjórsár. Með því að þær eru allar settar í bið skapast staða sem kallar á umræðu og athafnir.
Í þeirri kreppu sem verktakageirinn er í hafa margir horft til þess að æskilegt væri að ráðast í umræddar virkjanir. Í draumsýn hefur þá einnig verið brú milli Gnúpverjahrepps og Holta og víst myndi slík samgöngubót skila miklu. En til lengri tíma litið er framkvæmdahugur af þessu tagi litaður skammsýni. Við sem höfum verið á Suðurlandi báða dagana munum vel hvaða áhrif tarnaframkvæmdir hafa á byggðalögin. Kauptúnin í Rangárþingi bjuggu við margra ára kreppu eftir fyrstu tarnir í Þjórsárvirkjunum. Þann leik þurfum við ekki að endurtaka.
Líklegt er að á næstu árum fari fram endurmat umhverfisáhrifa virkjana í neðri hluta árinnar og það er vafamál að hugmyndir Landsvirkjunar standist slíka skoðun. Þessvegna er brýnt að Sunnlendingar fari að horfa á þessa miklu móðu, Þjórsána, sem annarskonar auðlind. Efra framleiðir hún helftina af raforku landsmanna en hér á heimaslóð getur hún orðið mikil lyftistöng í atvinnulífi þar sem ekki væri tjaldað til einnar nætur.
Laxastofn Þjórsár er einn sá stærsti í okkar heimshluta og með útfellingu á seti og gruggi yfir hásumarið má auka viðkomu laxastofnins enn meira og þar með gera bakkana beggja vegna að frábærum veiðistöðum stangveiðimanna yfir verðmætasta veiðitímann. Stangveiðar innlendra og erlendra veiðimanna skila mjög miklu til þjóðarbúsins og skapa margs konar atvinnu við bakka veiðiánna. Talið er að 50 veiddir laxar á stöng skapi eitt ársverk og því ljóst að Þjórsá getur skilað Sunnlendingum tugum varanlegra starfa ef rétt er á málum haldið.
Nú þegar Urriðafossvirkjun er að þokast út af borðinu getum við því lagt á ráðin um að nýta neðri hluta Þjórsár til raunverulegrar atvinnusköpunar í héraði. Sú uppbygging og atvinna sem yrði í kringum þessa nýtingu árinnar kallar auðvitað á samgöngur og það er fráleitt að raforkuvirkjun sé skilyrði þess að lögð sé ný brú yfir Þjórsá.
(Birt í Morgunblaðinu 19. jan.2013)