Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
Sammála verkalýðsleiðtoganum...
31.10.2008 | 23:06
Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins talaði í kvöld fyrir sparnaði í rekstri löggjafarþingsins og ég er honum sammála þar. Talaði reyndar á þeim nótum við fjárlagaumræðu fyrir ári. Þetta er spurning um útfærslur.
En svoldið var þetta samt eins úr glerhúsi hjá verkalýðsleiðtoga. Meðan þingmönnum hefur fjölgað um þrjá á lýðveldistímanum og starfsmannafjöldi þingsins í mesta lagi tvöfaldast höfum við séð störfum hjá stéttarfélögum fjölga um mörg hundruð prósent á sama tíma án þess að ég sjái beint aukinn árangur af því starfi,- allavega ekki í því að auka jöfnuð í samfélaginu.
Ekki að ég telji að afleggja eigi stéttarfélögin eða taka af þeim rétt til að innheimta félagsgjöld - en þar tíðkast viða rífleg laun og umsvif umfram það sem nauðsynlegt er. Þessi félög geta sparað og sparað mikið...
Sökudólgurinn er Alþingi...
31.10.2008 | 19:37
Hver er ástæða þess að fámennum hópi tókst að kollsteypa íslensku hagkerfi. Víst skipti máli offar einstakra útrásarvíkinga og ennþá frekar ef rétt er að menn hafi skotið milljörðum undan til skattaparadísa suður í heimi. En þegar þeir ósvífnustu hafa verið metnir og einstaka óhappaverk tekin til skoðunar sjáum við líklega að ekkert af þessu breytir heildarmyndinni.
Óhappaverk 1993
Hinn raunverulegi sökudólgur alls þessa er vitaskuld löggjafarvaldið og þeir sem þar eru í forsvari. Ekki vegna sértækra verka einstöku ráðherra eða rangra ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins. Það er mjög hrópað á eftirlitsiðnaðinn í fjármálalífinu en sjálfum er mér til efs að eftirlitsiðnaðurinn einn hefði getað betur. Sökin liggur hjá Alþingi sem ákvað í maí 1993 að fela Evrópusambandinu hluta af því valdi sem fram til þess tíma var Alþingis og þjóðarinnar. Þetta var gert með EES samningnum. Enginn þingmanna Framsóknarflokksins studdi þann gerning.
Við sem lýstum á þeim tíma andstöðu okkar við EES samninginn gerðum það einkanlega á forsendum fullveldis og frelsis þjóðarinnar. Engan okkar óraði þá fyrir að kerfi sem smíðað var af hundruðum þúsunda skriffinna í Brussel gæti verið svo ófullkomið sem raun ber vitni. Á annan áratug hafa þjóðir ESB og EES móttekið tilskipanir frá Brussel og gert að lögum sínum.
Missmíði á fjórfrelsinu
Nú kemur í ljós að í lagaumhverfi og tæknilegri útfærslu á svokölluðu fjórfrelsi eru slíkar missmíðir að jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn að vísa í EES samninginn sem orsök. Kerfi þetta gaf allskonar ævintýramönnum lausan tauminn í viðskiptum milli þjóðríkja eins og engin landamæri væru til. Þegar kemur að ábyrgð og uppgjöri sjáum við að eftirlit innan hins evrópska skrifræðis einkennist af magni en ekki gæðum.
Engin trygging er fyrir því í kerfi þessu að sá sem er ábyrgur viti af ábyrgð sinni og raunar eru lagaóvissur í þessum efnum svo miklar að þegar hefur kostað milliríkjadeilur, fleiri en bara þær sem eru milli Íslands og Bretlands. Á undan okkur deildu t.d. Írar og Danir um hliðstæða hluti. Verst er að ekkert þjóðríkjanna tók á sig að bera almennilega ábyrgð á að hlutirnir væru í lagi. Allir treystu skriffinnunum sem eru líka um 700 þúsund í einni borg.
Kerfi sem enginn skildi
Vissulega hafa allar smáþjóðir farið þá leið í lagasetningu að taka mið af lögum stærri nágranna sinna. Það gerðum við Íslendingar um aldir og fluttum um Skandinavísk lög allt frá árinu 930 og til okkar daga. En slík yfirfærsla var gerð með þeim hætti að íslenskir yfirvöld þurftu í hvert sinn að gæta að hvernig ein flísin félli þar að annarri.
Með innleiðingu EES - var sú aðgætni ekki lengur fyrir hendi enda um að ræða yfirfærslu sem gilti í senn um heila álfu þar sem við teljumst nokkur prómill af heildinni, náum ekki tíunda hluta af prósenti. Kerfið er í ofanálag svo flókið og risavaxið að í reynd var útilokað að nokkur hér heima gæti haft yfirsýn yfir það og reyndar ekki heldur svo í sjálfri London að nokkur hafi skilið það til fulls. Að minnsta kosti ekki Gordon Brown. Þannig hafa sérfræðingar, erlendir og innlendir, talið allt þar til í haust að innan evrusvæðisins væri samábyrgð Evrópska Seðlabankans fyrir hendi en nú kemur í ljós að hún er alls ekki til. Og við hefðum því í engu verið betur staddir innan evrusvæðis.
Allt bar því að þeim sama brunni að allir treystu í blindni á kerfi sem enginn gat skilið til hlítar. Nú reka Evrópuþjóðirnar sig illa á og Icesave dæmið íslenska er aðeins dropi í þeirri mynd. ESB þjóðirnar deila um ábyrgð á bönkum og draga sig sífellt meir að eigin hagsmunum.
Hagsmunir þjóða og hagsmunir stjórfyrirtækja
Í reynd hefur ríkisstjórnum allra Evrópuríkjanna verið kippt til þess raunveruleika að verða að gæta að eigin hagsmunum og sínu eigin fólki. Þau draga sig því í fleiri og fleiri atriðum frá heildarhagsmunum Evrópu. Og eðlilega vaknar spurningin, hverjir voru þessir heildarhagsmunir. Voru það ekki hagsmunir fólksins.
Þegar að er gáð hefur ESB einkanlega tekið mið af hagsmunum stórra efnahagsheilda, stórfyrirtækja og einokunar og engin tilviljun að hér heima höfum við einnig þokast nær einokunarkapítalisma allan EES tímann. Á erfiðleikatímum verða allar ríkisstjórnir að gæta hagsmuna sinnar eigin þjóðar og allt gildismat færist nær raunverulegum hagsmunum kjósenda.
Vegna EES samningsins gátum við ekki tryggt dreifða eignaraðild bankanna sem með öðru stuðlaði að þeirri óskemmtilegu mynd viðskiptalífsins sem við blasir. Við gátum ekki gengið gegn fjórfrelsinu og bannað bönkum að starfa utan Íslands. Það var mögulegt að stöðva opnun nýrra útibúa en útilokað að stöðva það sem í gang var komið.
Hendur Alþingis til að hafa áhrif hafa verið bundnar og tíska samfélagsins, mótuð af fjölmiðlum tískuauðvaldsins hefur stutt alla þá reginfirru.
(Birt í Mbl. 30. okt.2008)
Trúboð í boði lýðveldisins
29.10.2008 | 18:23
Greiningadeild ríkisbankans Glitnis sendir í morgun frá sér yfirlit þar sem rakin eru hin ýmsu rök fyrir því að Ísland eigi tafarlaust að lýsa yfir Evrópusambandsaðild. Þar með megi bæði lækka vexti og koma flestu því í lag sem fjármálakreppan hefur orsakað hér á landi.
Ég ætla ekki að standa í deilum við menn með önnur eins sjónarmið. Nú er flestum að verða ljóst að útrásarvíkingarnir plöntuðu trúboðum evrópusambandsaðildar inn í allar greiningardeildir og alla fjölmiðla. Þannig hefur sá boðskapur að við eigum að afhenda allar auðlindir og eigur íslensku þjóðarinnar markaðsöflum evrópusambandsins verið hér í boði þeirra Samsons, FL group og fleiri misjafnlega gæfulegra félaga.
Hitt þykir verra að nú þegar Greiningardeild þessi er rekin af lýðveldinu skuli enn haldið uppi sama söng sem sagan mun aðeins dæma á einn veg. Það er raunverulega verið að ráðleggja okkur að leggjast undir erlent vald á tímum þegar samningsstaða okkar er engin...
Og hvaða tilgangi þjónar þessi greiningardeild- hjá ríkisstofnuninni!
Meira um málið í frétt Vísis
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 04:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
Frábær Iðnó-fundur og vísitalan burt
29.10.2008 | 13:24
Það eru eiginlega afglöp í bloggi að vera ekki búinn að blogga neitt um Iðnófundinn sem var í fyrrakvöld. Við mættum þar nokkrir þingmenn enda beðnir um það af fundarboðendum, fulltrúar allra flokka voru á staðnum. Var reyndar hálfundrandi að sjá bara einn frá Samfylkingunni og það varaþingmann en hann er samt einn þeirra bestu manna, sómadrengurinn Mörður Árnason. Blöð hafa talað um það að púað hafi verið á okkur pólitíkusana og fólk aðallega verið reitt...
Þetta er dæmigerður hálfsannleikur og því aðallega lygi. En auðvitað er fólk reitt, við erum það öll. Annað væri til marks um einhverskonar geðleysi sem ég vona að sé ekki yfir okkar þjóð. En sú reiði í Iðnó beindist ekki minna að fjölmiðlum heldur en stjórnmálamönnum og mest þó að útrásarvíkingunum okkar. Við stjórnmálamennirnir sem töluðum fengum allir að tala út og þegar reynt var að yfirgnæfa okkur með púi voru fleiri sem báðu um hljóð í salinn. Þannig sá ég þetta.
Og fundurinn var þrátt fyrir reiðina mjög málefnalegur. Það er út af fyrir sig mjög merkilegt við þessar aðstæður og ef það var einhver niðurstaða þá fannst mér hún speglast í orðum tímavarðarins sem beindi því til fundargesta að nota hina miklu orku sem er í samfélaginu til uppbyggingar en ekki niðurrifs.
Svo voru mjög merkileg innlegg eins og sá kafli í ræðu Lilju Mósesdóttur hagfræðings að nú væri lag að aftengja vísitölubindingu húsnæðislána þegar ríkið hefur þau öll í sinni hendi. Ég hef lengi verið baráttumaður þess að við endurskoðum vísitöluna og þótti einkar gott að finna hér liðsmann í þeirri baráttu sem er í hópi hagfræðinga.
Vilhjálmur Bjarnason talaði gegn þessari hugmynd og vísaði til hagsmuna lífeyrissjóðanna. Ég er ekki fjarri því að það megi koma til móts við þetta með framlagi úr ríkissjóði ef á einhverjum tímabilum færi svo illa að vextir yrðu neikvæðir vegna þess að verðbólga færi fram úr því sem vænst væri...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þegar allir lofuðu Icesave
28.10.2008 | 14:23
Viðtal Kompáss við Björgólf Thor var athyglisvert og einkanlega fyrir það sama og öll hin viðtölin við forystumenn stórfyrirtækjanna í landinu, Björgólf eldri í Mogganum, Jón Ásgeir í Silfrinu og Sigurjón Landsbankastjóra í fréttunum í kvöld.
Enginn gerði sér fyllilega grein fyrir hvað var að gerast - enginn þekkti lagaumhverfi ábyrgðanna til hlítar. Við, ekki bara Íslendingar með sinn EES-samning, heldur nær allir Evrópubúar, bjuggu við endileysu í svokölluðu fjórfrelsi þar sem enginn vissi um takmörkin í flæði fjarmagns og fyrirtækja að ekkert eftirlit kom raunar að nokkru haldi.
Raunarlegast er að hlusta á þann söng að eftirlitið hefði þurft að vera betra. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að búa til lagaumhverfi þar sem það er á hreinu að enginn Jón Ásgeirinn gangi um með tékkhefti sem þjóðin öll ber ábyrgð á.
Lofum Brown að hafa Hannes...
27.10.2008 | 23:01
Nú hefur Hannes Smárason lofað (eða hótað) að koma heim og hjálpa til, - segist reyndar ekki eiga neinn pening en vilji koma samt. Ætlar ósköpum aldrei að linna.
Krafan um að útrásarvíkingarnir komi sjálfir heim og taki þátt í uppbyggingu hins nýja Íslands er óraunhæf. Fæstir þeirra njóta í dag trausts í viðskiptalífinu. Að slíkum mönnum er minna en ekkert gagn. Bretlandi er nú mátulegt að hýsa þá sem flesta og máske er krötum þar þá fullrefsað...
Hitt er annað að ef einhverjir þessara hafa skutlað tugmilljörðum undan inn í skattaparadísir er sjálfsagt að allt verði gert sem lög leyfa til að koma höndum yfir slíkt fé.
En ég er engan vegin bjartsýnn á að það takist!
Ísland - verst í heimi?
26.10.2008 | 17:13
Ég er ekkert viss um að Ísland fari ver út úr þessu en margir aðrir. Ísland er bara aðeins á undan...
Einhvernvegin þannig fórust Jóhannesi Birni orð í stórgóðu viðtali við Egil Helgason í dag. Hér á landi er því trúað að kreppan sé aðallega á Íslandi og verst á Íslandi og eiginlega bara hégómi í öðrum löndum. Ég hef efast um þessa mynd frá upphafi. Við vitum ennþá lítið hvað gerist í Evrópu á komandi misserum. Sjáum samt að markaðir eru enn að hrapa um allan heim en vitaskuld er meiri viðstaða í stærri kerfum en smærri. Þau eru því lengur að hrynja en líka lengur að rísa. Meira að segja bankamenn eru farnir að segja þetta,- við munum rísa hratt á Íslandi.
En það rímar algerlega við íslenska þjóðfélagsumræðu að vera í ökla eða eyra. Trúa því að Ísland sé best í heimi og skipta svo bara út einum staf og við erum verst allra. Auðvitað alveg glórulaus umræða.
Ég hef fyrr sagt það hér á blogginu að þó alltof margir fjölskyldur eigi eftir að glíma við gjaldþrot og atvinnuleysi þá verður það sem betur fer aðeins brotabrot af heildinni. Langflestir munu lifa frekar venjulegu lífi, ögn lágstemmdara og ekki leggja neitt til hliðar. Jafnvel ganga á eigur sínar. En lífi sem verður samt aðallega venjulegt...
Viðtal Egils við Guðmund Magnússon blaðamann var líka frábært og margt mjög Framsóknarlegt í hans málflutningi, til dæmis það að við setjum sameign þjóðarinnar á auðlindum í Stjórnarskrána.
Annars er það besta frá helginni að við Elín mín áttum góða göngu um fornar mýrar Skálholtsbiskupa, frá Smalaskálaholti og framhjá henni Digru Siggu sem er klettabelti fagurt og hér sést á myndkríli, - norður og austur vegleysur um Skálholtshaga þar sem Sveinn spaki lá fenntur með skólapilti fyrir 600 árum og ferðaðist með tímavél - og alla þessa sömu leið og við Raggi Sverris gengum 9 ára þegar okkur var hent út úr skólabíl fyrir firnarlega mikla óþekkt og sumir töldu okkur týnda ofan í keldu en við áttum hinn skemmtilegasta dag og sluppum við skólann en vorum ekkert skammaðir enda þóttust allir fegnir að við værum ekki í keldunni - þó það hafi nú um sumt verið ofar mínum skilningi, svoddan skaðræði sem við vorum og erum kannski enn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Það sem enginn veit um IMF lánið...
25.10.2008 | 12:35
Eins og svo oft snúast fréttir af stóru málunum sjaldnast um það sem máli skiptir. Stóra málið í allri umræðunni um lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hvort þumalskrúfa Bretanna sé farin eða enn inni í myndinni. Geir segir að málið hafi verið tekið út fyrir sviga, hvað sem það þýðir. Thomsen frá IMF segir að stjórn sjóðsins þurfi að samþykkja fyrirgreiðsluna og útilokaði á blaðamannafundinum ekki að þar komi til aukin skilyrði.
Við erum nú komin inn á braut sem Bretar vita fullvel að við snúum ekki svo glatt af. Takist þeim að lauma inn einhverju í átt að skilyrði um ábyrgð ríkissjóðs á innlánum Icesave þá er illa komið fyrir okkur. Hafi ríkisstjórninni íslensku tekist á undanförnum vikum að aðskilja þessi mál algerlega þá á Geir inni prik hjá þjóðinni.
Sem honum veitir nú ekki af eftir að hafa setið í vítaverðu aðgerðaleysi um missera skeið meðan ein leiðin af annarri lokaðist.
En ég er nokkuð viss um að ennþá veit enginn fyrir víst hver niðurstaðan verður í þessari erfiðu milliríkjadeilu Íslendinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Einangrunarsinnar og ESB aðild
24.10.2008 | 20:45
Fyrir ári síðan bar mikið á þeim rökum íslenskra bankamanna að ef landið væri hluti af ESB og myntbandalagi Evrópuþjóða væri öryggi íslensku bankanna með öðrum hætti. Nú þegar bankakreppan ríður yfir er ljóst að sú vernd sem menn töldu vera af Evrópska seðlabankanum er ekki fyrir hendi. Hvert ríki innan ESB reynir nú að bjarga sínu og samstaða þar er þverrandi.
Aðild Íslands að EMU hefði þannig einungis komið inn falskri öryggiskennd ríkisvalds og banka og þar með stefnt þjóðarbúinu í enn meiri voða en þó er orðinn í dag. Í annan stað er öllum ljóst nú að það er ekki síst fyrir tilvist EES samningsins sem fáeinum íslenskum fjárglæframönnum hefur tekist að koma orðspori okkar og hagkerfi í verri stöðu en nokkurn óraði fyrir. Þeir hefðu haft sömu og jafnvel enn háskalegri stöðu innan ESB.
Einangrun eða ESB
Meðal talsmanna aukins Evrópusamruna er oft og einatt teflt fram að þeir sem tala gegn slíku séu einangrunarsinnar. Þessi rök voru mjög notuð í umræðunni um EES samninginn sem keyrður var í gegn af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sáluga árið 1993. Framsóknarflokkurinn varaði þá við þeim samningi og taldi hann ganga gegn fullveldi þjóðarinnar. Í dag er því enn haldið fram að þeir séu einangrunarsinnar sem ekki vilja leiða þjóðina í Evrópusambandsaðild.
Hér eru mikil fornaldarsjónarmið á ferðinni því allt frá lokum miðalda hafa Evrópubúar vitað að álfa þeirra er harla lítill hluti af heimsbyggðinni. Nú við byrjun nýrrar aldar vita hagfræðingar og upplýstir stjórnmálamenn enn fremur að Evrópa er sá hluti heimsbyggðar þar sem hvað minnstir vaxtamöguleikar eru í verslun og viðskiptum. Viðbrögð gömlu heimsveldanna í Evrópu við þessari þróun er að einangra álfuna og byggja utan um hana tollamúra en opna fyrir aukin viðskipti milli ríkja innan álfunnar. Í reynd er þetta einangrunarstefna sem ekki er til farsældar fallin.
Bankakreppan nú er líkleg til að laska verulega þann samruna sem orðið hefur milli Evrópuríkja og því er jafnvel spáð að evran eigi erfitt uppdráttar á næstu árum. Ekki vil ég þó óska henni annars en góðs. En það er stór hætta á að kreppan nú leiði líkt og fyrri kreppur til aukinnar einangrunarstefnu allra iðnríkja og þar er fetað inn á slóð sem gömlu Evrópuveldin þekkja vel. Við Íslendingar eigum að vara okkur á slíkum viðbrögðum.
Heilbrigð milliríkjaviðskipti
Vitaskuld eru bankagjaldþrotin áfellisdómur yfir landamæralausum útrásarvíkingum. Við eigum því að endurskoða margt sem fylgt hefur hina svokallaða fjórfrelsi EES samningsins, einkanlega þar sem bönkum er gefinn laus taumur. En við eigum jafnframt að halda áfram að slaka hér á tollum og auka fríverslun okkar við sem flesta heimshluta. Hugmyndir um alþjóðlega fjármála- og viðskiptamiðstöð á Íslandi milli austurs og vesturs gátu átt meira erindi til okkar en nokkru sinni. En ekkert slíkt getum við þróað innan vébanda ESB. Þessvegna eru það öfugmæli hin mestu þegar ESB sinnar halda því fram að þeir séu hinir frjálslyndir alþjóðasinnar.
Ef vel á að fara verðum við Íslendingar að gæta þess eftirleiðis að innleiða ekki á færibandi lagasetningu ESB án þess að kanna til hlítar hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðarbúið. Icesave-reikningarnir færa okkur heim sanninn um að ef gáum ekki að okkur mun enginn annar tryggja að lagaumhverfið samrýmist íslenskum hagsmunum.
Lúalegt kosningabragð
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um þá kröfu að þjóðin fái að kjósa um mögulega ESB aðild. Á sínum tíma gerðu Framsóknarmenn og fleiri gagnrýnendur EES samnings kröfu um kosningar um þann samning en hlutu ekki til þess stuðning. Sumir af þeim sömu og nú tala fyrir kosningum um aðild beittu sér þá með öðrum hætti.
Komi til þess að þjóðin gangi að kjörborði um stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu er full ástæða til að um leið fái hún að segja álit sitt á bæði Schengen samstarfi og EES samningnum. Svisslendingar sem þó hafa verið undir meiri þrýstingi en við að ganga inn i ESB náðu tvíhliða samningi við Brussel. Þar með eru þeir lausir undan að taka við lagafrumvörpum frá nágrönnum sínum. Með tvíhliða samningi gætu Íslendingar einnig komið sér út úr Shengen samstarfinu en með því mætti uppræta hér skipulagðar erlendar glæpaklíkur sem hreiðra um sig á Íslandi í skjóli fjórfrelsisins.
Vinsældakosning lýðveldis
Bankakreppan og mikill efnahagslegur samdráttur kann að auka tímabundið fylgi við ESB aðild og ef ekki er gætt sanngirni gætu Íslendingar lent undir Brusselvaldinu á sömu forsendum og Svíar. Þar í landi var andstaða við aðild almenn allt þar til landið lenti í gjaldþrotum banka. Þá skapaðist tímabundin vantrú á sænskt sjálfstæði og það lag gátu aðildarsinnar notað sér. Síðan þá hefur andstaðan við aðild aftur vaxið en leiðin út úr ESB er harla vandrötuð.
Það væri fráleitt og næsta lúalegt að ætla Íslendingum að kjósa um aðild á næstu misserum þegar landið allt er í sárum eftir fjárhagslega kreppu. Slík kosning er öðru fremur vinsældarkosning lýðveldisins. Mikilvægt er að bíða uns fárviðri bankakreppunnar hefur riðið yfir Evrópu og eðlilegt ástand skapast. Margt bendir til að sú holskefla verði gömlu álfunni ekki síður erfið en Ísland er nú til muna fyrr til að lenda í þeim stormi.
Ef til vill mun okkar vakra og lítt vinsæla mynt og sveigjanlega kerfi einnig valda því að við verðum fyrri til að vinna okkur út úr kreppunni en þau lönd sem læst eru í þunglamalegar skrifræðiskrumlur Brusselvaldsins.
(Birt lítillega stytt í Fréttablaðinu 23. okt. 2008)
Slá sig til riddara út á sjálfs síns skömm
23.10.2008 | 20:50
Okkar einstöku ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Björgvin G. Sigurðsson slá sig nú til riddara með því að hneykslast á ákvörðunum sem þau bera sjálf ábyrgð á. Líklega hefur aldrei sést annað eins lýðskrum eins og ræða Jóhönnu um laun nýju bankastjóranna og lífeyrissjóðsfríðindi þingmanna.
Vitaskuld eru þetta alltof há laun og þá sérstaklega fyrir bankastjórn. En þau eru svona á ábyrgð þessara sömu ráðherra sem hafa skipað sína pólitísku fulltrúa í nýju bankaráðin. Og Samfylkingin hefur enga viðleitni sýnt í þá átt að afnema lífeyrisfríðindin, sveik það síðast í sumar að endurskoða þá hluti.
Þetta lýðskrum er samt meinlaust sem er ekki það sama og sagt verður um margt annað í yfirlýsingum Samfylkingarráðherranna. Verst er margra vikna blaður þeirra um að strax eigi að skrifa undir hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem hefur komið lýðveldinu í verri klípu en dæmi eru til um eitt þjóðríki allt frá Versalasamningum Þjóðverja.
Björgvin G. Sigurðsson hefur nú boðað Björgólfana á sinn fund og útilokar ekki eignaupptöku auðmanna. Það er vel. Allir þessir menn hafa skotið milljörðum króna undan íslenskri lögsögu inn í skattaparadísir.
En einhvernveginn treysti ég Samfylkingarráðherrum ekki fyllilega til að standa með sama hætti á sínum kröfum gagnvart skapara sínum og húsbændum fyrrverandi, Baugsveldinu. Eða er þetta ekki örugglega sami Björgvin G. og var ræstur um miðja nótt fyrir nokkrum dögum til að hlusta á skammir Jóns Ásgeirs og annarra útrásarvíkinga yfir meintu bankaráni...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)