Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Tekur ríkisstjórnin hlutverk sitt alvarlega?

Var rétt í þessu að renna í gegnum póst þann sem þjóðin kýs að senda þingmönnum þessa lands og staldraði þar lengst við bréf frá Guðmundi Inga Gunnlaugssyni bæjarstjóra í Grundarfirði þar hann kallar eftir raunhæfum mótvægisaðgerðum vegna þorskniðurskurðar. Bréfið er ekki skrifað í vor þegar svarta skýrsla Hafró kom út og ekki í júní þegar sjávarútvegsráðherra gaf út sinn Salómonsdóm. Það sem slær mig á þessum rigningarmorgni hér við Austurvöll er einmitt að bréf þetta er splunkunýtt, skrifað 24. júlí. gig1

Það vekur mig þessvegna til umhugsunar um það hversu hægt fer hjá ríkisstjórninni að ráðast í raunverulegar mótvægisaðgerðir. Guðmundur Ingi vekur athygli á að Vesturlandi muni 30% skerðing þorskkvótans þýða 4,9 milljarða veltuminnkun á ári. Bara á Vesturlandi.

Mikilvægast er að mati bæjarstjórans að bæta sveitarfélögum og fyrirtækjum upp tekjutap það sem þau verða fyrir. Ég er honum sammála í því. Aflasamdráttur eru náttúruhamfarir og þeim þarf að mæta með því hugarfari. Þegar skerðingin er í einu vettvangi svo mikil þá er ekki möguleiki að byggðirnar og fyrirtækin geti mætt henni hjálparlaust og ef eina framlag ríkisins verða vegbætur þá munu byggðir í þessu landi þurrkast út.

Ríkissjóður Íslands stendur gríðarlega vel og það er enn góðæri í landinu. Það er mikilvægt að við notum þessa sterku stöðu ríkissjóðs til að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum og verjum þannig góðærið. Alvarleg skakkaföll í sjávarútvegi og hröð byggðaþróun getur verið samfélaginu og því góðæri sem hér hefur ríkt dýrkeypt.

Í landinu situr ríkisstjórn með ofurmeirihluta og mikla Reykjavíkursýn. Ég óttast að þessi stjórn taki hlutverk sitt alls ekki alvarlega þegar kemur að raunverulegum vandamálum þessarar þjóðar og það sé þessvegna brýnt að halda henni við efnið...

Hér að neðan birti ég orðrétt áskorun Grundfirðinga (reyndar samþykkt af öllu bæjarráðinu þar þó bréfið sé frá bæjarstjóranum )sem var það bitastæðasta í póstinum í dag:

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar skorar á ríkisstjórn Íslands og þingmenn að taka þegar í stað ákvarðanir sem stuðla að raunhæfum aðgerðum til mótvægis vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum í Grundarfjarðarbæ. Afar mikilvægt er að þegar í stað komi fram tillögur um aðgerðir svo sveitarfélagið viti hvar það stendur og geti eftir atvikum hafist handa um staðbundnar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að hefjast handa nú þegar, áður en vandinn verður orðinn of mikill, en til þess að það verði mögulegt þurfa ákvarðanir ríkisvaldsins að liggja fyrir. Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélögin, sem verða fyrir mikilli skerðingu á þorskveiðiheimildum og tekjumissi, að þau fái bætta þá tekjuskerðingu og gott betur, svo að hægt verði að hefjast handa við hin ýmsu og fjölbreyttu verkefni sem legið hafa fyrir en ekki hefur verið hægt að framkvæma vegna fjárskorts. Það er augljóst að slíkar aðgerðir myndi nýtast þeim best sem mest verða fyrir barðinu á þessum niðurskurði.Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar telur að þær mótvægisaðgerðir sem getið hefur verið um í fréttum séu ekki líklegar til þess að auka í bráð tekjur hjá þeim sem verða fyrir tekjumissi á norðanverðu Snæfellsnesi vegna skerðingar á veiðiheimildunum, þó að í tillögunum sé ýmislegt ágætt, t.d. flýting vegaframkvæmda, sem a.m.k. sums staðar mun koma að gagni í framtíðinni. Brýnt er að fyrirtæki og einstaklingar sem sjá fram á tekjumissi þegar í haust fái einhverjar úrlausnir tímabundið á meðan fólk áttar sig á breyttum aðstæðum. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar skorar á ríkisstjórnina að huga alvarlega t.d. að flutningi opinberra starfa til Grundarfjarðar auk framlaga til staðbundinna verkefna sem hafa vægi til þess að vega upp á móti stórfelldri minnkun tekna sem við blasir.

Bæjarráðið bendir m.a. á eftirfarandi upplýsingar sem komið hafa fram um þann vanda sem við er að eiga á Snæfellsnesi vegna skerðingarinnar:

Ný skýrsla frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi leiðir í ljós að efnahagsleg áhrif á Vesturlandi vegna 30% skerðingar á þorskkvóta nema 4,9 milljarða króna veltuminnkun á ári. Þar af verða áhrifin um 2ja milljarða króna veltuminnkun í Snæfellsbæ, 1,6 milljarða króna veltuminnkun á Akranesi, tæplega 1 milljarðs króna veltuminnkun í Grundarfjarðarbæ, 350 milljónum króna veltuminnkun í Stykkishólmi og 4 milljóna króna veltuminnkun í Borgarbyggð. Sjávarútvegur er snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands, sérstaklega á Snæfellsnesi þar sem fiskveiðar nema um 40% af þáttatekjum svæðisins og fiskvinnslu um 30%. Ákvörðun um 30% kvótasamdrátt í þorski er þungt áfall fyrir Vesturland.

Sjómenn og útgerðarmenn við Breiðafjörð eru almennt á því að veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar byggi ekki á nægilega traustum grunni að þessu sinni. Sjómenn tala um mikla þorskgengd á öllum miðum og segja að erfitt sé að stunda nokkrar veiðar á þekktum fiskislóðum án þess að stór hluti aflans verði þorskur og skipta þá veiðarfæri eða dýpi ekki máli. Af þessu tilefni skorar bæjarráð Grundarfjarðarbæjar á stjórnvöld að óháð rannsóknarstofnun verði fengin til þess að gera ýtarlega stofnstærðarrannsókn á þorski til samanburðar við niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar.


Ríkið getur ráðstafað kvóta til sjávarbyggðanna

Í umræðu um niðurskurð þorskkvóta hafa nokkrir stjórnmálamenn stigið á stokk og talað um að hægt væri að láta slíkan niðurskurð koma með mismunandi hætti niður á byggðum landsins. Frægust er í því sambandi lýðveldisræða Sturlu Böðvarssonar en raunar er hægt að benda á fleiri sambærilegar. Öllum er þó ljóst að þessi leið er ófær. Þriðjungsniðurskurður verður auðvitað að bitna jafnt á öllum og allir kvótaeigendur verða að eiga jafnan rétt á viðbótinni þegar að þeim dögum kemur. En það er ekki þar með sagt að ríkisvaldið geti ekki ráðstafað kvóta til sjávarbyggða í landinu. Til þess þarf pólitískan vilja og ég ber í brjósti von um að slíkur vilji sé til staðar hjá núverandi ráðherrum.

Á hverju ári kemur mikið af kvóta á leigu- og sölumarkað. Það er viðbúið að þessi markaður dragist saman nú við skerðinguna en hann verður samt til. Það skiptir miklu máli hvert sá kvóti fer og það skiptir líka máli að hið frjálsa framsal á kvóta verði ekki afnumið. En hvernig fer þetta tvennt saman?

Skylda við komandi kynslóðirnks2_1088x1024

Flestir sem fylgst hafa með gengi sjávarútvegsins undanfarin ár skilja að hið frjálsa framsal kvótans er grundvöllurinn að hagræðingu í greininni. Til langs tíma er því ekki fær leið að hafa þar mikil opinber afskipti. Slíkt getur kallað yfir okkur að sjávarútvegurinn lendi á ný á þeim brauðfótum sem hann var á fyrir aldarfjórðungi síðan.

Að þessu sögðu er engu að síður mikilvægt að aðilar í sjávarútvegi og stjórnmálum geri sér grein fyrir að sá gríðarlegi niðurskurður aflaheimilda sem nú er staðreynd kallar fram neyðarástand sem getur orðið þjóðarbúinu og íslenskri menningu mjög dýrt. Það eru alvarlegir hlutir og kostnaðarsamir ef byggð leggst af á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið.

Okkur sem nú göngum hér um íslenska storð ber mikil skylda til að skila landinu til afkomenda okkar í því ástandi að möguleikar þeirra séu ekki lakari en okkar. Ef við högum málum þannig að stór hluti af landinu fer í eyði þá höfum við brugðist í því hlutverki.

Ódýrast að kaupa kvóta handa byggðunum

Auðveldasta og örugglega ódýrasta leiðin til að afstýra alvarlegum ógöngum byggðanna nú er að opinber sjóður undir stjórn ríkis og hagsmunaaðila kaupi kvóta út úr kerfinu, á markaðsverði, til úthlutunar til einstakra byggðarlaga. Það getur gerst með forkaupsrétti eða útboði,- allt er það útfærsluatriði.

Ég geri mér fulla grein fyrir að það þarf mikinn pólitískan kjark til að fara þessa leið. Gagnrýnt verður að ríkissjóður kosti þannig kaup á þorskkvóta, sameign þjóðarinnar, af sægreifum þessa lands. Og pólitískar úthlutanir verða aldrei hafnar yfir gagnrýni. Það er engu að síður nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú ríkja að grípa til ráðstafna á þessum nótum.

Núverandi byggðakvóti gagnrýndur

Flestir eru sammála um að núverandi skerðing á kvóta bjóði ekki upp á aukinn byggðakvóta af heildinni. Það er einfaldlega ekki af neinu að taka til þess og krafa útgerðarmanna er raunar að byggðakvótinn verði með öllu afnuminn. Það skiljanleg krafa þó ég geti ekki tekið undir hana.

Með sérstökum tímabundnum forkaupsrétti á kvóta mætti engu að síður koma því á að afnema allan annan byggðakvóta og ráðstafa þess í stað hluta af þeim kvóta sem kemur á markað til byggðatengdra verkefna.

Til lengri tíma litið þarf vitaskuld aðrar og róttækari aðgerðir í byggðamálum og margt af því sem ríkisstjórnin leggur þar til er góðra gjalda vert. Guð láti þar gott á vita og að efndir fylgi þar orðum.

Byggðirnar í landinu þurfa þess við.

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 21. júlí 2007 - að vísu án kortsins sem er hér er ætlað að minna stjórnarliða þessa lands á að Ísland er stórt og vogskorið...)


Núlllausn ríkisstjórnarinnar í málefnum Vestmannaeyja

Kristján Möller kynnti loks í gær aðgerðir í samgöngumálum Vestmannaeyja. Ég mun fjalla betur um þær á næstu dögum. Hefi ekki haft mig mjög í frammi um þessi mál - aðallega vegna þess að ég hef talið að ríkisstjórnin og hennar liðsmaður Árni Johnsen hafi átt að fá frið til að vinna. Nú er niðurstaðan fengin og hún er semsagt - endurtekning á loforði Sturlu Böðvarssonar sem gefið var áður en fram kom niðurskurður aflaheimilda í þorski. Það sem er athyglisvert er engu í samgöngubótum Eyjamanna er flýtt eins og þó er boðað í hinum margumtöluðu mótvægisaðgerðum. Gangahugmyndin er endanlega slegin útaf borðinu án þess að hafa verið könnuð af neinu viti og með það er ég virkilega svekktur - og get þar tekið undir margt sem Árni Johnsen hefur sagt.

Neðanritað skrifaði ég um þetta mál í gærmorgun og birti í Blaðinu í morgun - semsagt skrifað áður en Kristján Möller kynnti sínar mótvægisaðgerðir. Þarf auðvitað að yfirfara miðað við tíðindi gærdagsins og ég mun gera það á næstu dögum en leyfi mér að setja þessa inn til þess að halda grein þessari til haga með hinum...

Rangsleitni gagnvart Eyjamönnum

Samgönguráðherra gaf á fyrstu valdadögum sínum út loforð um 20 aukaferðir Herjólfs á árinu. Þetta var ekki léttvægt kosningaloforð heldur yfirlýsing starfandi ráðherra sem er reynda með Eyjamanninn Róbert Marshall fyrir aðstoðarmann.

Nú við upphaf Þjóðhátíðar er enn vafi á um að efndir verði á þessu loforði. Á sama tíma sendir flokkssystir ráðherrans og formaður samgöngunefndar Alþingis, Steinunn Valdís Óskarsdóttir okkur baráttumönnum fyrir bættum samgöngum við Eyjar tóninn og efast um greind og skynsemi slíkra manna.

Samgönguráðuneytið sendir Eyjamönnum þó enn verri kveðju með nýlegu svari við erindi umboðsmanns Alþingis þar sem gefinn er út sá boðskapur að ríkinu beri engin skylda til að koma að ferjusiglingum til Vestmannaeyja. Er víst að Vestmannaeyingum beri eftir þetta skylda til að greiða skatta til íslenska ríkisins?

 

Skipt um í krataflokknum

Rangsleitni og yfirgangur heitir það þegar einhver beitir yfirburðastöðu sinni til þess að fara með um með slíkum ójöfnuði. Jafnvel þó málinu vegna aukaferða Herjólfs verði lokið nú á föstudegi fyrir þjóðhátíð er mikill skaði þegar unninn. Eyjamenn hafa fengið þau skilaboð frá stjórnvöldum og ráðandi stjórnmálamönnum að kröfur þeirra séu léttvægar, þeim er ansað með skætingi og litlu skipti hverju lofað er. Slík skilaboð eru ekki til þess fallin að styrkja byggð í Vestmannaeyjum eða draga úr þeim gríðarlega fólksflutningi sem er þaðan.

Það hefur svo sannarlega skipt um í krataflokknum á hálfu ári eða frá því að einu mennirnir þar á bæ sem tjáðu sig um samgöngumál Eyjamanna töluðu af velvild og nokkurri kokhreysti. Í febrúar var umræða á Alþingi þar sem Björgvin G. Sigurðsson talaði og ég get alveg vottað að hann býr yfir heilbrigðri skynsemi hvað sem núverandi formaður samgöngunefndar telur í þeim efnum:

 

"Enn hefur ekki verið farið í þær rannsóknir sem útiloka göng á milli lands og Eyja eða leiða til lykta hvaða leið skuli farin. Að mínu mati á ekki að ákveða höfnina í Bakkafjöru fyrr en hitt hefur verið rannsakað til hlítar."

 

Loforð Lúðvíks haldreipi dagsins

Í skiptum Eyjamanna við landsstjórnina á fastalandinu er óneitanlega yfir litlu að gleðjast nú þegar eina haldreipi þeirra fyrrnefndu eru loforð Lúðvíks Bergvinssonar. Þegar samgönguráðherra kynnti mótvægisaðgerðir vegna samdráttar í þorskkvóta var því líkast að Vestmannaeyjar væru ekki verstöð eða þorskkvóti kæmi því byggðarlagi ekki við. Nú eða þá að Eyjarnar tilheyri ekki lengur Íslandi.

Staðreyndin er að Eyjarnar eru ein stærsta verstöð landsins og vitaskuld hefur niðurskurður í þorskkvóta ekki bara áhrif í kjördæmi samgönguráðherra þó síst vilji ég draga úr alvarlegri stöðu þar. En það var virkilega sláandi að sjá hvergi minnst á samgöngubætur til Eyjanna í tengslum við það mikla átak sem til stendur í samgöngumálum um allt land. Nokkrum dögum síðar kom Lúðvík Bergvinsson fram í útvarpsfréttum og lofaði að á næstunni yrði tilkynnt um stórfelldar aðgerðir í samgöngumálum Eyjamanna. Við væntum þar efnda.

 

Umræða á villigötum

Lítil fjölskylda í borg Steinunnar Valdísar sem leigir íbúð á 100 þúsund á mánuði er talin sýna heilbrigða skynsemi ef að hún ræðst í að koma sér upp þaki yfir höfuðið með kaupum á eigin húsnæði fyrir 15 milljónir. Jafnvel þó kaupverðið sé mestallt í skuld þá geta langtímalán tryggt það að afborganir og vextir verða sjaldnast meira en sem nemur 100 þúsundum á mánuði.

Í dag kosta samgöngur til Vestmannaeyja milljarð á ári og þyrfti meira til. Fyrir þann milljarð má skoða alla kosti, líka göng en verkefni dagsins er vitaskuld að leggja fé í bættar ferjusamgöngur jafnhliða því að gangakostur verði fullrannsakaður.

Borgarkratar þessa lands geta auðvitað fjargviðrast yfir því að Ísland sé jafn ólánlega stórt og raun ber vitni og að hafa ekki bara fæðst í borgríki eins og Hong Kong.

Staðreyndir málsins eru aftur á móti þær að auðsæld og ríkidæmi á 21. öldinni eigum við ekki síst að þakka gríðarlegri verðmætasköpun hinna íslensku verstöðva. Þegar þjóðin svalt hálfu hungri voru það verstöðvarnar með Eyjarnar í forystu sem hófu Ísland upp og við eigum öllum þessum verstöðvum okkar skuld að gjalda. Auðsæld nútímans grundvallaðist á þessum uppbyggingartíma. Auður okkar í dag er auður landsins, ekki prívateign gírugra Reykjavíkurþingmanna. Eyjarnar eru ekki að biðja um ölmusu með kröfunni um bættar samgöngur heldur að krefjast þess sem þeim ber af allsnægtaborði 21. aldarinnar.

 


Manngerðar hörmungar Eyjamanna

Það er ósanngjarnt að kenna ríkisstjórninni um þær hörmungar sem sjávarútvegurinn gengur nú í gegnum vegna kvótaniðurniðurskurðar þó okkur greini aðeins á um hversu langt eigi að ganga í niðurskurði. Herjolfur

Þær hörmungar bitna nú mjög á Vestmannaeyingum en i ofanálag mega Eyjamenn búa við manngerðar hörmungar í samgöngumálum og það er grafalvarlegt. Við fáum nú fréttir af tvennu í einu, annarsvegar umdeildri skýrslu verkfræðinga um göng til Eyja þar sem þau eru reiknuð upp í hæstu hæðir. Hinsvegar valdhroka og óliðlegheitum í stjórnkerfinu þegar Eyjamenn fara fram á eðlilega og sanngjarna fjölgun ferða til Vestmannaeyja.

Hvevetna berast skeyti. Einn embættismaður segir að ríkinu sé í sjálfsvald sett hvort það komi að samgöngum til Vestmannaeyja og stjórnarliði á þingi efast um andlegt heilbrigði okkar sem barist höfum fyrir bættum samgöngum til Eyja. Er þetta hinn nýi tónn gagnvart landsbyggðinni sem núverandi stjórnherrar hafa ákveðið að spila...


Seinheppinn vindbelgur svarar ráðherra!

(Það er bráðum nóg komið af umræðu um Valhöll á Þingvöllum hér í bili en þessa læt ég samt fljóta,  - hún birtist um helgina í Morgunblaðinu undir ofanritaðri fyrirsögn höfundar:)

S5000327

Kannski á ekki að svara bloggi í blaðagrein en þegar það er einn af ráðherrum þjóðarinnar sem skrifar á opinberum vettvangi að undirritaður sé seinheppinn vindbelgur með rangar skoðanir sem ekki vinni fyrir þingfararkaupinu, nenni ekki að lesa sig til, skipti oftar um skoðanir en aðrir dauðlegir menn og hafi líklega ekki gert annað en að laxera síðan um kosningar,- tja þá velti ég vitaskuld fyrir mér hvar virðingu stjórnarráðsins er komið.
Ég veit að vísu ekki alveg hvað Össur Skarphéðinsson á við með orðinu laxera í þessu sambandi en flest annað í skrifum hans gat ég skilið. Semsagt á vefsíðunni http://ossur.hexia.net/. Pistillinn er reyndar líka orðréttur á minni síðu, bjarnihardar.blog.is

Á að rífa Valhöll!
Ástæða þessara gífuryrða hæstvirts ráðherra er að við erum á öndverðum meiði um framtíð Valhallar á Þingvöllum. Össur vill setja jarðýtu á hús þetta og hefur sér til fylgis við þá skoðun Kristján flokksbróður minn Einarsson á Selfossi sem er hér slökkviliðsstjóri. Það eru svosem engin ný tíðindi að afstaða til húsafriðunar gangi þvert á pólitískar línur og okkur Kristjáni gengur vel að skiptast á skoðunum um Valhöll eins og annað, fúkyrðalaust. Já, svo því sé til haga haldið, þá held ég að Valhöll megi standa og sé hluti af þeirri helgimynd sem þjóðin hefur af Þingvöllum. Fallegt og mjög sögufrægt hús í fallegu umhverfi sem gefur okkur sem ekki eigum neitt sumarhús á þessum helgistað færi á að gista Þingvelli.
En það er í mínum huga enginn héraðsbrestur að ekki séu mér allir sammála um þetta og Össur hefi ég talið til vina minna og mun gera áfram,- þó óneitanlega hafi mér brugðið við fúkyrðaflauminn. Verst í málinu eru þó rangfærslur sem allur fréttaflutningur um málið hefst með.

Rangfærslur embættismanna
Slökkviliðsstjórinn á Selfossi heldur því fram í Blaðinu sl. miðvikudag að brunavarnir séu í ólagi en dregur svo í land að kvöldi sama dags. Þær ku hafa verið í ólagi þegar hann kom síðast á staðinn fyrir tveimur eða þremur árum. Á þeim árum er búið að leggja tugi milljóna í viðgerðir á húsinu af bæði eiganda og rekstraraðila. Hótelhaldarar eiga ekki að búa við það óöryggi að opinberir embættismenn geti ruðst fram og gert gististaði þeirra tortryggilega með þessum hætti. Jafnvel ekki þó að skýrslur um nefndar viðgerðir finnist ekki í bókum slökkviliðsstjórans. Það er semsagt rangt að margra ára barátta fyrir að koma brunavörnum á staðnum í lag hafi ekki skilað árangri og það er miður þegar opinberir aðilar vita ekki af því þegar sigrar í margra ára baráttu vinnast! Svo er það vitaskuld ekki slökkviliðsstjóra að tala í nafni embættis síns um það hvort rífa eigi sögufræg hús.

Þinghelgin aðeins fyrir þotulið!
Út yfir taka þó orð byggðamálaráðherrans sem talar um Valhöll sem klastur og kraðak húsa sem beri að rífa og reisa þar í staðin byggingu til afnota fyrir ríki og Alþingi fyrir þingsetningu og ráðstefnur. Telji menn þörf á hóteli eða veitingastað fyrir almenning má að mati Össurar byggja slíka byggingu á svæðinu áður en komið er inn í þjóðgarðinn orðrétt, “...á jörðum sem hugsanlega má kalla áhrifasvæði þjóðgarðsins.”
Semsagt, almúgann út fyrir þinghelgina og nýir Þingvallanefndarmenn sem hafa aðra skoðun fá á sig gusur á bloggi ráðherrans um að hafa ekki lesið stefnumörkun stjórnvalda um Þingvelli, líti á setu í Þingvallanefnd sem ómerkilegan flokksbitling og skoðanir þeirra augljóslega rangar! Gott er að vera ráðherra með rétta sýn.

Engar skýrslur styðja Össur
Össur er oft skáldlegur í skrifum sínum en það er bókmenntafræðilegur misskilningur hans að skáld ráði yfir túlkun á sínum höfundarverkum. Staðreyndin er að í umræddum skýrslum um Þingvelli sem Össur hefur átt þátt í að móta er vikið að Valhöll með óljósu orðalagi um að huga skuli að, kannaðar verði forsendur o.s.frv. En þar er hvergi svo mikið sem ámálgað að rífa skuli Hótel Valhöll eða henda allri þjónustu við sauðsvartan almúgan upp fyrir Hakið og út fyrir þinghelgina. Eða að Valhöll sé klastur. Því miður fyrir ráðherrann nýbakaða því það er þetta sem hann vill og trúir að standi þar. Kannski Birni Bjarnasyni og Guðna Ágústssyni að þakka svo er ekki!
Dylgjum ráðherrans um að ég vinni ekki fyrir kaupi eða skipti oft um skoðanir tel ég þarflaust að svara.  

Myndin er af vindbelg árneskum uppi á Búrfelli í Grímsnesi.


Góð Palestínuferð Ingibjargar

Við Íslendingar erum fáir og smáir og á stundum er svo látið hér heima að þessvegna eigum við hvergi upp á dekk í alþjóðamálum. Til skamms tíma hefur líka öll okkar afstaða í utanríkismálum verið svo lituð af því að gera Bandaríkjamönnum til hæfis að það hálfa væri nóg. Það rofaði til í þeirri mynd í utanríkisráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur og skipti þar miklu að herinn á Miðnesheiði var þá á förum. Víst gerir smæðin okkur margt erfitt en hún getur líka verið til bóta. egill3

Það er þessvegna rangt hjá vinum mínum í Vinstri Grænum að hafa allt á hornum sér varðandi Palestínuferð Ingibjargar Sólrúnar. Sjálfur hefi ég alltaf haft mætur á Ingibjörgu ef frá eru taldar Evrópuskoðanir hennar. Og í Palestínumálum treysti ég henni vel til að geta hlustað á sjónarmið beggja og staðið föstum fótum á því sem henni þykir rétt. Hún er ekki af engu af Haugskyni hér úr Flóanum en menn þaðan þykja hafa staðið hátt og skýrt á sínu þó margt hafi verið þeim andhælis.

Það er auðvitað miður að ekki tókst að halda lífi í þjóðstjórninni í Palestínu og þar skipti miklu að vestræn ríki voru ekki tilbúin til að viðurkenna þá stjórn vegna þátttöku Hamas - sem eru þó lýðræðislega réttkjörnir fulltrúar Palestínu. Hér á landi lýsti Valgerður yfir vilja til að fara sömu leið og Norðmenn gagnvart stjórn þessari en Sjálfstæðisflokkurinn setti stein í þá götu og er skömm að. En þó svo að við séum ósáttir við þau málalok þá þýðir það ekki að við leggjum árar í bát í málefnum Palestínu eins og mér virtist fulltrúi Vinstri grænna tala fyrir í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum. Eða þá að rétt sé af okkur Palestínuvinum að fordæma það að Ingibjörg skuli tala við Ísraela. Slíkur málflutningur leiðir aldrei til friðar eða farsællrar niðurstöðu þar í þessum versta suðupotti heimsins.

Ég veit að sumir telja það nú vera mitt hlutverk að gagnrýna allt sem stjórnarliðar gera. Í pólitík eru það samt málefnin sem skipta máli - ekki hitt að halda alltaf með ákveðnu liði. Takist Ingibjörgu að koma að því með öðrum alþjóðakempum að þoka málum á Vesturbakka og Gasa til betri vegar þá er okkur Íslendingum öllum mikill sómi að því. Mestu skiptir þó að vandamálið þar ytra er svo tröllaukið og raunalegt. Mín fyrsta ferð til útlanda var einmitt hálfsársdvöl þarna niðreftir fyrir aldarfjórðungi og þá var ég þar lengstum með Palestínumönnum en kynntist Ísraelum einnig vel og að góðu. Síðan þá hefur ástandið þarna syðra bara versnað. Útaf þessum kunnugl eikum er mér mikil alvara með það að við höfum ekkert leyfi til níða ferð Ingibjargar niður, bara í karpi okkar hér heima millum stjórnar og stjórnarandstöðu. 


(Myndina tók sonur minn Egill Bjarnason í Palestínudvöl sinni í fyrra.)


Össur og Perú og aðþrengdar eiginkonur...

Leið í morgun eins og danadrottningu um árið þegar hún lét senda eftir skyri að Kiðjabergi í Grímsnesi og endaði í sætum þúfnalúr. Nú er hún Snorrabúð stekkur á Kiðjabergi svo ekkert fékk ég skyrið en gutlaði við AB-súrmjólk og heilsan er að koma.

 peru

Veit ekki hvort þetta er umgangspest eða væg matareitrun en gildir svosem einu ef mér er að batna. Fór semsagt í bælið aftur eftir stutt slugs um bæinn snemma í morgun og svaf svo fram yfir síðdegiskaffi og bjóst við að allt yrði nú frekar grámyglulegt og það hefði sjálfsagt orðið það ef ekki væri fyrir Össur Skarphéðinsson vin minn sem hefur sett hornin í mig í dæmalausu bloggi útaf smá skoðanamun okkar um Valhöll. Er ekki maðurinn tvevetur í pólitík. Eiginlega er þetta vitlausara en ráðherra getur leyft sér, bæði í munnsöfnuði og frjálslegri meðferð staðreynda. Bloggsteypa þessi er birt hér að neðan og svo vitaskuld á Össuri sjálfum. Hann vitnar hér til hægri og vinstri í skýrslur sem hann sakar mig um að hafa alls ekki lesið og fjargviðrast yfir að ég vinni ekki fyrir kaupinu mínu. Staðreyndin er að ég las þetta allt áður en ég fór í sjónvarpsviðtal og af þessum pappírum er hvergi að merkja að rífa eigi Valhöll. Og talandi um það að vinna fyrir kaupi sínu,- Þingvallanefnd hin nýja hefur haldið einn fund á þessu kjörtímabili og þar mætti ég og þar mætti Björn en þar var enginn Össur og líklega ekki af aðalmönnum aðrir en Lúðvík Bergvinsson.

 

En hvað er ég að kvarta þetta. Össur á þakkir skildar að rífa mig í augnablik úr pestarsleni og ég er að vona að ég verði betri á morgun. Í dag hef ég lítið annað gert en að lesa nokkur blogg og tala nokkur símtöl nú undir kvöld,- kannski það vitrænasta þennan dag hafi verið að horfa á aðþrengdar eiginkonur í sjónvarpinu. En þá það er gert er nú orðið dauft mannlífið hér á Sólbakka.

 

Annars eru þau tíðindi héðan að á mánudagskvöldi gengum við langs yfir Ingólfsfjall, ég og hjónakornin Jón Ingi og Hrönn. Það var óborganlegt og hressandi. Kötturinn Elvis veiðir nú músarunga, einn á dag og skilur eftir í kjallaranum. Mótorhjólið er sundurskrúfað úti í skúr og vantar ekki nema herslumuninn að ég geti farið að hjóla aftur. Elín er á förum til Rómar þar sem henni hlotnast sá heiður að syngja með Tungnamönnum fyrir sjálfan páfann og úr þeirri ferð hennar förum við hjónakrílið svo í Perúferð í tilefni af 20 ára hjónabandssælu okkar og tilhlökkunin er mikil.

 

Bara svona til að skrifa nú einhverntíma um eitthvað annað en pólitík hér í þessu bloggi...


Að gera ráðherra reiðan!

Undirritaður hefur með viðtali við Stöð 2 gerst sekur um að gera byggðamálaráðherra þjóðarinnar reiðan og biðst forláts á því. Til þess að bæta þar ögn fyrir hefi ég ákveðið að birta orðréttar skammir hæstvirts ráðherra af vef hans: Skrifa kannski smá um málið í blöðin um helgina:haus

Stungið á vindbelg
Bjarni Harðarson, skutilsveinn Guðna jarls af Brúnastöðum, blés einsog hvalur kominn um höf utan við hótel Valhöll í öðru sjónvarpanna í kvöld, og átti ekki orð yfir þeirri ósvinnu minni að hafa lýst efasemdum um að byggja eigi upp Valhöll til áframhaldandi hótelrekstrar.

Ég hafði leyft mér að taka undir með röggsömum og langþreyttum slökkviliðsstjóranum í heimabæ Bjarna, sem hefur í fjölmiðlum haft efasemdir um framhald hótelrekstrar í Valhöll. Slökkviliðsstjórinn lýsti því með grafísku raunsæi í sjónvarpinu í kvöld að hann teldi húsakynnin gömlu slíkan eldsmat að kvikni í honum gæti staðurinn brunnið til ösku áður en nærlæg slökkvilið komist á staðinn. Það vefst greinilega ekki fyrir Bjarna.

Ég tók líka undir með slökkviliðsstjórnum um að ekki væri hægt að endurbæta Valhöll án þess að endurbyggja húsin í raun, með öllum þeim gríðarlega kostnaði sem því fylgir fyrir skattborgarana.

Nýi þingmaðurinn - sem er nýkjörinn í Þingvallanefnd þar sem ég sit líka - taldi þetta gersamlega fráleit viðhorf. Eftir ríflega tveggja mánaða setu sló hann því föstu að hvorki fráfarandi Þingvallanefnd né hin nýja hefði neitt á móti hótelrekstri innan þjóðgarðsins. Hótelið kvað hann part af "helgimynd Þingvalla" og lýsti þeirri skoðun að það væri skylda ríkisvaldsins að leggja út í þann kostnað sem fylgir því að endurbyggja Valhöll, svo hægt sé að reka þar hótel part af árinu. Írekað var hann spurður um kostnaðinn, og ítrekað lét hann uppi þau viðhorf að hann skipti ekki máli.

Nú er það svo að á skammri veru sinni á Alþingi hefur Bjarni Harðarson aðallega getið sér orð fyrir að skipta oftar og hraðar um skoðanir á lykilmálum en aðrir dauðlegir menn. Það tók hann heilar fjórar vikur að gjörbreyta afstöðu sinni til kvótaniðurskurðarins. Hugsanlega verður hann því búinn að skipta um skoðun á Valhöll áður en ég lýk þessum pistli.

En jafnvel menn með mikla skoðanasveigju einsog Bjarni verða eigi að síður að kynna sér málin áður en þeir byrja að hneggja einsog trippi fast í foraði - bara til að leiftra skammlíft augnablik á öldum ljósvakans. Nú kann að vera til of mikils mælst af þingmönnum Framsóknarflokksins að þeir verði sér úti um lágmarksþekkingu á þeim málum sem þeir telja fjölmiðlaslægjur í. Endranær geri ég ekki slíkar kröfur til þeirra.

Í þessu tilviki gildir annað um Bjarna. Hann var af Alþingi kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Bjarni er byrjaður að þiggja laun fyrir setu sína í Þingvallanefnd. Honum er því greitt af skattborgurunum fyrir að kynna sér mál þjóðgarðsins betur en aðrir þingmenn. En Bjarni lifir bersýnilega í anda flokkshefðar og lítur á Þingvallanefd sem flokksbitling. Yfirlýsingar hans í sjónvarpinu bentu að minnsta kosti til þess að hann telji sig ekki þurfa að vinna fyrir laununum sem hann fær fyrir Þingvallanefnd.

Það birtist í því að Bjarni Harðarsson hefur ekki ennþá nennt að lesa formlega stefnumótun Þingvallanefndar til næstu 20 ára. Einsog allir alþingismenn vita þó er hún grundvallarplagg Þingvallanefndar. Hefði þingmaðurinn haft fyrir að lesa hana hefði hann ekki eftirá þurft að skammast sín fyrir að svotil allar staðhæfingar hans í sjónvarpinu voru rangar. Í stefnunni, sem er að finna á heimasíðu þjóðgarðsins, er framtíð Valhallar og hótelrekstur tekið til umfjöllunar. Þar er lýst þeirri skoðun nefndarinnar að draga beri úr hótelrekstri. Síðan er reifuð sú hugmynd sem ég hafði uppi í Blaðinu, að þar ætti fremur að koma upp aðstöðu sem dygði til að Alþingi gæti haldið þar þingsetningarfund á haustin, og hugsanlega nýta undir smærri ráðstefnur um vísindi og menningu.

Stefnumótun Þingvallanefndar er því algerlega skýr að þessu leyti - og stimpluð af forseta Alþingis, en þingið fer lögum samkvæmt með formlega stjórn þjóðgarðsins. Hefði Bjarni Harðarson því nennt að vinna fyrir launum þeim sem hann fær sem Þingvallanefndarmaður - en við hálaunamennirnir Björn Bjarnason vinnum hins vegar ókeypis af hugsjón - þá hefði hann byrjað að lesa þetta plagg.

Það er svo í stíl við aðra seinheppni hins efnilega þingmanns, að undir þessa stefnu skrifa þrír menn: Auk okkar Björns er hinn þriðji enginn annar en leiðtogi lífs Bjarna Harðarssonar - núverandi formaður Framsóknarflokksins. Bjarni var því ekki bara að mótmæla mér, heldur líka formanni sínum. Ég vona þó, að gönuhlaup þingmannsins verði ekki túlkað sem atlaga að Guðna Ágústssyni heldur fremur rakið til hvatvísi.

En geti núverandi formaður Framsóknar kvartað undan óðagoti Bjarna - hvað má þá hið gamla flokkströll og fyrrverandi formaður, Halldór Ásgrímsson, segja eftir frumhlaup gamla ritstjórans á Selfossi? Það er kýrskýrt af máli Bjarna í sjónvarpinu í kvöld að hann hefur heldur ekki nennt að lesa hitt grundvallarplaggið sem varðar málefni Valhallar. Halldór lét nefnilega gera prýðilega skýrslu um Valhöll, sem allir Þingvallanefndarmenn hafa auðvitað lesið ofan í kjölinn - nema Bjarni sem hefur líklega eytt sumrinu í að laxera á kosningaúrslitunum..

Í skýrslu fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins kemur skýrt fram, að af Valhöll er ekkert eftir af hinu upprunalega húsi nema hugsanlega grindin af framhlið þess. "Helgimyndin" einsog Bjarni þingmaður kallar Valhöll, stendur ekki einu sinni á sínum upprunalega stað.

Á grundvelli skýrslunnar komust færustu ellihúsaarkitektar landsins að þeirri niðurstöðu að Valhöll væri ekki hægt að endurbæta - heldur yrði að endurbyggja hana nánast frá grunni. Sérfræðingar komust að þeirri niðurstöðu sem var kynnt á fundum Þingvallanefndar að það yrði dýrara að endurbæta húsið en byggja nýtt í þess stað. Kostnaðurinn, sem Bjarni taldi sjálfsagt að ríkið réðist í til að gott fólk geti rekið þar hótel part úr ári , hleypur á mörgum hundruðum milljóna króna.

Er þetta ekki framsóknarmennskan holdi klædd?

- Össur

Hátíðisdagur með Tungnamönnum

Við Skúli mágur minn áttum hátíðisdag í gær þar sem fórum um Tungurnar og tókum hús á gömlum Tungnamönnum og skráðum minningar þeirra um gamla daga inn á upptökutæki. Betri geta sunnudagar ekki orðið. S5000294

Komum fyrst að Miðhúsum til Sighvats Arnórssonar. Hann er Þingeyingur en þó allra Tungnamanna hógværastur. Víðlesinn og vel menntaður bóndi sem unun er að hlusta á segja frá liðnum dögum bæði norðan og sunnan heiða. Eftir kaffiveitingar hjá Geirþrúði dóttur hans lá leiðin til Halldórs Þórðarsonar á Litla-Fljóti sem ég sannfærðist enn og aftur um í gær að mestur sagnasjóður núlifandi Tungnamanna. Halldór man glöggt munnmælasagnir af fjölmörgum 19. aldar Tungnamönnum og kann að lýsa sveitarbragnum eins og hann var við upphaf þess nútíma sem við nú þekkjum. Við sátum þar yfir kaffi á annan tíma og hétum okkur því að koma aftur seinna.

Hvað við gerum við þessi viðtöl - ég veit það ekki. Aðalatriðið er að taka þau og varðveita.


Ég hefi ekki skipt um skoðun í kvótamálum

Það er rétt að ég haldi því sérstaklega til haga á þessari bloggsíðu að ég hefi EKKI skipt um skoðun í kvótamálum Íslendinga. Með því er ég ekki að segja að ég skipti aldrei um skoðun á nokkrum hlut en ef að það gerist þá gerist það hjá mér eins og forvera mínum Jörundi Brynjólfssyni alþingismanni, hann snerist að ráði Hriflu Jónasar, en hann snerist afar hægt.

Það sem ég sagði á Alþingi fyrir nokkrum vikum er í fullu samræmi við það sem ég hefi sagt undanfarnar vikur. Á Alþingi snerist umræðan, bæði í þingsal og nefndafundum, m.a. um það hvort það ætti yfir höfuð að taka eitthvert mark á Hafrómönnum og í mínum er það ekkert vafamál.

Ríkisútvarpið fjallaði all gassalega um þetta mál í hádegisfréttum sl. föstudag en leiðrétti þá frétt með viðtali við mig að kveldi sama dags.  Ég fjallaði svo aðeins nánar um máliðskulagata í grein í Blaðinu í gær laugardag sem ég læt flakka hér:

 

Bjarni Harðarson skrifar:

Hvað þýðir ráðgjöf Hafrannssóknarstofnunar?

Hvenær fara stjórnmálamenn að tillögum ráðgjafa sinna og hvenær gera þeir það ekki? Sá sem hér skrifar hélt því fram fyrir nokkrum dögum að sjávarútvegsráðherra hefði ekki átt að ganga jafn langt í niðurskurði þorskveiðiheimilda og lagt er til í tillögum Hafrannsóknarstofnunar.

Samt tel ég að við höfum ekkert annað við að miða í mati okkar á lífríkinu en niðurstöður vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar og verðum að fylgja þeirra ráðgjöf. Hvernig er þetta samrýmanlegt, spyr meðal annars fréttastofa útvarps og gerir reyndar úr því mikinn úlfaþyt að undirritaður tali tungum tveim. Ekkert er fjær sanni.

 

Pólitískt mat til varnar auðlindinni

Hafrannsóknarstofnun leggur til að þorskkvótinn verði skorinn niður í allt að 130 þúsund tonn. Stofnunin leggur einnig áherslu á að þetta sé meðal annars afleiðing af því ráðgjöf hennar hafi ekki verið fylgt út í æsar sem ég held að sé nokkurt sannleikskorn í.

Oft hefur verið lag að skera kvótann niður jafn mikið og stofnunin hefur lagt til án þess að horfi til landeyðingar heilla héraða og gjaldþrota fjölda útgerða. Niðurskurðartillögur hafa ekki alltaf verið svo róttækar en þeim hefur samt ekki verið fylgt. Engu að síður er ekkert vafamál að þáverandi sjávarútvegsráðherrar hafa farið eftir ráðgjöf Hafró og síðan lagt á þá ráðgjöf pólitískt mat. Stundum rétt og oft rangt eins og gengur.

Þau börn eru vissulega til í landinu sem telja að hið pólitíska vald sé iðulega til ills og best sé að láta embættismenn ráða öllu en það kerfi var eiginlega fullreynt í gömlu Sovétríkjunum og er nú í frekar dapurlegri endurnýtingu suður í Brussel. Nóg um það.

Hlutverk ráðherra í ríkisstjórn landsins er ekki að stimpla orðalaust tilskipanir embættismanna. Hvorki í sjávarútvegi eða einkavæðingu orkufyrirtækja. Í tilviki þorskkvótans má niðurskurður aflaheimilda aldrei verða meiri en kerfið þolir. Það leiðir einfaldlega af sér aukið brottkast, aukið stríð milli útgerðar og stjórnvalda og verri umgengni um auðlindina. Sérfræðingar Hafrannssóknarstofnunar hafa lagt áherslu á það í sínum málflutningi að umgengnin sé í heildina góð og kerfið virki í aðalatriðum. Þeir vita manna best hversu mikils virði það er. Það er mikil hætta á að nýleg ákvörðun ráðherra hætti þeim árangri sem náðst hefur í stjórn fiskveiða og það er mjög alvarlegt. Þar hjá eru 20 þúsund tonn smáræði.

Sjávarútvegsráðherra bar að taka ráðgjöf Hafrannssóknarstofnunar alvarlega og ganga eins langt í niðurskurði aflaheimilda og frekast var unnt. En ekki lengra. Mat Framsóknarmanna og fjölmargra annarra var að ekki væri fært að fara neðar en í um 150 þúsund tonn. Vitaskuld munu sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar aldrei leggja slíkt pólitískt mat á það hvaða leiðir eru færar. Það er hlutverk ráðherra og er bæði kjarklaust og ábyrgðarlaust af honum að víkja sér undan því hlutverki.

 

Þorskurinn ekki á grænni grein

Það er líka mikill misskilningur að framtíð þorskstofnsins sé tryggð með því að fara alfarið eftir tillögum Hafrannsóknarstofnunar enda hefur sú stofnun ekki gefið nein slík loforð. Það eru mjög margir samverkandi þættir sem ráða vexti fiskistofna og margt bendir til að fjölgun á hval í sjónum sé þar ráðandi þáttur.

Hvalurinn við Ísland étur þegar margfaldlega það sem við mennirnir veiðum, bæði af þorski og æti hans. Það samrýmist fyllilega þeim upplýsingum sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út að aukin sókn í hvalinn gefi jafnframt færi á meiri þorskveiði en ella. Hitt er alveg óvíst að nokkru muni í vexti þorskstofnsins um þær bröndur sem við látum nú kjurar hvalnum einum til matar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband