Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Truntuleg svínapest

Nútíminn er trunta söng Þursaflokkurinn í den og sannast jafnt í dag eins og þá. Nú er komin upp slæm flensa sem þegar hefur lagt marga að velli og á eftir að leggja fleiri. Fyrr meir hefur slíkt gerst og margir eiga í sinni fjölskyldusögu að ættfeður dóu í spænsku veikinni, þar áður í stóru bólu og svartadauða. Og það er smá reisn yfir þessu í dánartilkynningum.

En að deyja úr svínapest! Þvílíkt smekkleysi í nafnvali.


Hversu sterk er staða ESB sinna?

Fréttamenn fara mikinn í að tala upp stöðu Samfylkingarinnar og ESB sinna og hafa mjög túlkað úrslit kosninganna sér í hag. Að hluta til er þetta vegna þeirrar stefnubreytingar sem gerð var hjá Framsóknarflokki á síðasta flokksþingi og var vitaskuld mjög slæm samþykkt. Margir ESB-andstæðingar gengu þá glaðhlakkalegir út af flokksþingi með það í farteskinu að það hefðu náðst fram svo ströng skilyrði að þetta skipti engu máli. 

Í dag skiptir þetta máli og nýr formaður flokksins hefur reyndar ekki dregið af sér í að aðstoða ESB-sinna Samfylkingarinnar. Sama gerir Siv þegar hún segir að flokkurinn sé alveg til í að fara í ESB stjórn. Það er samt talsvert hik á þeim báðum og við sem þekkjum innviði flokksins vitum að hann ætti afar erfitt með að taka að sér þetta hlutverk,- þ.e. að fara í stjórnarsamstarf sem hefði aðildarumsókn sem aðalmál. Flokkurinn myndi einfaldlega loga og í þingflokknum yrðu þegar á reyndi tveir eða jafnvel fjórir þingmenn sem myndu reyna eftir megni að þvælast fyrir málinu. Bæði vegna sinna eigin sannfæringar að þetta væri vond niðurstaða og einnig vegna þrýstings frá sínum umbjóðendum sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni að vera sem harðastir á móti ESB-aðild. Ég þekki Borgarahreyfinguna minna og ætla ekki að leggja neitt mat á hana í þessu sambandi.

Það er reyndar mikið vafamál að Ísland geti sótt um aðild meðan ekki er vitað hvort það er þingmeirihluti fyrir umsókn og meðan skoðanakannanir sýna slag í slag að meirihluti þjóðarinnar er andvígur umsókn. Sjá hér og hér og hér.

Ef frá er talin sterk staða Samfylkingarinnar hjá fjölmiðlum þá held ég að VG hafi miklu sterkari stöðu til samninga og kratarnir geri nánast allt til þess að vera ekki þvælt inn í stjórnarsamstarf með Borgarahreyfingu og Framsókn. 


Brussel er enginn mátunarklefi!

Eiríkur Bergmann er hvorki skoðanabróðir minn né neinn uppáhaldsfræðimaður en honum ratast mjög satt á blogg í dag þegar hann bendir á það sem við ESB-andstæðingar höfum löngum sagt;

það er ekki hægt að sækja um ESB-aðild nema að í landinu sé ríkisstjórn sem raunverulega vill inn í ESB. Annars er umsóknin einfaldlega ekki tekin til greina enda er Brussel enginn mátunarklefi. Það er þessvegna útilokað að ríkisstjórn Samfylkingar og VG geti sótt um aðild og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra.

Sjá hér og enn frekar hér.

Hitt vita allir sem vilja vita að auðvitað geta Samfylking, Borgarahreyfing og Framsókn ekki myndað starfhæfa ríkisstjórn þannig að í raun og veru er það Steingrímur J. sem hefur öll tromp í hendi,- hvað sem fréttastofa Samfylkingarinnar segir.


OSB-stjórnin eðlilegur valkostur

RÚV og kratarnir hampa því nú mjög að ESB hafi unnið sigur í kosningunum og það væri þá eðlilegast að ESB-flokkarnir taki völdin. Jóhanna getur kallað það vinstri stjórn ef hún vill! VG og Sjálfstæðisflokkur færu þá saman í að leiða andstöðuna við ESB-aðild og yrðu firna sterkir í þeirri baráttu.

Ég er allavega ánægður með minn þingmann, Atla Gíslason, að hann skuli í hreinskilni benda Jóhönnu á að tala við aðra en VG um ESB-stjórn.

Hitt er svo annað mál að þessi túlkun á niðurstöðu kosninganna er auðvitað ekkert einhlít. Að minnsta kosti 5 af 9 þingmönnum Framsóknarflokksins fengu sig kosna á Alþingi út á það að þeir væru gallharðir ESB andstæðingar. Þetta eru þau Vigdís Hauksdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þór Þórhallsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (sem talaði reyndar í báðar áttir.) Birkir Jón, Eygló og Guðmundur Steingrímsson eru einhversstaðar á óvissu róli í málinu en líklega má telja Siv sem eina örugga ESB-sinna flokksins.

Fjölmargir ESB-andstæðingar kusu líka Borgarahreyfinguna og liðlega eitt þingsæti féll milli skips og bryggju með atkvæðum Frjálslyndra. Þannig að þegar RÚV, ASÍ, VSÍ, SI og fleiri elítustofnanir tönglast nú á því að meirihluti kjósenda hafi með atkvæði sínu verið að segja, við viljum í ESB, þá er það beinlínis rangt.

Hitt er rétt að meirihluti kjósenda gáði ekki að sér á kjördag og kaus óvart yfir okkur flokka sem eru ótraustir í að verja fullveldið.


mbl.is „Ætti að leita annað miðað við áherslu á ESB-umsókn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OSB vann ESB sigur og er VG að linast!?

Það er vandalítið að fagna sigri í pólitík, það reynir fyrst á þegar orustur tapast.

Í nótt töpuðum við fullveldissinnar þessa lands einni orustunni og það kemur nú vel í ljós hvað ESB-samþykkt Framsóknarflokksins var afdrifarík. Sigmundur Davíð er varla vaknaður þegar hann byrjar að berja á VG að þeir verði nú líka að verða ESB sinnaðir.

Og það er því miður merki þess að Vinstri grænir muni gugni og svíkja bæði kjósendur sína og fullveldið fyrir ráðherrastóla. Ef það verður niðurstaðan skal ég viðurkenna að hafa kosið vitlaust, -þó ég viti ekki hvað ég hefði getað kosið annað!

En höfum eitt á hreinu, stríðið er ekki tapað þó að við höfum beðið lægri hlut í einni orustu. Ennþá benda allar tölur til að meirihluti þjóðarinnar vilji standa utan ESB og ekki leggja inn aðildarumsókn. Ég veit ekkert hvernig þeim þjóðhollu fullveldissinnum líður sem fyrir barnaskap kusu O og B lista í gær en þeir voru margir og mega skammast sín í dag.

Heiðvirt fólk setur ekki flokkshollustu ofar þjóðhollustu!


Er Ísland í þínu liði?

Í pólitík undanfarinna áratuga höfum við vanist því að spila í liðum, líkt og á íþróttamóti. Míns er betri en þíns af því að hann er grænn og aldrei skal ég flokkinn minn svíkja. Þetta er vitaskuld ekki mjög málefnalegt en afar mannlegt.

Utan að frá höfum við horft til þess að munurinn á flokkunum er frekar smáskitlegur og allt meira og minna sem sami grautur í sömu skál. En nú eru runnir upp alvarlegri tímar, fyrir framtíð barna okkar og barnabarna um ókomnar aldir.

Fámennur hópur hefur um langt árabil unnið að því að koma fullveldi og frelsi Íslands fyrir kattarnef. Krafan um að Ísland tilheyri miðstýrðu stórríki Evrópu hefur aldrei verið háværari og aldrei eins líkleg til að verða að veruleika eins og nú í kjölfar bankakreppu.

S+O+B=ESB

Að baki þessari kröfu eru margskonar ástæður og þar vegur þyngst ótti margra ESB-sinna við að Ísland einangrist og valdi ekki því hlutverki að vera fullvalda í veröld hákarlanna. Slíkur hræðsluáróður á greiðari leið að mörgum nú eftir að EES-samningurinn hefur hrundið af stað keðjuverkun í peningalegu hruni meðal landsmanna. Í þessari vanmetakennd er klifað á áróðri gegn íslenskri krónu og íslenskri hagstjórn. Vill þá gjarnan gleymast að hin íslenska króna hefur leitt Ísland frá því að vera fátækastir allra yfir til þess að verða eitt ríkasta land í heimi og Ísland mun halda þeirri stöðu jafnvel þó Icesave reikningarnir kæmu á bök okkar af fullum þunga.

Þrátt fyrir þetta hafa þrír af þeim flokkum sem nú bjóða fram til þings sammælst um að farsælast sé fyrir Íslendinga að leggja fram umsókn til ESB um að þeir yfirtaki stjórn mála í landinu. Ekki þarf lengi að skima um heimspressuna til að sjá að Evrópusambandslöndin eru þau lönd þar sem hagvöxtur er hvað lakastur og vaxtabroddar fáir. Ef þessir þrír flokkar, Samfylking, Framsókn og Borgarahreyfing ná meirihluta á Alþingi er líklegt að efnt verði til skyndibrullaups um stjórnarsamstarf sem hefði fullveldisafsal og innlimun í ESB efst á blaði. Þrír flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Frjálslyndur og VG hafa lýst yfir andstöðu við ESB aðild en eru þó mislausir í rásinni.

Fullveldi ofar flokkshollustu

Þó svo að marga taki sárt að yfirgefa sinn gamla flokk er ástæða til þess að hvetja alla þjóðholla Íslendinga til að gæta að sér á kjördag. Setjum hollustuna við fullveldið ofar flokkshollustu og verum viss um að vera í liði með Íslandi.


Lýðskrumið í hæstu hæðum

Ætli Tryggvi Þór og Bjarni Ben. telji sig of góða til að lesa samflokksmann sinn Pétur Blöndal alþingismann sem skrifar ágætan pistil í Moggann í gær þar sem hann reynir heiðarlega að tala von í þessa þjóð og bendir réttilega á að ástandið er ekki nálægt því eins slæmt og lýðskrumsdeildir stjórnmálaflokkanna halda fram. Hægri flokkarnir sem fyrr meir stýrðu landinu fara nú mikinn í að halda því fram að

- landið sé nú alveg að fara á hausinn (þessvegna megi vinstri menn ekki stjórna) - sem er mikil rökleysa.

- öll heimili í landinu séu á heljarþröm og því verði ríkissjóður að gefa öllum pening, helst svona 20% eftirgjöf allra skulda. Ríkissjóður hefur aldrei verið verr búinn til að leika slíkan jólasvein og mikilvægt að nota þá litlu peninga sem til eru af mikilli varkárni.

- kratarnir aftur á móti halda stíft við að allt sé í rauninni í lagi bara ef við samþykkjum innlimun í evrópskt stórríki en því trúir nú enginn.

En semsagt, lesið grein Péturs, hún heitir Von og er góð lesning.


Undirskriftir gegn ESB aðild

Það hlaut að koma að því að efnt yrði til mótvægis við undirskriftasöfnun Benedikts Jóhannssonar þar sem tæplega 11 þúsund hafa nú skráð sig á vefnum sammala.is sem talsmenn þess að Ísland gangi í ESB. Nú er semsagt komin ný undirskriftasöfnun þar sem andstæðingar ESB-aðildar eru hvattir til að skrifa sig og án þess að nokkru sé þar varið til auglýsinga er talan strax á nokkrum klukkutímum komin í 1000. Nú þurfum við bara að öngla saman sem flestum því ekki viljum við láta svo líta út að það sé mjög stór hluti þjóðarinnar sem vilji aftur afhenda hinu evrópska stórríki öll yfirráð á Íslandi. 

Textinn sem skrifar er undir hér hljóðar svo. Allir að skrá sig.

 Við undirrituð erum ósammála þeim málflutningi að innganga í Evrópusambandið sé leiðin til þess að koma efnahagsmálum Íslands aftur í réttan farveg. Við teljum að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið sem sjálfstæðri þjóð utan sambandsins.

Við viljum að umræðan um Evrópumál fari fram á upplýstan og málefnalegan hátt en ekki með upphrópunum og hræðsluáróðri. Okkur þætti ákjósanlegast að sátt næðist meðal þjóðarinnar áður en farið væri í aðildarviðræður en ef tekin yrði ákvörðun um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið er lágmarkskrafa að það gerðist með yfirveguðum hætti en ekki í flýti.

Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.


Fjórelleft varð frúin mín

Ég bloggaði ekkert í gær enda lifði ég í þeim munaði að halda upp á afmælið hennar Elínar minnar sem varð fjórelleft og hefur eytt hálfum þeim tíma með einum og sama kallhólkinum þó að hann sé nú ekki sá fallegasti og líka úrillur á köflum en hún er aftur á móti að sjá ekki degi eldri en 27 ára og ég veit ekki nema einn ljóð á ráði þessarar spúsu en það er þegar henni dettur í hug að fara í megurðir því vitaskuld flokkast það undir alvarlegt eignatjón hjá mér ef það er minna af henni og veit svosem ekki hvort nokkur viðlagasjóður eða viðhaldssjóður bætir slíkt tjón enda ókunnugur þessháttar brasi og hefi svosem ekki þurft að kvarta því alltaf stranda þessar tilraunir hennar á því  hún hefur svosem ekki af neinu að taka og stundum grunar mig að hún sé raunverulega að tala utan af því að það sé ég sem megi renna tólg en til þess er ég bæði of sjálfselskur, heimskur og latur en enginn skyldi þó halda að það sé þessari leti að kenna að konunni blessaðri er ekki betur í skinn komið því yfirleitt reyni ég að elda ofan í hana saðsama og feitisríkan kveldskatt og síðast í gær fékk hún konfekt í rúmið sem er auðvitað ekki á hverjum degi en afþví að hún átti ammili þá var við hæfi að kakóklessurnar væru handgerðar og dáldill fótur í þeim en mestu munaði nú um að það var Matthías kallinn Moggaritstjóri sem barg fyrir mér afmælinu og hafi hann þar heila þökk fyrir en svo mikið dálæti hefur kona þessi á skáldi því að ef hann ekki væri mér eldri gæti ég aldrei sofnað væran dúr og nú gerði hann þessari konu þann heiður að skrifa til hennar kveðju í gamla bók og fól mér svo að kyssa hana sem ég svikalaust geri og ætla að gera þar til hún verður áttelleft hvoru megin sem ég verð nú daginn þann...

Ég kýs VG og hvet alla fullveldissinna til hins sama

Eftir heilabrot lendi ég alltaf á sömu niðurstöðu. Eini flokkurinn sem ég get kosið er VG vegna þess að mál málanna á komandi kjörtímabili verður afstaðan til ESB. Geri nánar grein fyrir þessu í pistli sem birtist á Smugunni nú í kvöld og styrktist heldur í ásetningi mínum eftir að horfa á frambjóðendur flokkanna hér á Suðurlandi í sjónvarpi í kvöld.

Ég hvet fullveldissinna, hvar í flokki sem þeir eru, til að gera eins. 

En aðeins um þáttinn í kvöld. Þar gerðist það sem ég hefi óttast að fulltrúi Frjálslynda flokksins hér á Suðurlandier ekki staðfastur í sinni afstöðu til ESB og kom ekki allskonar á óvart. Fyrir tveimur árum gekk Grétar Mar til kosninga sem ESB-sinni. 

Að þessu slepptu stóðu sig flestir nokkuð vel og Hreppamennirnir tveir, Björgvin G. Sigurðsson og Sigurður Ingi Jóhannsson kannski sýnu best þegar horft er á hlutina án þess að meta skoðanir manna.

Þeir voru knáir í rökræðunni og Björgvin sem oft fékk á sig mjög föst skot kom standandi niður.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband