Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Af gustukaverkum og kjarkleysi
30.5.2007 | 15:21
"Þetta var óskapar gustukaverk hjá Geir, eiginlega ekki hægt að gera meira gustukaverk neinum manni," sagði eldri maður í uppsveitunum við mig á dögunum, líklega sjálfstæðismaður, og var að tala um ríkisstjórnina nýju og þá ákvörðun sjálfstæðismanna að taka Samfylkinguna inn hjá sér. Og bætti svo við að kratana hefði langað þetta þessi ósköp og átt líf sitt undir að komast í stjórn. Þeir hefðu enda brosað látlaust síðan.Þetta er reyndar það jákvæðasta sem ég hef heyrt frá nokkrum sjálfstæðismanni um þessa stjórnarmyndun en það verður að hafa í huga að ég hitti aðallega sveitamenn og þeir eru margir gramir forystu sinni fyrir að hafa bjargað pólitísku lífi erkióvinarins, Ingibjargar Sólrúnar.
Það er þessvegna gaman að heyra að einhverjir geta litið á myndun stjórnarinnar sem gustukaverk en ef orðið er blogglesurum of fornlegt þá merkir það hér góðverk á þeim sem á bágt. Það er auðvitað nöturlegt fyrir Samfylkinguna að komast að kjötkötlunum fyrir gustukasakir og kannski ferst okkur Framsóknarmönnum ekki að tala svona. En það er þó sá munur á að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gefið sig út fyrir að vera höfuðandstæðingur íhaldsins í tveggja turna kerfi.Og að einu leyti eiga mínir ágætu vinir í Samfylkingunni gustukakenninguna verðskuldaða. Forysta Samfylkingarinnar sýndi dæmafátt kjarkleysi í nýafstöðnum stjórnarmyndunarviðræðum og það gerðu raunar allir flokkarnir, þó ef til vill hafi það kjarkleysi skilað Sjálfstæðisflokki ákveðinni slembilukku.
Það voru allir hræddir við að lenda í minnihluta nema þá helst Framsóknarmenn sem flestir hverjir áttuðu sig á að við gætum ekki haft forystu í neinum viðræðum. Þetta er nú að verða nógu langt um liðið til að tala hreint út um það sem gerðist og samt nógu nálægt okkur til að vera spennandi,- núna daginn fyrir þingsetningu sumarþings. Forysta Sjálfstæðisflokksins ákvað að halda í gömlu stjórnina eins lengi og mögulegt væri þó svo að það væri aldrei ætlan þeirra né kannski Framsóknar heldur að hún sæti áfram. Með því taldi Geir sig réttilega geta valdað Framsóknarmenn og gert mögulega vinstri stjórn ósennilega í augum bæði Samfylkingar og VG. Með því að telja vinstri flokkunum þannig trú um að í bígerð væri að sama stjórn sæti áfram manaði Geir þau Ingibjörgu og Steingríms til samstarfs. Steingrímur og Ingibjörg bitu bæði á agnið og tveir starfshópar þingflokks Sjálfstæðismanna fóru af stað til viðræðna við báða þessa aðila. Á meðan hélt Geir Framsóknarmönnum uppi á snakki en Frjálslyndir bönkuðu á dyrnar og buðust til að koma inn í núverandi stjórnarsamstarf. Því banki var ekki ansað. Steingrímur J. sem eðlilega óttaðist að Samfylkingin gæti haft betur reyndi að gera samstarf sitt við Sjálfstæðismenn sennilegt með því að hrauna yfir Framsóknarmenn sem tóku því mjög óstinnt - enda kosningarnar afstaðnar og svona láta menn ekki eftir kosningar. Samfylkingin sendi þau skilaboð út til Framsóknar að VG gæti ekki hugsað sér að mynda stjórn með Framsókn - sem ég held að hafi verið kratatúlkun á veruleikanum og meðvitað skrök til þess að þurfa ekki að vinna að myndun Vinstri stjórnar enda skapaði vinna við slíkt hættu á að einhver annar næði að hoppa uppí hjá íhaldinu sem hefði fyrr selt sig ódýrt en að lenda í stjórnarandstöðu!
Við framsóknarmenn voru í sárum - það eru engin leyndarmál þar. Við töpuðum næstum hálfum þingflokkinum þó svo að prósentulegt tap hafi reyndar ekki verið rétt um þriðjungur,- fórum úr 18% í 12%, en þingmannafjöldinn fór úr 12 í 7 sem er ansi mikil breyting. Við biðum átekta og það var hvorki sigurvíma né frumkvæðiskraftur í flokki okkar við þessar aðstæður. Formaður okkar þáverandi sagði einmitt á kosninganótt að miðað við niðurstöðuna hefðum við ekki frumkvæði í neinu og þeirri stefnu fylgdum við af heilindum. Við biðum eftir því hvað Geir Haarde gerði. Við vorum auðvitað í miklum vafa um það hvort við værum til í að halda áfram með Sjálfstæðisflokki í stjórnarsamstarfi en fyrst og fremst vildum við eftirláta sigurvegurum kosninganna frumkvæði í málinu.
Geir gat því boðið okkur í formlegar viðræður sem hann gerði ekki.
Geir gat því beðist lausnar sem hann gerði ekki.
Geir gat samið við aðra en haldið okkur í gíslingu á meðan í trausti þess að við værum svo brotnir að við tækjum aldrei af skarið. Og það gerði hann, - svikalaust!
Það getur vel verið að þetta hafi verið klókt hjá Sjálfstæðismönnum en stórmannlegt var það ekki og bar vitni ákveðnu kjarkleysi og óhreinskiptni gagnvart samstarfi sem allt fram að þessu hafði einkennst af heilindum og drengskap.
En kjarkleysið var mest hjá vinstri flokkunum tveimur sem beiddu báðir til Sjálfstæðisflokks í stað þess að láta á það reyna að hér yrði mynduð vinstri stjórn. Í Silfri Egils morguninn eftir kosningar gaf ég út yfirlýsingu um það að Framsóknarflokkurinn myndi ekki standa í vegi fyrir myndun vinstri stjórnar í landinu,- (þ.e. VG, Samfylking og Framsókn) og ég gaf þessa yfirlýsingu út í fullu samráði við forystu flokksins. Strax eftir þáttinn hringdi Guðni Ágústsson í mig og hrósaði mér sérstaklega fyrir frammistöðuna og taldi mig einmitt hafa sagt það sem segja þurfti. Kjarftasögur um að ég hafi fengið tiltal fyrir það sem ég sagði eru þvaður sem ekki er svaravert. Að vísu skömmuðu mig ýmsir kjósendur mínir á eftir en aðrir hrósuðu mér en það er eins og stjórnmálamenn eiga alltaf við að búa. Og eitthvað var Þorgerður Katrín líka að skammast í mér, bæði í þættinum og daginn eftir en sú mæta kona ku í öðrum flokki en ég og kaus mig ekki.
Það er alveg rétt sem bent var á að ég endurtók þetta tilboð okkar Framsóknarmanna ekkert,- einfaldlega af þeirri ástæðu að það var óviðeigandi að þrástagast á því, slíkt kom aldrei til greina af minni hálfu. Það var komið fram og síðan var það annarra að sækja á.
Ég hef áður fjallað um viðbrögð Össurar við þessari umræðu og því er við að bæta að í lok þáttar vísaði hann þeim bolta yfir til Framsóknar að við ættum þá að hafa frumkvæði að því að mynda vinstri stjórn! Nema hvað!
Kjarkleysi Samfylkingar og Vinstri grænna varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll spil í hendi sér og gat leikið sér að undirboðum vinstri flokkanna. Endirinn varð sá að Samfylkingin bauð sig til samstarfs á mun lakari kjörum heldur en Framsóknarflokkurinn samdi um árið 2003 sem er athyglisvert!
Að lokum þetta nú við upphaf að nýju þingi.: Það er mikið slúðrað hér á netheimum og einhverjir hafa slegið sér upp á fullyrðingum um að ég hafi haft úrslitaáhrif á það hvort fráfarandi ríkisstjórn hélt áfram eða ekki. Stjórnin hélt velli í kosningunum og hefði getað haldið áfram. Það vissum við í þingliði Framsóknar og vorum öll tilbúin til að heyra hvað Sjálfstæðismenn vildu gera og hefðum svo metið þeirra boð. Við vorum samt öll í miklum vafa um það hvað gera skyldi. Ég hef heyrt götustráka og aðra stráka halda því fram að það að ekki varð úr áframhaldandi samstarfi hafi verið vegna þess að líf stjórnarinnar hefði þá hangið á mínu atkvæði. Ég hef vissu fyrir því að þetta eru ekki almenn viðhorf í þingliði Framsóknar og þau eru það ekki heldur í þingliði Sjálfstæðisflokks.
Allt frumkvæði í viðræðum um áframhaldandi stjórn hefði orðið að koma frá Sjálfstæðisflokki og þaðan kom ekkert og engin boð um eitt né neitt. Sem enda var ekki von. Það átti að draga okkur á asnaeyrunum. Þegar við svo fréttum að þeir hefðu í fyrsta lagi hafnað eða neitað að ansa boði Frjálslynda flokksins um þátttöku í stjórninni (tilboð sem við vissum allan tímann af en töldum ekki að við þyrftum að velta fyrir okkur nema Sjálfstæðismenn ætluðu sér eitthvað með það) og í öðru lagi að viðræðurnar við Samfylkingu væru að komast á fullt skrið - þá var okkur ekki sætt lengur að bíða forystu Sjálfstæðismanna og á þeim tímapuntki var það niðurstaða þingflokksins að fela Jóni Sigurðssyni að flytja Geir H. Haarde þau boð að stjórnarsamstarfinu væri lokið. Og það var gert.
Ég sagði hér áðan að allir flokkarnir hefðu sýnt kjarkleysi dagana eftir kosningar,- auðvitað átti það við um okkur Framsóknarmenn líka enda vorum við illa beygðir af úrslitunum. Kannski hefði verið snöfurmannlegast hjá okkur að segja íhaldinu upp strax á sunnudagsmorgni en ég studdi samt heilshugar þá ákvörðun formannsins þáverandi að fara sér í engu óðslega. Þannig var það.
(Myndin hér að ofan er af Ingibjörgu Sólrúnu eins og hún hefur komið landsmönnum fyrir sjónír í mörg ár - en þessa dagana er hún mun brosmildari. Ég er sjálfur í þeim hópi þjóðarinnar sem hefi alltaf haft nokkurt dálæti á utanríkisráðherranum núverandi - þó ég sé henni oft ósammála. Það voru mér þessvegna vonbrigði að hún sýndi ekki meiri kjark dagana eftir kosningar. Vitaskuld var hún í pólitískum lífsháska. Hún hefði ekki lifað það af að lenda með Samfylkinguna utan stjórnar. En það er eitthvað svo ósjarmerandi og hvunndagslegt þegar fólk í lífsháska bregst við með kjarkleysi...)Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Á tali við Ingólf...
29.5.2007 | 17:43
Gekk á Inghól á sjálfan hvítasunnudaginn sem er hjassa eins og mér alveg nóg fyrir daginn. Bjóst reyndar við að ég yrði enn þyngri á mér því í kosningabaráttunni bætti ég á mig fjórðungi og reyndist þegar við frambjóðendur gengum um sali Sláturfélagsins á Hvolsvelli talsvert þyngri en formaðurinn núverandi sem var reyndar aðeins varaformaður og ráðherra á þeim tíma. Heilum vetri í kosningabaráttu fylgir endalaus skyndibiti, sætabrauð og óhollusta - og nú er að ganga það spik af sér!
Hef tvisvar áður komið á Inghól sem er semsagt hæsta þúfan á Ingólfsfjalli, um 550 metrar og þar undir segja sögur að fyrsti landnámsmaður okkar, Ingólfur Arnarson, sé heygður og hundur hans í öðrum hól þar hjá en skip kappans er í Kögunarhól. Auðvitað eru þetta mjög ævintýralegar sögur en ekki verri fyrir því. Þetta vafðist samt svoldið fyrir mér að staðsetja hundinn og húsbónda hans nema að hundur karls sé í formfagra hólnum sem Landmælingar ríkisins hafa notað sem viðmið og sjálfur Inghóllinn sé ólögulegt holt rétt norðan og vestan við. Holtið er miklu stærra og álíka hátt og hafi fornmenn ekki verið mikið upp á pjattið þá gætu þeir hafa grafið hundinn í fegurri hólnum. Nei, nei - auðvitað er það útilokað. Líklegast er að hundkvikindið liggi í lítilli dys sem ég fann rétt austan og norðan við Inghól og hefur þá ekki verið meiri um sig en venjulegur hundur. Ingólfur hefur aftur á móti verið risi eins og þjóðsögur af honum sýna og svo er um flestar munnmælasögur 19. aldar manna af landnámsmönnum. Rétt neðan við Inghól eru Leirdalir, miklar og glæsilegar sléttur þar sem halda mætti heilt útimót og hefur örugglega verið gert við útför þessa en engar samkomur kunnu heiðnir víkingar betur að halda en erfi. Sunnan í Ingólfsfjalli er illkleift skarð,- rétt vestan við Þórustaðanámu, sem heitir Ýmuskarð og þar á ambátt Ingólfs og frilla, Ýma að nafni að hafa farið til útfararinnar því henni hefur auðvitað verið meinað að ganga sömu götu og aðalborið hyski landnámsmannsins.
Auðvitað eru allar þessar sögur einhverskonar skrök og næsta útilokað að nokkur færi að drösla dauðum víkingi upp á fjall þetta og þaðan af síður að grjóthóllinn Inghóll sé dys. Sögur segja að einhverju sinni hafi Ölfusingar grafið eftir gulli Ingólfs í Inghól og komið böndum undir kistuna. Þá sagði einn þeirra sem þar var, nú tekst ef guð vill. Síðan er togað og rétt þegar kistan er að koma upp og allt virðist unnið segir ódóið hann Jón skottuskáld í Bakkárholti, nú tekst hvort sem guð vill eða ekki og í sama mund slitnaði festin, kistan hrapaði og moldin þeyttist yfir í gröfina aftur þannig að augabragði sáust engin nývirki á landinu. Ég man þegar ég las þessa sögu fyrst fannst mér hún hafa litlu að miðla mér hálfvegis trúlausum manninum en það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir að það er í henni mikill sannleikur. Líka fyrir trúlausa. Hrokinn skilar nefnilega engu og það er aldrei neitt í hendi fyrir hrokann og oflátungsháttinn einan.
Og það er mikilvægt að hugsa svona sögur aftur og aftur, ganga að vettvangi þeirra og hlusta á söguna í vindinum. Vita hvað Ingólfur er að hugsa þó ég verði að viðurkenna að hann hefur svosem aldrei verið nein uppáhaldspersóna hjá mér, - bæði hégómlegur og lífhræddur. En samt, hann hefur tilheyrt okkur báða dagana og lengst af verið í Inghól með einhverjum hætti...
En þetta er nú orðið meira rausið. Í dag vann ég mitt fyrsta verk sem þingmaður þegar ég mætti sem fulltrúi Framsóknarflokksins fyrir rússneska þingnefnd sem hingað kemur til að kynna sér nýtingu náttúruauðlinda. Þó svo að fundur þessi hafi verið yfirborðslegur og mest formlegheit er enginn vafi að þetta er eitt af því sem alþingismenn verða að gera. Sigurður Kári sjálfstæðismaður hafði orð fyrir hópnum en auk hans voru á fundinum Ellert B. Scram frá Samfylkingu og Kolbrún Halldórsdóttir Vinstri græn. Á morgun er svo bæði þingflokksfundur og kynning fyrir nýliða á þinghúsinu þar sem við verðum leiddir þar um ganga, kennt á kaffivélina o.s.frv. Mér var strítt á því um helgina að þetta yrði svona aðlögun eins og ný leikskólabörnin ganga í gegnum. Kvenpeningur ættarinnar fylltist móðurlegri umhyggju og bauðst til að fylgja mér að þinghúsinu þennan fyrsta dag og jafnvel að vera með mér þar fyrsta klukkutímann...
(Myndina tók ég á litlu handhægu vélina hennar Elínar - af Inghól og dys hundsins og frábærum skilaboðum hins opinbera til göngugarpa sem ná upp á fjallið,- semsagt: röskun varðar refsingu!)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eldskírn ríkisstjórnar og óbilgirni á móti öfgum!
27.5.2007 | 23:12
Eldskírn ríkisstjórnarinnar kom fyrr en margur vænti í formi gamalkunnrar deilu um Þjórsárver. Það á auðvitað að hlakka í mér eins sem stjórnarandstöðuþingmanni yfir því að stjórnarflokkarnir skuli nú tala út og suður um Norðlingaöldulón en svo er ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að mér þykir sáttin í virkjanamálum meira virði. Og nú heyri ég ekki betur en að það sé langt í hana.
(Í stuttu máli: Í stjórnarsáttmálanum segir: "Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna." Samfylkingarráðherrar og nokkrir talsmenn Náttúruverndarsamtaka hafa haldið því fram að þar með sé ákveðið að engin Norðlingaölduveita verði til. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks segja að þetta útiloki ekki veitu þessa svo fremi að það gangi ekki á votlendið. Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar hefur bent á að stjórnin verði að afnema leyfi Landsvirkjunar til Norðlingaölduveitu og Landsvirkjun hefur staðfest þann skilning og segist engu afsala sér af sjálfsdáðum. Össur segist ætla að gera það sem þarf. )
Þetta mál allt er langt því frá að vera einfalt og einkennist með vissum hætti af óbilgirni á báða bóga. Þeirri óbilgirni friðunarsinna að gera ekki bara kröfu um friðun ákveðinna votlendissvæða við Hofsjökul heldur um leið af þeirri kröfu að vatn úr Þjórsárverunum verði ekki notað í vatnsmiðlun fyrir Búðarhálsvirkjun eða aðrar virkjanir jafnvel þó að það megi gera slíkt án þess að skerða Þjórsárverin. Fræg sáttatillaga Jóns Kristjánssonar var á sínum tíma tilraun til slíkrar mála- og vatnsmiðlunar og það er mín skoðun að hún hafi verið viðunandi og ekki skemmt eða skert sjálf Þjórsárverin. En bara mín persónulega skoðun, að vísu byggð á stuttu ferðalagi inn í verin og smá yfirlegu, en samt bara ein skoðun á móti skoðun margra þeirra sem telja að Norðlingaölduveita jafngildi því að fara með rask inn í merka náttúruperlu sem á að vera óröskuð um aldur og ævi. Og ég skil alveg röksemdirnar fyrir þessum sjónarmiðum sem styðjast meðal annars við það að bakvið friðun Þjórsárvera sé áratuga gömul sáttagjörð.
En ég sagði að málið einkenndist af óbilgirni á báða bóga og mörgum harðlínu náttúruverndarsinnum þykir vafalaust að ég tali virkjanalega. Enda aldrei skilgreint mig sjálfan sem einsýnan andstæðing vatnsaflsvirkjana á hálendi Íslands.
Ég sé samt óbilgirnina sem felst í því að Landsvirkjun með alla ráðherra Sjálfstæðisflokksins á sínu bandi skuli aldrei gefa þumlung eftir. Ekki frekar en harðlínumennirnir hinu megin. Sá mæti drengur Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar kom í útvarp nú fyrir helgi og sagði sem satt var að fyrirtækið hefði leyfi stjórnvalda fyrir miðlunarlóni þessu og gæti alls ekki afsalað sér því leyfi enda væri í því fólgin fjárhagstjón fyrirtækis sem væri í eigu almennings.
En svona einsýnn má enginn vera. Það er mikil togstreita á Íslandi um virkjanamál. Ef frá er talin baráttan um Kringilsárrana og Hálslón hefur stríðið risið hæst í umræðunni um Þjórsárverin. Ef við viljum efla þá óbilgirni, reiði og öfga sem hafa alltof mikið einkennt umræðuna undanfarið - þá er sjálfsagt að láta hart mæta hörðu,- fara fram af fullu afli og gefa aldrei neitt eftir. Afleiðingin verður sú að við réttum öfgaöflum meðal náttúruverndarsinna mikilvæg vopn og eftir standa tveir grámúraðir hópar, virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar.
Ég er sjálfur hvorugt. Held raunar að slík flokkun fólks í tvo hópa sé í hæsta máta óskynsamleg og ég á mér þá ósk að þeir félagarnir í Sjálfstæðisflokki, Árni, Geir og svo sjálfur Lalli frændi*) sjái nú að sér og láti af. Það eru fjárhagslegir hagsmunir Landsvirkjunar og þjóðarinnar allrar að gefa hugmyndir um Norðlingaölduveitu upp á bátinn og horfa til annarra kosta. Allt annað er óskynsamleg og grímulaus stríðsyfirlýsing.
Mynd: Úr hjólaferð Dakarklúbbsins í Þjórsárverin fyrir nokkrum árum.
*) Lalli frændi, - götumál og merkir Landsvirkjun. Tíðum notað af fjallaferðalöngum sem njóta víða góðs af framtaki og húsakosti þessa góða frænda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.5.2007 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Framsóknarpauri Morgunblaðsins
27.5.2007 | 12:55
Ég hef áður skrifað um tilraunir Morgunblaðsins til þess að stýra Framsóknarflokknum, - þessi undarlegi Framsóknararmur blaðsins, sem ég veit ekki alltaf hvaða Framsóknarflokki tilheyrir. Nýjasta innlegg Moggans er að birta tilkynningu um það á forsíðu föstudagsmoggans að Helgi S. Guðmundsson og Finnur Ingólfsson hafi sagt af sér embættum á vegum flokksins og að flokksmenn séu hættir við að kjósa Björn Inga Hrafnsson sem formann...
Auðvitað getur það ekki verið frétt að menn sem löngu eru hættir pólitískum afskiptum hætti og ekki heldur að flokksmenn hætti við eitthvað sem hefur aldrei svo mikið sem staðið til. En svona getur Morgunblaðið verið undarlegt og líklega rétt sem einhver bloggaði hér að þetta er ekki gert til að segja frá atburðarás heldur til að skapa eða stýra atburðarás.
Við sem lesið höfum Moggann báða dagana vitum að hann tekur ákveðin pólitísk hitasóttarköst fyrir hverjar kosningar hvort sem er til þings eða hreppsnefnda. En nú er honum farið eins og Steingrími J. og gleymir að líta á dagatalið og heldur að enn sé kosningabaráttu. Það er vonandi að víman renni af með sumarfríunum...
...og síldin kom!
26.5.2007 | 11:53
Síldveiðar hef ég lítið lagt
lag mitt við um dagana.
Um mig verður eflaust sagt
hann var aldrei á síld...
Kveðskapur þessi varð til einhverntíma þegar okkur þraut erindið í kveðskaparkeppni á Menntaskólaárum. Hall Björgvinsson vantaði vísu sem byrjaði á essi og sló þessari þá saman í fljótheitum en hún er ort undir fíflskaparhætti sem er þegar að er gáð einn dýrasti og vandmeðfarnasti háttur íslenskra ferskeytlna.
En því er ég að rifja þessa vísu upp að ég var að ljúka við sérdeilis frábæra bók Birgis Sigurðssonar sem heitir Svartur sjór af síld og er saga síldveiða við Ísland skrifuð af slíku listfengi að jafnvel landkrabbi eins og ég les hana mér til skemmtunar einnar. Það liggur fyrir hvaða sagnfræðingi sem er að skrifa fróðlegar sögubækur en að taka atvinnusögu sem þessa og gera úr henni spennandi afþreyingu er aðeins á færi listamanns. Bókin er kannski svolítið aftanílöng en endar samt á athyglisverðum pælingum Jakobs Jakobssonar um það að síldin komi aftur. Og nú í morgun les ég í Morgunblaðinu að það sé einmitt það sem er að gerast. Guð láti gott á vita.
Síldveiðisaga Íslendinga eru lærdómsrík útfrá umræðunni um rányrkju og græðgi mannsins. Það gleymist alltof oft í umræðunni um náttúruvernd að mestar eru skyldur okkar fiskveiðiþjóðarinnar á norðurhjaranum eru við sjálf fiskimiðin þegar kemur að spurningunni um að skila heiminum í viðunandi ástandi til barna okkar og barnabarna.
Til er það fólk sem gengst upp í frösum um að maður sé það sem maður étur. Ef við mannfólkið erum aðallega puntudúkkur og vöðvabúnt má það til sanns vegar færa. Hitt er þó hugnanlegri veröld að við lærum að líta á okkur sem vitsmunaverur og þá erum við það sem við lesum, sjáum og hugsum. Þessvegna er ég síldarspekúlant í dag og ætla að njóta þess, hver veit nema ég gangi í vesti með gullúr eins og Íslandsbersar allra tíma hafa alltaf gert...
(Á myndunum eru skáldin tvö, Birgir Sigurðsson og Hallur Björgvinsson.)
Hin óspjallaða...
24.5.2007 | 15:26
Víst rétt þetta með jarðýtuförin en þessi samlíking um óspjallaða náttúru minnir óneitanlega svoldið á þau hindurvitni sem sagt er að Íslendingar fyrri alda hafi haft um óspjallaðar meyjar en með þeim kemst náttúran hæst í sakleysi sínu og óspjölluðu eðli. Mig minnir að Blefken eða einhver ámóta hafi kjaftað frá því að Íslandi teldust konur öðlast meydóminn aftur ef þær væru siðsamar í sjö ár og sjálfum finnst mér hið óspjallaða hálendi vera svipuð svikamynd.
Auðnir hálendisins eru ekki endilega eins og þær eru vegna þess að þar hafi allt verið ósnortið heldur miklu fremur vegna þess að við höfum notað þetta hálendi og í samvinnu við Heklu gömlu tortímt þar gróðurlendi. Með því er ég ekki að taka undir með þeim sem vilja ólmir græða upp alla svarta sanda hálendisins á Íslandi en bendi á öfgana sem liggja í því að líta á hálendið sem óspjallaðað. Og sú hugsun að náttúruvernd á Íslandi eigi einkanlega að ná til hálendisins vegna þess að það sé fyrir alveg óspjallað er mikil blekking malbiksins barna. Það rétta er að hálendið á Íslandi er hvevetna undirlagt af framkvæmdum, bæði vegum, húsum, línum og fjölmörgu öðru. Við þurfum vissulega að vernda ákveðna hluta þess en eigum fráleitt að hefta athafnir á því öllu. Það er mjög athugandi að taka frá ákveðna hluta þar sem hvorki ekkert fari um nema gangandi fólk og gaggandi tófa. Frekar spennandi hugmynd. En stóra hluta þess eigum við líka að nýta eins og hvert annað land. Og virkjanir okkar þjóðar eigum við að einkanlega að hafa á hálendinu,- ekki ofan í byggðum eins og gert verður með virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Meira um þær virkjanir síðar - Páll Einarsson kom með mjög athyglisvert sjónarhorn inn í þá umræðu.
En svo haldið sé áfram með spurningu Sveins Sigurjónssonar,- ég skrifaði í Frakklandi í vetur um fjöll og hvað þau líktust um margt konum og væru líkt og þær mun fegurri nakin en klædd. En útfrá umræðunni um hið óspjallaða vita allir hvað litlar líkur eru á að kona sem við sjáum nakta sé lengi óspjölluð eftir það... En nú finnst einhverjum að ég sé farinn að blogga útfyrir það velsæmi sem hæstvirtum alþingismanni leyfist!
(Myndin hér að ofan er frá Drápsvík við Ytri Rangá, rétt við Tólf kúa skák þar sem sagan talar í hverju fótmáli. Hér er náttúran svo sannarlega nöguð og spjölluð og spillt - en samt og kannski þrátt fyrir það spakvitur, vinaleg og hlý eins og margfróð átján barna kotkerling aftan úr öldum. Eða hvað!)
Til hamingju Ísland!
23.5.2007 | 18:22
Dagurinn í dag, sá tuttugasti og þriðji í maímánuði er dagur mikilla pólitískra tíðinda. Ný ríkisstjórn hefur tekið við á Íslandi og formannsskipti orðið í Framsóknarflokknum. Það er því full ástæða til að óska þjóðinni til hamingju og mun víst ekki af veita. Með það fyrrnefnda því öll hljótum við alltaf að óska þess að ríkisstjórnum takist vel til við stjórnun landsins. Með það síðarnefnda því miklu skiptir að Framsóknarflokkurinn nái nú vopnum sínum sem ég hef fulla trú á að hann geri undir forystu Guðna Ágústssonar þó svo að vissulega sé eftirsjá í Jóni Sigurðssyni. Jón bregst með þessu við niðurstöðu kosninganna af karlmennsku. Hann kom nokkuð skyndilega inn i stjórnmálin og fórnaði þar eigin hagsmunum til heilla flokki. Ég veit að við fáum áfram að njóta krafta Jóns en það er samt við hæfi að þakka honum á þessum degi frábæra frammistöðu á erfiðum tímum.
Guðni Ágústsson er vel að því kominn að verða formaður enda í augum okkar margra Framsóknarmennskan holdi klædd. Hann er heilsteyptur og drengur góður. Megi honum vel farnast og læt þar með lokið mærðinni í dag en vík að hinu. Nýrri ríkisstjórn.
Það verður reyndar hlutverk mitt sem þingmanns í stjórnarandstöðu að fjalla um þessa stjórn seint og snemma næstu árin. Ég veit að í ráðherraliðinu eru margt mætra manna en engu að síður held ég að þessi stjórn sé sú versta sem lýðveldið gat fengið. Versta vegna áhugaleysis síns í byggðamálum en um þau er ekkert fjallað í stjórnarsáttmála, versta vegna fullveldis þjóðarinnar en margt bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn taki núna viðsnúning á því máli enda hinn þjóðholli Davíðsarmur greinilega lentur í minnihluta. Stjórnin er líka sú versta þegar kemur að landbúnaðinum í landinu, umhverfismálunum - sem hafa aldrei verið annað en froða hjá Samfylkingunni o.s.frv. o.s.frv.
Meira,- já miklu meira um þetta síðar og allar götur þar til við höfum aftur fengið góða landsstjórn!
(Myndina hér að ofan tók Ármann Ingi Sigurðsson af þeim Jón formanni og Hjálmari þingmanni á síðasta kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.)
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Baugsstjórnin sem Össur kjaftaði frá daginn eftir kosningar!
20.5.2007 | 01:58
Refsskák stjórnmálanna er aldrei grimmari en fyrst eftir kosningar. Ég sem er bara úr sveit kann ekkert annað en að segja það sem mér finnst en gerði mér samt grein fyrir að ég yrði að tala varlega,- kominn á hið háa Alþingi. Mér var þessvegna svolítið brugðið þegar ég heyrði því haldið fram að daginn eftir kosningar hefði ég sagt í Silfrinu hjá Agli að Framsóknarflokkurinn væri ekki stjórntækur. Þetta sagði ég auðvitað aldrei og aldrei neitt í líkingu við það einu sinni. Sagði bara sem satt var að áframhaldandi stjórn væri ekki sennileg og að Framsóknarflokkurinn myndi ekki hafa forystu um stjórnarmyndun, hvorki til hægri né vinstri.
En svo trúgjarn er ég að núna áðan lagði ég á mig að hlusta á allan Silfursþáttinn á netinu sem var mjög fróðlegt miðað við það sem síðan hefur gerst. Ráðlegg öðrum að gera hið sama til að skilja þar með betur það sem síðan hefur gerst. Það eru orð Össurar í þessum þætti sem vekja sérstaka athygli mína en hann talar að minnsta kosti þrívegis um það í þættinum - sem er semsagt nokkrum klukkustundum eftir að talningu lauk, - að boltinn væri hjá Geir H. Harde, Geir hefði fengið það umboð hjá þjóðinni, hann og Þorgerður séu sigurvegararnir og það sé þeirra að ákveða hvað verður... í einu tilvikinu grein stjórnandinn inn í og benti Össuri reyndar á að Framsóknarmenn gætu haft áhrif á það,- sem þeir líka gerðu í vikunni.
En einmitt þessi orð eru sláandi núna. Og sömuleiðis hvernig Össur vék sér algerlega undan því að ræða sína afstöðu eða síns flokks til mögulegrar vinstri stjórnar í landinu. Sumt sagði Össur reyndar undir yfirskini um það að hann væri að skýra og túlka orð mín og Ögmundar Jónassonar sem hvorugt þurfti því báðið töluðum við ágæta íslensku. En í túlkun Össurar lá mjög sterkur tónn sem sagði allan tíma,- það er Geir sem ræður þessu. Verið ekkert að rugga bátnum, - hann ræður hvenær núverandi ríkisstjórn hættir og hver talar þá við hann næst. Enginn annar hefur neitt með það að gera,- og nefndi flokkssystur sína Ingibjörgu Sólrúnu ekki á nafn.
Þegar reynt var að þýfga krataforingjann um mögulega vinstri stjórn í landinu varpaði hann ábyrgðinni á slíku yfir á Framsóknarflokkinn sem er hefði þó alltaf orðið minnsti flokkurinn í slíku starfi og alveg ljóst að hann hefði þar ekki forystu. Forystuhlutverkið í myndun vinstri stjórnar hefði verið hjá Ingibjörgu og Össuri og hvergi annarsstaðar. Og þau voru greinilega um allt annað að hugsa á sunnudagsmorgni eftir kosningar og fannst mikilvægast að fá að vera í friði fyrir öllu vinstra tali.
Það mat Össurar á stöðunni að allt væri nú í hendi Geirs var þá aðeins rétt að Samfylkingarmenn hafi þá þegar verið búnir að lofast Sjálfsstæðisflokki svo rækilega að þar hafi legið fyrir loforð um að skoða ekkert annað. Og þessi flokkur gerir tilkall til að vera kallaður vinstri flokkur,- handbendi stærsta auðhrings landsins og sá flokkur sem leiða mun peningaöflin í landinu til valda í Baugsstjórninni... svei því aftan og framan!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Ha,- hættur í pólitík...
16.5.2007 | 15:40
"Bjarni Harðar er greinilega hættur í pólitík..." skrifar Kristján S. Kristjánsson inn á bloggið mitt í morgun og greinilegt að ekki eru grið gefin. Því það er rétt að ég hef núna í nokkra daga lítið skrifað um pólitíkina og kemur þar tvennt til. Fyrir það fyrsta þurfti ég eins og aðrir frambjóðendur að slaka svolítið á eftir hamaganginn. Í öðru lagi er eðlilegt að viðræður um stjórnarþátttöku fari fram annarsstaðar en hér í bloggheimum...
En við Framsóknarmenn veltum allir fyrir okkur hvað við eigum að gera. Hver séu næstu skref og þar eru sjónarmið manna mismunandi. Það er líka mismunandi hvort menn vilja horfa á stöðuna út frá langtímahagsmunum flokksins eða hagsmunum þjóðfélagsins,- til langs eða skamms tíma. Niðurstaðan getur verið sitthvor eftir því hvort sjónarhornið er haft.
Ég hef aðeins verið í símanum og ég finn alveg að tilfinningarnar í þessu máli eru víða heitar. Ég held aftur á móti að það sé rangt að það sé ein skoðun uppi á landsbyggðinni og önnur á höfuðborgarsvæðinu,- það er mikil einföldun og kannski alveg eins marktækt að velta því fyrir sér hvort skoðanir tengist háralit. En hann sést mjög illa í gegnum síma...
Stórvinur minn Eyvindur Erlendsson hringdi í mig í gær en hann er að fornu krati og spurði hvaða embætti hann fengi hjá hinni nýju stjórn. Vildi helst verða hermálaráðherra og ákvað að lesa yfir Þórarins þátt Nefjólssonar til þess að herða baráttuandann fyrir komandi verkefni...
En þó að þeir rausi og rugli...
15.5.2007 | 20:57
Það var mikið ort í kosningabaráttunni og fæstu af því hef ég náð að halda saman. Á kjördag kom Helgi Jónsson á Selfossi með eftirfarandi til mín á blaði sem á fullt erindi hér á bloggið enda laglega gert.
Í framboði flækjast þeir víða um sveit
og ferðast með stefnuskrá ljósa
og hræra í mér svo ég hreint ekki veit
hvern þeirra ég á að kjósa.
Í litfögrum blöðum með loforðafjöld
þeir lýsa því hverju skal breyta
svo upp renni betri og fegurri öld
með auðsæld til sjávar og sveita.
En þó að þeir rausi og rugli í mér
og rök færi fyrir því arna
af festu ég krossa á kjörseðil hér
og kýs núna B fyrir Bjarna.
(Höfundur Helgi Jónsson, Selfossi - á enga mynd af honum en hér eru nokkrar frá kosningaskrifstofunni af mætum og góðum liðsmönnum og gestum.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)