Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
Stjórnmálanna vegna
31.1.2009 | 20:41
Ég ætla að vona að það hafi verið deilt um málefni í dag. Það hefur ennþá ekkert komið fram hvað það var sem tafði stjórnarmyndun í tvo daga en stjórnmálanna vegna ætla ég að vona að þann tíma hafi ekki bara verið togast á um keisarans skegg.
Það verður varla hægt að leyna okkur því eftir morgundaginn. Best að segja sem minnst í bili og ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. Ekki veitir af. Langar svo að benda á ágæta grein Kristins H. Gunnarssonar um stjórnkerfið, http://www.kristinn.is/frettirpage.asp?ID=1265
Og að lokum. Klukkan tvö á morgun höldum við í Heimssýn reglubundinn sunnudagsfund. Að þessu sinni er umfjöllunarefnið ESB málin og nýja ríkisstjórnin og við fáum fulltrúa beggja stjórnarflokkanna til að mæta. Framsögu hafa tveir glæstir ungliðar, Anna Pála Sverrisdóttir frá Samfylkingu og Bryndís Halldórsdóttir frá Vinstri grænum. Fundurinn er á Kaffi Rót sem er mikið vinalegur staður í Hafnarstrætinu í Reykavík. Allir velkomnir.
Það sem fyndið á að vera...
30.1.2009 | 19:45
Það er mikilvægt að það sem fyndið á að vera - að það sé þá fyndið, segir í spakmæli úr óþekktir sveit og rifjast upp nú þegar...
Geir upplýsir samflokksmenn sína um að krötunum sé illa við Davíð! Fyndið!
Og Geir telur burtför Björgvins úr embætti forkastanlega og ekki til að hrópa húrra yfir því það eru bara nokkrir dagar síðan hann hrópaði sjálfur húrra fyrir sama ráðherra og taldi hann hafa verið svaka flottann að segja af sér - en þá taldi Geir líka að stjórnin myndi lifa. Fyndið!
Þegar Steingrímur og heilög Jóhanna rembast við að þræta fyrir að allt sé í steik og þræta líka fyrir að þau séu öskureið út í Framsókn. Fyndið!
Þegar Sigmundur Davíð leitar með lúsakambi að skilyrðum til að koma sér undan því að verja ríkisstjórnina sem hann var búinn að lofa að verja og heldur að það sé hægt að reikna klúður heillar ríkisstjórnar fyrirfram. Fyndið!
Þegar ríkissjónvarpið fer alla leið norður á Akureyri til að grafa þar upp inngróinn framsóknarmann sem reynir að setja fyrirslátt Framsóknarflokksins í samhengi og titlar sig stjórnmálafræðing. Fyndið!
Þegar það stefnir í að þingmenn og menn sem ekki eru á þingi taki 90 daga í að mynda ríkisstjórn sem á að sitja í 10 daga - eða öfugt en það munar litlu! Fyndið!
Gallinn við allan þennan farsa er að enginn af leikendum hans var ráðinn til að vera fyndinn. Leikendur voru ráðnir í mjög erfitt verkefni sem þarf að vinna hratt og fumlaust. Þegar þessu verkefni er breytt í farsa verður í raun og veru til harmleikur!
Byrjar ekki vel...
29.1.2009 | 17:03
Ég er í heildina ánægður með að fá nýja ríkisstjórn enda getur ráðaleysið ekki orðið verra en var. En samt er ég ekki frekar en margur ánægður með:
- að Ingibjörg Sólrún skuli hafa beitt sér gegn vaxtalækkun Seðlabankans! Vonandi er það bara íhaldsskrök á AMX.
- að nýja ríkisstjórnin skuli ætla að fella hvalveiðiheimildir Einars Guðfinnssonar úr gildi. Það er út í hött og beinlínis skammarlegt að láta Jón Ásgeir og hans líka ráða ferðinni þar. Við þurfum að nýta hvalastofninn.
- að það sé talið aðalatriði hver stjórnar Seðlabanka Íslands - ekki að mér finnist ekki að þar megi skipta út en það er ekki aðalatriði og lyktar af lýðskrumi þegar því er hampað sem einhverju sem máli skiptir.
- að Jóhanna segist komast lengra í átt að ESB með VG og Framsókn heldur en Sjálfstæðisflokki!
- að Framsókn sem hét stuðningi sínum skuli nú setja fram afarkosti. Þó að ég sé ágætlega sáttur við hugmyndir um stjórnlagaþing þá er ekki gott á neyðartímum sem nú ríkja ef þetta atriði er sett fram til að framlengja stjórnarkreppu. Það er ljótur leikur.
En allt eru þetta "ef" atriði og óljósar fregnir í dag og vonandi verður allt á beinu brautinni strax um helgina. Við þurfum starfhæfa ríkisstjórn og við þurfum hana fljótt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Guðdómlega leiðinlegar bækur
29.1.2009 | 14:02
Samt er ákveðin tegund af vondum bókum sem ég les, - það eru þessar skrýtnu, helst mikið skrýtnar og þá því leiðinlegra því betra. Í þessum flokki eru bæklingarnir sem Megas syngur um í kvæði sínu um Birkiland;
Við seldum litla bæklinga
en salan hún var treg...
Ég veit ekkert hvernig salan hefur gengið á bæklingi fjögurra bænda á Skeiðunum en hann er í dag fágæti þrátt fyrir að vera bæði leiðinlegur og torskilinn. Íslenskan á honum er góð eins og á öllu af Skeiðunum og ritið kitlandi naív.
Þetta er semsagt bæklingur frá 1951 sem stílaður er af Hinriki heitnum í Útverkum á Skeiðum og er angi af verstu innansveitarkróniku sem nokkur hreppur hefur staðið frammi fyrir. Verkið að gera úr því skemmtilega bók bíður sagnameistara komandi daga en þessi pési heitir: "Afréttar-málið sem orsakaði mestu kjörsókn á Íslandi."
Bæklingur þessi er ekkert einsdæmi. Á þessum tímum og lengi fyrr var það algeng leið til að útkljá deilumál í þröngum hópi að gefa út um þau hlutdrægar og langlokulegar lýsingar á prenti. Það er annar hér í fornbókabúðinni hjá mér ekki síður skrautlegur samsetningur sem heitir Rangindi og rjettarfar eftir Gísla Jónsson og greinir frá hvunndagslegu þrasi alþýðumanna á Nesjum í Grafningi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Aö vísu aðeins fyrri hluti í langri ferðasögu en mér sýnist að sá síðari hafi aldrei komið út.
Þriðja smáritið sem hér leynist er Orrustan á Bolavöllum eftir Pétur Jakobsson fasteignasala í Reykjavík (f. 1886). Ritið er áritað Sigurgrími Jónssyni í Holti. Nafnið vekur forvitni þar sem hér er vísað til orrustu á þeim stað þar sem forn hindurvitni segja að næst verði barist á Íslandi en vellir þessir eru einmitt neðan við Hellisheiðarvirkjun. Ef einhver lesandi veit til hvaða atburða höfundur er hér að vísa væri gaman að fá um það fróðleik en mér sýnist þetta skemmtiríma af raunverulegu ati, jafnvel pólitík eða þá einhverjum kunningjaslagsmálum.
Er Sjálfstæðisflokki treystandi fyrir sjálfstæði landsins?
28.1.2009 | 12:07
Við kosningar fyrir tæpum tveimur árum gengu kjósendur Sjálfstæðisflokks að kjörborði í þeirri sannfæringu að þingmannsefni flokksins væru nærri því öll andsnúin inngöngu Íslands í ESB. Strax ári síðar voru komnar talsverðar skellur í þessa mynd.
Þegar hæst lét í ESB sinnum benti formaður flokksins á að ef ESB andstæðingar yrðu óánægðir með viðsnúning flokksins gætu þeir snúið sér til Vinstri grænna!
Sjá nánar í grein á AMX sem birtist þar í morgun.
Af pólitísku dánardægri okkar Gústa!
28.1.2009 | 02:08
Ágúst Ólafur er hættur í pólitík en útilokar ekki endurkomu enda maðurinn ungur. Ágústi kynntist ég vel á mínum stutta þingtíma. Við sátum meðal annars vetrarlangt vikulega í spjallþætti á Bylgjunni saman og vorum guðdómlega ósammála um næstum alla hluti. En varð vel til vina og ég tel að kratarnir hafi þar tapað einum sinna betri manna fyrir borð og geta mest sjálfum sér um kennt. Ágúst er eins og hann á ætt til vænn maður og greindur.
Sjálfur stend ég alsæll með svuntuna í bókakaffinu flesta dagana og er stundum spurður hvort ég sé bara hættur í pólitík. Allt búið! Get svarað eins og veðurfræðingurinn vinsæli forðum að allar fregnir af pólitísku andláti mínu eru stórlega ýktar. Þessa dagana bíð ég átekta og hlusta á allskonar tilboð og hugmyndir manna en tel rétt að gera allt hægt. Það er vitaskuld ekkert útilokað að ég verði bara bóksali og kaffidama á næsta kjörtímabili en það er heldur ekki slæmt hlutskipti. Og mikil pólitík í kaffihúsinu dag hvern.
Þessutan er ég í hálfu starfi hjá Heimssýn sem gætir að því að Ísland lendi ekki í Evrópusambandinu og hefi hvergi séð árangur verka minna í stjórnmálum jafn glögglega. Nú er orðinn mikill viðsnúningur í afstöðu manna í þeim efnum og það er mest að þakka mikilli umræðu um ESB mál. Þar er svo sannarlega gaman að hafa lagt hönd á plóginn og verður áfram.
Mestur sagnamaður
28.1.2009 | 00:30
Og áfram með bókablogg. Er enn að dunda við eina og eina úr jólavertíðinni. Ætlaði eiginlega alls ekki að lesa Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson. Þrátt fyrir dálæti mitt á höfundinum fannst mér efnið hálfvegis óspennandi. Fyllerí og vergirni í Reykjavík viðreisnaráranna. Getur slíkt nú orðið spennandi.
Líklega ekki hjá neinum öðrum höfundi okkar núlifandi. Þó Ólafur sé ekki endilega mjög djúpur eða magnaður höfundur á borð við Guðberg eða Guðrúnu Mínervu er hann hvað mestur sagnamaður sem nú heldur á penna. Já, ég held að hann geti jafnvel staðið þar framar meistara Kárasyni án þess að það sé sanngjarnt að fara þar í samjöfnuð svo ólíkra höfunda.
Dimmar rósir er þunglyndisleg saga um taumleysi, ástir, þrár og breiskar manneskjur. Skrifuð af þeirri færni að það er erfitt að leggja hana frá sér. Gildi hennar liggur samt fyrst og fremst í mannlýsingunum sem eru þó eins og nafnið bendir til giska dimmar.
Eftir þessa bók er rétt að hesthúsa einhverju bjartsýnu og uppörvandi. Hjá mér varð fyrir valinu að lesa eina af bókum Ara Arnalds frá fyrri hluta 20. aldar sem var óborganlegur sveitarómantíker sem breytti veruleikanum í Grimmsævintýri og gerði það ágætlega. Eiginlega nauðsynlegur í melankólíu nútímans.
En sem ég er að pára þetta inn nú í stolnum stundum í búðinni fá þeir Þorvaldur Kristinsson og Einar Kárason bókmenntaverðlaunin íslensku. Þorvald hefi ég reyndar ekki lesið en báðir vafalaust vel að verðlaunum komnir. Til hamingju strákar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Ísland!
27.1.2009 | 12:32
Orð Silvíar Nætur eiga alveg við í dag. Ekki getur það versnað frá Viðeyjarskottunni*)sem nú hrökklast frá. Sjálfstæðisflokkurinn er loks útrekinn úr Stjórnarráði þar sem enginn flokkur ætti að hafa leyfi til að sitja lengur en 8 ár samfellt. Já og svo eru hamingjudagar okkar því krónan er að styrkjast - góð úttekt á því á AMX eftir Ágúst Þórhallsson.
En nú reynir á að vinstri stjórnin þori að taka á fjármálafurstunum, útrásarvíkingum sem ætla að kaupa eigin dreggjar á slikk. Það var útilokað að samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks gerði það - svo víða lágu þræðir þeirra flokka. Og því miður er stór hætta á að Samfylkingin veigri sér við að hrófla við sínum gömlu styrktarmönnum en við hljótum þó að vona það besta. Og Jóhanna er óneitanlega betri kostur en Ingibjörg.
ESB barátta kratanna heldur greinilega áfram og verður fróðlegt að sjá hvernig VG snýr sér gagnvart kröfunni um auðlindaafsal Stjórnarskrárinnar. Það er í raun og veru fyrsta skrefið að fullveldisafsali og mikilvægt að hin þjóðlegu öfl landsins standi þar fast á grundvallarréttindum landsins.
(PS: Gamla samstjórn krata og íhalds sem Davíð og Jón Baldvin stofnuðu illu heilli til úti í Viðey fyrir tveimur áratugum var kölluð Viðeyjarstjórn. Stjórnin nú var vitaskuld afturgagna þeirrar stjórnar og þessvegna eðlilegt að hún heiti Viðeyjarskotta. Draugstelpa þessi er nú sér gengin upp að knjám og töturleg!)
Fjórhjólaferð sem var betri allri pólitík
26.1.2009 | 19:27
Hef eins og flestir, næstum allir fengið nóg af miklu blaðri í kringum fátt í pólitíkinni. Ólafur Ragnar baðar sig í athyglinni og reynir að gera hluti sem enginn ætlar honum - Ingibjörg Sólrún er í spunaleikriti og gerir Jóhönnu Sigurðardóttur spontant að forsætisráðherra án þess að láta hana almennilega vita í stjórn sem er hætt og stjórnarandstaðan meira og minna á flæmingi undan því að þurfa að axla ábyrgð því það gæti skaðað fylgið í komandi kosningum.
Allir að hugsa um sinn flokk og sinn rass en enginn um þjóðarhag. Og forsætisráðherrann ber auðvitað enga ábyrgð - aldrei.
En nóg af þessu og ég ætla að birta hér myndir úr frábærri ferð sem við feðginin fórum á laugardag inn frá Hundastapa um slóða inn að Hítardal og ég eiginlega enn með strengi enda ekki stórkostlegt íþróttafrík.
En Hítardalur og Hítarvatn voru frábær í vetrarbúningi og ennnú frábærari þessi fallegi burstabær á leiðinni. Komumst köld og hrakin og hamingjusöm til baka. Skoðuðum auðvitað kirkjugarðinn sem er þá sami og tilheyrði Jóni Halldórssyni sagnaritara, Staðarhraunskirkju og nokkrar misfornar réttir. Vona að Hítardalsbóndi fyrirgefi okkur átroðninginn við kirkjugarð þar sem við fundum hvorki Jón þennan né frændur hans nána en nokkra Mýramenn síðari alda.
Lengi vel átti ég mitt eigið tryllitæki til ferðalaga sem þessara en notin eru örfáir dagar á ári og þessvegna þægilegra að leigja. Sæmundur Skagamaður frá Ánastöðum leigði okkur sitthvort kínahjólið, engin stórkostleg tryllitæki en dugðu samt enda ferðalagið og útivistin meira atriði en tækjadellan.
Tíminn er kominn!
26.1.2009 | 13:41
Minn tími mun koma, er ein frægasta yfirlýsing stjórnmálamanns frá seinni árum en hana gaf Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún laut í gras fyrir Jóni Baldvini fyrir margt löngu. Og síðan hefur Jóhanna átt langt og merkilegt pólitískt líf. Og rís kannski hærra í dag en nokkru sinni.
Henni er í dag teflt fram sem þeim sterkasta á öllu þinginu og má svo sannarlega segja að hennar tími sé kominn. Vel má vera að Ingibjörgu Sólrúnu hafi tekist að snúa taflinu snilldarlega,- lítur þannig út í augnablikinu og spennandi að sjá hvernig útspilið virkar á Steingrím J.