Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Lífsreynslusögur af fyrsta þingvetri!

267Það fylgir því alltaf eftirvænting og spenningur að byrja vinnu á nýjum vinnustað. Fyrir þann sem hefur í áratugi unnið hjá sjálfum sér og eigin hlutafélögum er spenningurinn enn meiri og vitaskuld laumast að ofurlítil vanmetakennd, ekki hvað síst ef vinnustaðurinn er mjög virðulegur.

Það erfiðasta við pólitíska þátttöku mína sem hófst fyrir rúmlega ári síðan tengist klæðaburði en ég hefi allt til þessa kunnað því best að ganga í flauelsbuxum og lopapeysu en hermannaúlpu í kuldum. Síðan ég settist á Alþingi hefur bindishnúturinn verið í stöðugri æfingu...

Þó að þér séuð fagur!

Það kom því vel á vondan í fyrstu umræðu fjárlaga nú á haustþingi að þar hafði ég rifið mig upp úr sæti mínu og beið þess að fá aðeins að þenja raddböndin yfir orðum stjórnarliða í efnahagsmálum en veit þá ekki fyrr til en hinn ljúflyndi og ágæti skrifstofustjóri Alþingis stendur við hlið mér og hvíslar í eyra mér svo engir nærstaddir heyri:

helgi_bernoduss

- Þó að þér séuð fagur Bjarni,- svo kom nokkur þögn eins og Helgi Bernódusson vissi ekki alveg hvernig hann ætti að orða framhaldið: ...þá held ég samt að þú ættir að hneppa neðstu skyrtutölunni áður en þú ferð í ræðupúltið.

Hér hafði það gerst sem mér var hvunndagslegt í kæruleysi blaðamennskuáranna að skyrtan var komin hálf upp úr buxunum og fráhneppt þannig að skein í bert sem ég efa reyndar að standi almennt undir þeirri einkunn skrifstofustjórans að teljast fögur sjón!

Með hjónasvip!

Pólitíkinni fylgja ferðalög og á stundum skondnar uppákomur. Þegar kosningabaráttan stóð sem hæst síðastliðinn vetur var ákveðið að senda okkur tvö austur á Höfn til fundahalda, undirritaðan og Helgu Sigrúnu Harðardóttur skrifstofustjóra þingflokksins og nú varaþingmann okkar. Með okkur Helgu tókust ágæt kynni og það var líklega eftir þessa ferð sem við félagarnir gáfum henni einkunnina „Nagli úr Njarðvíkunum," sem síðar var notað í auglýsingum. Slíkur er kraftur þessarar ágætu Suðurnesjakonu.

49047_HSHEn af ferðinni. Eftir fund í Öræfunum og flakk um Hornafjörðinn var ekki laust við að okkur svengdi þegar við lentum á Höfn um kvöldmatarleyti á sunnudegi og fundur að hefjast eftir stutta stund. Skunduðum því á fyrsta veitingastaðinn sem viðblasti og undruðumst svolítið hvað þar inni var fjölmennt og hátíðlegt. Við sem ætluðum okkur skyndibita en ég náði að hvísla að prúðbúnum þjóni sem gekk hjá með sósukar:

,- ...er einkasamkvæmi?

- Nei, það er opið, var svarið og í því kem ég auga á eldri hjón sem ég kannast lauslega við og ákveð að taka þau tali meðan við bíðum þess að fá borð.

- Og þið eruð í framboðsferð segir bóndinn sem kann á okkur báðum öll skil enda vel að sér í pólitíkinni sem er hér aðeins hreyfð í fáeinum sundurlausum setningum. Samtalið beinist í aðra átt því nú lítur eiginkonan á okkur og segir svo dálítið eins og ofandottin:

- Eruð þið bæði á listanum?
- Já.
- Það er nú örugglega einsdæmi.
- Jaa, já, það er það kannski,- svarar Helga þess minnug að við höfum ekki verið áður saman á lista.
- Jahá, segir þessi aldraða heiðursfrú og lítur yfir sig hlessa á eiginmann sinn og endurtekur. Þetta er örugglega algert einsdæmi.
- Ha, segir bóndinn orðinn svolítið úti á þeirri þekju sem við frambjóðendurnir erum löngu lentir á og vitum eiginlega ekki hvar einsdæmi þetta muni enda fyrr en húsfreyjan bætir við og það er ekki laust við að hún dæsi yfir nútímanum um leið:
- Það er örugglega einsdæmi að hjón séu svona saman á lista!!!

Og það er þá sem það rennur upp fyrir okkur Helgu Sigrúnu að það erum við en ekki hin öldnu hjón sem eru á villigötum þetta kvöld sem er semsagt konudagskvöld og vitaskuld fer enginn út að borða á konudagskvöldi með annarra konur og hana nú!

Þú ferð ekki jómfrú út í sumarið

En aftur til þingmennskunnar. Eitt það vandasamara þar eru hinar margháttuðu reglur sem gilda um tungutak í ræðustól Alþingis. Þannig er óheimilt að ávarpa nokkurn úr ræðustól nema forseta þingsins. Umræðan fer þannig öll fram sem eintal þingmanns og forseta og stundum velti ég því fyrir mér að hve miklu leyti skrýtluna um leikhúsið við Austurvell megi rekja til þessarar sérstæðu venju.

Tala verður um ráðherra, þingmenn og aðra í salnum sem þeir séu fjarstaddir og öll annarrar persónu ávörp eru óheimil. Sömuleiðis er óheimilt að nefna þingmann öðru vísi en að geta þess að hann sé háttvirtur og þegar talað er um ráðherra eða forseta þingsins skal þess að viðkomandi séu hæstvirtir. Við gárungar þessa leiks höfum velt því fyrir okkur hvernig sé þá háttað ávarpi bílstjóra, þingvarða og annarra starfsmanna þingsins og komist að því að þar væri við hæfi ávarpið „mikilsvirtur."

Sjálfum skjöplaðist mér mjög á í þessu við jómfrúarræðu og hafði þó ekki eins hratt á hæli með að missa minn þinglega meydóm eins og garpurinn Jón Björn Hákonarson af Norðfirði sem settist inn sem varamaður nú í nóvember og náði í ræðustól á 17 mínútum eftir undirritun eiðsstafs. Mun það vera met í sögu Alþingis!20070112144113890

Ég fékk að sitja hinn rólegasti á fremsta bekk vinstra megin heila tvo þingfundi og eitthvað datt upp úr mér á þingflokksfundi eftir þann fyrsta hvort það lægi nokkuð á að flytja jómfrúarræðu á þessu vorþingi sem við reiknuðum þá með stuttu. Formaður Framsóknarflokksins leit á mig með þeim ógnandi augnsvip síns vinstra auga sem jafnan fylgir hjá honum í alvörumálum og mælti svo sinni dynjandi bassaröddu aftan úr forneskju Íslendingasagnanna:

- Ertu orðinn vitlaus drengur, heldurðu að þú farir jómfrú út í sumarið!

Þriðji fundur hófst því með hjartslætti og támeyru en svo er ég undarlega af guði gerður að svitna frekar þar en í lófum þegar eitthvað er alvörulegt. Aðallega var ég samt hamingjusamur að geta gert þjóðlendumál að jómfrú og spurt þar fjármálaráðherra um vanefndir hráblautra kosningaloforða sem enn bergmáluðu í afdölum íslenskra fjalla. Undir þessum lið fær þingmaður þrjár mínútur til að spyrja og síðan tvisvar eftir það mínútu til ítrekunar en ráðherra má vitaskuld fara jafn oft og á því síðasta orðið. Orðaskipti urðu hvöss í málinu en sjálfum þótti mér vænt um lokaorð ráðherrans og vinar míns Árna Mathiesen:

„Ef það eina sem hv. þingmaður fer rangt með í þessum stóli á þingtíð sinni eru ávörpin held ég að hann verði farsæll þingmaður."

Orðfæri Guðna og fundarstjórn forseta

Ég varð vitaskuld að sæta snuprum forseta þegar ég í hita þjóðlendumála sagði í miðræðunni orðið „ætlarðu." Þetta er einfaldlega bannorð nema ef vera kynni að beina mætti því til forseta undir sérstökum kringumstæðum. En það getur orðið háværara ef gamlir þinghundar (orðalagið vísar til langrar setu og er ekki móðgandi!) eru sneyptir af forseta eins og gerðist í októbermánuði í umræðu um einu af hitamálum vetrarins, hringlanda með ráðuneytin og aftöku ráðuneytis landbúnaðarmála.

Eftir langa og snjalla ræðu Guðna Ágústssonar sá varaforseti þingsins Einar Már Sigurðsson ástæðu til að áminna þennan margreynda ræðusnilling um þingsköp og var smásmugulegur að því er okkur mörgum fannst. Fann meðal annars að því að þingmaður hafði lesið eina eða tvær setningar úr bók án þess að fá fyrir því leyfi forseta. Reyndar eru aðfinnslur um þingsköp daglegt brauð í þinghúsinu - eða a.m.k. vikulegt. En hvort það var svolítið skelmislegt bros Norðfirðingsins eða hitinn í sjálfru arni_johnsenumræðunni sá Guðni ástæðu til að fara sérstaklega í umræðu um fundarstjórn forseta sem varð að nokkurri deilu millum þessara tveggja. Síðasta orðið í henni átti þá mannasættirinn og ljúfmennið Árni Johnsen sem tók hér með afgerandi hætti málstað vinar síns Guðna Ágústssonar. Ræða Árna er stutt og snaggaraleg og þótti skemmtan í fásinni Austurvallarins. Hún er hér birt í heild sinni:

„Virðulegi forseti. Mér finnst aðeins ástæða til að hvetja til þess að menn séu ekki of háðir böndum í þessum efnum. Mér finnst mildilegt að kvarta varlega undan því við hæstv. forseta. Ég verð að segja að mér finnst það að ætla sér að breyta ræðustíl hv. þm. Guðna Ágústssonar jaðra við að menn láti sér detta í hug að breyta ljóðum eftir Jónas Hallgrímsson."


Bjarni Harðarson þingmaður Stór-Suðursveitarsvæðisins
- að hluta til birt í jólablaði Eystra Horns á aðventu 2007


Hver er hann þessi Framsóknarflokkur?

Upphafsmaður Framsóknarflokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu grundvallaði í reynd íslenska flokkakerfið þar sem hann taldi að grundvöllur væri fyrir tvo miðjuflokka, krata og Framsóknarmenn. Úrlausnarefni okkar á nýrri öld er vitaskuld hvort sú skipting eigi enn við og hvað hafi breyst á 90 árum. Kannski ögn klaufalega orðað því þegar Ísland 21. aldarinnar er borið saman við árið 1916 er nær að spyrja hvað hafi ekki breyst, svo gerólíkt sem samfélagið er því fátækralandi sem Hriflu-Jónas gekk á hólm við með framsýni og þrautseigju.jonas_hriflu

Flokkakerfið skilgreint

Hriflu-Jónas grundvallaði flokkakerfið á stéttaskiptingunni og mismunandi sýn þjóðfélagshópa á samfélagsþróunina. Verkalýðinn í krataflokkinn, bændur og búalið í Framsóknarflokkinn og burgeisana í íhaldsflokkinn. Þegar kom að kommunum taldi gamli maðurinn þá í raun ekki flokkstæka eða eiga sér tilverurétt innan okkar lýðræðiskerfis enda væru þeir andsnúnir lýðræðinu. Þar eins og í mörgu öðru var Jónas langt á undan sinni samtíð.

Strax á millistríðsárunum sáu menn nokkra missmíði á þeim hugmyndum að binda saman stéttir og pólitískar hugsjónir og enginn gerir það í reynd í dag. En hugsjónirnar sem bundnar voru íslenska flokkakerfinu lifðu þær hremmingar af og sömuleiðis lifði Framsóknarflokkurinn góðu lífi fram eftir 20. öldinni þó atkvæðavægi íslenskra bænda færi langt niður fyrir 5%. Það sem einkanlega hefur orðið Framsóknarflokknum að falli var ruglingur í hugsjónagrunninum. Þennan rugling þarf að leiðrétta og þá á Framsóknarflokkurinn ekkert framundan nema vöxt og viðgang. Raunar meiri vaxtamöguleika en nokkur annar flokkur íslenskur.

Förum aðeins yfir fjórflokkinn:

Grundvöllur Sjálfstæðisflokksins eru hugsjónir frjálshyggjunnar og þar með hagsmunagæsla auðmanna. Innan flokksins eru sífelldir hugsjónaárekstrar alþjóðakapítalisma og hins þjóðlega kapítalisma, nú síðast með átökum með afstöðunni til ES.

Grundvöllur sósíaldemókratismans sem Samfylkingin sækir sinn styrk til er samspil jafnaðarstefnu og alþjóðahyggju þar sem stefnt er að því að jafna beri kjör þvert á stéttir, þjóðir og ríki. Til þess að ná markmiðum þessum ber að fella niður landamæri og fela völdin yfirþjóðlegum embættisstofnunum.

Grundvöllur Framsóknarstefnunnar er samspil þjóðhyggju og jafnaðarstefnu sem byggir þannig á fullveldishugsjónum og héraðavaldi. Það er ekki af tilviljun sem Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi tengst baráttu landsbyggðarhéraða fyrir sjálfsforræði frá miðstjórnarvaldi Reykjavíkur eða að flokkurinn á sér rætur í Ungmennafélagshreyfingunni með kjörorðinu Íslandi allt. Það sem skilur milli miðjuflokkanna tveggja er afstaðan til þjóðhyggju og alþjóðahyggju.

Grundvöllur Vinstri grænna er að vera á móti hverju því sem gert er en innan þess flokks er líka mikið af mætum Framsóknarmönnum. (Já og innan sviga þá er grundvöllur Frjálslynda flokksins að skapa lýðræðislegan valkost á hægri vængnum en rétt eins og með VG geymir sá flokkur marga góða Framsóknarmenn.)

Rangur misskilningur

Jafnaðarstefnan sem báðir miðjuflokkarnir aðhyllast hefur staðið af sér alla storma 20. aldarinnar og kemur sterkari fram á nýrri öld en nokkru sinni. Þannig hefur jafnaðarstefnan skotið föstum rótum í hinum stóra Sjálfstæðisflokki og flokkar kommúnista allt frá Sósíalistaflokki til Vinstri grænna hafa skreytt sig fjöðrum sömu hugsjóna.anti-nazi

Öðru máli gegnir um þjóðhyggjuna. Hún hefur átt sér sínar kreppur og martraðir, versta með misnotkun nasista á hugtökum hennar á árum seinna stríðs. Síðan þá hafa hugtökin „folk" og „nation" verið nokkurskonar bannorð á meginlandi Evrópu og lengi var því spáð að þjóðríkishugsunin væri á enda runninn með aukinni alþjóðavæðingu. Smám saman myndi hið frjálsa flæði fjár, hlutabréfa og fólks afnema heimskuleg landamæri og uppræta þar með úlfúð og átök mismunandi málsvæða og þjóða.

Það var í þessu andrúmi seint á 20. öldinni sem margir mætir Framsóknarmenn sáu sæng sína uppreidda og tilvistarkreppu framundan. Ekki bara að það fjaraði undan sveitunum heldur undan hugsjónagrunni flokksins, þjóðernisrómantíkinni eða þjóðhyggjunni eins og Jón Sigurðsson fráfarandi formaður flokksins kallaði hana. Í þessu andartaki gerðist það sem vinir mínir vestan af fjörðum kalla rangan misskilning en hugtakið er haft um ruglanda á háu stigi.

Fyrsta og alvarlegasta merkið um þennan rugling var klofningur flokksins við atkvæðagreiðslu um EES samninginn árið 1993 en allar götur síðan hefur andstaða við þjóðhyggjunna og þau grundvallaratriði sem henni fylgja valdið flokknum alvarlegum skaða. Svo alvarlegum að hann er nú tæpur helmingur þess sem var árið 1993.

Hver er úreltur?

Það fólk er vissulega til sem ekki hefur tekið eftir veðrabreytingum í straumum og stefnum samtímans og telur enn að þjóðhyggjan og þjóðríkið sé komið á fallandi fót. Í heiminum er alltaf mikið af úreltu fólki og úreltum skoðunum.

Staðreyndir heimsfrétta, þjóðfélagspælinga og tískusveiflna tala allt öðru máli. Við sjáum þess merki um heim allan að þjóðhyggjan hefur aldrei verið sterkari og það á sér afar eðlilegar skýringar. Eftir því sem heimurinn skreppur saman með tækni, velmegun og auknum samskiptum eykst þörf hverrar þjóðar til að marka sér stöðu í fjölbreytilegum sirkus. Ekki með neinskonar einangrunarstefnu heldur stendur valið milli þess að finna fjöl sína í þjóðhyggjunni og verða þar með þjóðlegur alþjóðasinni eða hinu,- að týna sér í skrílmenningu sjónvarpsfjarstýringarinnar.

Þeir sem unnan lýðræði og mannréttindum gera sér á sama tíma æ betur ljóst að ekkert getur staðið vörð um þessi helgu réttindi mannhelginnar með sama hætti og þjóðríkið enda engin tilviljun að lýðræðiskrafan fæðist fyrst með þjóðríkishugsuninni í byrjun nýaldar. Bæling þjóðhyggjunnar kallar hvarvetna á sömu vandræðin og birtist okkur í hörmulegum átökum Balkansskagans og broslegri stjórnarkreppu Belga í Brusselborg,- þeirri borg þar sem útrýma átti allri þjóðhyggju.

Framsóknarflokkurinn á sér ekkert nema bjarta framtíð, en það er rétt sem einn af flokksfélögum mínir nefnir nýlega á bloggsíðu sinni að til þess þarf hann að gera upp við þau mistök sem honum urðu á með atkvæðagreiðslunni um EES samninginn árið 1993. Flokkurinn þarf að vera trúr sinni þjóðhyggju í bráð og lengd.

(Birt í blaði Framsóknarmanna á Suðurnesjum á aðventunni.)


Jólin og allar þeirra bækur

Eitt það skemmtilegasta við jólin eru bækurnar - þá ekki bara að selja þær, heldur ekki síður hitt að eiga ómældar nætur til að lesa þær. Var rétt í þessu að leggja frá mér lesna bókina um Elías Mar þar sem Hjálmari Sveinssyni tekst mætavel að lýsa þessu skemmtilega skáldi sem lést á liðnu vori. Ég kynntist Elíasi aðeins þegar hann las fyrir mig prófarkir í aukagetu fyrir tveimur áratugum. Hann var skemmtilegur og hlýr maður og bókin um hann er reglulega vel gerð og athyglisverð samantekt um einn kaflann í bókmenntasögu þjóðarinnar,- mótun borgarskálda í sveitalegu landi. eliasmar

Blessuð sé minning Elíasar,- sem ég veit ekki almennilega hvernig á að vera í eignarfalli seinna nafns, líklega Mars, en þá ekki borinn fram eins og reikistjarnan heldur með sterku erri og veiku essi.

Líklega er þessi bók næstbest þeirra jólabóka sem ég hef lesið og þá sleppi ég Guðna sem ég verð varla talinn dómbær um enda las ég hana í handriti (og hún er hrein snilld). Sú besta af jólabókunum sem ég hefi lesið er annars bók Jóns Kalmans um fátæka eyrarpilta fyrir vestan sem heitir því bratta nafni Himnaríki og helvíti.

Næst bíða mín ÞÞ, Davíð og fleiri snillingar auk þess sem ljóðabókin Skimað út liggur hér á reykborðinu og er bara giska góð en höfundur hennar er Gunnar M. G. en upplag hennar er takmarkað og hana því óvíða að finna. Vinkona mín og móðir skáldsins, Hrefna Birgisdóttir, var svo elskuleg að færa mér eintak. Þessvegna er við hæfi að ég endi þennan stutta bókapistil á tilvitnun í skáldið þar sem það yrkir um hlátrasköll fortíðar:

ástir fyrri kynslóða

er saga
sem sjaldan birtist

í öðru en tilveru okkar
sem tökum við

og elskumst síðar.

------------------

En annars þurfa jólabækur ekki endilega að vera nýjar. Sú merkasta sem ég fékk í pakka þessi jól er hið merka ritsafn Jóns Árnasonar og Ólafs Davíðssonar um gátur, skemmtanir, vikivaka og þulur sem foreldrar mínir færðu mér í tilefni dagsins. Meira en aldargömul bók sem fylgt hefur föður mínum hálfan þann tíma og þar áður lengstum þingmanninum Eiríki Einarssyni frá Hæli í Hreppum. Þeim sem hefur þá bók þarf aldrei að leiðast!

Gleðileg jól!


Hættulegir Evrópusinnar

Evrópusambandið hefur nú ákveðið að innleiða með valdboði að ofan stjórnarskrá þá sem þegnar sambandsins hafa áður hafnað í almennri atkvæðagreiðslu og sýnir nú heiminum nýja mynd af lýðræðisviðhorfum sínum. Það sem áður hét stjórnarskrá heitir nú Lissabonsamningar. voting

Við fyrri samrunasamninga sína hefur sá háttur verið hafður á í sambandi þessu að láta kjósendur greiða atkvæði aftur og aftur þar til samþykki fengist líkt og við þekkjum hér á landi við sameiningu sveitarfélaga og er mikil og raunaleg nauðgun á lýðræði.

Lýðræðinu pakkað saman

Nú bregður svo við í Evrópu að hið miðstýrða Brusselbákn á sér ekki lengur möguleika á að sigra í atkvæðagreiðslum og kommisarar þess sjá að hversu oft sem síðasta stjórnarskrá yrði keyrð í gegnum þjóðaratkvæði yrðu svör þjóðanna alltaf nei. Þjóðirnar í Evrópu eru orðnar ríkjasamrunanum andvígar. Því er brugðið á það ráð að búta pólitískar ákvarðanir stjórnarskrárinnar niður í nokkra smærri samninga og þröngva þeim svo til samþykkis meðal þjóðríkjanna án atkvæðagreiðslu.

Eiríkur Bergmann talsmaður Evrópusamtakanna sem ötulast hefur barist fyrir málstað ES á Íslandi, staðfesti þessa túlkun atburða í viðtali í Silfri Egils um helgina. Efnislegar breytingar sem voru í stjórnarskránni eru margar ef ekki flestar í Lissabonsamningunum, sagði Eiríkur orðrétt í samtali við Egil en taldi það ómark því hinir „symbólsku" væru það ekki. Þetta ku þættir eins og innleiðing á eirikur_bergmannEvrópudegi sem sérstökum hátíðisdegi, Evrópufána og „vísan í sameiginleg einkenni."

 

Ónotahrollur

Það fór um mig ónotahrollur undir þessum útskýringum evrópusinnans. Kannski því að kenna að ég hefi verið að lesa bókina Skáldalíf um ritsnillingana Þórberg og Gunnar sem báðir voru þó miklir hugsjónaglópar í pólitík. Annar trúði staðfastlega á Stalín og hinn var um tíma svag fyrir Hitler. Báðir bjuggu við þá vöntun að þurfa að trúa á eitthvað það í pólitíkinni sem er manninum stærra og meira, eitthvað symbólískt, guðlegt og yfirmannlegt. Hjá heilbrigðu fólki tilheyrir symbólismi trúarbrögðum og miðaldafræði.

Svoldið svipað þessari vöntun er í gangi hjá æstustu talsmönnum Evrópuvitleysunnar. Einhver upphafning og síðan er talað í gátum sem enginn skilur um verðmæti sem enginn veit almennilega hver eru, - launhelgum.

Það er mikill munur á slíkum launhelgum í stjórnmálum og heilbrigðum skoðunum og hugsjónum. Skýrast í þessum mun er vitaskuld að hugsjónir er hægt að útskýra í einföldu og auðskildu máli. Hinar pólitísku launhelgar og allur yfirmannlegur háloftamígur einkennist aftur á móti af óskiljanlegri og upphafinni orðræðu.

Staðlausir trúarórar

Dæmi um þessar yfirmannlegu gátur og staðleysur í málflutningi eru fullyrðingar um að enginn viti lengur hvað orðið fullveldi þýðir! Að umræða um Evrópumál þurfi að þroskast (=andstæðinarnir eru óþroskuð fífl)! Að efnahagsframfarir undanfarinna ára á Íslandi séu bara allar vegna EES-samningsins!!! Að Evrópusamruninn sé söguleg nauðsyn (sem er ómerkileg forlagatrú)! Að evran muni koma, hvað sem dauðlegir stjórnmálamenn segi!

Nauðhyggjan er hér stór þáttur. Sömu fullvissu báru gömlu kommarnir í brjósti og snillingur þeirra Jóhannes úr Kötlum orti austur í Hveragerði,- „Sovét Ísland hvenær kemur þú." Ekki hvort, heldur bara hvenær! stalin_victory

Það er útaf nauðhyggjunni og upphafningunni sem menn leyfa sér að láta fólk kjósa aftur og aftur eða þegar það dugar ekki afnema kosningaréttinn. Hinar upphöfnu skoðanir eru hafnar yfir allt sem heitir lýðræði og skoðun hinna upphöfnu manna er einfaldlega sú eina og sú rétta.

Ég ætla ekki að fullyrða að í Evrópuórunum felist ógn sem sambærileg er ógnum hinna gömlu alræðisherra, Stalíns og Hitlers. En ég held að hugsandi fólk eigi alltaf að vera á varðbergi þegar stjórnmálamenn fara að slá um sig með symbólisma og öðru sem ekki verður skilið jarðlegum skilningi.


Verðbólgufjárlögin 2008

Ný ríkisstjórn hefur fengið sín fyrstu fjárlög samþykkt og markar nokkur tímamót. Þau mest að í stað þess að reynt sé að gæta aðhalds og haga fjárlögum í samræmi við almennar ráðleggingar hagfræðinga og alþjóðlegra greiningaraðila gefur hin nýja ríkisstjórn skynseminni langt nef. Fjármálaráðherra skellir í andlit þjóðarinnar mestu verðbólgufjárlögum síðari ára og leita þarf aftur til 1993 að ríkið taki eins stóran hluta vergrar landsframleiðslu í sína eyðslu. skjaldarmerki

Hækkun fjárlaga milli ára er um 20% sem er meiri munur en sést hefur frá því fyrir tíma þjóðarsáttar eða í nær tvo áratugi. Látlausar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans sem kosta hvert heimili nú tugi þúsunda á mánuði hverjum í auknum útgjöldum má beint rekja til hátt stemmdra fjárlaga og þess að lausatök eru á allri efnahagsstjórn landsins.

Sama dag og fjárlögin urðu að lögum segir utanríkisráðherra að framlag ríkisins til kjarasamninga verði að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Geir H. Haarde gengur hér skrefinu lengra í óskhyggjunni og lýsir forsætisráðherra því yfir í útvarpsviðtali að stöðugleiki sé nú að komast á og verðbólguhjólið að stöðvast rétt eins og veður í fjármálalífinu ráðist af forspá ráðherra.

Raunveruleikinn og ráðgjöfin

Í umræðu haustsins um hagstjórnina hafa allir greiningaraðilar, hagfræðingar, Seðlabanki og erlend matsfyrirtæki lokið upp einum munni um að gæta þurfi aðhalds í hagstjórninni. Þeir þessara aðila sem hafa á annað borð lagt mat á fjárlagafrumvarpið drógu ekki af sér í að gagnrýna það fyrir of hátt stemmdan útgjaldaboga. Í greiningum frá sjálfu fjármálaráðuneytinu kvað við heldur hjáróma og óvissan tón um þessi atriði og slegið úr og í. Og til réttlætingar eyðslunni var hafður sá fyrirvari að svona þyrfti að bregðast við þar sem stóriðjuframkvæmdum væri nú lokið og sjálfur sagði fjármálaráðherra í ræðu að fjárlögin nú væru há til að mæta yfirvofandi atvinnuleysi! Allir sem fylgjast með vita þó að tímabili stórframkvæmda tengdum orkugeiranum er langt því frá lokið. Þessari pólitíska þversögn er plantað inn í forsendur fjármálaráðuneytisins og málflutning ráðherrans til þess að knýja megi fram þá niðurstöðu að skynsamlegt sé að gefa hressilega í við öll ríkisútgjöld.

Hættan við mjög sterkan ríkisstjórnarmeirihluta er mest í því að hann getur auðveldlega talið sér trú um að svart sé hvítt. Gagnrýnin verður vitaskuld veikari, einkanlega í hinni samfélagslegu umræðu. Þetta höfum við fengið að reyna á liðnum vetri þar sem fjölmiðlar hafa lítið skeytt um þau varnaðarorð í efnahagsmálum sem við Framsóknarmenn höfum haft uppi. Gagnrýni okkar á hagstjórnina kemur helst fyrir almenningssjónir þegar vekja þarf athygli á að stjórnarandstaðan tali ekki einum rómi því auðvitað hafa okkar ágætu sósíalistar í VG ekki áhyggjur af of miklum ríkisútgjöldum. Og ekki Frjálslyndir heldur. En það er reyndar undarlegur misskilningur að stjórnarandstöðuflokkum beri að samræma málflutning sinn. Það eru stjórnarflokkar sem þurfa að gera það og hefur hörmulega tekist.

Skömm Framsóknarmanna!

Sá mæti þingmaður Kristján Þór Júlíusson varaformaður Fjárlaganefndar lauk umræðunni um fjárlögin á þessu ári með því að skamma Framsóknarflokkinn fyrir að vera ekki með í allri þeirri óráðssíu sem núverandi stjórnarflokkar standa að. Hafi þeir skömm fyrir Framsóknarmenn, sagði þingmaðurinn og ég þakka honum fyrir að viðurkenna þó að við framsóknarmenn höfum einir haft kjark til þess á liðnu haustþingi að tala fyrir nauðsynlegu aðhaldi í ríkisfjármálum sem sárlega skortir á í nýsamþykktum fjárlögum. Og við höfum nefnt þar leiðir til sparnaðar sem heita í máli varaformanns fjárlaganefndar að níðast á gamalmennum og hundsa landsbyggðina. Fátt er þó fjær sanni.kristjan_thor

En það er rétt að við gagnrýndum tvöföldun vegafjár frá því sem er á liðnu ári sem þó er metár í vegabótum. Hér er  um að ræða loforð sem engin trygging er fyrir að hægt sé að efna vegna stöðu einstakra mála í skipulags- og umhverfismatsferli. Að stórum hluta sannast þar á hinn nýja ríkisstjórnarmeirihluta að honum er ekki nóg að lofa því fé sem mögulegt er að eyða heldur þarf líka að lofa því sem aldrei verður hægt að koma í lóg.

Engu að síður verka slíkar tölur í fjárlögum á hagkerfi landsmanna til aukins óstöðugleika og það er hvorki höfuðborgarsvæðinu né landsbyggðinni til góða. Þvert á móti hefur landsbyggðinni blætt fyrir ógnarlega þenslu hagkerfis suðvesturhornsins á umliðnum misserum. Brýnasta verkefnið fyrir byggðirnar er að koma þar böndum á.

Það er rétt að undirritaður hefur einnig bent á að hægar hefði mátt fara í því afnámi tekjutenginga sem ríkisstjórnin boðaði nú milli umræðna um fjárlögin. Það var í rauninni dæmafátt að sjá ríkisstjórnina bæta á eldinn þegar allir sem mark er takandi á höfðu þá áður boðað eftir fyrstu framlagningu að fjárlögin væru of hátt stemmd. Óstöðugleikinn mun bitna harðast á bótaþegum sem hvorki hafa gagn af afnámi tekjutenginga maka eða rýmri ákvæðum til að afla sér tekna en þar er sá hópur sem verst stendur. Hann mun verr standa fyrir yfirboð helgrar Jóhönnu nú í velferðarmálum.

Í máli Framsóknarflokksins í sölum þingsins höfum við einnig talað fyrir því að hinum almenna ramma fjárlaga sé haldið en sjá má hækkanir langt umfram verðlag á nær öllum liðum. Þannig eru krónutöluhækkanir í löggæslumálum og iðnaðarmálum álíka og var samfellt allt síðasta kjörtímabil. Hvorugt er þó vegna landsbyggðar eða til hagsbóta fyrir hina verst settu.

Blindingsleikur fjármálaráðherra

Það er langt því frá að vera okkur Framsóknarmönnum létt verk að tala hér máli skynseminnar og léttara væri að taka þátt í því lýðskrumi hinna stjórnarandstöðuflokkana að koma hvevetna með tillögur um aukin útgjöld og yfirboð.

En í skrumi hafa þessir flokkar þó varla tærnar þar sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur sökkt hælum sínum í fen yfirlýsinga um að fjárlögin nú séu þau aðalhaldssömustu sem samþykkt hafa verið. Raunar er yfirlýsingin ekki í neinu samræmi við framsöguræðu ráðherrans við fyrstu umræðu fjárlaga þar sem hann sagði að nú yrði að auka ríkisútgjöld verulega til að mæta yfirvofandi atvinnuleysi.

arni_matt

Rök ráðherrans nú fyrir því að fjárlögin séu aðhaldssöm eru þau að afgangur sé nú meiri en sést hafi fyrr. Um gildi þeirra útreikninga má deila því stór hluti af meintum afgangi þarf að koma af fjármagnstekjuskatti sem mjög getur brugðið til beggja vona með á tímum lágflugs á hlutabréfamarkaði.

Aðalatriði er þó að aðhaldssemi í fjárlögum hefur ekkert með afgang þeirra að gera heldur hlýtur aðhaldsstigið að mælast af heildarútgjöldum sem hafa aldrei fyrr í sögunni hækkað eins mikið milli ára í krónum talið og ekki í prósentum síðan fyrir þjóðarsáttarsamninga. Staðreyndin er að hin hátt stemmdu fjárlög með afgangi nú eru ábyrðgarlausari en mörg hallafjárlög fyrri ára þegar verr hefur árað. Ríkinu er beinlínis skylt að gefa nokkuð á garðann þegar tímabundnar lægðir ganga yfir en nú er ekkert í hendi um að slík lægð sé yfirvofandi þrátt fyrir óvissu á fjármálamörkuðum. Vitaskuld er meiri óvissa í hagkerfinu fram undan en oft áður en fæst bendir þó til atvinnuleysis strax á næsta ári. Vilji ríkisstjórnin þó vera búin undir slíka stöðu er fljótvirkara og ábyrgara að ná nú innan stjórnar samstöðu um mögulegar skattabreytingar - þegar og ef til harðæris kemur.

Það varð vissulega of mikil hækkun á fjárlögum milli áranna 2006 og 2007 og er áratugareynsla fyrir því að erfiðara er að halda aðhaldsstiginu á kosningaári en í venjulegu árferði. Hækkunin á fjárlögum nú er að sönnu heldur minni en stefnir í á ríkisreikningi ársins 2007 en þá er að athuga að reynslan segir okkur að hlaupið milli fjárlaga og ríkisreiknings er verulegt og verður miklu mun hærra núna vegna umdeildra breytinga á stjórnarráðinu. Í ofanálag er svo framundan erfiður vetur kjarasamninga sem ekkert tillit er tekið til við fjárlagagerðina en verður sýnu erfiðari en ella fyrir slaka hagstjórn.

Verðbólgufjárlögin

Sem fyrr segir hafa viðlíka hækkanir á fjárlögum ekki sést í landinu frá því fyrir tíma þjóðarsáttar. Yngstu þingmönnum þjóðarinnar er sumum óljóst hvað það merkir en allir sem fylgst hafa með stjórnmálum undanfarin 30 ár á að vera í fersku minni hvað lausatök af þessu tagi kalla yfir þjóðina.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem í 12 ár sigldu þjóðarskútunni af varkárni með Framsóknarflokki er flestum ljóst, þrátt fyrir gífuryrði um skömm Framsóknar, að hin nýja Viðeyjarskotta leiðir nú yfir þjóðarbúið vaxta- og verðbólgubál sem verður fyrr en varði orðið slökkviliði Seðlabankans erfitt og vísast óviðráðanlegt í stjórnarsamstarfi eins og því sem þjóðin býr nú við.

(Birt í Mbl. 18. desember síðastliðinn)


Ólafur Finnur Böðvarsson (1954-2007)

(Minningargrein - birt í Mbl. 21. desember 2007) 

-Hjá INGUOGÓLA á Kjalarnesinu, segir ungur bláeygur glókollur og ljómar þegar hann segir föður sínum frá ævintýrum áramótanna. Hann er unglingurinn með barnshjartað og hefur fundið staðgengil afa síns og nafna sem hvarf á vit sælli heima um aldur fram. Nú hefur Óli farið þann veg einnig og það er skarð fyrir skildi.

Ólafur Finnur Böðvarsson frá Saurbæ á Kjalarnesi varð bráðkvaddur miðvikudaginn 5. desember síðastliðinn, aðeins 53 ára gamall. Hann var bílstjóri og verktaki, búsettur að Skógarási sem er nýbýli út úr Saurbæ. Sveitadrengur af bændaættum, rollukall og náttúruunnandi. Í senn djúpur í hugsun og bernskur í leik eins og við allir viljum vera. Hann var einn þeirra öfundsverðu drengja sem lét eftir sér að vera kjurr í sveitinni og var gæfumaður.olafur_finnur_bodvarsson

Eftirlifandi kona hans er Inga Magnúsdóttir sem er móðursystir sonar míns, Magnúsar. Magnús átti sér öruggt skjól á Kjalarnesi hvenær sem honum hentaði og var þar oft langdvölum. Þar fann hann þá fyrirmynd sem ólæknandi bílaáhugi hans leitaði í og mætti um flest meiri skilningi og þekkingu heldur en heima fyrir þegar talið barst að formi og fegurð amerískra draumakagga.

Ævintýraveröldin á Kjalarnesinu var dregin upp í skærum litum allt til þessa dags. Hún er enn á sínum stað rétt við gangamunnann, full af sögulegum rennireiðum og traktorum. En sál þeirra er slökknuð og það er hljótt yfir Fordhúsinu.

Íslensk sveitamenning er fleira en bókagrúsk. Hún er ekki síður kjarnyrt tunga, hugsandi menn og mögnuð verkmenning sem þorir að fara sínar eigin leiðir. Í öllu þessu var Ólafur Böðvarsson verðugur fulltrúi. Íslensk menning er ríkari að hafa átt slíkan mann og það erum við líka sem kynntumst þessum stóra manni, hlýju hans og traustri vináttu.

Nöfn þeirra hjóna, Inguogóla, voru yfirleitt höfð í einu orði og þar er mikils misst. Ástvinum öllum, eftirlifandi móður, systkinum og þér kæra Inga sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Bjarni Harðarson


Pennavinurinn minn Árni

Við Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar höfum skrifast lítillega á í Morgunblaðinu undanfarna daga og til þess að öllu sé til skila haldið tel ég rétt að birta hér saman síðustu grein bæjarstjórans og svargrein mína þar aftan við og vona að þar með séu þessi skrif að baki, a.m.k. til jóla. Grein Árna sem heitir, Enn fer hann með rangt mál, er svohljóðandi:arnisigfuss

"ÉG geri kröfu til að sérhver þingmaður leggi sig fram um að fara með rétt mál. Í grein sem Bjarni Harðarson alþingismaður ritar í Morgunblaðið sl. sunnudag fjallar hann enn á rangan og villandi hátt um amk. þrjú mikilvæg atriði er tengjast endurreisn Vallarheiðar.

1. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum tók fyrir erindi forsætisráðuneytisins um skipun sambandsins á einum af þremur fulltrúum í stjórn fyrirhugaðs þróunarfélags. Stjórn sambandsins er skipuð bæjarfulltrúum frá 5 sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þessi stjórn samþykkti einum rómi á fundi sínum 13. október 2006 að skipa Árna Sigfússon bæjarstjóra í Reykjanesbæ sem fulltrúa sveitarfélaganna í stjórn fyrirhugaðs Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Sigurð Val Ásbjarnarson bæjarstjóra í Sandgerði, sem varamann. Það er því alrangt hjá Bjarna að þáverandi formaður Sambandsins hafi skipað hann sérstaklega.

2. Reykjanesbær stóð að hugmyndafræði og stofnun Háskólavalla. Félagið var stofnað í janúar sl. og bærinn greiddi kr. 125 þúsund í stofnframlag. 28. júní sl. gekk Reykjanesbær út úr félaginu. (Sjá fundargerð bæjarráðs 28. júní, 7. mál og Fyrirtækjaskrá sama dag.) Samningar Háskólavalla og Þróunarfélags Keflavikurflugvallar voru undirritaðir 5. október sl. Það er því alrangt hjá Bjarna að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hafi setið báðum megin við borðið þegar unnið var að kaupsamningum vegna nemendaíbúða á svæðinu.

3. Enn er því haldið fram að fjórir bæjarfulltrúar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ hafi átt persónulega hagsmuni í samningum við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

Enn skal ítrekað að þetta er rangt hjá Bjarna. Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi, sem stjórnarformaður Base ehf. (Hótel Keflavík á þar 9% hlut), kom að slíkum samningum við Þróunarfélagið, aðrir ekki.

Þetta leiðréttist hér með.

ÁRNI SIGFÚSSON,

bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Svargrein mín sem birtist í Mbl. í dag undir heitinu Jólakveðja til Árna Sigfússonar er svohljóðandi:

Drottningin í Englandi ku hafa talað um sjálfa sig í fleiritölu og gerir kannski enn. Slíkt er skrýtið en styðst við hefðir. Það er þó enn skrýtnara að bæjarstjóri Reykjanesbæjar skuli tala um sjálfan sig í þriðju persónu með eiginnafni eða þá fornafninu „hann" í greinarstúf sem ber heitið: Enn fer hann með rangt mál! Tilefnið er umfjöllun um eignir sem ríkið átti á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið skipt milli valinna sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.

Við fyrstu sýn gæti grein þessi því litið út fyrir að vera iðran og sjálfsgagnrýni en við nánari lestur kemur í ljós að þriðju persónu fornafnið hann er einnig notað um undirritaðan í grein þessari og ekki grunlaust um að það sé ég sem bæjarstjórinn telur fara með rangt mál.

Í fyrsta lagi vegna þess að Steinþór Jónsson formaður SSS og einn helsti kaupandi eigna á vellinum hafi ekki skipað Árna sérstaklega í stjórn Kadeco ehf. Það er alveg rétt enda segi ég það aldrei, það er þó auðvitað staðleysa hjá bæjarstjóranum að stjórn SSS hafi skipað hann í stjórnina, hún tilnefndi hann en ráðherra skipaði. Ég benti bara á að Steinþór hafi verið oddviti þeirrar stjórnar sem tilnefndi Árna og það staðfestir Árni í grein sinni. Allt annað er útúrsnúningur.

Það er líka útúrsnúningur að einhverju skipti hvort hlutur Reykjanesbæjar í Háskólavöllum hafi verið seldur 28. júní, þegar salan er samþykkt í bæjarráði, eða um haustið þegar ákvörðun bæjarráðs er endanlega staðfest í bæjarstjórn, sem er réttur ákvörðunaraðili málsins.

Síðan segir bæjarstjórinn að ég fari rangt með að fjórir bæjarfulltrúar hafi haft persónulega hagsmuni af sölu eigna ríkisins vegna þess að Steinþór Jónsson hafi einn komið að slíkum samningum við Þróunarfélagið. Annar bæjarfulltrúanna fór reyndar þá leið að kaupa skemmur ríkisins af fyrirtæki Steinþórs, sá þriðji situr í stjórn Sparisjóðsins sem er orðinn stór eignaraðili á svæðinu. Máske öll þessi störf séu unnin í ungmennafélagsanda og persónulegir hagsmunir komi hér hvergi nærri.

En það er von að bæjarstjóra sem talar um sjálfan sig í þriðju persónu yfirsjáist eitt og annað og gleymi því sömuleiðis hvar hann hefur sjálfur verið, hvenær það var hann sem gerði og hvenær bara einhver annar „hann" eða einhver þriðju persónu Árni.

278_Undirritun%201   untitled

Ef bara er horft á heimasíðu Þróunarfélags Keflavíkur koma merkilegir hlutir fram. Þar er mynd af Árna Sigfússyni, sem er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, bæjarstjóri sama sveitarfélags og stjórnarmaður á ýmsum stöðum, þ.á.m. í Kadeco og Keili, að undirrita pappíra. Þann 5. október situr hann sölumannsmegin við undirskriftarborðið við milljarða sölu eigna til Háskólavalla, en er þá vísast búinn að gleyma því að hann sat við sama borð daginn áður eða þann 4. október, en er þá óvart kaupendamegin, sem fulltrúi Keilis. Af því er líka mynd á vef Kadeco.

Ef Árni myndi þetta hefði hann aldrei þrætt opinberlega fyrir það að hafa verið beggja megin borðs en bæjarstjóranum og stjórnarmanninum til afsökunar er rétt að hafa í huga að minnisglöp geta háð okkur öll. Ruglandi í notkun persónufornafna getur ýtt undir slíkt.

Að svo mæltu vil ég óska bæjarstjóranum gleðilegra jóla og ráðlegg kaflann um persónufornöfn í málfræðibók Björns Guðfinnssonar sem jólalesningu. En uppbyggingu á þekkingasetrinu á Keflavíkurflugvelli óska ég velfarnaðar og vona innilega að það skaðist ekki af þeim vinnubrögðum sem illu heilli hafa verið viðhöfð við eignasölu á svæðinu.

Bjarni Harðarson alþingismaður


Af árekstrum hins hörundsára bæjarstjóra

Sjálfstæðismaðurinn Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ hefur ekki bara hæfileika til að sitja í senn beggja megin borðs í samningaviðræðum. Bæjarstjórinn telur sig einnig geta haft tvær andstæðar skoðanir í senn og ef honum þóknast að segja að svart sé hvítt þá skal það svo vera. Þetta kemur glöggt fram í grein bæjarstjórans í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.

111. meðferð á bæjarstjóra

Grein sína byrjar bæjarstjórinn á að rekast í vikugömlum mismælum undirritaðs í ræðustól Alþingis sem ég leiðrétti í sama ræðustól samdægurs. Ef bæjarstjóranum er fró í því að byrja hér eftir allar greinar á að geta um þessa illræmdu meðferð sem ég á að hafa veitt honum þá er honum það meira en velkomið. Mismæli um bæjarstjóra mætti hér eftir skilgreina sem óguðlega 111. meðferð í anda Ólafs Ljósvíkings.

Í niðurlagi kvörtunar sinnar yfir mismælinu skrifar bæjarstjórinn nær viku eftir atburðinn: „Það hefur nú verið leiðrétt," og þýðir af orðanna hljóðan að liðið hafi langur tími áraunar hinnar 111. meðferðar sem bæjarstjórinn varð að þola af minni hálfu. Þetta er óréttmætt þar sem ummælin voru leiðrétt samdægurs en skal fyrirgefið og engrar afsökunar krefst ég vegna þessa. Tel einfaldlega að við sem í stjórnmálum störfum þurfum þykkari skráp heldur en bæjarstjórinn á Reykjanesi virðist hafa.

Sárindin eini skjöldurinn

Verst þykir mér þó að bæjarstjórinn skuli nota meint sárindi vegna mismælis til þess að skauta framhjá allri málefnalegri umfjöllun um þátt sinn í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar þar sem hann hefur verið mjög á ystu brúnum almennra reglna um hæfi og vanhæfi.

Þannig tilnefnir Steinþór Jónsson þáverandi stjórnarformaður SSS (Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum) Árna sem fulltrúa sinnar stjórnar í stjórn Kadeco ehf. og skömmu síðar kemur sami Steinþór sem er þá orðinn stjórnarformaður, einn aðaleigandi og prófkúruhafi hlutafélagsins BASE og kaupir ríkiseignir af Kadeco ehf. fyrir hundruðir milljóna.

Umræddur Steinþór er reyndar einnig í bæjarstjórn Reykjanesbæjar undir forystu Árna og sama má segja um þrjá aðra einstaklinga og samflokksmenn bæjarstjórans sem allir kaupa hluta af þeim ríkiseigum sem Kadecostjórnin hefur til umráða.

278_Undirritun%201    untitled

(Tvær undirskriftarmyndir af vef Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Af sætaskipan má lesa að á annarri situr Árni Sigfússon sem fulltrúi kaupenda sem er háskólafélagið Keilir þar sem hann situr í stjórn. Á hinni myndinni sem fulltrúi seljenda en þar er kaupandi fasteignafélag Keilis, Háskólavellir ehf. Í báðum tilvikum er Kadeco að selja eignir ríkisins. Sjá nánar hér og hér, (tvíklikkið.))

Beggja vegna borðs

Umsvifamest í kaupum er félagið Háskólavellir sem Reykjanesbær stofnar með fleiri aðilum og það félag starfar í nánum hagsmunatengslum við háskólafélagið Keili þar sem bæjarstjórinn er í stjórn. Háskólavellir kaupa eignir af Kadeco með einum 14 milljarða samningi þar sem bæjarstjórinn situr af þremur ástæðum beggja megin borðs.

Í fyrsta lagi vegna þess að hann er í stjórn Keilis sem byggir tilveru sína á samningum Háskólavalla.

Í öðru lagi vegna margháttaðra tengsla bæjarins og stjórnar Keilis við einstaka eigendur Háskólavalla.

Í þriðja lagi vegna eignarhlutdeildar Reykjanesbæjar í Háskólavöllum (allt eins þó hann hafi verið seldur nú löngu eftir að samningum var lokið.)

Eitt af þessu þrennu hefði ef til vill mátt skýra sem óheppni og klaufaskap en þegar um svo margháttaða hagsmunaárekstra er að ræða verður slík skýring í besta falli hjákátleg.

Að þessu sögðu er rétt að geta þess að margt er gott í þeim verkum sem efnt er til á Keflavíkurflugvelli og þar á Árni Sigfússon sinn hlut í því sem þakka ber. Þar er ánægjulegt að sjá herstöð breytast í þekkingasetur. Um það eru menn allra flokka á Suðurnesjum sammála. En hversu gott sem viðfangsefnið er réttlætir það ekki þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð við útdeilingu eigna almennings.

Ná reglur ekki yfir Sjálfstæðismenn

Vera má að reglur um vanhæfi, sannsögli og samkvæmni séu aðeins taldar ná til stjórnmálamanna utan Sjálfstæðisflokks. Þögn margra fjölmiðla um málið gæti bent til þessa en hin sterku tök Sjálfstæðisflokksins á fjölmiðlum landsins koma nú skýrt fram.

Það er því að vonum að liðsmenn sama flokks telji sig geta haft athugasemdalaust tvær eða fleiri andstæðar skoðanir í senn. Þannig átelur Árni Sigfússon nú bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins Eystein Jónsson fyrir að ræða viðsnúning Sjálfstæðismanna gagnvart einkavæðingu Hitaveitunnar og sölu orkuauðlinda á Reykjanesskaga. Fyrir málefnalega umræðu sína er Eysteinn settur á bekk með okkur meintum ósannindamönnum sem ekki eru Sjálfstæðisflokki þóknanlegir.

Það rétta í málinu er að 12. júlí lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ fram bókun þar sem fagnað var 32% eignarhlutdeild Geysis Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja og sagt um þann atburð:

„Samkomulagið tryggir jafnframt fyrstu skref einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi þar sem kraftar einkaframtaksins verða virkjaðir á sviði orkuframleiðslu..."

Ef 32% eignaraðild er fyrsta skrefið í einkavæðingu orkufyrirtækja og auðlindanna er stefnan greinilega ekki að almenningur eigi meirihlutann í sömu eignum. Nú segir Árni Sigfússon aftur á móti að tryggja beri „forgang almennings að auðlindunum sjálfum, ýmist með skýrri löggjöf eða meirihlutaeigu."

Bæjarstjóranum er vitaskuld heimilt að skipta um skoðun í þessu máli og batnandi manni er best að lifa eins og fyrrnefndur bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins bendir á. En batinn er afar ótraustur ef Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ telja sig geta talað tungum tveim þegar kemur að eignarhaldi á orkufyrirtækjum. Slík pólitík er hvorki líkleg til farsældar eða árangurs.

(Að stofni til grein sem birtist í Mbl. sunnudaginn 16. desember. Ljósmyndir fengnar af vef Kadeco ehf.)


Heiðinginn ég og hið kristilega siðgæði

- Er Framsóknarflokkurinn orðinn kristilegi flokkurinn í landinu, sagði flokksbróðir minn við mig í dag nokkuð svo undrandi og hafði eins og ég hlustað á þá þingmenn flokksins Höskuld Þórhallsson og formanninn tala um þá ógnun sem steðjar að kristilegu uppeldi með nýjum reglum menntamálaráðherra. Og hvað finnst þér, bætti þessi kunningi minn við, vitandi að ég er heiðingi, utankirkjumaður og eiginlega eins mikill efasemdarmaður um guðdóminn og vera má. krossfesting_150406

En ég styð ekki þann umburðarlyndisfasisma sem hæstvirtur menntamálaráðherra stendur nú fyrir með því að afnema kristilegt siðferði úr námskrá skólanna. Þetta snýst engan vegin um það hvaða siðferði er öðru betra. Hvort heiðingjar, múslimar eða hindúar hafi hér eitthvað betra fram að færa. Málið snýst um það hvort við erum rótföst menningarþjóð eða eitthvað rótlaus og týnd í alheimsþokunni.

Hvað sem líður afstöðu einstaklinga, minni og annarra til guðdómsins þá erum við Íslendingar kristin þjóð. Vitaskuld grundvallast mínar hugmyndir um siðferði, manngildi og lífið því á sjónarmiðum feðra minna og mæðra langt aftur. Eru þessvegna bæði kristin og vestræn, (- jafnt þó mig gruni að faðir minn sé næsta eins trúlaus og ég.) Við eigum vitaskuld ekki að loka neinum gluggum gagnvart öðrum gildum en heldur ekki að tapa rótfestu okkar.

Prestar eru nú reknir útaf leikskólum, börnum bannað að fara í fermingarfræðslu í Skálholt á skólatíma (og það er skólatími alla virka daga hjá fermingarbörnum.) Slík ofstjórn er gerð í nafni misskilins umburðarlyndis og þó að það sé stórt orð að kalla slíkt fasisma þá er það því miður réttmætt. Kúgunin og heimskan sækir að okkur úr ýmsum áttum og birtist með ýmsu móti. Og vitaskuld er það ekki annað en kúgun þegar hinn stóri meirihluti kristinna manna má ekki viðhalda því hófsama trúboði sem hin ágæta þjóðkirkja hefur iðkað með þjóðinni og í sátt við þjóðina í aldir. Bæði í leikskólum og barnaskólum.

Það er hollt að velta fyrir sér hvað græðist á þessu mistæka umburðarlyndi. Fyrst og síðast það að öfgamenn innan kirkjunnar fá byr undir báða vængi og hvers kyns öfgatrúboð á greiðari leið að þeim stóra hópi sem er misboðið. Sama á raunar við um þær barnalegu hugmyndir að við eigum í anda trúfrelsis að aðskilja ríki og kirkju. Slíkt mun einasta skemmta skrattanum og þeim öfgamönnum sem vilja boða lýðnum elda og brennistein annars heims.  


Reisufólkið börnin mín

Ég er sjálfsagt ekki saklaus af því að hafa gert mín eigin börn að heimsreisurum. Eva dóttir mín er í kompaní við tígrisdýr að tygja sig til heimfarar eftir þriggja mánaða flakk um Indland þar sem hún hefur numið klæðsskeraiðn af innfæddum. Á sama tíma er Egill að undirbúa mikla reisu um austurveg bak jólum með miðið á Indland, Pakistan og Tíbet,- ég er nú að vona að hann hætti við Afganistan úr þessu - en annars stjórna ég víst minnstu um það. Hann var núna um helgina að dunda við að taka til og setja á vefinn hluta af Palestínumyndasafninu sínu frá síðasta vetri þaðan sem þessi mynd er.c_documents_and_settings_notandi_desktop_sunnlenska_palestina_14nov_unnid_14noc_einbeitalma_demo3

Annars telur ekki minna að elsti drengurinn Magnús fór á bílasýningu í Ameríku og átti þar frábæra daga í föruneyti með Óla og Ingu frænku sinni í Saurbæ á Kjalarnesi. Ferð sem verður Magnúsi mjög dýrmæt því rétt eftir heimkomuna, nánar tiltekið á miðvikudag barst okkur feðgum sú harmafregn að Óli hefði kvatt jarðlífið skyndilega, alltof alltof snemma, aðeins liðlega fimmtugur. Óli var hjartasjúklingur og hafði áður fengið slag en hann var einn þeirra sem mest létu sig varða velferð og vellíðan Magnúsar míns og fyrir það verður seint fullþakkað. En það var því dýrmætt fyrir Magnús að hafa fengið að eiga þessa síðustu daga með sínum uppáhaldsfrænda.

Örverpið á heimilinu, Gunnlaugur fær svo að fara í stutta Kanaríferð í janúar með foreldrum sínum, þeim og vonandi honum líka til óblandinnar ánægju. Annars er hann löngu orðinn fullorðinn, vaxinn föður sínum yfir höfuð og með efnilegri ungpoppurum Flóans um þessar mundir...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband