Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Súrrealísk heimkoma og fylgjutrú fornra tíða

Áður og fyrr var brotin mjólkurkanna eða fælinn klár gjarnan því að kenna að fylgja einhvers væri IMG_3344svona skæð. Viðkomandi sótti svona illa að. Brást þá ekki að sá sami kom í hlað rétt síðar. Þessi hugmynd sótti svo að mér nú í kvöld þar sem ég er að tygja mig til Keflavíkurfarar að sækja Asíufarann minn sem hefur nú lagt að baki landleiðina frá Delhí til Beirút og flaug þaðan í gær rétt áður en stórskjálftinn reið yfir hér á Suðurlandi. Þetta skyldi þó ekki vera einhver gamall persakóngur sem fylgir stráknum...

 herbergidmitt En dagurinn og reyndar gærkvöldið lika hafa farið í tiltektir og þó stutt komið! Bæði hér heima og í bókabúðinni er allt á tjá og tundri. Flestar hillur losnuðu frá veggjum þrátt fyrir að vera þar vinklaðar fastar. Sumar skrúfunar þrykktust úr plötunum, aðrar kubbuðust í sundur. Veit ekki nema það hafi verið betra heldur en ef þær hefðu hangið á veggjunum. Það sem þar er of fast getur farið illa með eins og ég fékk að reyna á ofnunum hér á Sólbakka sem köstuðust til en héngu þó við lagnirnar á lyginni einni en höfðu þá áður náð að brjóta sprungur í veggina. Örugglega alvarlegasta tjónið hér á bæ.

Verst var ástandið eiginlega í fornbókabúðinni þar sem bækurnar spýttust út á gólfið, - já og svo í eldhúsinu þar sem glerbrotatínslan hefur verið með ólíkindum. Greinilegt að bylgjan hefur komið með harðara lagi niður á þessum tveimur húsum. Hitti til dæmis sóknarprestinn okkar séra Gunnar á götu í dag og þar heima hjá honum haggaðist ekkert. Guð sér sjálfsagt um sína. eldhusidmitt

Heyri aftur á móti að bókasafn fornvinar míns Páls heitins í Sandvík sé mjög á tjá og tundri. Af myndunum hér að ofan og þessu öllu má draga þann lærdóm að bókamenn eiga helst ekki að búa á skjálftasvæðum...

 IMG_3229 Hefi annars lítið mátt vera að því að fara um og sé ekki alveg að það sé mikið gagn að því að ég heimsæki hér björgunarstöðvar. Slíkar heimsóknir flýta að minnsta ekki fyrir vinnandi fólki!

Mestu munar að engin alvarleg slys urðu og nú er bara að vona að ekki hafi mörg ótryggð heimili orðið fyrir tjóni!IMG_3200

(Efsta myndin er úr fornbókabúðinni, þá er ein úr herberginu mínu hér heima, ein úr eldhúsinu, ein úr stofuganginum og loks ein af ritstjórninni þar sem líka var geymdur mikill bókalager fyrir bókabúðina.)


Stjórnarliðar í hár saman og syndir feðranna!

Það er hlálegt nú þegar til stendur að ljúka þinghaldi skuli það verða hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að bera klæði á vopn stjórnarliða eins og gerðist í gær þegar þeir Helgi Hjörvar og Björn Bjarnason skiptust á skotum um hlerunarmálið. Annar er sonur þess manns sem stóð að hlerununum en faðir hins var hleraður. Báðir hefðu átt að segja sig frá umræðu um málið og láta það í hendur flokksbræðra sem ekki hafa jafn þungbæra aðkomu að málinu.

bjarni_ben_eldriulfurhjo(Myndin hér til hliðar er af þeim sómamönnunum Úlfi Hjörvar sem var hleraður og Bjarna heitnum Benediktssyni sem kom að framkvæmd hlerananna.)

En þess í stað var efnt til ófriðar og illinda innan stjórnarliðsins sem síðan eitraði samstöðu flokkanna á ögurstundu rétt við þinglokin. En aðeins um hlerunarmálin þar sem við Siv töluðum fyrir hönd Framsóknar.

Það eru ljótir kaflar í þessari hlerunarsögu á því er enginn vafi en það er líka ljótur svipur á sögu íslenskra kommúnista sem á árum kalda stríðsins höfðu sumir hverjir mestan áhuga á að koma Íslandi undir erlenda ógnarstjórn. Ég er aftur á móti handviss um að það var í hita leiksins gengið alltof langt og einnig hlerað hjá fólki sem varla Morgunblað kalda stríðsins taldi til kommúnista. Því er enn ósvarað að hve miklu leyti ógnartak hinnar bandarísku heimsvaldastefnu á íslenskum stjórnmálamönnum réði hér ferðinni og sagan mun ekki dæma það fyrr en lengra er frá liðið.

Sumpart vegna þess að kalda stríðið er okkur ennþá mjög nærri og það fór ekkert milli mála í þingsölum að þar töluðu menn sem sumir standa föstum fótum í þeim stígvélum fortíðarinnar. Og munu gera enn um sinn. Það er ekki bara að forgöngumenn hlerananna séu hofmóðugir þegar talað er um afsökunarbeiðni á offari og illa grunduðum símhlerunum. Talsmenn sósíalismans hafa fæstir gert hreint fyrir sínum dyrum og beðist velvirðingar á að hafa stutt í orði og verki ógnarstjórnir sem vörpuðu hrollvekjandi skugga yfir heimsbyggðina alla um langt skeið - sumir þessir hælast enn um af stuðningi sínum við Castró og Kínastjórn.

Mér er aftur á móti mjög til efs að ríkisstjórnin geti stundað afsökunarbeiðnir vegna vondrar stjórnsýslu fyrri daga - það sem stjórnvöld geta gert er að leggja fé í flokkun og frágang þeirra skjala sem varpa ljósi á þessa sögu og um leið farið yfir að hve miklu leyti þarf að endurskoða stjórnsýslu samtímans vegna þessara mála.


Að fatta misskilninginn...

Það var samstaða á Alþingi um það að halda inni í grunnskóla- og leikskólalögum ákvæðum um að kennslan skuli byggja á kristinni menningararfleifð. Það er misskilningur að með þessu sé Alþingi að leggja blessun sýna yfir trúboð í skólum eða ganga gegn trúfrelsi.cross-in-the-chapel-at-cathedral 

Sjálfur er ég trúleysingi og utan allra trúfélaga en barðist samt fyrir því í þinginu að þetta ákvæði héldist inni. Ástæðan er einföld. Með því erum við að leggja lóð á vogarskálar þeirrar hófsemi og umburðarlyndis sem ríkt hefur í trúmálum á Íslandi. Hófsemi sem er dýrmætara en allt því ekkert böl er eins vont og böl trúarofstækisins. Slíkt böl fer nú vaxandi um heim allan, ekki bara í löndum spámannsins í austri heldur ekki síður í guðs eigin landi vestra, Ameríkunni, þar sem þó ríkir lagalega algert hlutleysi í trúmálum.

Það að henda hinni kristnu menningararfleifð og hinu kristna siðgæði út úr skólastarfinu er raunverulega atlaga við þann hófsama og umburðarlynda kristnidóm sem hér hefur ríkt. Á því munu engir græða nema ofsatrúarprestar á borð við vin minn Gunnar í Krossinum.

Þar fyrir utan er okkur mikilvægt að kannast við sjálf okkur, uppruna okkar, sögu og rætur. Það getur enginn skilið vestrænar bókmenntir síðustu 1000 ára nema kunna skil á persónum á borð við Nóa, Lazarus og Golíat kallinum. Meira um þetta í þingræðu hér.

Baráttan gegn kristnidómsfræðslunni er þessvegna misskilin barátta sem mun engum skemmta nema skrattanum og þeim sem mest vilja útmála pínslir helvítis í skelfilegum eldmessum. Það ánægjulega er að þingmenn Vinstri grænna sem margir hverjir eru líkt og ég efasemdarmenn í trúmálum hafa fattað þennan misskilning. Fyrir það tek ég ofan fyrir þeim þó ég skilji vel að róttækir ungir sósíalistar og talsmenn trúleysis vilji sumir annan veg...


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað slítum við stjórnmálasambandi við Rússa...

...og alla hina sem mynduðu ómenningarlegt samsæri um að gefa okkur ekki stig í Eurovision og kannski líka við alla sem voru fyrir ofan okkur í keppninni og förum svo fram á bætur frá þáttarstjórnendunum sem settu kvikmyndavélina á Rússa í eina skiptið sem við fengum 12 stig - bara af því að þessir rússnesku staular voru í fyrsta sæti - já og ef þetta dugar ekki þá hótum við að ganga í Evrópusambandið nema við vinnum næst. Það mun hrífa því ekkert gæti hent Brussel verra en að fá íslenska óþekktaranga upp á sína arma...

Ef ekki væri fyrir góða sprettu, óráð af flensu og sérlega góða viku þá veit ég ekki hvernig ég kæmist yfir þetta og langar helst að segja eins og pistlahöfundurinn góði á Svalbarða,- hvað á þetta að þýða. Það er auðvitað forkastanlegt hvernig stigin í þessari keppni eru reiknuð því eðlilegast er vitaskuld að reikna út hversu mörg stig komu á hvern íbúa og þá erum við vitaskuld þeir sem unnu keppnina. Erum allavega langt langt ofan við Rússa sem eru jú næstum óteljandi og fengu ekki nema milljónasta part úr stigi hver rússi en við erum þó með þúsundasta part af 0,2 stigi á hvert mannsbarn sem er bæði Íslandsmet og heimsmet og margfalt Evrópumet og allt...

Svo er það allt svindlið. Árum saman hafa Austur-Evrópuþjóðirnar haft sigur í þessari keppni með svivirðilegu svindli þar sem enginn kýs aðra en nágranna sína og við hinir hjartahreinu Norðurlandabúar dritað atkvæðum okkar út og suður. Þegar við svo loksins förum nú að standa saman - sýnum í rauninni aðdáunarverða samtryggingu Skandínava þá er það allskonar skillítið og ættlaust fólk í Miðevrópu sem eiginlega á enga sérstaka nágranna slíkt er nú þar kraðakið - svoleiðis fólk eyðileggur allt með einhverju rússadekri og endileysuhætti. Enn og aftur - hvað á þetta að þýða...

En grínlaust - krakkarnir okkar stóðu sig vel og helst var hægt að finna að þættinum að Sigmar vinur minn hefði mátt vera afslappaðri yfir því hvort menn gæfu Íslandi stig - okkar stig voru ekki það eina sem skipti máli. Já og Rússar voru bara vel að sigrinum komnir!


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæðni í stjórnarandstöðunni...

Það er vertíð hjá okkur stjórnarandstöðuþingmönnum næstu dagana, vertíð í nöldri og málþófi. Fyrir þinginu liggja ótal mál sem stjórnin vill koma í gegn og sum þeirra svo afleit að við hljótum að gera allt sem við getum til að tefja framgang þeirra. Mikilvægast í mínum huga er að tefja framgang þess að hingað verði flutt inn hrátt ket en ég tel líka að framhaldsskóla- og háskólafrumvörpin megi bíða.

En það er mikilvægt að fara inn í tímabil eins og þetta fullur jákvæðni gagnvart viðfagnsefninu og ekki síður gagnvart stjórninni. Ég ákvað þessvegna að lista hér upp 10 ástæður fyrir því að vera reglulega ánægður þessa dagana...

- Þrátt fyrir sleifarlag og máttleysi eru samningar Seðlabankans við Skandinavísku Seðlabankans vísir að því sem gera þarf. Mjór er mikill vísir segir einhversstaðar og guð láti hér gott á vita! Ef ekkert meira gerist er það alvarlegt mál en vonandi er það ekki svo.

- Ákvörðunin um að hætta við Bitruvirkjun er fagnaðarefni. Ég hef lengi haft þá skoðun og skrifað um að í raun og veru sé það mikil öfugþróun í umhverfismálum að fara frá vatnsaflsvirkjunum til gufuaflsvirkjana. Sem unnandi Hellisheiði og Hengilsvæðinu hefi ég grátið (bara í huganum, strákar gráta ekki!!) þar margar hveraholurnar gular og fjólubláar sem horfið hafa undir steinsteypuklumpa. Djúpborun mun vonandi gera það mögulegt innan fárra ára að nýta þessa auðlind án teljandi eyðileggingar en virkjun á Ölkelduhálsi væri algerlega ólíðandi...

- Áframhaldandi hvalveiðar eru fagnaðarefni og algerlega ljóst af 5 ára reynslu að þær hafa engin teljandi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu eða markaði. Þurfum bara að auka þessar veiðar umtalsvert og raunar er það siðferðislega baráttumál í heimi þar sem matur er af skornum skammti.

- Og talandi um mat þá er andstaðan við hráa ketið vaxandi og munar þar verulega um innlegg dr. Margrétar Guðnadóttur. Þar fer kona sem full ástæða er til að taka mark á.

- Íslendingar eru að taka við Palestínskum flóttamönnum og greinilegt að það er harla óvinsæll minnihlutahópur sem talar gegn svo góðu og sjálfsögðu framtaki.

- Úps ég er bara komin með 5 atriði en þetta er nú allt nokkuð veigamikið. Hin fimm geta verið að það er vor og styttist í gönguferð um Lónsöræfi þar sem við Gulli Ólafs ætlum að rífast um Evrópusambandið allan tímann enda nennir því varla nokkur annar og svo er Íranfarinn minn að koma heim 30. maí, mótorhjólið að komast í lag og konan mín gerir ekki annað en að taka við pöntunum um tónverk en unglingurinn á heimilinu blómstrar í poppinu.

Jú og það ellefta - það er óvanalega mikið í Vötnunum, þ.e. Fóelluvötnunum ofan við Lögbergsbrekkuna og neðan við Litlu Kaffistofuna. Það ku vita á gott sumar ef það er mikið í Vötnunum rétt eins og það veit á harðan vetur ef það er mikið af fífunni og hver man ekki alla fífuna í haust er leið...


Af hverju var ekki sagt mér!

(Að stofni til sama grein og birtist í Mbl. 14. maí, upphaflega rituð 11. maí en hér endurbætt og aukin 20. mai)

Setningin hér að ofan er unglingamál samtímans,- algengt svar unglingsins sem fullur eftirsjár spyr afhverju hann hafi ekki verið varaður við. Og yfirleitt er svarið það eitt að hann vildi ekki hlusta, varnaðarorðin voru nóg. Við heyrum það sem við viljum heyra.hsagtmer

Forsætisráðherra landsins á það sameiginlegt með mörgum unglingnum að skjöplast í notkun orðtækja þegar hann segir stjórnarandstöðunni nær að veifa öngu tré en röngu! Og hann hefur ítrekað á þessu voru haldið því að fram enginn hafi nú vitað fyrir um þá efnahagskreppu sem ríður yfir heimsbyggðina. Morgunblaðið tekur í sama streng og spyr með þjósti í Staksteinum, af hverju sagði Ragnar Árnason ekki fyrr að stefna Seðlabankans væri röng.

Nú þegar loksins er myndast við að gera brot af því sem við Framsóknarmenn og margir fleiri töluðu um fyrir mánuðum þrumar Geir yfir sínum mönnum að Framsóknarmenn séu gamaldags í sínum ráðleggingum. Af hverju er forsætisráðherra þá að gera nokkurn skapaðan hlut fyrst það er svona gamaldags. Og klifar enn á að enginn hafi getað séð neitt fyrr en seint á lönguföstu.

Varnaðarorðin voru nóg!

Það rétta er að fjölmargir hagfræðingar og stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu vöruðu fyrir tæpu ári við því að mikið efnahagskreppa væri á næsta leyti. Við Framsóknarmenn vöruðum við spreðunarsömum fjárlögum af þessum sökum. Og Ragnar Árnason hafði margoft talað á móti stefnu Seðlabankans um langt árabil og það hafa fleiri gert.

Við Framsóknarmenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur að þjóðarsátt sem stjórnarliðar hafa ekki einu sinni fengist til að ræða í hroka sínum og yfirlæti.

Íbúðalánunum að kenna!

Efnahagsumræðan nú er um mjög margt einkennileg. Þannig hafa fulltrúar stjórnarflokkanna keppst við að halda því fram að ástæða skuldasöfnunarinnar sé fyrst og fremst vegna ríflegra íbúðalána. Staðreyndin er að hin misheppnaða stefna okkar í peningamálum vegur þar miklu þyngra.

Með hávaxtastefnu Seðlabankans hefur raunveruleg verðbólga undanfarinna ára verið niðurgreidd með hækkandi gengi. Þar með látum við útflutningsatvinnuvegum eftir að greiða niður óhófsneyslu og ýtum um leið undir skuldasöfnun. Meðan allir voru þess meðvitaðir að hér var gengi krónunnar óeðlilega hátt ýtti það undir margskonar eyðslu og vaxandi viðskiptahalla. Það eitt er miklu meiri orsök þeirra vandræða sem þjóðin stendur nú frammi fyrir heldur en ákvörðunin um 90% húsnæðislán ein og sér.

Tilfellið er líka að þegar sú ákvörðun var tekin stóðu allir stjórnmálaflokkar saman um það þetta væri rétt skref. Og frá greiningadeildum og hagfræðingum heyrðist tæpast gagnrýni. Það sama er ekki hægt að segja um peningamálastefnu Seðlabankans eða hið algera andvaraleysi núverandi stjórnarflokka gagnvart vandanum. Nú á vormánuðum standa þau Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde ráðþrota gagnvart ástandinu og minna helst á forstokkaða unglinga þá sem segja í forundran:

Af hverju var ekki sagt mér!

 


Yrsa og ánægjuleg flensa

Hélt ég slyppi við vorflensurnar - enda margir hér í kringum mig sem lágu í mars og apríl, sumir lengi. En svo kom hún, mjög skyndilega. Ég var í húsi hér á Selfossi á þriðjudaginn sem var nokkurskonar þriðji í hvítasunnu og fann bara allt í einu hvernig það helltist yfir mig svimi og hausverkur og máttleysi og vesöld og sjálfsvorkunn og gott ef ekki almenn heimska og druslugangur...

Fór því og lagðist í rúmið og fann fljótlega að hausinn réði ekki við að lesa neitt þyngra en reifara á móðurmálinu og horfa á bang-bang myndir. Fór reyndar einn dag á þingið en hef mest lagt alúð í það að gera ekki neitt og hesthúsaði meðal annars bæði Arnaldi og Yrsu. Eins og fyrr er ég hrifinn af báðum en finnst Yrsa jafnvel betri. Hún er mikill snillingur í fléttum og þessi nýjasta bók hennar um lík í Pompei norðursins hélt mér algerlega stjörfum af spenningi.

Er núna að telja mér trú um að mér sé að  batna og vonast til að mæta á morgun - má eiginlega til. Nóg er um að vera núna þessa síðustu daga þings.

Það getur auðvitað verið erfitt að missa niður vinnu en það mikill misskilningur að það sé leiðinlegt að vera með flensu. Það er hægt að fá heilmikið út úr letinni sem því fylgir...


Af hráu keti, Grýlu og englabörnum ESB

Í Evrópusamstarfi er Ísland í sérflokki þegar kemur að hlýðni við regluverk Evrópusambandsins. Meðan ESB og ESA stofnunin gáfu út liðlega 1300 kærur á hendur aðildarlöndum var aðeins einni stefnt að Íslandi en 184 að Frakklandi svo dæmi sé tekið.

Um þetta má lesa í greinagóðri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytis sem út kom á síðasta ári en þar lögðu saman krafta sína fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Niðurstaðan er athyglisverð í ljósi þess hvernig núverandi ríkisstjórn notar evrópureglur sem skálkaskjól fyrir reglugerðarfargan sem hún leggur á margar atvinnugreinar.

Grýla og englabörnin

Frægust af endemum er deilan um hvíldartíma ökumanna. Heldur  minni athygli hlaut vinnutímatilskipun hjúkrunarfræðinga sem vakti þó upp mikla andstöðu í þeirri stétt. Þegar deilan á sjúkrahúsunum var komin í hnút hjó heilbrigðisráðherra svo á allt saman með því að setja evrópureglurnar í pappírstætarann vitandi að vitaskuld megum við óþekktast gagnvart Brusselvaldinu eins og aðrir.

Annað dæmi um fáránleika hinnar miklu löghlýðni Íslendinga eru útskipti Grímseyjarferjunnar. Ástæða þess að leggja varð gamla Sæfara var alls ekki óánægja Grímseyinga með skipið heldur að nokkrir ráðuneytismenn höfðu af samviskusemi sinni fundið út að ferjan myndi innan tiltekins árafjölda hætta að uppfylla skilyrði ESB.

Umtalað var að þá fóru starfsmenn og verktakar ríkisins að leita að skipi erlendis. Á Írlandi spurðu þessir Íslendingar þarlenda hvort ferjur sem falar voru myndu nú uppfylla evrópustaðla. Svörin voru þau að Írarnir sem eru þó í ESB hefðu aldrei leitt hugann að slíku og ætluðu sér ekki að gera. En Íslendingar voru hér eins og englabörn að leita uppi hvað hægt væri að gera til að þóknast reglugerðarverksmiðjunni miklu. Í þessu tilviki kostaði þessi sérstæða "samviskusemi" landsmenn beggja vegna Grímseyjarsunds hundruð milljóna og ómæld leiðindi.

Og þess í millum eru ESB-reglur notaðar sem grýla á launþega eins og í deilu við hjúkrunarfræðinga eða skálkaskjól þegar kemur að eðlilegu viðhaldi á skipalyftu í Vestmannaeyjum.

Fyrir nokkrum árum var innleitt að bændur yrðu vegna Evrópureglna að merkja öll sín lömb með sérstöku Íslandsmerki svo að þau rugluðust ekki saman við búpening Evrópumanna. Síðan stendur ISLAND í öðru hverju lambseyra. Á ferðalagi um Frakkland gat ég ekki betur séð en vinir mínir sem stunda þar sauðfjárbúskap séu lausir undan sambærilegri vitleysu og eru þó meiri líkur á að frönsk kind þvælist yfir til Spánar heldur en að sú íslenska syndi yfir til Íra. Svo mætti áfram telja.

Kannski erum við bara óhæfir í Evrópusamstarfi vegna minnimáttakendar gagnvart útlendu regluverki. Á ástandsárunum voru það heimasætur sem fengu í hnén gagnvart borðalögðum dátum, nú eru það möppudýrin og tæknikratarnir á landinu kalda.

Hrátt ket og heiðarleiki stjórnmálamanna

Og vitaskuld eru það barnalegar viðbárur að Íslendingum sé nauðugur sá kostur að innleiða hinn forkostulega landbúnaðarbálk ESB. Miklu sennilegra er að hluti þeirra stjórnmálamanna sem halda því fram geri það gegn betri vitund. Allt tal um að fisksöluhagsmunum okkar sé ógnað er ósennilegt ef ekki hrein fjarstæða við ríkjandi aðstæður þar sem eftirspurn eftir okkar afurðum er meiri en nokkru sinni.

Ógnin í þessu máli er sú að hér verði fluttir inn áður óþekktir dýra- og mannasjúkdómar því vitaskuld er ófrosið kjöt afar líklegt til sýkinga og um sumt líklegra til að vera sýkt heldur en kjöt á fæti. Um sýkingarþáttinn mætti skrifa aðra grein en bíður betri tíma.

Ef menn vilja galopna á innflutning landbúnaðarafurða einir þjóða og drepa af sér innlenda framleiðslu þá eiga þeir að hafa heiðarleika til að viðurkenna það sem sína skoðun en ekki kenna útlendingum um. En það er von að menn hiki því þetta er frekar skrýtin skoðun nú þegar kreppir að allri matvælaframleiðslu í heiminum og horfir í ofanálag í atvinnuleysi hér heima. Málið snýst ekki bara um hagsmuni bænda því bara á Reykjavíkursvæðinu munu tapast álíka mörg störf og eru í álverinu í Straumsvík. Og það hefur þótt muna um minna.

(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 17. maí)


Talnaleikir ESB - sinna og draumaríkið

Fréttablaðið birti fyrir nokkrum dögum tölur sem sýna að 68% þjóðarinnar vill að þjóðin hefji UNDIRBÚNING aðildarviðræðna ESB. Í raun hefur spurningin aldrei verið sett fram með svo óljósum hætti en alloft hefur þjóðin verið spurð að því hvort beinlínis eigi að hefja aðildarviðræður og 2002 vildi 91% landsmanna hefja slíkar viðræður en í sömu könnun reyndust ekki nema 52% hlynnt aðild.

IMG_1830

Undirbúningur aðildarviðræðna er mest fólginn í að reka niður verðbólgu og vaxtaokur og sjálfur myndi ég fagna því ef stjórnvöld sneru sér að slíkum verkefnum og get því tilheyrt nefndum 68%. En ég vil ekki inn í ESB.

ESB-fylgið miklu minna en 2002

Gott yfirlit yfir kannanir um ESB - aðild er að finna á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Af þeim má lesa að frá árinu 2003 hefur fylgi við það að hefja viðræður sveiflast frá 69% niður í 55% en í sömu könnunum hefur fylgi við aðild sveiflast frá 52% niður í 36%.

Uppsláttur í Fréttablaðinu frá í febrúar um að 55% fylgi við aðildarviðræður sé met eða fullyrðingar nú um að fylgi við ESB aðild sé nú í hámarki stenst ekki skoðun þegar farið er yfir þær kannanir sem gerðar hafa verið fyrir Samtök iðnaðarins.

Vitaskuld getur staðan í þessum málum breyst mjög hratt í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir. En þá aðeins sem tímabundin óánægja með slæma hagstjórn. Það er samt

Það er samt athyglisvert að í þeirri orrahríð ESB - áróðurs sem gengið hefur yfir undanfarnar vikur fer svo að eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur aðild á stefnuskrá sinni stórtapar fylgi.

Patentlausnir hugsjónamanna

Umræðan um ESB einkennist um margt af samskonar draumsýnum og einkenndu enn fylgismenn sósíalismans fyrir hálfri öld síðan. Því er til dæmis haldið fram í sama bláeyga sakleysinu að matarverð og vextir muni lækka um tugi prósenta ef við göngum í ESB. Af því bara.

Því er líka haldið fram að ESB muni styrkja íslenska landsbyggðarmenn og leggja hér hraðbrautir í afdali. Víst er mikið styrkjakerfi í ESB en þeir eru vitaskuld handa hinum fátæku og ef við ætlum að keppa við Tyrki og Slava verðum við fyrst að verða almennilega fátækir. Það eru líka til allskonar sértækir styrkir til skrýtifólks og frumbyggja en ætlum við að fara í að skilgreina Húnvetninga sem sérstakt þjóðarbrot!

Svipuð er sú mýta að efnahagsvandinn hverfi ef við tökum upp evru. Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja sem allir óska sér þess nú að hafa eigin mynt til að geta mætt kreppunni og forðað þannig atvinnumissi og gjaldþrotum.

(Birt í aðeins styttri útgáfu í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Myndin sem hér fylgir kemur efninu aftur á móti ekkert við en hún er af Agli föðurbetrung sem er hér að borða graut hjá ástkærri eldri vinkonu sinni í Teheran en strákurinn er nú kominn til Sýrlands og nú styttist í að hans hálfsársreisa taki enda.)


Af helgarskrumi Ingibjargar

Það vill svo til að fyrir þinginu liggur frumvarp nokkurra Samfylkingarmanna sem undir forystu Valgerðar Bjarnadóttur varaþingmanns hafa lagt til að sérréttindi þingmanna verði afnumin. Engum utan stjórnarliðsins var boðið að vera með en auk Valgerðar flytja þetta þrír óbreyttir Samfylkingarþingmenn og einn annar varaþingmaður. Mál þetta hefur nú sofið í allsherjarnefnd í mánuði og ekki að sjá að Samfylkingunni hafi mislíkað það...

Það vill líka til að síðastliðinn föstudag leysti ég af í allsherjarnefnd og spurði þá sérstaklega um það hvað liði afgreiðslu málsins. Af svörum formanns nefndarinnar var ekki að merkja að það stæði til hjá nefndinni að koma málinu frá fyrir þinglok.

Daginn eftir kemur Ingibjörg í fjölmiðla og talar eins og endurskoðun þessara laga sé nú að ljúka. Er það þá annað frumvarp - var eitthvað svona gallað og ómerkilegt við frumvarp Valgerðar. Sjálfur sé ég ekki annað en frumvarpið sé nokkuð gott og taki á vandamálinu með einföldum og afgerandi hætti án þess að flækja sér í mögulegum refilstigum þess sem ekki er hægt að laga. Það er því í samræmi við flokksályktanir okkar Framsóknarmanna og sjálfur mun ég styðja það. Ef Ingibjörg vill gera þetta eitthvað betur þá verði henni að góðu en sjálfum hefði mér þótt drengilegra að formaður styddi sína eigin liðsmenn og þeirra þingmannafrumvarp. Nú er talað eins og hjá ráðherrum fari fram einhver miklu æðri og merkilegri vinna við lagasmíði. Löggjafarvaldið er jú okkar þingmannanna og þar hefur Ingibjörg Sólrún enga æðri aðkomu heldur en fimmmenningarnir flokksbræður hennar sem fluttu málið í vetur...


mbl.is Höfðu ekki heyrt af fyrirhuguðu eftirlaunafrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband