Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Bara Jón og séra Ingibjörg

Kollega minn, já fyrrverandi kollega, í atvinnurekstri lenti í gjaldþroti fyrir nokkrum árum og hefur ekki verið við rekstur síðan. Þegar allt var komið í hönk viðurkenndi hann sig einfaldlega sigraðan, eftirlét bankanum allt. Þetta var löngu fyrir hrun.

Áður en að þessu kom var auðvitað heilmikið búið að ganga á. Það fer enginn í gjaldþrot nema hafa fyrst glímt við vanskil og skuldabasl árum saman. Sjálfur hefi ég átt mín tímabil vanskila og erfiðleika en aldrei lent í þroti með þau félög sem ég hef ráðið yfir og er þakklátur fyrir þá heppni. En í baslinu hefi ég stundum verið seinn að borga það sem ég veit að maður má helst aldrei skulda og jaðrar við glæp.

En þessi kollega hann varð semsagt gjaldþrota og áður en allt fór til fógeta reyndi hann að krafsa í sem flest og borga sem flestum. Reyndi að ljúka við allar launakröfur verktaka, ljúka við vörsluskatta og ljúka við allar kröfur sem aðrir voru í ábyrgð fyrir með honum. Auðvitað tókst þetta ekkert - enda hefði hann þá ekki farið á hausinn. En hann gerði eins og hann gat í afar erfiðri stöðu. Vaskurinn var allir í skilum og þar hafði hann lengstum dregið mörkin í sínum rekstri. En eins og hjá ótal mörgum okkar var hann á eftir með lífeyrissjóðina og staðgreiðsluna.

Og vitaskuld var maðurinn ákærður fyrir að standa ekki skil á vörsluskatti. Nema hvað. Ég man að við vorum að vorkenna honum nokkrir vinir hans, hneykslast á kerfinu því að þessi maður hafði alls ekki tekið of stóran skerf úr fyrirtækinu undir sinn eigin rass og vissulega gert eins og hann gat. Gekk að lokum slyppur út eftir áralangt streð. Ævistarfið glatað, orðstírinn í viðskiptum sömuleiðis og til að kóróna allt saman,- dæmdur afbrotamaður! Eins og tugir annarra heiðarlegra smáatvinnurekenda.

Hann var í líkri stöðu og sveitungi hans fóðurbílstjórinn sem eftir áratuga langan og farsælan starfsferil rann til í lúmskri hálku snemma hausts. Bíllinn, engin smásmíði, slangraðist utan í fólksbíl og banaslys hlaust af. Maðurinn var sviptur prófinu og dæmdur fyrir manndráp af gáleysi. Hann átti vissulega að átta sig á að það gat verið hálka þó vetur væri varla genginn í garð...

Það varð aldrei málþóf á Alþingi vegna þessara manna, aldrei umræða í blöðum um að það væri ósanngjarnt að ákæra þá, aldrei rætt um að þeir væru orðnir gamlir og kannski lasburða þegar hér var komið sögu og enginn sagði,- lögin eru óréttlát. Sem þau samt voru í þessum tilvikum. En þetta gerðist í veröld siðaðra manna þar sem allir vita að þrátt fyrir sársaukann verða allir að beygja sig undir ok laganna sem geta á köflum verið miskunnarlaus og asnaleg. Þeim verður ekki breytt eftirá. 

Nema vitaskuld í því farsakennda umhverfi sem er handstýrt af flokkum á borð við Samspillingu og Sjálfgræðisflokki...


Aumt

Það er aumt hlutskipti að standa í samningum og niðurfellingu skulda útaf ofurlúxus eins og Ágúst í Bakkavör gerir. Skíðaskálann kaupir Ágúst haustið 2007 þegar verulega er farið að hrikta í íslenska ævintýrinu. En óhemjugangur ríkidæmisins lætur ekki að sér hæða. Auðvitað hefur skíðaskálinn ekki skilað þessum plat-milljarðamæringi minnstu hamingju en því meiri skömm og niðurlægingu. Það þarf engan að undra að Ágúst kallinn vilji ekki tjá sig um málið í blöðum!
mbl.is Ágúst nær sátt í skuldamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úreltir raunhyggjumenn

Eitt af einkennum ESB-sinna er barnaleg hugtakanotkun í stjórnmálum. Lengi var lykilorðið að tala um að dýpka og þroska umræðuna og heyrist enn. Það er talað um hlutleysi og réttar upplýsingar af slíkri upphafningu að enginn kemst þar nærri nema gömlu pósitívistarnir sem trúðu á hinn algilda sannleik í félagsfræði, sagnfræði og mannlegri breytni.

Í hinum húmanísku vísindum voru þessar bernsku raddir raunhyggjumanna endurreisnarinnar kveðnar niður af mönnum eins og Weber og Popper fyrir meira en hundrað árum síðan. 

Nýjasta hugtakið  í þessari barnalegu nálgun á alþjóðastjórnmál er að finna í umræðu íslenskir ESB-sinnar tína nú upp gullkorn úr ræðu Maltverjans Joe Borg sem á að vera marktækur um það hvernig hin íslenska sjávarútvegsþjóð getur samið við ESB.Ekkert að ræða það sérstaklega að Maltverjar reka ekki nútíma sjávarútveg og undanþágur þeirra eru álíka merkilegar og krókaleyfin á Íslandi. Nei, það er aðferðafræðin.

Við þurfum einfaldlega að gæðameta rökin sem færð eru fram. Er ekki rétt að setja á fót sérstaka stofnun eða allavega nefnd sem fer með þetta gæðamat. Samninganefndir Íslands við ESB gætu þá  lagt rök sín inn til gæðamats og síðan fengið þau til notkunar eftir skoðun.

Svona hugmyndir fá engir nema pósitívistar, raunhyggjumenn fortíðarinnar sem halda sig geta höndlað hina réttu skoðun, hina réttu niðurstöðu, hinn rétta sannleika í stjórnmálum. 

Slíkt hugsun er ekki bara barnaleg heldur líka hættuleg lýðræðinu.


mbl.is Segir ESB hlusta á gæði raka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingin hefur andlit

Spilling í stjórnmálum á Íslandi eignaðist óvænt nýtt andlit í vikunni, andlit Jóhönnu Sigurðardóttur.

Forsætisráðherra sem sýknar vinkonu sína úr ræðustól Alþingis og heldur því fram að lög eigi ekki að gilda af því að þau séu asnaleg á lítið eftir af trúverðugleika.

Fyrir mörgum okkar eru þetta vonbrigði. Sjálfur hefi ég alltaf bent á Jóhönnu þegar ég hef verið spurður hvort ég sé ekki hrifinn af neinum krata.


Stormur í vatnsglasi og einlægur brotavilji

Það er ótrúlegur pilsaþytur í umræðunni um Landsdóm þessa dagana og kostulegur. Það er annars karlremba að nota orðið pilsaþytur um hégóma og nær að tala um storm í vatnsglasi. Það hefur lengi tíðkast að refsa mönnum fyrir vanrækslu og gáleysi. Slík lög hafa náð yfir alþýðu manna hvort sem um er að ræða bókara í fyrirtækjum eða mjólkurbílstjóra.

Nú þegar svipuðum reglum er ætlað að ná yfir æðstu leiðtoga þjóðarinnar ætlar allt um koll að keyra og því er í alvöru haldið fram að ekki megi ákæra nema sekt liggi fyrir. Verði hinir ákærðu sýknaðir hljóti ákærendurnir að segja af sér í þingmennsku o.s.frv. o.s.frv. Mikið væri gott að vera glæpon í því landi þar sem ríkissaksóknarar mættu aldrei tapa máli án þess að missa sjálfur höfuðið. 

Mér er ekkert kært að sjá þau Björgvin, Ingibjörgu, Geir og Árna á sakamannabekk. Þetta er allt saman fólk sem mér þykir vænt um og hefi álit á fyrir marga mannkosti þeirra. En ég vorkenni þeim minna heldur en manni sem óvart skriplar til á bíl á svelli og er dæmdur fyrir, eða bókara sem óvart borgar reikninga í rangri röð og lendir úti með vörsluskatta þegar fyrirtæki kemst í þrot.

Þegar litið er á umræðuna frá haustinu 2008 þá liggur mér stundum við að halda að hér hafi verið um ásetningsbrot að ræða. Ég man vel eftir þegar við komum til þings það haust og Ingibjörg Sólrún hafði slegið því fram í fjölmiðlum að í landinu væri engin kreppa. Engin kreppa. Og það var haustið 2008! 

2. september 2008 flutti Ingibjörg ræðu á Alþingi sem við í stjórnarandstöðunni mótmæltum harðlega enda sagði hún þar að það væru í mesta lagi váboðar í samfélaginu, ekkert óveður og engin kreppa, engin eiginfjárvandi banka o.s.frv. 

Það þarf enginn að leggja á sig að lesa níu binda rannsóknarskýrslu og aðra skýrslu um skýrslu til að sjá að viljinn til fela og vanrækja vandamálið á þessum síðustu dögum gamla Íslands var einlægur og mér liggur við að segja ófyrirleitinn. 

Það eina sem ég geri athugasemdir við að er ekki skuli fleiri ákærðir, þ.á.m. núverandi utanríkisráðherra en sakfelling þeirra sem nú eru nefndir hlýtur að kalla á endurskoðun þeirra mála.


Í landi þar sem mútur eru löglegar

Í lögunum er hins vegar hvergi lagt bann við því, að framkvæmdaaðili greiði kostnað vegna vinnu við aðal- eða deiliskipulag.  Samkvæmt 5. tl. 34. gr. greiðist kostnaður við gerð deiliskipulags úr sveitarsjóði, með þeirri undantekningu, sem greinir í 1. mgr. 23. gr. laganna, þar sem landeiganda, eða framkvæmdaraðila, er heimilað að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á því á sinn kostnað.  Felur ákvæðið fyrst og síðast í sér  skýlausan rétt framkvæmdaraðila til að koma með tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því, gegn því að hann greiði þann kostnað...

(Úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Flóahrepps gegn íslenska ríkinu, 17. september 2010)

Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hvort virkja eigi neðri hluta Þjórsár og það er mikilvægt að bæði virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar í þessum sveitum virði hvorir aðra.

En eftir þennan dóm er erfitt að bera mikla virðingu fyrir þeirri lagatúlkun að mútur skuli heimilaðar. Það er vonandi að ráðherra heykist ekki á að áfrýja málinu. Staðfesti Hæstaréttur dóminn verður að virða rétt hreppanna í þessu tilviki en það er þá jafnframt hlutverk Alþingis að skerpa á reglum um óháða og vandaða afgreiðslu stjórnvalda.


Hjalti Bjarnason im memoriam

Hjalti Bjarnason frændi minn lést í síðasta mánuði. Minningagrein sem ég skrifaði um hann birtist í síðasta tölublaði Sunnlenska en hana má líka lesa hér.

Einstakar gersemar í stærstu netbókaverslun landsins

IMG_9714

Sunnlenska bókakaffið rekur netverslun sem lumar á gersemum frá fyrri öldum. Meðal merkra gripa má nefna Eyrbyggjuútgáfu frá 1787 og fjöldi af kvæða- og guðsorðabókum fyrri alda. Sjá nánar hér. Bókakaffið (http://www.bokakaffid.is/) er líka stærsta netbókaverslun landsins í titlum talið, með yfir 10 þúsund titla á skrá, notaða og nýja og verðið hvergi hagstæðara.

(Þetta er nú að verða skelfilega kaupmannslegur texti en svona verður nú innrætið hjá okkur sem teljum aura alla daga. Þið fyrirgefið!)


Bretar vilja út úr ESB

Nýleg skoðanakönnun sýnir að af þeim sem afstöðu taka vilja 58% Breta ganga úr ESB en 42% vera þar áfram. 47% á móti 33% af heildinni. Sjá einnig um málið hér.

 Þetta er mjög merkileg niðurstaða því að í ESB löndum er fátt til sparað að halda fram ágæti aðildar. Stjörnufánar ESB blakta víða og varla er svo ráðist í nokkurt verkefni að það hafi ekki einhvern ESB stimpil á sér, vegna styrkja eða annarrar íhlutunar.

Meðal ESB sinna hér á landi er algeng varnarræða að segja; eru Frakkar og Bretar þá ekki fullvalda þjóðir? Kannski er breskur almenningur að svara þeirri spurningu.


Hefur evran jafnað lífskjör í Evrópu?

Ein af röksemdum ESB-sinna er að með evrunni og Evrópusamrunanum hafi tekist að jafna lífskjör meðal Evrópubúa. Við fyrstu sýn getur þetta litið svo út en bakvið blasir við ólystugri mynd.

Í heildina er viðskiptahalli evruríkjanna ekki nema 60 milljarðar evra sem er lítið miðað við stærð þess. En þegar þess er gætt að ríkin þrjú, Þýskaland, Holland og Austurríki eiga samtals 240 billjónir í viðskiptaafgang blasir við að hin 13 evrulöndin eru með viðskiptahalla sem nemur 300 milljörðum evra og það slagar í viðskiptahalla allra ríkja Bandaríkjanna.

Sænski hagfræðingurinn Stefan de Vylder vék aðeins að þessum málum í fyrirlestri sem hann hélt í Háskóla Íslands nú í haust. Þar kom skýrt fram að í stað þess að auka jöfnuð í álfunni hefur myntbandalagið orðið til að auka ójafnvægi milli ríkja. Því fer vitaskuld fjarri að Evrópa sé eitt hagsvæði með sama hætti og til dæmis Bandaríkin þó vitaskuld geti sú þróun orðið á löngum tíma og er eiginlega óskandi úr því að þegar hefur lagt upp í þessa vegferð. En fram til þessa hefur evrusamstarfið stuðlað að því að styrkja til muna útflutningsatvinnuvegi ríku landanna en veikja hagkerfi þeirra fátækari. Fyrir því eru ekki flókin rök.

Gengi evrunnar fer einfaldlega bil beggja, þ.e. mitt á milli þess sem væri með gjaldmiðil sem bara þjónaði ríku löndunum og þess sem gjaldmiðlar fátækari evrulandanna myndu gera. Þar af leiðandi er evran lægra skráð en vera ætti fyrir t.d. Þýskaland og hærra skráð en hentar t.d. Ítalíu. Gjaldmiðill sem er of lágt skráður ýtir undir útflutningsatvinnuvegi og hamlar innflutningi. Gjaldmiðill sem er of hár drepur heilbrigða framleiðsluatvinnuvegi en ýtir undir skuldasöfnun. Fáir þekkja þetta betur en Íslendingar.

Margt í styrkjaumhverfi ESB hefur í orði miðað að jöfnun lífskjara í álfunni. En í reynd hefur allt það verið sem dropi á móti því sem evran hefur unnið i öfuga átt.

(Birt í Morgunblaðinu 7. september 2010)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband