Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
Forsætisráðherra kveinkar sér
29.2.2008 | 16:07
Innanflokksvandi Sjálfstæðisflokksins kemur okkur sem erum utan þess félags lítið við. En þegar meinsemdir landsstjórnarinnar stafa af sama vandamálinu er nauðsynlegt að sjá samhengið. Forsætisráðherra landsins var í Silfursviðtali um á dögunum og opinberaði þar þá ákvarðanatökufælni sem skaðar nú bæði flokk hans og efnahag landsins.
Þannig er það ekki mjög trúverðugt að lýsa í sama viðtalinu yfir hálfvelgju stuðningi við oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í borgargstjórastól og biðja hann um að fara nú að fara. Reyndar upplýsti forsætisráðherra að hann hefði átt fund með borgarstjóraefninu og greinilegt að margir eru fundirnir þó þeirra sjái endilega stað í aðgerðum. Þannig hélt Geir H. Haarde loksins fund með forsvarsmönnum bankanna í landinu, nú 6 mánuðum eftir að alvarlegra erfiðleika fór að gæta á íslenskum peningamarkaði. Sama dag og fundurinn var haldinn upplýsti svo Davíð Oddsson þjóðina um að það hefði verið hann sem sendi Geir á fundinn með bankastjórunum!
Framsóknarmenn hafa nú allt frá vori reynt að vekja ríkisstjórnina til efnahagsstjórnunar sem er brýnt verkefni. Slag í slag höfum við farið í ræðupúlt Alþingis til umræðu um vandann en jafnan fengið sömu svör að allt sé nú í skoðun, stjórnarflokkarnir séu að velta hlutunum fyrir sér og að allt sé nú í farvegi. Þegar spurt hefur verið um verðbólgumarkmið eða önnur úrræði hafa svörin verið þau að engra tíðinda sé að vænta.
Í umræðu um gjaldmiðilismálin er það yfirlýst stefna að segja ekkert nýtt sem kom skýrast fram á Viðskiptaþingi þar sem forsætisráðherra byrjaði ræðu sína á því að tiltaka að hann hefði nú rætt málið á aðalfundi Seðlabankans fyrir ári síðan og þar sem enginn myndi nú lengur þá ræðu ætlaði hann að endurflytja hana nú. Rétt eins og ekkert hefði gerst í íslensku efnahagslífi í heilt ár.
Nöturlegast er þó hið staðlaða svar forsætisráðherra vegna þenslu í ríkisfjármálum þar sem klifað á þeirri staðleysu að þar sé gætt aðhalds. Rökin eru þau að metafgangur sé á fjárlögum. Reyndin er að fara þarf langt á síðustu öld til að finna álíka óráðsíu í ríkisfjármálum, jafn mikil hækkun milli ára hefur ekki sést síðan fyrir þjóðarsátt og ríkisútgjöld hafa ekki verið jafn stór hluti af landsframleiðslu um mjög langt skeið.
En öll svör forsætisráðherra eru í vörn þess leiðtoga sem ekki tekur af skarið. Finnur fyrir þrýstingi úr mörgum áttum innan síns eigin flokks og frá samstarfsflokknum og kýs að svara því áreiti með þögn og aðgerðaleysi.
Ákvarðanatökufælnin var raunar ljós strax við stjórnarmyndun síðastliðið vor þegar Framsóknarmenn reyndu að knýja fram svör við því hvort Sjálfstæðisflokkurinn vildi efna til viðræðna um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Okkar stefna var skýr,- við töldum í fyrsta lagi að frumkvæðið ætti að vera í höndum forsætisráðherrans en ekki okkar. Í öðru lagi að við gætum ekki vísað möguleikanum frá okkur nema vita hvað væri í spilunum. Eftir nokkurra daga þóf var ljóst að það var bara eitt í spilunum. Meðan formaðurinn streittist við að gera ekkert var varaformaður Sjálfstæðisflokks að mynda kratastjórn með Samfylkingunni.
Miðað við raunverulega atburðarás er það því aumkunarvert að heyra Geir H. Haarde nú kveikna sér í Silfrinu undan gagnrýni Morgunblaðsins og kenna undirrituðum um það að ekki var mynduð almennilega starfhæf ríkisstjórn í landinu. Það er rétt að ég lýsti því yfir í Silfri Egils að ég teldi vinstri stjórn að mörgu leyti betri kost en áframhaldandi stjórnarsamstarf. En ég útilokaði aldrei áframhaldandi samstjórn með Sjálfstæðismönnum. Forsætisráðherra getur ekki kennt mér um þær óvinsældir sem hann og menntamálaráðherra fá nú að kenna á í eigin flokki. Það var fyrst og síðast ákvarðanatökufælni forsætisráðherra sem kallaði yfir þjóðina hina dapurlegu kratastjórn Þorgerðar.
Jón í Úthlíð, Ágústa og sumarið '76
27.2.2008 | 22:22
Horfin er mín matmóðir frá Deðreksári og nú einnig tutor, fyrirmynd og pískari. Þetta er ekki af kala sagt að nota svo gróteskt orðalag nú á útfarardegi heiðursmannsins Jóns H. Sigurðssonar. Þetta er málfar sem ég þarf að nota til að komast inn í þann heim sem ríkti með okkur Tungnamönnunum út með hlíðum sumarið 1976. Eitt mitt sælasta sumar. Mér fannst ég fullorðinn.
Fékk þá aðeins að hleypa heimdraganum þó innansveitar væri og var sumarlangt við störf á stórbúi þeirra bræðra Jóns og Björns, húsaður hjá Birni og Ágústu heitinni en daglega undir verkstjórn Jóns. Í kompaníi með Óla Björns.
Það eru vitaskuld grimm örlög sem taka landsins bestu börn um aldur fram til annars heims. Slík voru örlög Jóns sem kveður nú 64 ára gamall og ekki síður hinnar mætu húsmóður í Úthlíð Ágústu sem lést litlu eldri fyrir fjórum árum. Bæði voru hvunndagshetjur sem auðguðu lífið og gáfu því lit.
Að koma pervisinn 14 ára strákur inn í þetta samfélag var ævintýri,- alls ekki tóm sæla enda held ég að slík heimska hafi aldrei hvarflað að neinum út með Hlíðunum á þeim árum. Það stóð ekki til á þeim árum að geyma okkur í bómull. Björn bóndi átti til að gera tilraunir með okkur hálfsofandi eftir baggahirðingu á gangi yfir túnin í ágústnóttinni. Orgaði fyrirvaralaust í eyra manns svo hjartað í útpískuðum skrokknum skalf og nötraði. "Bara að athuga hvort að þú sért nokkuð hjartveikur, strákur,- og það fór ekkert milli mála að allt var það vel meint.
Ágústa með sinn fjörlega hlátur og móðurlega strangleika sá enda til þess að aldrei væri gengið of nærri viðkvæmum unglingi og var tilbúin til varnar. Eitt orð hennar dugði, - voru lög þegar hún vildi það við hafa. Hún var heilbrigðið uppmálað og átti til að fárast í gamansömum tón yfir að vera farin að bæta á sig en Björn bóndi svaraði af hreinskilni að af heittelskuðu yrði aldrei of mikið, - því meira því betra!
Jón var í senn félagi okkar drengjanna og húsbóndi en alls ekkert alltaf þægilegur. Datt ekki í hug að vera það. Fræddi okkur og stríddi okkur, ól okkur upp og píndi. Það var hugurinn og kappið sem bar hann og við hrifumst með. Oft töfrandi hamagangur þess sem vissi hvert hann vildi. Hann var fráleitt hestamaður og ekki nema í meðallagi gefið að sinna fjósverkum en slíkur afburða fjármaður að leitun var að slíku. Búið var eitt hið stærsta í sveitinni á þessum árum, 500 fjár og 60 hausar í fjósi. Jón þekkti hverja kind með nafni og vissi eigindir þeirra af ætt þeirra.
En það var þetta sambland af æringjahætti og þrotlausri vinnusemi sem verður mér minnistæðast. Hér var iðkuð sagnalist og í dagsins önn talað lotulaust um Tungnamenn í fortíð og nútíð. En samt aldrei slegið slöku við. Mér eru minnistæðar smalamennskur í Sundinu þar sem nú eru tjaldstæði. Hér var í heiðri haldið þeim sunnlenska sið að menn fengu útrás bæði fyrir hlaupanáttúru og skapsmuni sem var tappað kinnroðalaust. Jón var gjarnan á hesti fyrsta hálftímann en stökk svo skyndilega af baki, stundum með slíku þjósti að klárinn gekk hvefsinn í burtu. Vissi sem var að þarna var ofjarl hans því eftir þetta hljóp Jón þindarlaust um mýrina þar til hverri kind var náð. Slíkt lék enginn eftir. Við krakkarnir röltum eftir klárnum sem eigraði svekktur með hnakk og beisli.
Þó liðin séu þrjátíu ár þá finnst mér þetta í minningunni eins og nýskeð. Samt er svo útrúlegur munur á mörgu í lífskjörum þjóðar. Björn bóndi stundaði á þessum árum áburðarakstur á stórum vörubíl en Jón rak búið með okkur unglingunum, Óla, mér, Systu, Dísu og Ínu. Ágústa sá í rauninni um fjósið og gömlu hjónin á bænum létu ekki sitt eftir liggja. Sigurður Jónsson bóndi í Úthlíð var vissulega ellimóður en gekk að verkum og hafði skoðun á því hvernig gera skyldi hlutina. Mest þó skoðun á pólitíkinni og mér verður minnistæður sá dagur þegar heimsbyltingin reið um hlað á þessu skemmtilega íhaldsheimili. Við Óli hittum gamla manninn á hlaðinu forviða yfir ágengni kommúnista í heiminum sem engan og ekki einu sinni hann léti í friði. Síðar um daginn fréttum við að það var einmitt þennan dag sem ungur framsóknarmaður af Vatnsleysukyni keyrði um sveitina og bauð happdrættismiða þess flokks fala.
Það var fallegt í Laugarási," sagði gamla konan Jónína Gísladóttir móðir Jóns fyrsta sinn sem við töluðumst við. Hún var að tala um bernskuheimili okkar beggja en faðir hennar flutti snemma á öldinni sem leið úr Laugarási í Úthlíð. Bætti svo við eins og til skýringar á því að betra væri í Úthlíð: En það voru þar bannsettir hverirnir."
Það var einn bíll á bænum, gamall Saab sem allir ökufærir skiptust á um að nota. Þessutan ljóslaus og allslaus Gipsy jeppi sem notaður var til ferða inn í hraun eftir óþekktar hillum eins og það fé var kallað sem ekki fylgdi settum reglum búskaparins. Einn daginn kom töffarinn Bjarni Gísla á miklum kagga í hlað. Merkastur þótti sá bíll fyrir að í honum voru græjur og ég man að við Óli ræddum það hvort einhverntíma yrðu nú settar græjur í Saabinn en sáum fljótt að það myndi stranda á Jóni. Hann segði vísast að það væri hægt að hafa með sér ferðatæki út í bíl!
Blessuð sé minning Jóns í Úthlíð og blessuð sé minning Ágústu Ólafsdóttur. Vissulega er sveitin okkar og landið allt fátækari á eftir en líka ríkari að hafa átt slíkar persónur. Fyrir það ber að þakka.
Loksins vaknaðir!
26.2.2008 | 19:48
Grein þeirra félaga Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar í miðopnu Morgunblaðsins er fagnaðarefni. Látlaust frá vori höfum við Framsóknarmenn reynt að vekja ríkisstjórnina til aðgerða í efnahagsmálum en forgefins. Grein þessarra tveggja ágætu þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru fyrstu merki þess að stjórnarliðið sé að vakna og það er fagnaðarefni.
Og þó svo að hér hafi stjórnarliðið sofið yfir sig í hálft ár þá er einfaldlega betra seint en aldrei. Það er athyglisverð fullyrðing að fjármálakreppan hér sé síst minna áhyggjuefni en sú sem nú ríður yfir bandarískt samfélag. Það rétt - raunar er hún miklu verri hér hvernig sem horft er á málið. En stjórnarliðarnir láta hjá líða að skýra fyrir almenningi af hverju íslenska ríkisstjórnin hefur til þessa setið aðgerðarlaus meðan bandarísk stjórnvöld hafa beitt sér af alefli mánuðum saman.
En það er auðvitað ekki sanngjarnt að skammast út í þá einu úr stjórnarliðinu sem vaknaðir eru. Það er margt mjög gott og málefnalegt í grein þeirra félaga þó broslegt sé að sjá þráhyggju frjálshyggjunnar um okkar litla íbúðalánasjóð sem orsök og upphaf vandræðanna!
Ræði þessi mál betur í blaðagrein á næstu dögum - en þangað til, velkomnir á fætur strákar!
Framsóknarmenn ekki í vegi fyrir Helguvíkurálveri
22.2.2008 | 18:03
Það er merkilegur tvískinnungur í málflutningi þeirra Sjálfstæðismanna sem hvetja í öðru orðinu til samstöðu um uppbyggingu Helguvíkurálvers og búa sér svo til ímyndaða óvini í öðrum flokkum. Staðreyndir málsins eru þær að Framsóknarflokkurinn hefur ekki lagst gegn uppbyggingu álvers í Helguvík og mun ekki gera. Verkefni Sjálfstæðismanna og einkanlega þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborðið er að ná samstöðu um málið við Samfylkingu og skapa þær aðstæður í þjóðarbúskapnum að fært sé að ráðast í verkefnið.
Í stað þess að sinna því verkefni hefur aðstoðarmaður fjármálaráðherra varið tíma sínum í að gera varnaðarorð undirritaðs, Helgu Sigrúnar Harðardóttur og formanns okkar Guðna Ágústssonar tortryggileg. Slíkur málflutningur er Suðurnesjunum örugglega ekki til framdráttar hvað sem líður hagsmunum Sjálfstæðisflokksins.
Varað við þenslu
Við Framsóknarmenn höfum frá valdatöku ríkisstjórnarinnar varað við þeim lausatökum og bruðli sem er í ríkisfjármálum þar sem ríkisútgjöld hafa vaxið meira milli ára en sést hefur frá því á verðbólguárunum. Sömuleiðis er hlutfall ríkisins af vergri þjóðarframleiðslu orðið meira en verið hefur um langt árabil. Ríkisstjórninni verður vitaskuld ekki kennt um þá alþjóðalegu kreppu sem nú er á hlutabréfamörkuðum. En stjórnleysið hefur gert okkur erfiðara fyrir að mæta hinum efnahagslega óstöðugleika og spennt upp bæði vexti og verðbólgu.
Frumskilyrði þess að hægt sé að ráðast í stóriðjuframkvæmdir í landinu og það jafnvel tvær í senn er styrk og ábyrg efnahagsstjórn. Henni er ekki til að dreifa og má þar vitna til ítrekaðra varnaðarorða Seðlabanka Íslands sem þó telst nú engin Framsóknarstofnun. Í umtöluðu útvarpsviðtali við formann Framsóknarflokksins benti Guðni Ágústsson formaður flokksins á þetta og að höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar væri að ná niður verðbólgunni. Fyrr væri varla ráðlegt að taka skóflustungu að Helguvíkurálveri.
Verkefni stjórnarflokkanna
Reyndar þarf ríkisstjórnin að gera fleira til að af álversuppbyggingu geti orðið og það vita forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem kjósa að nota álversmálið til flokkspólitískra ýfinga á sama tíma og þeir tala um nauðsyn samstöðunnar! Umhverfisráðherra hefur nú á borði sínu að setja nýtt umhverfismat allra mannvirkja sem tengjast Helguvík í gang. Slík ákvörðun getur tafið álversuppbygginguna verulega.
Þá hafa afleikir í málefnum Hitaveitu Suðurnesja orðið til þess að skapa óeiningu meðal sveitarfélaga á svæðinu án þess að hér sé farið djúpt í þann mikla farsa. Stofnun Suðurlinda með skilyrðum um að orka á austanverðum Reykjanesskaga verði ekki flutt vestur fyrir Strandarheiði er ekki líkleg til liðka fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Þar hafa forsvarsmenn Reykjanesbæjar mikið og þarft verk að vinna í að ná mönnum saman að nýju.
Í þriðja lagi þarf ríkisstjórnin að móta stefnu varðandi losunarkvóta sem eru frumforsendur þess að hér sé hægt að nýta áfram okkar umhverfisvænu orkulindir.
Engir af þeim þröskuldum sem hér hafa verið nefndir eru á ábyrgð Framsóknarflokksins en flokkurinn hefur aftur á móti stutt þetta verkefni eins og önnur sem tengjast atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Nægir þar að vísa til ágætrar greinar Eysteins Jónssonar bæjarfulltrúa flokksins á vef Víkurfrétta í síðustu viku.
Samstaða fyrir öllu
Þrátt fyrir orðahnippingar hygg ég að við Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi og aðstoðarráðherra séum sammála um fleira en það sem í sundur skilur. Ég er líkt og hann sannfærður um að línulögn eftir Reykjanesskaga getur ekki orðið raunverulegur þröskuldur framkvæmda þegar til lengdar lætur.
Og ég er líka sammála því að ef hér horfir í alvarlega kreppu á vinnumarkaði getur álversuppbygging í Helguvík verið mikilvægt skref. Ég er aftur á móti ekki svo svartsýnn að vera sannfærður um að sú kreppa sé komin og vara við því að við höldum áfram að hafa atvinnulíf á Suðvesturhorninu yfirspennt með tugþúsunda innflutningi starfsfólks á ári hverju. Það eru vissulega váboðar á íslenskum hlutafjár- og bankamarkaði en við vitum líka af miklum kröftum í samfélaginu og ennþá er ástand þannig að íslenskur vinnumarkaður er langt því frá að vera í jafnvægi. Það þekkjum við sem erum í atvinnurekstri hér á suðvesturhorninu.
Eins og staðan er í dag er mikilvægt að við gefum Norðurálsmönnum vinnufrið til að halda sínu starfi áfram samhliða því að ríkisstjórnarflokkarnir einhenti sér að samstöðu um það hvaða stefnu þeir ætla að taka gagnvart Helguvíkurálveri. Grjótkast í átt að okkur Framsóknarmönnum er ekki bara þarflaust heldur skaðlegt verkefninu.
(Mynd af vef Reykjanesbæjar sem sýnir fyrirhugað álver. Áður birt á www.vf.is)
Vammlausa alþingismenn - nei takk!
21.2.2008 | 13:50
Skýrustu og frægustu dæmin fyrir okkur Íslendingum nú í seinni tíð eru Einar Kristinn Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt. Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku.
Ég hef reyndar sagt þetta sem hér er að ofan ritað áður - í blogginu hér fyrir liðlega ári síðan þegar ráðist var á mig fyrir að hafa ekið eftir flæðarmáli á torfærumótorhjólinu sem er mín besta skemmtan. (Það er reyndar ekkert ólöglegt við að aka í flæðarmáli en einhverjum datt það samt í hug.) En þessi ummæli eiga ekki síður vel við nú þegar ráðist er að vini mínum Birki Jóni Jónssyni alþingismanni með offorsi fyrir það eitt að hafa tekið þátt í pókerspili.
Póker meinlaus skemmtan og góð og það jafnvel þó spilað sé upp á peninga. Ef að þjóðin býr ekki við alvarlegri vandamál eða stærri syndir stjórnmálamanna þá er vel. Það er auðvitað til fólk sem heldur að á Alþingi eigi að sitja 63 vammlausir einstaklingar en ég gæfi ekki fyrir slíka löggjafarsamkomu. Hún væri að minnsta kosti ekki góður spegill þeirrar þjóðar sem hún þjónar og kannski er það mikilvægasta að þingið sé.
Auðvitað er peningaspil ekki allra og spilafíkn er grafalvarlegur sjúkdómur rétt eins og anorexía og alkóhólismi. Sjálfur þekki ég svolítið til þessa málaflokks og ber mikla virðingu fyrir því góða starfi sem unnið er þar til aðstoðar fólki. Ég tel mig líka vita að fæstir þeirra sem sitja við póker- eða briddsborðin á við nokkra fíkn að stríða og örugglega ekki Birkir Jón. Spilafíknin sem er mjög raunaleg kemur helst fram í ástríðunotkun spilakassa og annarri frekar einmanalegri iðju þess sem tapað hefur áttum. Í spilamennsku þingmannsins felst engin óvirðing við þetta vandamál,- ekki frekar en að hófleg víndrykkja með mat á Bessastöðum geti skoðast sem óvirðing við starf SÁÁ.
En auðvitað er Birkir vinur minn breiskur maður og það er ég líka. Kannski óvenjulega breiskur meira að segja því að ég reyki, ég safna spiki, ég skila skattframtalinu alltaf of seint og það kemur fyrir að ég hugsi girndarlega um alls óviðkomandi og þroskaðar konur. Svo er ég í tilbót trúlaus og fer aldrei svo mikið sem í anddyri á leikfimihúsum. Ég man ekki hvað ég get talið fleira en ef það er ætlun hæstvirtra kjósenda að ekki skuli aðrir en vammlausir einir séu á Alþingi þá er ég ekki rétti maðurinn.
Það getur vel verið að þessir vammlausu menn séu til einhversstaðar en það hefur ekki verið sannað. Flestir þeirra sem taldir eru vammlausir reynast undir smásjá lygarar og sumir segja að summa lastanna hjá okkur sé jöfn! En jafnvel þó til væru 63 vammlausir menn í landinu, 100% löghlýðnir og sléttgreiddir þá efast ég um að það séu alveg réttu mennirnir á Alþingi Íslendinga. Aðallega vegna þess að þá verður nú ósköp leiðinlegt þar.
Og guð forði okkur frá því að það lið komist að stjórn landsins sem nú höfuðsitur okkur þingmenn þessar þjóðar fyrir mannlega breiskleika og um leið fyrir það að vera með í flóru mannlífsins. Það eigum við einmitt að vera og aðeins þannig getum við verið fulltrúar þessa sama mannlífs við lagasetningu og stjórn landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Að þora í krónu- og evruumræðu
19.2.2008 | 17:01
Séra Eggert í Vogsósum ku hafa flokkað sóknarbörn sín í tvo flokka, skúma og lóma. Máske er sá sem hér skrifar litlu skárri þar sem ég flokkaði hina tveggja lausna menn í gjaldeyrismálum þjóðarinnar nýlega í strúta og glópa. Má eiginlega til með að biðjast forláts á nafngiftunum en bið menn að horfa meira til hinnar rökrænu umræðu en að týna sér um of í vanþóknun á barnalegri fyndni sem lengi hefur fylgt okkur Flóamönnum.
Þrátt fyrir fullyrðingar forsætisráðherra og nokkurra sem til máls tóku á nýafstöðnu viðskiptaþingi að einhliða upptaka annars gjaldmiðils en krónunnar sé ófær færði enginn sérstök rök fyrir þeirri skoðun sinni. Breski fyrirlesarinn Richard Portes sérfræðingur í alþjóðafjármálum flutti aftur á móti mjög greinagott erindi á ráðstefnunni þar sem fram kom að einhliða upptaka annars gjaldeyris er mun skárri leið heldur en það dauðahald sem stjórnvöld halda nú í með krónu sem er í reynd víkjandi í viðskiptalífi landsmanna og verður héreftir sem hingað til mikil byrði á bæði atvinnulífi og heimilum landsmanna. Portes tók dæmi af þeirri leið að taka hér upp evru en af erindi hans mátti lesa að sömu rök gátu átt við hvaða annan traustan alþjóðlegan gjaldmiðil sem vera vill. Eftir orð Jürgen Stark stjórnarmanns í Evrópska Seðlabankanum er ljóst að einhliða upptaka evru myndi jafngilda hreinum fjandskap við ESB og það hefur enginn sem vill íslenska þjóðarbúinu vel áhuga á slíkri stöðu. Eftir stendur þá möguleikinn á að Íslendingar taki upp einhvern allt annan gjaldmiðil með tvíhliða samningum eða einhliða upptöku. Það er vissulega hægt að rökstyðja að þægilegast væri vegna hagsveiflna og gengismunar að þessi gjaldmiðill væri evra en þau rök eru engu að síður léttvæg. Íslendingar eru í nánu bandalagi við bæði Sviss og Noreg og bæði þessi lönd eru líkt og Ísland með stóran hluta sinna utanríkisviðskipta við evrulönd. Þessvegna yrði gjaldeyrissveifla þessara landa aldrei til alvarlegs baga fyrir Ísland. Í hópi þeirra sem halda því fram að leiðirnar séu bara tvær, innganga í ESB og myntbandalag eða áframhaldandi króna er því gjarnan haldið fram að umræða um svissneskan franka eða aðra gjaldmiðla sé bara sett fram til að drepa málum á dreif. Þetta er rangt.Í fyrri grein rökstuddi undirritaður að innan komandi ára ættu Íslendingar hvorki völ á aðild að myntbandalagi sem tekur 10 15 ár hið minnsta né áframhaldandi einleik krónunnar í íslensku hagkerfi því sá tími er einfaldlega liðinn. Krónan er ekki lengur ein og því tilgangslaust að tala um það sem veruleika.
Sterkustu rökin gegn því að Ísland taki einhliða upp erlendan gjaldmiðil er að þar með hefðu íslenskir viðskiptabankar ekki þá tryggingu sem fólgin er í sterkum seðlabanka myntsláttulandsins. Þennan þátt ber að taka alvarlega en um leið skulu menn gera sér grein fyrir að Íslenskir bankar hafa í reynd tapað þessari tryggingu við núverandi aðstæður. Seðlabanki Íslands er einn minnsti banki landsins og alveg ljóst að ef verulega gefur á getur hann einn og sér ekki bjargað bæði sér og bönkunum í alvarlegri alþjóðlegri krísu.Afleiðing góðærisins, sölu ríkisbankanna og hinni stórkostlegu útrás sem hefur skilað miklu í íslenskt þjóðarbú er að bankarnir eru löngu vaxnir foreldri sínu, ríki og Seðlabanka yfir höfuð. Þeir eru því þegar á ólgusjó hins alþjóðlega hagkerfis og það er strútslegt í meira lagi að tala eins og það sé í góðu lagi. Ólag þeirra hluta myndi samt ekki aukast að neinu marki með einhliða upptöku á erlendum gjaldeyri þar sem ljóst er að það sem helst getur tryggt bankana er sterk staða ríkissjóðs og hún getur áfram verið sterk þó svo að við tökum upp erlendan gjaldmiðil. Getur reyndar styrkst verulega.
Í fyrrnefndu erindi benti Richard Portes á að yfir 30 ríki í heiminum, stór og smá, hafa látið af sjálfstæðri peningastefnu og tekið upp gjaldmiðil annars ríkis. Slíkt hefur gerst víðar en í Evrópu og yfirleitt gefist vel þó að það sé ekki gallalaus leið. Það eru aftur á móti engin dæmi um það í veraldarsögunni að jafn lítil mynt og íslenska krónan hafi verið sett á fljótandi alþjóðlegan markað og ekkert sem bendir til að það sé fær leið til lengdar. Hér hefur einkum verið rætt um einhliða upptöku annarrar myntar en evru en því fer fjarri að leiðirnar séu ekki fleiri. Þar má meðal annars benda á skýrslu Viðskiptaráðs þar sem bent er á tvíhliða upptöku slíkrar myntar með myntbandalagi. Sú leið helgast af því að einhver vilji og sjái hag í því að dansa þann dans með okkur. Það vitum við ekki nema reyna. Enn ein leið er að innleiða hér með skipulegum hætti fjölmyntarsamfélag og vitaskuld gera hin óvanalega miklu rafrænu viðskipti landsmanna þar möguleika sem áður hafa verið nær óþekktir í heiminum.Aðalatriði er að við látum við því kjarkleysi og einangrunarstefnu sem einkennir umræðu sem einskorðuð er við evru og krónu. Þorum að horfa til allra átta í þessari mikilvægu umræðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ógnarjafnvægi gjaldeyrisumræðunnar
17.2.2008 | 18:34
Niðurstaða nokkurra sérfræðinga í pallborði viðskiptaþings um að Ísland ætti sér í raun bara tvær leiðir í gjaldeyrismálum sínum er athyglisverð. Ekki vegna þess að hún væri í nokkru samræmi við þær staðreyndir sem varpað var fram í afar fróðlegum fyrirlestrum þingsins og enn greinabetri skýrslu Viðskiptaráðs. Miklu frekar vegna þess að niðurstaðan var dæmi um það ógnarjafnvægi sem umræðan um stöðu krónunnar hefur ratað í og að báðar þær leiðir" sem sérfræðingarnir ræddu um eru fullkomnlega útópískar og óraunhæfar og er þá tímabært að ég upplýsi hverjar þessar leiðir eru.
Hreiðar Már Sigurðsson bankastjóri hafði hér orð fyrir hópnum og taldi að Ísland ætti sér bara tvær leiðir í þeim vanda sem steðjar nú að hagkerfinu, annarsvegar að halda í krónuna sem lögeyri og gera hana betri og hinsvegar að ganga í ESB og taka upp evru. Af hinni ágætu viðskiptaráðs er samt augljóst sem vitað var fyrir að innganga í ESB mun taka að minnsta kosti 4 ár frá því þjóðin samþykkir aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ef tekið er mið af reynslu Norðmanna og fleiri þjóða er ljóst að frá því þjóðþing samþykkir aðild til þess að þjóð gerir það í allsherjaratkvæðagreiðslu líða að minnsta kosti 5 og jafnvel allt að 15 ár. Dómsmálaráðherra hefur reyndar bent á þá augljósu staðreynd að á þeim tíma muni pólitískir bræður berjast og flokkakerfi riðlast. Við lok þeirrar þrautagöngu getur niðurstaðan reyndar hæglega verið sú sama og hjá Norðmönnum að við Íslendingar yrðum fjær aðild en nokkru sinni líkt og svo ágætlega er komið fyrir þeim frændum okkar nú.
Þegar rætt er um leiðir í hagfræðilegum vandamálum eru atburðir sem kannski geta átt sér stað eftir 10 ár ekki umræðuefni og í raun og veru í fáum fræðigreinum nema þá helst jarðfræði.
Hin leiðin sem bent var á að Íslendingar geti haldið sig við krónuna hér eftir sem hingað til er heldur ekki lausn í skilningi annarra en þeirra sem lausir eru undan jarðlegum skilningi hlutanna. Það er öllum sem hlýða á fréttir að erlendir gjaldmiðlar, einkum evra, lauma sér nú bakdyramegin inn í íslenskt hagkerfi af áður óþekktum skriðþunga. Það er því tómt mál um að tala að krónan verði allsráðandi á komandi tímum þó svo að stjórnvöld geti áfram kosið að hún verði eini viðurkenndi lögeyrir ríkisins. En eins og skýrt kemur fram í skýrslu Viðskiptaráðs um krónuna hefst þá á næstu misserum óformleg evruvæðing sem hagfræðingar eru sammála um að sé versta mögulega niðurstaða í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Samkvæmt skýrslunni er fyrsta stigi evruvæðingar í reynd náð í hagkerfinu og þó svo að ekki sé eins og skýrsluhöfundur nefnir sjálfgefið að hún gangi lengra verður af lestrinum að telja það í meira lagi sennilegt.
Hitt eru miklar ranghugmyndir að leiðirnar séu bara tvær og helgast af sama vandamáli og Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri Askar Capital orðaði svo skemmtilega í pallborðsumræðunum þegar hann ræddi þá tilhneigingu Íslendinga að þegar mál koma til umræðu hvort sem það er kvótakerfi í sjávarútvegi eða staða krónunnar þá verði allir sérfræðingar í málinu. Það er rétt enda hluti af lýðræðinu og það er líka nauðsynlegur hluti af lýðræðinu að þegar kemur að umræðu um stórpólitískum málum verða allir pólitískir, líka hagfræðingar og bankastjórar. Hvorki stjórnmálamenn né sérfræðingar mega nokkurntíma einoka umræðuna.
Ástæðan fyrir því að hagfræðingar tala sig nú sumir hverjir niður á að bara séu til tvær leiðir er það ógnarjafnvægi umræðunnar sem ríkir milli stjórnarflokkanna í landinu. Af þeim tveimur dregur umræðan dám. Í annarri fylkingunni bregðast menn við eins og óttasleginn strúturinn og vonast til að meðan höfuðið er ofan í þeim sandi að segja að krónan sé og sé og sé, þá muni vandamálið hverfa á meðan. Í hinni fylkingunni er glópurinn sem vonast til að meðan strúturinn truflar þá ekki með sitt höfuð í sandinum takist þeim að skapa óformlega evruvæðingu og þar með jarðveg Evrópusambandsaðildar. Báðir eiga þessir armar ríkisstjórnarinnar og þjóðarumræðunnar sameiginlegt að láta óvart hin raunverulegu efnahagslegu vandamál samtímans lönd og leið enda telja þeir sig hafa mikilvægari málum að sinna!
En hvaða aðrar lausnir eru þá til. Ég mun fjalla lítillega um það í næstu grein og styðjast þar við greinagóðar upplýsingar sem fram komu á Viðskiptaþingi.
Ritað á Viðskiptaþingi og birt í Mbl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Aðstoðarráðherra í grjótkasti
16.2.2008 | 12:27
Það er drýldinn maður sem skrifar á vef Víkurfrétta í vikunni um að Framsóknarflokkurinn sé helsti þrándur í götu álvers í Helguvík og vitnar þar í viðtal við formann flokksins í hádegisfréttum síðastliðinn fimmtudag. Og það er rétt að þar sagði formaður flokksins að það væri ekki tímabært við núverandi aðstæður að ráðast í uppbyggingu á umræddu álveri.
En það er rangt að Framsóknarflokkurinn leggist gegn umræddu álveri. Við teljum þetta brýna framkvæmd þegar þær aðstæður hafa skapast í efnahagslífi landsmanna að mögulegt sé að ráðast til framkvæmda. Við teljum okkur skylt að reka ábyrga stefnu í stjórnarandstöðunni og tölum ekki á sama tíma fyrir tveimur nýjum álverum og því að ná verði tökum á verðbólgu og ofurvöxtum. Það er nóg að stjórnarflokkarnir séu ábyrgðarlausir um stjórn efnahagsmála þó svo að stjórnarandstaðan sé ekki öll sama marki brennd.
Hvað vill ríkisstjórnin?
Fréttir af framkvæmdum við umrætt álver koma í sömu viku og ákvörðun Seðlabankans um að lækka ekki stýrivexti og sömu daga heyrum við af því að verðbólgan er enn að sækja sig. Það eru engin sólarmerki um að stjórnarflokkarnir geti náð samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Þeir ná reyndar heldur ekki samstöðu um losunarkvóta fyrir stóriðju sem er alger forsenda þess að hér sé hægt að ráðast í verkefni eins og Helguvíkurálverið og þaðan af síður ná þeir samstöðu um það í hvaða forgangsröð álver skuli rísa í landinu, hvort sé fyrst Bakki eða Húsavík.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala út og suður um forgangsröðun álvera og einnig um það hvort byggja megi nokkurt álver á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur skýra afstöðu í þessu þar sem við leggjum áherslu á Bakka vegna byggðasjónarmiða en útilokum hvorki Helguvík né Þorlákshöfn í framtíðinni. Sú afstaða er ekki tekin til að ganga í augu kjósenda eins og fjármálaráðherra reynir nú að gera með fagurgala heldur til að sýna ábyrgð og festu. Við hringlanda stjórnarflokkanna er líklegast að öll þessi verk tefjist. Ef ekki næst að koma böndum á efnahagslegan óstöðugleika eru aðstæður stórfyrirtækjanna til uppbyggingar hinar verstu og hagur almennings af því að ráðist sé í stórverkefni enginn. Allt eru þetta heimatilbúnar aðstæður sitjandi sundurlyndisstjórnar.
Stjórnleysi hamlar uppbyggingu!
Í ljósi alls þessa er það merkilegt að Böðvar Jónsson sem titlar sig bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ skuli kasta steinum að Framsóknarflokki og forystu hans fyrir ábyrga afstöðu til stóriðjuframkvæmda. Það vill nefnilega til að umræddur bæjarfulltrúi hefur að aðalatvinnu að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra og ber sem slíkur mikla ábyrgð á þeim aðstæðum hagkerfisins sem nú standa í vegi fyrir stóriðjuuppbyggingu.
Vitaskuld geta þeir Böðvar og Árni varið tíma sínum í að taka skóflustungu að nýju álveri en væru verkinu samt þarfari með því að reyna að ná lendingu um það innan eigin stjórnar. Meðan svo línulagnir eru allar í óvissu og orkuöflun sömuleiðis má velta fyrir sér hvaða tilgangi skóflustunga við þessar aðstæður þjónar.
Stjórnarflokkarnir hafa ástundað þann ljóta leik allt frá hausti að tala hér upp atvinnuleysi og réttlæta með því að spenna upp fjárlög og nú síðast að setja í gang margfalda stóriðjuvæðingu. Það rétta er að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum verðbólgu, hárra vaxta og gengislækkunar. Á sama tíma ríður yfir alþjóðleg kreppa á hlutafjármörkuðum og er svo sannarlega komin að bæjardyrum hér heima. Atvinnuleysis er samt fráleitt farið að gæta og ekkert víst að það sé í kortunum. Því er alls ekkert sem bendir til að réttu viðbrögðin við þessum aðstæðum sé stóriðjuinnspýting. Þvert á móti getur slíkt flan aukið á vandann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sóknarfæri Framsóknar
14.2.2008 | 12:04
Þeir sem segja að allt sé í lagi eru fífl.
Það á að segja að allt sé í allra besta lagi.
Einhvernveginn svona hljóðaði lífsspeki prófessors Altúngu í meistaralegu verki Voltaires og vitaskuld teygði höfundurinn heimspeking þennan svo sundur og saman í háði. Samt hefi ég nú tamið mér að hafa prófessor þennan í hávegum og duttu orð hans í hug þegar ég sá nýja skoðanakönnun í morgun þar sem við Framsóknarmenn erum samt lægri en í kosningunum og var það þó nógu slæmt. Við mælumst nú með 8,6% fylgi sem er þó prósenti meira en síðast sem var líka afleit könnun í framhaldi af afleitum atburðum hér syðra...
Ef spurt er hvort þessi niðurstaða nú sé ásættanleg þá er hún það auðvitað ekki og sýnir að við sem erum í slagnum þurfum að gera betur. En það eru ýmis jákvæð teikn í þessum tölum og sóknarfæri. Stóru tíðindin eru þau að Samfylkingin mælist nú stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og þó svo að báðir þessir flokkar séu mér mjög álíka fjarlægir í skoðunum þá get ég ekki annað en glaðst yfir að sjálfgefnum sigri íhaldsins í öllum könnunum sé nú hrundið. Semsagt, til hamingju Ingibjörg!
En samt held ég að kratarnir verði að ganga hægt um gleðinnar dyr því mér er mjög til efs að þeir haldi þessari stöðu þegar verkefnin í efnahagsmálum þjóðarinnar fara raunverulega að knýja á. Þá dugir lítið að tala um fjarlæga evrudrauma og að gaspra skemmtilega pistla á blogginu. En þó þeir tapi tölunni niður er ekki jafn sjálfgefið að íhaldið vinni á.
Það eru líka mikil tíðindi að Vinstri grænir skora nú lægra en í síðustu kosningunum en þar fer flokkur sem eðli síns vegna er með meira fylgi í könnunum en kosningum rétt eins og við erum yfirleitt með hærra í kosningum en könnunum. Þetta þýðir í raun og veru að við stöndum í stað frá kosningum en okkar helsti samkeppnisflokkur í stjórnarandstöðunni er að dala og þarf svosem ekki að koma á óvart. Þegar óvissa er mikil í hagkerfinu verða þeir færri sem halla sér að flokki sem hefur ekki tekist að sýna að hann sé örugglega stjórntækur og ábyrgur valkostur.
Staða Frjálslyndra í þessari könnun gefur þeim flokki líf sem síðasta könnun gerði alls ekki. Það eru vissulega tíðindi en mestu þykir mér varða að tölurnar gefa hófsömum og ábyrgum miðjuflokki sóknarfæri í íslenskum stjórnmálum og þau sóknarfæri ætlum við að nýta okkur,- hver annar!
Orkumálin og sandkassaleikurinn
12.2.2008 | 17:46
Helgi Hjörvar alþingismaður hefur nú þráfaldlega flutt ræðu þá á Alþingi að Framsóknarmenn skuli síst tala um að einhverju sé ábótavant í lagaumhverfi landsmanna svo langan tíma sem þeir sátu á stjórnarstóli. Einkanlega telur þingmaðurinn þetta eiga við um orkumál og mun ólag í þeim efnum sem og allt annað sem miður hefur farið í stjórn landsins vera nefndnum flokki að kenna.
Ekki hefur mér gefist tóm til að svara ræðum þessum í púlti þingsins og enginn annar hirt þar um svo að brátt fer að jaðra við ókurteisi að virða stjórnarþingmann þennan ekki svars. Vil ég því bæta hér nokkuð um og vona um leið að útrætt sé þar um misskilning þennan.
Fyrst er að segja að seint mun verða sú stjórn við völd í landinu sem svo er full af viti og forspá að engin lög þurfi framar að setja eða nokkru að stjórna í framtíðinni. Slíkri fabúlu trúðu sósíalistar hér í gamla daga en einhvernveginn hélt ég að flestir í Samfylkingu væru fyrir margt löngu komnir úr því öngstræti. Lög og stjórnarathafnir sem taka ágætlega á vandamálum samtímans geta verið handónýt við breyttar aðstæður. Þessvegna starfa löggjafarþing.
Þegar kemur að orkumálunum sem þingmanninum er mikið í mun að segja að Framsóknarmenn hafi skilið við með handónýtri löggjöf þá er þar margs að gæta. Eins og glöggt kemur fram í ítarlegri umræðu Morgunblaðsins um jarðhita og fallvötn 3. febrúar sl.þá hefur Alþingi rætt breytingar á lagaumhverfi þessu í hartnær öld. Að þeirri umræðu hafa allir flokkar komið. Viðfangsefnið var þekkt í tíð Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra Alþýðuflokksins sem nú tilheyra flokki Helga Hjörvar, þeir báðir raunar, Jón og Alþýðuflokkurinn sálugi. Viðfangsefnið var líka þekkt í 12 ára samfelldri setu Framsóknarmanna í iðnaðarráðuneytinu. Það eru engin tíðindi og það er engum að kenna að lögum þessum hefur ekki verið breytt. Þegar komið hafa fram tillögur í þá átt þá hafa menn einfaldlega ekki náð samstöðu um málið og undanfarin ár hafa menn talið önnur mál brýnni.
Það sem að þingmaðurinn Helgi Hjörvar áttar sig ekki fyllilega á að það sem var viðunandi og ásættanleg lagaóvissa í fyrra og hitteðfyrra getur verið óþolandi vandamál samtímans eins og staðan í orkumálum er kannski besta dæmið um. Á liðnu sumri urðu miklir loftfimleikar meðal íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga í verslun með hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja. Það voru atburðir sem enginn sá fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar þó svo að forsögu þeirra megi rekja til athafna hennar þegar hlutabréf í HS voru seld einkaaðilum. Ég held meira að segja að núverandi ríkisstjórn hafi ekki fyllilega áttað sig á því sem var að gerast á liðnu sumri. Sumt í því sem lýtur að Reimálinu hefur máske enginn skilið til fullnustu eins og ljóst er af hinni nýju REI skýrslu! En þegar myndin fór að skýrast réðist iðnaðarráðherra í það að vinna að lagasetningu og hann á hól skilið fyrir það. Nú bíðum við í stjórnarandstöðu þess að fá að sjá þá lagasmíð og ég hef talið að það liggi á að ljúka þessu máli á yfirstandandi þingi vegna þeirra miklu gerjunar sem er í þessum geira.
Flestir sem að umræðunni koma hafa skilið að hin brýna ástæðan fyrir því að Össur Skarphéðinsson kýs að leggja strax fram ný lög um orku í iðrum jarðar eru aðstæður sem fyrst komu upp á yfirborðið eftir að núverandi ríkisstjórn settist að völdum. Það er alveg óskylt uppbyggilegum samræðustjórnmálum að blanda fyrri ríkisstjórn í þá umræðu. Þér að kenna, mér að þakka pólitíkin" er hinn eiginlegi sandkassaleikur þeirra stjórnmálamanna sem stöðugt horfa aftur fyrir sig og fáu koma til leiðar.
Þeir sem eru í pólitík eiga svo að horfa fram á veginn. Það gerum við Framsóknarmenn.