Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
Stóra blámannamálinu lokið í sátt og samlyndi
27.10.2010 | 20:14
Stóra blámannamálinu er lokið. Heiðurskonan Björg Eva Erlendsdóttir hefur leiðrétt orð sín og beðist forláts á að hafa farið yfir strikið gagnvart okkur sem störfum í Heimssýn og er maður að meiri fyrir vikið. Orðrétt segir Björg Eva:
Það er mikilvægt að umræðan um hvort vinstri menn geta háð baráttu gegn ESB hönd í hönd með hægri öfgamönnum og kvótakóngum er hafin fyrir alvöru. Þá umræðu verður að taka. Ég biðst gjarnan afsökunar ef ég hef talað of fast og sært einhvern Heimsýnarvinstrimanninn með tali um þjóðernishyggju. En vinstri mennirnir sem stilla sér upp í Heimsýn mættu hugsa til þess að með sinni afstöðu særa þeir líka fjölda fólks, fórnarlömb hægristefnunnar sem ríkti hér. Skuldugur almúginn sem gammarnir stálu frá er langt frá persónulegu fullveldi og sjálfstæði, einmitt í dag. Fullveldi Íslands fyrir kvótakónga getur ekki verið sérstakt keppikefli fólks sem nú er gjaldþrota eftir svik og pretti þeirra sem tóku að sér að passa landið og auðlindir þess.
Fyrir mér var þetta hið undarlegasta mál einkum þar sem ég var krafinn um afsökunarbeiðni á orðum sem ég aldrei sagði. Kannski finnst einhverjum að ég eigi líka að biðjast afsökunar á að nota orðið blámaður í sömu merkingu og aðrir nota enskuslettuna niggari, - það er sem dæmi um orðfæri þeirra sem vilja tala niðrandi um hörundsdökkt fólk. Ef ég á að biðjast afsökunar á því þá verða allir þeir sem smjattað hafa á orðinu nú í vikunni að gera það einnig. Ég hefi þá sannarlega dregið marga með mér í svaðið!
Sjálfum er mér ekkert eins hvimleitt og fólk með þjóðernisofstæki og fordóma gagnvart öðrum kynstofnum. Og auðvitað er það aldrei ætlunin að valda sárindum með kjarnmiklu íslensku tungutaki en ég vara við því að láta tunguna gjalda pólitísks rétttrúnaðar.
Um hitt þurfum við vinstri menn að fjalla um með hverjum við treystum okkur til að vinna og hvernig geta menn með ólíka sýn á heildarmynd þjóðfélagsmála starfað saman. Ein fyrstu mótmæli sem ég mætti til í Reykjavíkinni voru framan við sovéska sendiráðið þar sem við stóðum saman nokkrir vinstri róttæklingar og Heimdellingar og mótmæltum innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Þegar ég las Flugdrekahlauparann áratugum seinna þótti mér vænt um að hafa þó mótmælt þó til lítils væri mín gormælta rödd.
Að vera húmorslaus rasisti...
25.10.2010 | 16:51
Ekki veit ég hvort kvennafrídagurinn fer svona illa í mína gömlu skólasystur en óneitanlega rak mig í rogastans þegar mér var bent á það að Björg Eva Erlendsdóttir eigni mér nú að ég sé rasisti. Ég hefi fram að þessu leyft mér að hafa þá skoðun að við Íslendingar eigum að hleypa sem flestum af erlendu bergi brotnu inn í landið og ekki síður þeim sem hörundsdökkir eru.
En í grein á Smugunni í dag leggur blaðakonan Björg Eva mér í munn orð sem ég aldrei sagði og bætir um betur með því að saka mig um að vera húmorslaus. (Það er nú reyndar alvanalegt þegar við Tungnamenn og Hreppamenn tölum hvor um hinn.)
Einhverjir kveinkuðu sér á VG fundi um helgina undan því að tala á móti ESB af því að Styrmir og Davíð gerðu það. Ég benti á að þeir sem raunverulega væru á móti inngöngu í ESB yrðu að sætta sig við að vera í sama liði og ýmsir sem þeim ekki geðjast að, "þar á meðal væri fólk sem er svo vitlaust að það sér blámenn á hverju götuhorni." Lengra kemst ég ekki í að skilgreina fólk sem mér ekki geðjast að og sagði svo alls ekkert um að þetta fólk tæki þátt í starfi Heimssýnar enda veit ég ekki til þess.
En að þetta geri mig og samtökin Heimssýn að þröngsýnu handbendi rasista er ótrúleg röksemdafærsla og þarf meira en venjulegan hrepparíg til að komast að slíku. Kannski að Björgu Evu og nokkrum öðrum á þessum fundi hafi sárnað eigið kjarkleysi að þora ekki að tala upphátt fyrir ESB aðild.
En allavega, kæra Björg Eva og þið öll, til hamingju með daginn og takk fyrir kvennasönginn sem heyrðist áðan neðan af Arnarhóli.
Athyglisvert framboð
16.10.2010 | 12:53
Sjónarmið Elíasar Blöndal að standa vörð um óbreytta Stjórnarskrá er allrar athygli vert.
Það er allavega ljóst að bankahrunið og öll sú spilling sem þar viðgekkst verður ekki skrifuð á reikning stjórnarskrárinnar. Ef til vill þurfum við bara að skerpa á þeim sjónarmiðum sem koma fram í okkar góðu stjórnarskrá sem gerir einmitt alls ekki ráð fyrir að alþingismenn séu vinnumenn stjórnmálaflokka.
„Stjórnarskráin er góð eins og hún er“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meistari er að koma, meistari er að koma...
16.10.2010 | 10:09
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ekki á stjórnlagaþing...
11.10.2010 | 14:52
Ég er búinn að svara þessari spurningu nokkrum sinnum að undanförnu og rétt að gera það hér á netinu til að spara mér fyrirhöfn. Nei, ég ætla ekki að bjóða mig fram til stjórnlagaþings.
Ekki að ég telji þetta ekki verðugan vettvang. Ég geri mér einmitt talsverðar væntingar um að á þessu þingi takist mönnum að semja þær reglur sem bæði tryggja fullveldið betur en er og draga úr ægivaldi stjórnmálaflokka yfir stjórnmálum og stjórnmálamönnum.
Það eru tvær ástæður fyrir því að ég býð mig ekki fram:
1. Ég tel að fyrrverandi alþingismenn eigi ekki að sitja þetta þing.
2. Ég tel að það eigi síður að velja hér til setu fólk sem er virkt í starfi stjórnmálaflokkanna í landinu.
Ég er opinber stuðningsmaður Halldórs Guðjónssonar stærðfræðings til setu á þingi þessu og styð einnig að þar sitji Froti Sigurjónsson athafnamaður. Ég hefi heyrt um nokkur fleiri framboð en ekki orðið neitt upprifinn. Vonast samt til að bæði Páll Skúlason heimspekingur og Sigmundur Sigurgeirsson ritstjóri bjóði sig fram.
Góður Nóbill
8.10.2010 | 08:52
Mario Vargas Llosa hlaut nóbelsverðlaunin í gær og er afar vel að þeim kominn. Þegar ég þvældist um Perú um árið las ég nokkrar af bókum þessa frábæra höfundar. Seinna hér heima þá einu sem hefur mér vitanlega verið þýdd á íslensku, bókina um Pantaleon og sérþjónustuna. Hún er sínu lökust af þessum Vargas bókum en nú bæta íslenskir útgefendur örugglega hér úr og þýða meira eftir kallinn. Ég mæli sérstaklega með bók hans um Dóminikanska lýðveldið, Feast of the goat minnir mig að hún heiti.
Skondið að á sama tíma og þessi gamli stjórnmálarefur fær nóbilinn þá eru efst í bókabúðum hér krimmar eftir nöfnu hans frönsku skáldkonuna Fred Vargas. Þeir eiga áreiðanlega eftir að njóta góðs af! Ég veit ekki til að þessi tvö séu skyld og allavega er Mario helst til ungur til að vera pabbi þeirrar frönsku. En þriðji rithöfundurinn með þessu nafni er Álvaró Vargas Llosa sonur Nóbilhöfundarins nýbakaða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bylting ráðleysisins
5.10.2010 | 11:52
Ráðleysið er allsstaðar. Jafnt í ríkisstjórninni og á Austurvelli. Mótmælin undanfarna daga eru eins og mótmælin í fyrra mótmæli án markmiða. Ástandið er slæmt hjá fjölda heimila og grafalvarlegur niðurskurður framundan í ríkisfjármálum. Það væri mikið geðleysi ef fólk léti ekki í sér heyra en það dettur samt engum heilvita manni í hug að hægt sé að leysa vandann þannig að allir geti farið brosandi heim.
Bankaeinkavinavæðingin einfaldlega klessukeyrði efnahag heillar þjóðar og það mun taka tíma að rísa upp eftir það. Mikilvægast nú er að ríkisstjórnin setji til hliðar dýr dekurverkefni og einbeiti sér að vandanum. Það á að setja til hliðar vitleysur eins og tilflutning málefna fatlaðra, stækkun sveitarfélaga og vitaskuld skrípa-umsókn Össurar að ESB. Leyfa svo bönkunum að fara á hausinn í friði, þeir eru of margir og aflétta sem fyrst gjaldeyrishöftum. (Þetta er nú víst orðið nóg í einu bloggi!!!)
Ekkert boð komið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |