Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Besti restauranturinn

Besti veitingastaður landsins er á BSÍ. Ástæðan er einföld. Þar fást svið. Yfirleitt heit reyndar en sjálfur er ég meira fyrir að hafa þau köld. Get þó alveg sætt mig við hvort heldur er.

untitled

Í dag voru sviðin þar hvorki heit né köld heldur þar mitt á milli sem er bara ágætt. Eini gallinn við nútíma svið er að þau eru eyrnastífð eins og var áður og fyrr aðeins hjá sauðaþjófum.

Vita ekki allir að eyrun eru best.

Var að koma úr stúdíómyndatöku í Reykjavík og held einna helst að ég hafi ekki farið í þessháttar myndatöku síðan ég var fermdur lítill og pattarlegur.

Við Helga Sigrún vorum þarna bæði í myndatöku og hún afsannaði alveg grundvallarkenningu framtíðarlandsins um að þingmenn yrðu að vera annaðhvort gráir eða grænir með fötum sem voru í senn græn og grá allt eftir því hvernig birtan skein á.

Reyndar afsannaði Andri Snær líka kenningar eigin fræða í fyrirlestri sem hann hélt í dag. Hann gerði það auðvitað óvart en gerði það samt. Ég skrifa meira um það síðar.


þegar vinnan er böl...

vinnan er böl hinna drekkandi stétta orti flosi ólafsson einhverntíma og á raunar líka við um frambjóðendur. þeir þurfa á öllum sínum tíma til að rónast í pólitíkinni og það hefur verið mér beinlínis erfitt að þurfa nú í nokkra að daga að stinga hausnum ofaní sunnlenska. þar var semsagt mikið mannahallæri og stór blað í þessari viku sem ég varð að gefa allan minn tíma og vel það. þessvegna hef ég ekki tekið neinn þátt í umræðunni í nokkra daga og biðst forláts á því. þótti hálfpartinn vænt um að fastir lesendur að bloggsíðunni minni eru farnir að skrifa mér og kvarta. en semsagt nú verður bragarbót á. ég er kominn í fullkomið frí frá blaðinu fram yfir kosningar og vonandi bókabúðinni líka...
meira síðar

Stórviðri á stórri stund

(Þetta blogg bloggaði ég á laugardagskvöldið en fyrir slysni fór það ekki inn á opna síðu heldur einhversstaðar baksviðs....)

Arabíski sagnaritarinn Ibn Fablan skrifar um dauðakúltur forfeðra vorra í merkri frásögn frá miðöldum, löngu áður en við vorum læsir. Þar kemur fram að við dauða víkings er eigum hans skipt í þrennt. Þriðjung fær hann að hafa með sér til sælli heima. Þriðjung fer til veislufanga fyrir erfi höfðingjans. Þriðjung fær eftirlifandi fjölskylda. Síðan kemur lýsing sem tekur mið af þeim tíðaranda sem þá var um samkomur og skemmtanir og kemur þessu máli ekki við. Grótesk lýsing sem á ekki við á þessm degi.

En mér varð samt hugsað til þess arna í Skálholtskirkju í dag þar sem til moldar var borinn höfðinginn Sveinn Skúlason í Bræðatungu, góður vinur minn og föðurbróðir konu minnar. Kannski hefur minna breyst en ætla mætti. Tungnamenn mættu þar velflestir og nokkur hundruð annarra vina, ættingja og samferðarmanna þessa áttræða sveitarhöfðingja. 600 þegar allt er talið sagði mér einhver.

Fyrir framan mig í kirkjunni sat tengdamóðir mín sem er þýskættuð og af þeim tengslum hefi ég kynnst því að þessi mikla virðing sem við Íslendingar berum til jarðarfara er að verða séríslensk í okkar heimshluta. Líklega óþekkt meðal annarra germana í dag en er samt til í uppruna okkar allra. Nútímalegri viðhorf meðal Evrópuþjóða og velflestra hinna vestrænu manna hafa hrakið þessa siði burt sem hverja aðra vitleysu. Látum þá dauðu grafa hina dauðu segir í helgri bók og kannski er þetta allt saman ókristileg forneskja. Dauðanum eigum við hvergi að standa frammi fyrir. Hann er að verða okkur hulinn nema sem endileysa á sjónvarpsskjá. Ég er ekki viss um það sé til bóta.

Íslenskar jarðarfarir með öllu sem þeim tilheyrir eru nefnilega afskaplega sálbætandi samkomur og gera okkur auðveldara að vinna úr eftirsjánni sem er eftir gengnum samferðamanni. Þær eru líka ein þau tærustu og bestu mannamót sem um getur. Laus við þann misskilning að allt þurfi að vera skemmtilegt eða fyndið til að vera gott. Þær eru stund íhugunar og líklegast fer mest af trúarlegu innra lífi landsmanna einmitt fram í þessum samkomum. Því hvergi er dauðinn okkur eins nálægur eins og einmitt í jarðarförinni og þar hljótum við öll að íhuga innstu rök tilverunnar. Meira að segja við sem segjum okkur á rúmhelgum dögum trúlausa. Og erum það en vitum samt af þeirri smæð okkar að vita samt ekkert. Ekki frekari en hinir trúuðu.

Jarðarför Sveins Skúlasonar var tilkomumikil samkoma og hæfði þeim stóra manni sem þar fór. Séra Egill Hallgrímsson jarðsöng og hélt góða og langa minningarræðu. Helst að ég saknaði þess að hann minntist ekki á að Sveinn er heitinn eftir dönskum ritstjóra og vini foreldra hans. Nokkuð sem varpar ljósi á að hér fór maður sem átti í bernsku til forystumanna samfélagsins að telja sem stóðu í nánu sambandi við framfaramenn á erlendri grund. Og líkt og í lífi Sveins var allt stórt í þessari samkomu, fjölmennið og veðrið. Þegar komið var í Bræðatungu var illa stætt í garðinum og köld rigning lamdi okkur utan. Kransablóm fuku inn eftir Tungunni sem bærinn stendur á og kirkjan gnötraði í verstu hryðjunum. Máttarvöldin tóku þannig virkan þátt í kveðjuathöfninni og gerðu hana eftirminnilega.

Fegurst í samkomunni þótti mér samt að horfa á andlitin. Andlit sveitunga og vina en einkanlega Bræðatunguandlitin sem sonur minn segir að séu þau sveitalegustu andlit sem um getur og ég held að það sé rétt hjá honum. Svipur Sveins í Bræðatungu er sterkur í mörgum afkomenda hans og ég trúi að það fylgi þessum andlitum gæfa. Sjálfur er ég að nokkru undir þeirri sömu gæfusól því kona mín hefur svipmót af þessum frænda sínum, meira að mér finnst en nokkur önnur af börnum tengdaforeldra minna. Mig grundar að þetta sé einkanlega svipur frá Soffíu húsfreyju á Kiðjabergi sem var dóttir hins mikla þjóðsagnaritara Skúla Gíslasonar.

En einhverjir kunna að hafa á orði að pistill þessi sé skrýtinn og annar að ég sé farinn að skrifa minningagrein inni á bloggsíðu sem er kannski ekki viðeigandi. En hvenær hefi ég kunnað það, hvað er viðeigandi...


Vofa kommúnismans!

Kommúnistaávarpið hefst á meistaralegri orðræðu Karls Marx um vofu kommúnismans sem gangi nú ljósum logum í Evrópu. Síðan eru liðin 160 ár og draugur þessi lætur lítt á sjá. Við talsmenn Draugasetursins á Stokkseyri höfum margoft boðið draug þessum að setjast að í kyrrð á setri voru en forgefins.

Vofa þessi leikur stórt hlutverk í stjórnmálaumræðu á Íslandi eins og allsstaðar í Evrópu og það hættulegasta við hana er að sumir halda hana dauða eftir að kalda stríðinu lauk. Allsstaðar þar sem misvitrir alþýðuleiðtogar ala á sundrungu, hræðslu við framtíðina og óljósu réttlætishjali. Allsstaðar þar sem alið er á óttanum við hið skipulagslausa og villta hagkerfi kapítalismans. Allsstaðar þar er vofa kommúnismans á ferð. Draugi þessi fylgir myrkur, fáfræði, kúgun og eymd.lenin

 

Kommavofan í ES

Við hittum vofu þessa fyrir í Evrópuumræðunni og endurvakta í skrifræðisskrímslinu í Brussel þar sem því er trúað líkt og í Kreml að hægt sé að stjórna öllu stóru sem smáu með blýanti. Meistarinn úr Suðursveit, Þórbergur Þórðarson orðaði þetta einhverntíma svo að sá munur væri á kapítalismanum og sósíalismanum aðíá síðarnefnda kerfinu væri stjórn samfélagsins vísindaleg. Það þarf ekki að taka það fram fyrir lesendum að Þórbergur var í senn einn mesti andans snillingur þjóðarinnar á 20. öld og mestur rati í pólitík. Og gallharður sósíalisti.

En einmitt þeir sem trúa á vísindin í þjóðfélagsstjórnun verða alltaf andstæðingar frelsisins. Og fyrir utan hin járngráu lönd kommúnismans er helsið eiginlega hvergi meira og verra en í Evrópusambandsríkjunum.

 

Ófrelsishugsun Framtíðarlandsins

En þessi helsishugsun, trúin á ófrelsið og hin þjóðfélagslegu vísindi birtist víðar. Kemur í raun og veru glögglega fram í hræðsluáróðri Framtíðarlandsins þar sem hamrað á að við verðum að stöðva allar framkvæmdir í landinu þar til við höfum með vísundunum einum að vopni komist að því hvar megi velta steini og hvar ekki. Það megi alls ekki leyfa stjórnmálamönnum að ákveða neitt í þeim efnum, valdið eiga að vera hjá embættisráðnum vísindamönnum sem eru óskeikulir.

Nú er það auðvitað svo að vísindamenn geta ekkert betur en fiskvinnslukonur að bændur tekið pólitískar ákvarðanir. Og það verður aldrei neitt annað en pólitísk ákvörðun hvar við eigum að heimila framkvæmdir og hvar við eigum að friða. Það eru ákvarðanir sem eru hvergi betur komnar en hjá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum þessa lands. Allt hjal um að færa völd stjórnmálamanna yfir til andlitslausra vísindalegra embættismanna er angi af draugagangi. Draugagangi kommúnismans.

 

Þjóðnýtingaráform í sjávarútvegi

Þriðja dæmið um þennan draugagang sem mig langar til að víkja að hér eru þjóðareignarhugmyndir. Nýlega lögðum við Framsóknarmenn til að í Stjórnarskrá landsins væri sett ákvæði um að fiskimiðin væru þjóðareign. Ákvæði sem væri ekkert annað en staðfesting á því sem er og skerpir um leið á þeirri stöðu sem er í kvótakerfinu sem er kerfi þar sem ákveðinn hópur manna hefur takmarkaðan og tímabundinn veiðirétt. Réttsýnir menn hafa lengi talið brýnt að skerpa á þessari réttarstöðu og brjóta á mögulegum hefðarrétti útgerðar.

Skuspilið sem vinur minn Össur Skarphéðinsson setti í gang af þessu tilefni sannfærði mig um þrennt. Fyrst að það er ekkert nýtt undir sólinni. Í öðru lagi að Össur hefur engu gleymt síðan hann var blóðrauður bolsi á Þjóðviljanum. Í þriðja lagi að bolsum er nú sem fyrr mest um vert að efna til ófriðar. Þjóðarhagur,- hvað kemur þeim hann við!

En kommarnir í landinu komu allt í einu grímulausir fram og töluðu eins og það væri réttlætismál að þjóðnýta sjávarútveginn. Glömruðu á fölskum kommaloforðum um réttlæti sameignarkerfisins svo að jafnvel krimti af gleði í löngu stirfnuðum múmíum þeirra Leníns gamla og Stalíns.

 

Höfundur skipar annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og er sérfræðingur í draugagangi. Birt í Blaðinu í Reykjavík í dag, 24. mars 2006

 


Björn Bjarndal og ég...

Björn Bjarndal Jónsson hefur sagt sig úr nokkrum nefndum og ráðum á vegum Framsóknarflokksins að eigin sögn af persónulegum ástæðum. Í dag lenti ég á tali við mann sem hélt að hann hefði gert þetta af því að enginn studdi hann í prófkjörinu. Ég held því miður að þetta sé næsta almenn skoðun en hún byggir á mjög alvarlegum rangfærslum.img_2286_std

Björn Bjarndal náði vitaskuld ekki því sæti sem hann sóttist eftir. En hann fékk mjög mikinn stuðning og var sá sem fékk NÆSTFLEST ATKVÆÐI Í ANNAÐ SÆTI. Ég var sá eini sem fékk fleiri atkvæði en hann í þetta tiltekna sæti. Og Björn var líka í hópi þeirra sex efstu þegar litið er á heildaratkvæðafjölda. Hann var með yfir 1800 atkvæði. Atkvæðadreifingin réði því aftur á móti að þessi 1825 atkvæði sem hann fékk nýttust illa. Þannig eru prófkjör.

Björn er mikill vinur minn, var það fyrir prófkjör, var það meðan á baráttunni stóð og er það nú enda var hann fyrstur manna til að óska mér til hamingju með sigur minn. Það fer því ósegjanlega í taugarnar á mér þegar fólk sem ekki þekkir til leyfir sér að steypa stömpum og tala drýgindalega um það að Björn hafi ekki átt neitt fylgi. Ég stenst það ekki lengur að svara þessu. Það er eftirsjá að Birni úr þeim störfum sem hann hefur ákveðið að segja sig frá en ekkert við því að segja. Hann er áfram ötull félagsmálamaður sem formaður UMFÍ og ég veit að þar stendur hann sig öðrum betur. 

Myndin hér að ofan er af okkur sveitungunum á Kjördæmisþingi Framsóknar í haust er leið.


Er Framtíðarlandið bananalýðveldi

Framtíðarlandið er með undarlegustu fyrirbrigðum í íslenskum stjórnmálum og ganga um margt lengra en Vinstri grænir í því að eyðileggja málstað okkar umhverfissinna í þessu landi. Bæði eru öfgarnir slíkar og þá ekki síður vinnubrögðin. Sorglegt að sjá fólk eins og frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta setja nafn sitt hér við.IMG_2255

Sáttmálinn sem samtök þessi leggja fram er í þremur liðum og alls ekki slæmur.

1. Við höfum kjark til að byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag á Íslandi þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fær að njóta sín þeim sjálfum og öðrum til heilla.

2. Við sýnum komandi kynslóðum virðingu með því að láta lögfesta áætlanir um náttúruvernd áður en nokkuð frekar er aðhafst í orkuvinnslu.

3. Við öxlum ábyrgð á tímum viðsjárverðra loftslagsbreytinga í heiminum með því að fylgja alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta er að vísu frekar meiningarlaust og veikt. Ég hefði viljað sjá menn skrifa undir að þeir legðu sig fram í daglegu lífi á þann veg að vera umhverfisvænni. Eyddu minna bensíni, flokkuðu sorp og svo framvegis. Í fúlustu alvöru eru það þeir litlu hlutir sem telja í umhverfisvernd en ekki gapuxahátturinn.

En ballið byrjar fyrst hjá Framtíðarlandinu með langri og leiðinlegri greinargerð með þessum tillögum. Þar kemur hið hippokratíska faríseaeðli Andra Snæs og félaga grímulaust fram. Það hefur raunar fylgt hrokafullum trúarleiðtogum allra tíma að telja vafasama og einhliða túlkun hins heilaga orðs vera sitt aðal hlutverk. Hér er fákænn almúgi látinn skrifa undir játningu sem er eins og fyrr segir frekar meiningarlaus en farísearnir sjá svo um að túlka.

Í þeirri túlkun felst til dæmis að pólitískar ákvarðanir í landinu eiga að vera afturvirkar. Slíkt er reyndar ekkert einsdæmi í pólitískum ákvörðunum og gekk raunar svo langt í sæluríkjum sósíalismans að þar var sögunni ítrekað breytt. Í sæmilega vönduðum lýðræðisríkjum er hverskyns afturvirkni ákvarðana talin út úr öllu korti.

Það er þessvegna sem ég tel mig alveg geta skrifað undir sáttmálann og það þó róttækari væri til framtíðar litið. En ég get ekki fallist á þá afturvirku skilgreiningu í greinargerðinni að við getum talið okkur fært að banna eða stöðva einhliða framgang virkjana eða uppbyggingar sem þegar er komin af stað og réttmætar væntingar eru til meðal þeirra sem eiga að njóta.

Mér er í þessu frekast umhugað um að Þingeyingar fái óáreittir að byggja sitt álver á Húsavík. Það er ekki eðlilegt að slá þær væntingar niður með ákvörðunum sem eiga að ógilda fyrri samninga og það sem þegar er komið í gang. Þessi uppbygging getur skipt sköpum um afkomu byggðar á Norðausturhorninu þar sem byggð er í þröngri varnarstöðu.

Það er auðvitað heldur ekki hægt að stöðva með stjórnvaldsaðgerðum Straumsvík eða Urriðafoss en þar getum við vonast til að þeir sem leyfið hafi sjái að sér og haldi að sér höndum. Við sem teljum okkur umhverfissinna erum öll sammála um að það ástæða til að staldra við. Meira að segja hörðustu orkusölumenn eru farnir að sjá að það borgar sig að fara hægt. Langasjó eiga menn að láta óáreittan um ókomin ár og það er fráleitt að ráðast inn á fleiri af okkar dýrmætu hverasvæðum hér á suðvesturhorninu.

En það sem hefur verið leyft og það sem hefur verið ákveðið það verður að standa. Annars er þetta Framtíðarland okkar bara eitthvert bananalýðveldi! Viljum við það?

(Ps. Svona verður það. Myndinni hér að ofan er ætlað að varpa ljósi á kjör og vitsmunalíf bænda í íslensku bananalýðveldi... Ljósmyndari er Egill Bjarnason og er myndin tekin austur á Síðu. Fyrirsæta er dæmigerður íslenskur framsóknarmaður.)


Menningarlegir dagar og enn af göngum til Eyja...

ML -ingar hafa vinningar þegar ég ber saman þær tvær leiksýningar sem ég hef setið nú tvo síðustu daga. Fyrst Píkusögurnar sem eru svo sannarlega athyglisverðar, og síðan söngleikinn Í fyrrasumar eftir Mýrdælinginn Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Jósu. Verkið var sýnt í Aratungu í gærkvöld og óhætt að hrósa þar tilþrifum fjölmargra. Sérstaklega gaman að sjá gamlan vinnudreng föður míns, Jóhann Pétur fara á kostum í aðalhlutverkinu... mlingar_leikhopur2007

Meira um það í Sunnlenska. En ég er svo sannarlega búinn að innbyrða menningu síðustu daga í mun stærri skammti en vanalegt er. Þar ber auðvitað hæst Caput tónleikar í Langholtskirkju þar sem frumflutt var verk eftir Elínu mína. Verk við ljóð eftir uppáhaldsskáldið hennar, Matthías Jóhannessen. Verk sem hefur kostað hana blóð, svita og tár og ótrúlegar efasemdir um eigið ágæti. (Smá ýkjur þetta með blóðið). En það er einmitt undir slíkum kringumstæðum sem bestu verkin koma og alveg fram á síðustu stundu var hún sannfærð um að þetta væri eiginlega alveg ómögulegt og bætti reyndar nýjum kafla inn í á sjálfan frumflutningardaginn. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa og verkið þótti með eindæmum gott. Og er það. Ég stóð eins og jólatré á kirkjugólfinu og tók við hamingjuóskum fyrir hennar hönd og fyrir það að eiga svo frábæra konu. Það eru mörg hlutverkin sem okkur eru ætluð í lífinu. Ég er hafður fyrir frambjóðanda, bóksala, álitsgjafa, blaðaútgefanda og margt fleira. En ljúfasta hlutverkið er samt þetta að vera bara Bjarni hennar Elínar!

Svo getum við endalaust velt fyrir tilganginum. Tilganginum með menningunni. Ég er sjálfur löngu sannfærður um að grundvöllur velmegunarinnar er einmitt með listsköpuninni, óskiljanlegum nýlistargerningum, þungmeltum bókmenntatextum, klessuverkum og tónverkum sem brotabrot af þjóðinni fylgist með. Ekki grundvöllur vegna þess að af listsköpunin skapist einhver afleidd störf, bísnes og málverkauppboð. Heldur grundvöllur vegna þess að grunnurinn að allri velmegun er frjó hugsun og hún þrífst ekki þar sem ekki er öflugt listalíf. Listin smitar út frá sér og af henni sprettur kjarkurinn til útrása, þorið til að takast á við hafið, landið og heiminn allan.

Þessi frjóa hugsun þarf reyndar margt. Sjálfstraustið, sjálfsmyndina og sjálfstæðið. Og til þess að íslensk þjóð hafi þessa sjálfsmynd í lagi þarf reyndar fleira en öflugt listalíf, góða menntun, já og stóran Framsóknarflokk þó ég fái ekki alla til að skilja það.

Og það þarf byggð hringinn í kringum landið. Ef við klúðrum því þá er stutt leiðin til helvítis. Ég hef ekki trú á því að það verði sami kraftur í íslenskri borgríkisþjóð við Faxaflóann eins og verið hefur í þjóð þeirri sem byggir landið hringinn um kring. Stór hluti af því að við sækjum fram og erum það sem við erum er þessi blanda af montnum Þingeyingum, hrelljóttum Eyjamönnum, stirfnum Vestfirðingum og hjákátlegum Sunnlendingum.

Og það er þessvegna sem ég held að það séu sömu rök fyrir að byggja Tónlistarhús í Reykjavík og jarðgöng til Vestmannaeyja. Hvorutveggja mun leggja grundvöll að velmegun okkar. Íslenskt samfélag án Vestmannaeyjasamfélagsins er verulega brogað. Vöntunarlegt og vansælt. Þannig eigum við ekki að skila því til afkomenda okkar... 


Óheflað píkuklám & femínískur baráttuóður

Var að koma af Píkusögum í Hótelinu, femínísku, klæmnu og groddalegu leikriti með húmor af kúk og ragnheidur_hergeirspiss gerðinni. En engu að síður áleitið og krefjandi leikverk. Leikverk sem gerir eins góð krefjandi og ögrandi list að vekja miklu fleiri spurningar en svarað er.

Og án nokkurs er þetta leikverk sem misbýður áhorfendum og er ætlað að gera það. Það eitt af hlutverkum listamanna að misbjóða okkur til þess að vekja sálina, doðann og löngu slokknað heilabúið. En meira um þetta síðar...

Meðal leikara var bæjarstjórinn okkar, Ragnheiður Hergeirsdóttir sem stóð sig með prýði.


Auðvitað viljum við göng...

Tilfinningin að ganga landganginn á Herjólfi er alltaf svoldið eins og maður sé að koma til útlanda. Ekki það að Vestmannaeyjar séu ekki íslenskar en þær eru samt talsvert öðruvísi. Og ferðalagið þangað er heilmikið mál. Ég þurfti að vera á fundi í Mosfellssveit í morgun og síðan hér í Vestmannaeyjum og hafði reiknað með að taka flug en í morgun leit út fyrir að það yrði ekkert flugveður. Svo það var ekkert annað að gera en rjúka af Mosó fundinum miðjum og ná Herjólfi klukkan 12...

Var svo heppinn að lenda hér beint á Ægisdyrafundi sem hófst reyndar tvö en ég átti ekki fast land undir fótum fyrr en um 3. Mjög fróðleg umræða og raunar með ólíkindum hvernig vinnubrögðum er beitt þegar stjórnvöld hafa ákveðið að eitthvað skuli ekki gert. Í þessu tilfelli göng til Vestmannaeyja. Minnir um margt á umræðuna sem var heima um fjórbreiðan Hellisheiðarveg þar sem bæði vegamálastjóri og samgönguráðherra stóðu framan af sem veggur gegn framkvæmdinni og gegn því að kostir hennar yrðu athugaðir til hlítar. Ég er ekki að segja að þessir embættismenn hafi ekki haft eitthvað til síns máls um það að kannski væri þríbreiður vegur nóg og kannski er ekki hægt að leggja göng til Eyja. En þeir gera sig ómerka í þeirri umræðu þegar þeir þybbast við að heimila almennilega og hlutlausa úttekt mála.

Hér fer Ægisdyrahópurinn fram á 60 milljóna króna rannsóknir á því hvort hægt sé að bora göng til Eyja en rekst á vegg. Ekki við gangaborunina heldur umræðuna. Það er auðvitað ekki þannig að það eigi að leggja göng til Vestmannaeyja hvað sem það kostar en ég er sannfærður um að ef kostnaður er eins og Ægisdyramenn telja rétt um eða innan við 30 milljarðar þá á að ráðast í þá framkvæmd. Og áður en menn ráðast í framkvæmdir við Bakkafjöru á hlutlaust kostnaðarmat gangagerðar að liggja fyrir.

Byggð hér í Vestmannaeyjum stendur tæpt. Ef ekki koma til verulega breyttar aðstæður í samgöngum er langlíklegast að hún líði undir lok á næstum áratugum. Spurningin er hvort höfn í Bakkafjöru dugi til að snúa þeirri þróun við. Ég er ekki viss um það.

Það alvarlegasta við annars ágæta stjórn Íhalds og okkar undanfarin ár er andvaraleysið í byggðamálum. Þenslan og einkavæðingin hafa víða gengið nærri byggðunum og sama gera margháttaðar breytingar í atvinnu- og menningarlífi. Þrátt fyrir að efnin séu næg hafa mótvægisaðgerðir verið sáralitlar. Sú þróun er ekki bara áhyggjuefni sveitarstjórna og fáeinna atvinnurekenda á landsbyggðinni. Íslenskt alþýðufólk sem á sínar húseignir í Vestmannaeyjum, Vestfjörðum eða Vík er rænt eiginfjárstöðu sinni og aleigu þegar fasteignaverð þessara staða hrynur en það gera veðskuldiirnar ekki. Jafnaðarstefna okkar Framsóknarmanna þarf að ná til þessa fólks...

En nóg um þetta í bili. Nú þarf ég að fara að hugsa upp hvað ég á að gera á karlakvöldi ÍBV í kvöld þar sem mér er ætlað að vera skemmtilegur. Best verður auðvitað að klæmast svolítið á Framsóknarmönnum. Vona bara að ég þurfi ekki að sitja þar yfir sumbli fram undir morgun...


Prósentur - koma mér þær eitthvað við!

Símafyrirtæki í Reykjavík hefur í dag kynnt niðurstöður skoðanakönnunar sem sýnir frekar fá prósent okkur framsóknarmönnum til handa. Ég hitti daglega fólk sem telur að pólitík gangi út á þessi prósent og kapphlaupið eftir þeim. Ég held ekki! Ég hef raunar efasemdir um að stjórnmálamenn eigi að gefa skoðanakönnunum mikinn gaum. Ekki vegna þess að þeir eigi ekki að hlusta á fólkið því það eiga þeir að gera,- helst maður á mann.

En þeir eiga svo sannarlega ekki að sveiflast eftir prósentuvindi úr símanum hversu gott afþreyingarefni sem slíkt getur annars verið. Það er einfaldlega þannig að fólk ræður hvað það kýs yfir sig. En stjórnmálamaður, eða flokkur ef út í það er farið, sem ætlar að sveigja sig beygja, bukta sig og hneigja fyrir prósentum skoðanakannana mun að lokum gufa upp eins og áfengisprómill í opnu pilsnerglasi. Það er eyðimerkurganga til einskis að leitast við að þóknast fjöldanum og harla ólíkt hjartahreinum hugsjónamönnum. 

Stjórnmálamaður á að hafa afstöðu og hugsjónir og láta svo kjósendum eftir hvort þeir kæra sig um þær hugsjónir. Vera tilbúinn til að mæta því að fólk vilji hann ekki og geta þá þar á eftir um frjálst höfuð strokið. Ef þjóðin vill ekki Framsóknarflokkinn í næstu kosningum, þá það. Ég hef reyndar ekkert mikla trú á að þetta verði niðurstaðan í kosningum en gæti auðvitað orðið. Það er slæmt en við munum þá bara taka því. Þangað til er ekki annað fyrir okkur að gera en vinna af heiðarleika, halda sjó og gæta þess að fara alls á límingunum...

Fyrir okkur skynsömum Framsóknarmönnum er fylgi Fylkingarinnar og Íhaldsins alltaf hluti af þjóðsagnalegum furðum. Og þjóð sem setur svokallaða Frjálslynda og rauðliða sem kalla sig græna ofar Framsóknarflokknum er auðvitað svoldið óskiljanleg og örugglega sjálfri sér verst.  

O tempora O mores


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband