Umsátur um fullveldi

Eftir Jón Bjarnason, Atla Gíslason og Bjarna Harðarson 

Kjósendur sem vilja standa vörð um fullveldi Íslands hafa val í komandi Alþingiskosningum. Óskastaða innlimunarsinna er að sem flestir fari nú inn á þing með þá blekkingu í farteskinu að það sé rétt að kíkja í pakkann, klára ferlið, ljúka meintum samningum Íslands og ESB.

Ef litið er á heimasíðu stækkunardeildar ESB kemur aftur á móti fram að það fara engar samningaviðræður fram. ESB gengur svo langt að kalla slíkar fullyrðingar „misleading". Það sem fer fram á milli Íslands og ESB er aðlögun eða með öðrum orðum hægfara innganga okkar í sambandið. Eftir svokallaðar viðræður í heilt kjörtímabil geta aðildarsinnar ekki bent á eitt atriði sem hefur verið „samið" um enda ekkert slíkt í boði. Aftur á móti hafa verið gerðar umtalsverðar, dýrar og afgerandi breytingar á mörgu í stofnanakerfi Íslands, t.d. öllu innra skipulagi skattstjóra og tollstjóraembætta. Sömuleiðis í sjálfu Stjórnarráði Íslands. Allt er þetta í fullu samræmi við það sem upplýst er á heimasíðu ESB um málið, sjá t.d.  http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf og http://ec.europa.eu/enlargement/policy/steps-towards-joining/index_en.htm

Af umræðuþætti Ríkissjónvarpsins síðastliðið þriðjudagskvöld er ljóst að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og VG gæla nú allir hver með sínum hætti við drauma pakkakíkis. Enginn þessara flokka þorir lengurað standa á þeirri skoðun að loka eigi hinni evrópsku áróðursstofu né að taka af skarið um að viðræðum skuli tafarlaust slitið. Þetta er mjög miður og vekur ugg um það sem framundan er. Vitaskuld eru í öllum þessum flokkum einlægir andstæðingar ESB aðildar en aðildarsinnar eru þar einnig margir á fleti fyrir.

Án þess að gert sé lítið úr öðrum málefnum þessarar kosningabaráttu þá varðar ekkert eitt mál jafn miklu um framtíðarhagsmuni Íslands eins og vörn fyrir fullveldinu. Meðan samningaviðræðum hefur ekki verið slitið, áróðursskrifstofur ESB starfa hér óáreittar og mútufé ESB flæðir óhindrað inn í landið ríkir umsátursástand. Því umsátri verður að ljúka. Við sem stöndum að Regnboganum bjóðum fram krafta okkar til varnar fullveldinu. Setjum X við J á kjördag.

(Birt í Morgunblaðinu 26. apríl 2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband