Að vera eða vera ekki virkjanasinni!

Hvort er ég virkjanasinni eða virkjanaandstæðingur? Það hefði undanfarna daga sparað mér mikinn tíma að geta svarað þessari spurningu með einu orði en þar vefst mér tunga um tönn. Þetta eina orð verður þá að vera: hvorugt!

Tilefni þessarar orðræðu er einkanlega fundur sem ég hélt um nýliðna helgi við Urriðafoss í Þjórsá. Sá fundur var haldinn til að vekja almenning til umhugsunar og áhugi fundarmanna á einhliða slagorðum var enda lítill.

Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og mjög fögur náttúrusmíð. Sá tvískinnungur hefur einkennt náttúruverndarumræðu undanfarinna ára að athyglinni hefur aðeins mátt beina að svæðum sem fáir hafa séð. Þar eru Kárahnjúkar í fyrsta sæti og Þjórsárver í því næsta. Þegar kemur að stórfelldum náttúruspjöllum á Hellisheiði eða spjöllum á Þjórsárdal og Urriðafossi er umræðan nær engin. Umhverfismat þessara virkjana hefur runnið í gegn í skjóli af endalausri umræðu um Dimmugljúfur og Reyðarfjörð.

Vatnsaflsvirkjanir til raforkuframleiðslu er ein umhverfisvænsta leið sem mannkynið hefur til orkuframleiðslu. Umhverfisstefna þess sem aðeins vill verja eigið heimatún burtséð frá því hvað það kostar jarðarbúa í heild er ekki aðeins eigingjörn heldur fullkomin andstæða þess að vilja leggja umhverfisvernd í heiminum lið. Í ljósi þess er erfitt að sjá hina öfgafyllstu í hópi Kárahnjúkaandstæðinga sem annað en ábyrgðarlausa.

En vitaskuld taka virkjanirnar toll af ósnortinni náttúru, bæði á Þjórsársvæðinu og á Kárahnjúkasvæðinu. Það er hlutverk okkar sem landið byggjum að lágmarka þann skaða. Eitt einkenni öfgafullrar umræðu er hvað farsæl niðurstaða er þá jafnan langt undan. Slík hefur verið staða okkar Íslendinga í virkjanamálum þar sem reynt er að stilla þjóðinni upp sem tveimur fylkingum, gráum fyrir járnum. Virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar.

Ég sagði á fundinum við Urriðafoss að ég teldi fráleitt að fórna Urriðafossi við núverandi aðstæður og veit að þar tala ég fyrir munn margra sem þar voru á fjölmennum útifundi. Þessar núverandi aðstæður eru í fyrsta lagi að nóg er til af virkjanakostum í landinu sem taka munu minni toll af umhverfinu. Nægir þar að benda á hálfkaraða Búðarhálsvirkjun sem mun vissulega geta skilað orku þrátt fyrir að Norðlingaölduveita komi ekki til. Í öðru lagi er ofhitnun í viðskiptalífi á suðvesturhorninu slík að engin þörf er á frekari áluppbyggingu.

Þær aðstæður geta aftur á móti orðið í íslensku atvinnulífi að það beri að endurskoða þessa ákvörðun. En komi til þess að byggðavirkjanirnar í Þjórsá verði að veruleika er alger lágmarkskrafa að það verði til uppbyggingar í heimahéraði. Nóg hefur verið flutt úr héraðinu af orku með tilheyrandi mastraskógi upp um heiðar og dali.

Höfundur býður sig fram til setu í annað sæti á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Til hamingju með sinnaskiptin.  Hlynntur EB næst?

Baldur Kristjánsson, 10.1.2007 kl. 20:32

2 identicon

Bjarni ég held eða allavega vona að annað sætið verði þitt. Í kvöld fór ég inn á Suðurland.net þar sem tvísýn barátta er á milli ykkar sem óskið eftir öðru sæti. Könnun þessa er ekki hægt að taka mark á því það endalaust hægt að kjósa Kveðja Eyrbekkingur

Eyrbekkingur (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 23:24

3 identicon

Bjarni, mér sýnist þú ekki hafa lesið athugasemdir mínar, sbr.:

Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og mjög fögur náttúrusmíð. Sá tvískinnungur hefur einkennt náttúruverndarumræðu undanfarinna ára að athyglinni hefur aðeins mátt beina að svæðum sem fáir hafa séð. Þar eru Kárahnjúkar í fyrsta sæti og Þjórsárver í því næsta. Þegar kemur að stórfelldum náttúruspjöllum á Hellisheiði eða spjöllum á Þjórsárdal og Urriðafossi er umræðan nær engin. Umhverfismat þessara virkjana hefur runnið í gegn í skjóli af endalausri umræðu um Dimmugljúfur og Reyðarfjörð.

Ég var einmitt að benda á, að þetta er ekki rétt með farið hjá þér.

Jóhann Óli (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 00:25

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Það er löngu tímabært að einhver gagnrýni komi fram á allt að því einlitan málflutning virkjanaandstæðinga sem eru einnig á móti álverum almennt , þar sem málin eru sett upp í svart hvítan búning , með og á móti , punktur.

Slík umræða er af toga öfga sem mér líkar ekki fyrir mína parta.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.1.2007 kl. 00:39

5 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitta

Ólafur fannberg, 11.1.2007 kl. 08:12

6 identicon

Þið Framsóknarmenn ætlið bara að vera umhverfisverndarsinnar korteri fyrir kostningar. En svo munu, eins og þú hefur sjálfur sagt, aðstæður að sjálfsögðu kalla á það eftir kostningar að farið verði í byggingu álverksmiðja.

Byggingaverkamaður (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 14:00

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið er leiðinlegt að lesa svona útúrsnúninga eins og fyrirfinnast hjá þér. Vil benda á að baráttan um Kárahnjúka var svona áberandi vegna þess að við erum um tala um stærstu framkvæmdir Íslandssögunar. Það er fráleitt að halda því fram að náttúruverndarsinnar hafi eingöngu áhuga á því sem þú heldur fram. Þá vil ég benda þér á að þeir sem hafa verið í framvarðasveit náttúruverndarsinna hafa verið að þessu í frítíma sínum og þurft að berjast við frekar volduga þursa sem hafa eins og þú ert að gera með svona tilhæfulausum röksemdarfærslum, hamast við að færa þjóðinni ranghugmyndir um stöðu mála.

Væri ekki eðlilegra ef að þér er svo annt um Urriðafoss að þú kallaðir eftir samstarfi við umhverfissinna frekar enn að gera lítið úr þeirri miklu vinnu þeirra við að koma á vitundarvakningu gagnvart náttúruvernd hérlendis.

Birgitta Jónsdóttir, 11.1.2007 kl. 14:21

8 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Umhverfisvernd snýst um all nokkuð mikið fleira en gæsir og náttúru á hálendi Íslands og umhverfisverndarsinnar sem barist hafa gegn vatnaflsvirkjun og álverum eingöngu án áhorfs á annað í umhverfi mannsins eru því miður ekki á nægilega trúverðugum grunni sem slíkir.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 12.1.2007 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband