Ál í hvert mál á Rosmhvalanesi

Álver í Helguvík er einn þeirra möguleika sem nú er rætt um til atvinnuuppbyggingar á Suðvesturhorninu. Það er líka talað um álver í Ölfusi og stækkun í Straumsvík.

Sá sem hér ritar hefur lengi verið talsmaður þess að koma upp orkufrekum iðnaði á Íslandi. Til þess á landið mikið af hagkvæmum og umhverfisvænum orkugjöfum. Um langt skeið gekk þetta frekar treglega. Hver man ekki Keilisnes í því sambandi.

Síðustu ár hefur það dæmi mjög snúist við og eftirsókn eftir stóriðjuuppbyggingu á Íslandi er nú mikil og vafamál að skynsamlegt sé að hlaupa eftir henni allri. Álver á dýru landi á suðvesturhorni landsins orkar mjög tvímælis. Á öllu þessu svæði er ofhitnun í hagkerfinu og ekkert sem bendir sérstaklega til að það breytist á næstu misserum eða árum. Hið fyrirhugaða álver í Helguvík mun bitna á náttúru svæðsins og lífsgæðum þeirra sem næst svæðinu búa. Slík fórn er því aðeins réttlætanleg að alvarlegur skortur sé á atvinnu en svo er ekki.

Rannsóknir benda til að á næstu árum geti djúpborun á jarðhita opnað okkur leið til að virkja meira með minni tilkostnaði fyrir umhverfi. Þar með mætti hlífa náttúruperlum eins og Brennisteinsfjöllum, Urriðafossi og Ölkelduhálsi svo dæmi séu tekin. Þegar saman fer að tæknin virðist þannig rétt á næsta og aðstæður í efnahagslífinu kalla frekar eftir því að við hægjum sýnist mér allt styðja það að stóriðjuáformum á fyrrgreindum stöðum á suðvesturhorninu verði slegið á frest.

Suðurnesjamenn hafa reynslu af því að treysta í of miklum mæli á einn stóran atvinnurekanda. Í farsælli atvinnuuppbyggingu er fjölbreytni lykilatriði. Á Suðurnesjum eru möguleikarnir fleiri og magnaðri nú eftir að herseta bandaríkjamanna er úr sögunni. Einn þeirra kosta sem undirritaður hefur fyrr talað fyrir er að koma þar upp alþjóðlegri skiptistöð fyrir flug milli Asíu og Ameríku. Samhliða mætti gera gömlu herstöðina að fríverslunarborg. Umfang slíkrar starfssemi getur orðið gríðarlegt án þess að byggja á einum eða fáum viðskiptaaðilum.

Til þess að möguleiki sé á uppbyggingu sem þessari er mikilvægt að við stjórnvöld á Íslandi verði þeir menn sem sjá víðar um veröldina en í eitt herbergi í Evrópu. Og hafi jafnframt það víðsýni til að bera í atvinnumálum að geta horft á fleiri kosti en stóriðjur og orkusölu, svo ágætir sem þeir kostir þó geta verið þar sem þeir eiga við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosmhvalanes, Bjarni minn, ekki Romshvalanes.

Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 21:51

2 identicon

Bíddu, eiga íbúar við Helguvík að fá að kjósa um verið ?

Kristinn Haukur Skarphéðinsson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband