Að vera þingmaður Suðursveitar!

Um lönd og lýði heitir ein af hinum óborganlegu bókum Þórbergs Þórðarsonar frá Hala í Suðursveit. Bók þess gæti af nafninu fjallað um fjarlægar þjóðir en er í raun um Suðursveitina og fólkið þar. Svo mikils mat Þórbergur alla tíð sína æskusveit og var henni ævilangt skuldbundinn.

Það er mikill ábyrgðarhlutur að bjóða sig fram til þingmennsku í slíkri sveit. Ekki síst nú þegar sveit þessi þarf meira en nokkru sinni á að halda öflugum talsmanni. Og ekki bara Suðursveitin heldur allar þær jaðarbyggðir landsins sem nú berjast í bökkum. Í sögu þessara byggða, menningu og nútíma búa perlur sem íslensk þjóð má ekki glutra frá sér með eyðibyggðastefnu hægri frjálshyggju eða þá vinstri fjallagrasapólitík. Verst þessum byggðum er þó hin kalda og heimska reiknistokkspólitík íslenskra hægri krata Samfylkingarinnar.

Í velgengni undanfarinna ára hefur það lítt verið í móð að tala um landsbyggðina og sértæk úrræði henni til handa. Jafnvel í Framsóknarflokki hafa menn kinokað sér við að tala máli hinna dreifðu byggða af einurð og festu. Þar er breytinga þörf.

En það er vissulega djörf vogun fyrir sveitapilt ofan úr Biskupstungum að bjóða sig fram sem talsmann fyrir byggðir Suðurkjördæmis, allt frá Hvalnesskriðum í austri að Hvalnesi á Romshvalanesi í vestri. Suðursveitin og auðmýkt skáldsins frá Hala gagnvart henni verður mér leiðsögn í því hverja virðingu allt þetta hérað á skilið. Með þeim orðum vil ég biðja Skaftfellinga að veita mér brautargengi í annað sæti í prófkjöri Framsóknar á laugardag.


Höfundur er bóksali á Selfossi og sækist eftir öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sveitin mín hún Suðursveit. Ef ég bara gæti þá myndi ég kjósa þig, en annað kjördæmi og allt það. Það sem ég get gert er að hvetja allt mitt fólk til að kjósa þig. Veit að ömmubræður mínir er afskaplega hrifnir af þér og þínum málflutningi.

B.Kv. 

elmar (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 10:05

2 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

OG svo þegar búið verður að sameina öll sveitarfélög á Suðurlandi í eitt, er Suðursveit nafnið sem sveitarfélagið ætti að heita. Þá verður þú sko sannarlega þingmaður Suðursveitar... þó þú sért úr Tungunum

Sigþrúður Harðardóttir, 20.1.2007 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband