Hverjir geta best stjórnað Árborg?

 „Traust fjármálastjórn" var slagorð Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum 2007 og rétt seinna hrundi það efnahagsundur sem flokkurinn hafði lagt grunn að á Íslandi. Það eru samt ennþá til þær raddir að hægri stefnan sé vænlegri í fjármálastjórn heldur en félagshyggjan. Ég hallast að því að búhyggindi taki í engu mið af hægri eða vinstri.

Hér í Árborg hafa félagshyggjuflokkar farið með völd undanfarin þrjú ár og farnast vel miðað við þann ólgusjó sem verið hefur. Það hafa vissulega verið gerð mistök í ýmsum málum eins og þegar Pakkhúsið var keypt til niðurrifs en það munar meiru um hitt sem vel tókst, t.d. þegar slegnar voru af stórkallalegar áætlanir fyrri meirihluta um sundhallarbyggingu og fleira. 2009 náðist svo umtalsverður árangur í sparnaði eins og komið hefur fram.

Árlega gefur Samband íslenskra sveitarfélaga út Árbók þar sem borinn er saman fjárhagur sveitarfélaganna í landinu. Þar getum við borið okkur saman við Reykjanesbæ þar sem tap bæjarins og stofnana hans í rekstri nam 571 þúsundi á hvert mannsbarn en sambærileg tala hér í Árborg var 172 þúsund. Meðaltalið á landsvísu var árið 2008 342 þúsund króna tap á hvert mannsbarn.

Það er vitaskuld hægt að benda á félagshyggjubæi þar sem illa hefur farið, s.s. Hafnarfjörð sem hefur líkt og sjálfstæðisbæirnir Reykjanesbær, Sandgerði og Kópavogur lent undir Eftirlitsnefnd um fjárhag sveitarfélaga ásamt sex öðrum sveitarfélögum í landinu. En Sveitarfélagið Árborg er ekki þar. Miðað við þá gríðarlegu þenslu sem varð hér í Árborg þá er það fagnaðarefni og það er skylda okkar allra sem bjóðum okkur fram til meirihluta að varðveita þann árangur sam náðst hefur. Það verður ekki gert með því að tala sveitarfélagið niður.

Oddviti Sjálfstæðismanna hér í Árborg skrifar nýlega á heimasíðu sinni að Árborg muni senn verða tæknilega gjaldþrota. Þetta eru stór orð þegar þau koma frá manni sem býður sig fram til forystu fyrir bæjarfélagið. Og þetta er einfaldlega rangt þegar horft er til þeirra gríðarlegu eigna sem sveitarfélagið á ekki síst í veitumannvirkjum. Þær eignir eru vitaskuld ekki á markaðsvirði í ársreikningum.

Það kann að duga Sjálfstæðismönnum vel til heimabrúks í augnabliki kosningabaráttunnar að níða skóinn af eigin sveitarfélagi. En hjákátlegir verða þá sömu menn ef það henti að þeir verði í forystu eftir kosningar. Ætla þeir þá að snúa við blaðinu með einhverjum barbabrellum og eignaútsölu?

(Birt í Dagskránni 6. maí 2010)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband