Festa og framkvæmdir í Árborg

Auðveldast í yfirstandandi kosningabaráttu er vitaskuld að gefa út loforð um að Sveitarfélagið Árborg muni á komandi kjörtímabili ráðast í stórfelldar framkvæmdir og útrýma þannig bæði atvinnuleysi og verkefnaskorti vertakafyrirtækja í bænum. En vitaskuld er þetta ekki fær leið þegar halda þarf áfram sparnaði og varkárni í rekstri bæjarfélagsins. Engu að síður er eitt mikilvægasta verkefni okkar allra á næstu árum að minnka atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins á aukinn snúning.

Sparnaður bæjarins og framkvæmdir í atvinnulífinu hanga þar samt á sömu spýtu þó með ólíkum formerkjum sé. Eftir því sem betur og fyrr gengur að koma bæjarsjóði á réttan kjöl og snúa tapi í hagnað því fýsilegri kostur verður sveitarfélagið fyrir fyrirtæki og stofnanir sem leita að heppilegu athafnasvæði.

Sterkari sveitarsjóður og traustir innviðir þjónustu í sveitarfélaginu eru mikilvægasta framlag sveitarfélagsins til atvinnusköpunar. Sveitarfélagið þarf að hafa fjárhagslegt bolmagn til að mæta þörfum fyrirtækja í uppbyggingu og geta unnið það starf sem þarf til að laða hér að öfluga atvinnuuppbyggingu.

Eitt það fyrsta sem hugað er að þegar rætt er um tilflutning fyrirtækja eða opinberra stofnana er grunnþjónusta við fjölskyldur starfsmanna. Þar skiptir miklu að Sveitarfélagið Árborg stendur vel hvað varðar uppbyggingu skólamannvirkja og öll almenn þjónusta í sveitarfélaginu er til fyrirmyndar.

Í þeirri efnahagskreppu sem nú ríður yfir eru engar töfralausnir fyrir hendi, hvorki þegar kemur að atvinnuleysi, rekstri fyrirtækja né afkomutölum sveitarfélaga. En með festu við stjórn Sveitarfélagsins Árborgar eigum við góða kosti og raunar betri en víðast hvar. En þá skiptir miklu að allir þeir sem koma að stjórn bæjarfélagsins standi saman um það sem vel hefur tekist og setji sér um leið að markmiði að gera enn betur á komandi kjörtímabili.

(Birt í Dagskránni í dag, 12. maí 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður nú ekki erfitt að gera betur en núverandi meirihluti.Þið hafið stýrt sveitarfélaginu síðasta kjörtímabil með þeim árangri sem allir vita hver er

Kjósandi (IP-tala skráð) 12.5.2010 kl. 22:26

2 Smámynd: Árni Þór Björnsson

Sæll Bjarni.

Mig langar að benda á nokkur atriði sem mér finnst mættu fara betur. Þau fyrirtæki sem þegar eru í sveitarfélaginu snyrti í kringum sig. Gróðursetji runna og tré , Fjarlægi rusl. Malbiki, helluleggi. Iðnaðarhverfin eru til skammar nema hjá Set plaströrum, BYKO og Húsasmiðjunni. Þetta kosta smá vinnu en er ódýrt og ásýnd bæjarins yrði fegurri. Bara skylda þá til þess sem sem eiga það og þá sem byggja nýtt á skipulögðum svæðum.

Svo ætti að færa umferðarþungann af Austurveginum sem er lélegur og þolir ekki alla þessa umferð.

Heilsugæslan og sjúkrahúsið er mér alltaf kært, en ofboðslega leiðist mér læknisleysið milli 08-16, engir tímar lausir, en eftir þann tíma fara læknar á annann taxta og þá er alldeilis unnið og spólað í sjúklingunum.Einn læknir sinnir þá fleiri sjúklingum en allir læknarnir samanlagt á dagvinnutaxtanum. Sjúkrahúsið gæti tekið mun meira af ferilverkum og fengið til sín fleiri sérfræðinga. T.a.m. eru skurðstofur mun betri en í Keflavík.

Kjötmjölsverksmiðjan fær ekki að selja bændum afurðina vegna þrákelkni eins manns sem heldur-en veit ekki hvort, að afurðin geti valdið búfjársjúkdómum. Ekkert sannað í þeim efnum og áratuga reynsla af þessum afurðum annars staðar ma hérlendis.

Nú eru aðföng bænda dýr, áburður og olía, og kjötmjölið er talið 50x kröftugra efni en háusdýraáburður.

En ég tek undir með Bjarna að aðhalds er þörf. Við þurfum ekki fleiri bensínstöðvar eða ÁTVR sjoppur, ekki fleiri bankaútibú eða fjármálafyrirtæki. Það þarf að hlúa að yngri borgurum og unglingum, fresta öllum stórframkvæmdum nema bráðnauðsynlegum.

Auglýsa bæinn með merkjum og veifum þegar menn koma akandi austan eða vestan til að laða að fleiri íbúa.

Nóg að sinni. Mér þykir svolítið vænt um Selfoss-Árborg, enda sæki ég alla þjónustu þangað.

Árni Þór Björnsson, 14.5.2010 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband