Ætlum við þá að lifa af fjallagrösum?

Við sjáum í anda fyrir okkur íbúa Árborgar aðrogast heim með fjallagrasapoka undir haust, vitandi að ekki verður annað sem heimilisfólk getur lagt til búsins fyrir langan harðan vinstri grænan vetur. Það var kalt og þokusælt á grasafjallinu og sumir eru komnir með kvef af öllu saman. Svona verður það og þá segjum við, - þetta vilduð þið!

Eða er það ekki svo að VG vilji banna allt annað mannlegt athæfi en það að einhverjir reiti upp fjallagrös. Sjálfsagt þangað til svo mjög er gengið á þennan viðkvæma gróður að fjallagrasatínslan verður bönnuð líka.

Megum við þá heldur fá í okkar maga ofurgróða af eftirlitslausri bankastarfssemi. Að ekki sé talað um þá velsæld sem Stokkseyringar og aðrir geta haft af því að selja frá sér kvóta. Lifðu ekki annars allir praktuglega í góðæri frjálshyggjunnar?

Hver kærir sig um jarðsamband þegar hægt er að lifa á astónómísku plani ofurgróðans. Senda sléttgreidda drengi út um heim allan á einkaþotum til að selja hér fossa og land, sökkva undir vatn fögrum túnum sem engir nennir lengur að hirða.

Nei, kjósandi góður. Ekki láta blekkjast af einni smá kreppu. Takið frekar eftir hvað þessum vinstri mönnum gengur illa að sópa upp eftir partíið okkar. Gátu þeir ekki gert eins og almennilegt fólk, sópað öllu leiðinlegu eins og t.d. Icesave undir teppið.

Nei, nei, þetta kann ekki að sópa, gat ekki einu sinni sópað snjó. Haldið að það sé, það var meira að segja sparað í snjómokstri. Hvað heldur þetta fólk, að sparnaður sé eitthvað sem eigi að sjást. Nei, það vitum við hinir sem komum Íslandi rækilega á hausinn að sparnaður er bara einhver hallærisleg og sveitaleg leiðindi. Ef það á að spara þá að gera það þannig að það sjáist bara alls ekki og enginn viti af því. Já og vitaskuld á heldur ekki að muna um sparnað enda væri það bara asnalegt.

Jú, og svo lokaði þetta sundlauginni á stórhátíðum. Það er eins og hér eigi bara að innleiða eitthvert gamaldags rugl þar sem afgreiðslufólk fær frí á helgidögum. Í okkar banka-Íslandi þurfti nú ekki að hugsa um slíkt. Við létum nú bara Pólverja um að vinna svona störf og enginn kvartaði. Allavega ekki á íslensku! Hvað verður næst?

 

Við lofuðum ykkur haustið áður en í hitteðfyrra að Ísland yrði ríkasta land í heimi og þó að það hafi aðeins mistekist þá erum við ekki af baki dottnir. Nú ætlum við að lofa ykkur því að Árborg verði langflottust allra borga, hér verði í engu sparað, bara eytt og alltaf opið í sund! Við bara seljum þessa skóla og félagslegu íbúðirnar sem eru nú ekki á vetur setjandi. Semsagt, almennilegt cash-flow og Árborg best á Íslandi!

Nefndin!

(Höfundar Þórdís E. Sigurðardóttir og Bjarni Harðarson, efstu menn á lista VG í Árborg 2010)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband