Spennandi ráðstefna í Fljótunum

Er enn líf í Hrútadal heitir spennandi ráðstefna í Ketilási í Fljótum næstkomandi laugardag, helguð skáldi sveitarinnar Guðrúnu Baldvinu Árnadóttur, Guðrúnu frá Lundi.kristmann

Sjálfur er ég enginn sérfræðingur í Guðrúnu og hefi raunar aldrei lesið mikið af rómönum af þessari gerð. Lærði ungur að þetta væru andleg neðanþindarfræði og utan hrings hjá alvöru bókamönnum. En þetta er auðvitað misskilningur, frekar karlrembulegur misskilningur. Til þess að verða viðræðuhæfur í Fljótunum gleypti ég því í mig  þrjá ástarómana sem allir standa fyrir sínu, vitaskuld Dalalíf, síðan Brúðarkyrtilinn eftir Kristmann sem datt upp í hendurnar á mér í svo fallegu bandi að það var unun að hafa bókina í hendi. Síðast Önnu Kareninu eftir Tolstoi sem einhverjir móðgast kannski yfir að ég setji á þennan bekk - en þar á hann samt heima. 

Á allra síðustu árum hefur komist í tísku að lýsa samfélaginu, sálarlífi og átökum mannlífsins með morðsögum og sumum tekist það mætavel. En það er ekkert verra að  gera þetta sama með ástarsögum og ef vel tekst til þá eru þetta oft hinar læsilegustu bækur. Svo er um sögur Guðrúnar frá Lundi sem er á köflum mögnuð í nærfærni sinni, lýsingum á mannlífinu og snillingur í meðferð tungunnar.

Það eru vitaskuld allir velkomnir í Hrútadalinn - Ketilás - en nánar má lesa um ráðstefnu þessa hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband