Að vera húmorslaus rasisti...

Ekki veit ég hvort kvennafrídagurinn fer svona illa í mína gömlu skólasystur en óneitanlega rak mig í rogastans þegar mér var bent á það að Björg Eva Erlendsdóttir eigni mér nú að ég sé rasisti. Ég hefi fram að þessu leyft mér að hafa þá skoðun að við Íslendingar eigum að hleypa sem flestum af erlendu bergi brotnu inn í landið og ekki síður þeim sem hörundsdökkir eru.

En í grein á Smugunni í dag leggur blaðakonan Björg Eva mér í munn orð sem ég aldrei sagði og bætir um betur með því að saka mig um að vera húmorslaus. (Það er nú reyndar alvanalegt þegar við Tungnamenn og Hreppamenn tölum hvor um hinn.)

Einhverjir kveinkuðu sér á VG fundi um helgina undan því að tala á móti ESB af því að Styrmir og Davíð gerðu það. Ég benti á að þeir sem raunverulega væru á móti inngöngu í ESB yrðu að sætta sig við að vera í sama liði og ýmsir sem þeim ekki geðjast að, "þar á meðal væri fólk sem er svo vitlaust að það sér blámenn á hverju götuhorni." Lengra kemst ég ekki í að skilgreina fólk sem mér ekki geðjast að og sagði svo alls ekkert um að þetta fólk tæki þátt í starfi Heimssýnar enda veit ég ekki til þess.

En að þetta geri mig og samtökin Heimssýn að þröngsýnu handbendi rasista er ótrúleg röksemdafærsla og þarf meira en venjulegan hrepparíg til að komast að slíku. Kannski að Björgu Evu og nokkrum öðrum á þessum fundi hafi sárnað eigið kjarkleysi að þora ekki að tala upphátt fyrir ESB aðild.

En allavega, kæra Björg Eva og þið öll, til hamingju með daginn og takk fyrir kvennasönginn sem heyrðist áðan neðan af Arnarhóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ertu viss um að þú eigir samleið með þessu fólki Bjarni? Í flokki þar sem:

  1. eru forystumenn sem ganga gegn stefnu eigins flokks og flokkur sem lætur sér það lynda!!!!
  2. stjórnmálaályktanir eru einskis virði ef flokkurinn er í stjórnarandstöðu?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.10.2010 kl. 17:22

2 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Nei, viðhorf þitt til múslima gerir þig að rasista.

Matthías Ásgeirsson, 25.10.2010 kl. 18:02

3 Smámynd: Vendetta

Matthías, andstaða við islam er ekki sama og rasismi.

Vendetta, 25.10.2010 kl. 18:32

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, ég myndi ekki missa svefn út af þessum skrifum BEE.  Heimssýnarfélagar eiga eftir að fá fleiri slíkar sneiðar frá ESB sinnum. 

Annars merkilegt að hún skuli ráðast á þig en ekki Hjörleif Guttormsson eða Ragnar Arnalds.  Sennilega er þó garðurinn alltaf árennilegastur þar sem hann er lægstur, ekkert nýtt við þá bardagaaðferð. 

Matti - þú ert trúleysingi - eða er það ekki?

Kolbrún Hilmars, 25.10.2010 kl. 18:34

5 identicon

Sæll Bjarni,

Ég var einn þeirra sem satt fundinn á laugardaginn og mín upplifun var sú sama og Bjargar Evu. Þessi ummæli þín sátu sérstaklega þungt í mér eftir fundinn og man ég þau mjög vel. Þegar ég las bloggið þitt þar sem þú andmæltir upplifum Bjargar Evu hringdi ég í nokkra aðra sem einnig sátu fundinn til þess að kanna hvort uplifum okkar tveggja hafi verið einstök. Öll tóku þau undir það sem Björg Eva lýsir í grein sinni.

Í stað þess að skammast þín og viðkenna að hafa misst þetta út úr þér í í misheppnaðri tilraun til að vera fyndinn gerir þú illt verra. Þú lætur þér ekki nægja reyna að gera Björgu Evu ómerking orða sinna heldur leggur þú henni einnig orð í mun. Hún segir þig aldrei vera rasista í grein sinni heldur veltir því aðeins upp hversu æskilegur félagsskapur rasitar séu í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Elías Jón Guðjónsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 18:40

6 identicon

Nei sko!

Detta mér nú allar ...

Sjáiði hver tjáir sig nú um orðbragð fólks!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 20:47

7 Smámynd: Rafn Gíslason

Eftir þessi skrif og umræðuna um ESB innan raða VG upp á síðkastið þá sé ekki eftir því að hafa yfirgefið þennan flokk. Bjarni þú átt betra skilið en svona hnútaköst en við vitum svo sem báðir af hverju þau koma til og ég tel það til kraftaverka ef þessi flokkur lifir af veturinn, og er ég þá með það í huga sem þú sagðir mér hér um daginn um símtöl þín við forustufólk á landsbyggðinni og skoðun þeirra á flokknum eins og hann er að birtast okkur í dag. Við hjónin biðjum að heilsa þér.

Rafn Gíslason, 25.10.2010 kl. 22:03

8 identicon

eins og þú hafir ekki sýnt þitt rétta andlit nú þegar? allir sem vilja vita hvernig þú vinnur,bara nefna tölvupóstana þína!!

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 22:20

9 identicon

Ég veit að Bjarni getur alveg varið sig sjálfur.

En það ættu nú allir að sjá sem þekkja Bjarna og skrif hans um fólk á ferðalögum um veröldina að hann er ekki rasisti.

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 22:39

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Hvaða,hvaða, Styrmir,Davíð og allir hinir Sjallarnir hafa nú blátt blóð í æðum,menturðu það ekki vinur??

Helga Kristjánsdóttir, 25.10.2010 kl. 22:48

11 identicon

Heimssýn er heimsksýn og þá er ætíð spurning hvar heimskan í fornri merkingu þess orðs breytist í rembu og hvenær verðar remban að ofsa sem svipar til eða verður að þjóðernissósíalisma öðru nafni nazisma. Menn eins og Bjarni eru staddir á þessari vegferð en hvar?

Barometer (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 23:54

12 identicon

Elías Jón Guðjónsson - Var þetta ekki bara "tussufínt" málþing?

sveinn Sveinsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 00:03

13 identicon

Björg Eva Erlendsdóttir er einn af föstum pennum vefritsins Smugu þar sem hún birtir grein sína. Skoðum hvað Smugan "vefrit um pólitík og mannlíf" segir um sjálfa sig, orðrétt:

Smugan er sjálfstæður vefmiðill, með hjartað á réttum stað. Þar er fjallað um málefni almennings óháð markaðsöflunum. Smuguna varðar mest um velferð, umhverfi, jafnrétti og frið í samfélaginu. Tilgangur Smugunnar er að leggja sitt að mörkum til lýðræðislegrar umræðu með því að veita þeim opinn vettvang sem ekki hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum hingað til. Vefurinn er kostaður af Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og fjölmörgum einstaklingum. Útgáfustjóri: Hlynur Hallsson. Ritstjóri Smugunnar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.

Já, Smugan er með hjartað á réttum stað! Hvaða fregnir hefur Smugan flutt lesendum sínum um málefnafund Vinstri grænna um utanríkismál? Engar, - nema óhróðursgrein Bjargar Evu. Birti Smugan áskorun 100-menninganna um Evrópusambandsmálin? Nei. Kynnti Smugan nöfn einhverra þessara 100 undirskrifenda sem skora á forystu flokksins að standa nú vörð um stefnumiðin? Nei. Þvílíkt efni er ekki á borði lýðræðislegrar umræðu Smugufólks. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir ritstjóri virðist leggja blessun sína yfir það að "fastur penni" Smugunnar ausi óhróðri yfir mann sem leggur áherslu á stefnumið Vinstri grænna um að standa gegn innlimun Íslands í Evrópusambandið. Þessi stefnumið voru staðfest og ítrekuð á málefnafundinum, m.a. af sjálfum formanni flokksins. Hvaða öflum eru þær Smugukonur að þjóna? Greinilega ekki þeim stjórnmálaflokki sem skaffar þeim opinn vettvang "til lýðræðislegrar umræðu".

Ég held það sé kominn tími til að málefni Smugunnar séu tekin til umræðu á vettvangi VG. Hvaða ástæða er fyrir flokkinn og flokksmenn að verja fé til vefmiðils sem snýst gegn opinni og lýðræðislegri umræðu um þá augljósu hagsmuni íslenskrar alþýðu að staðinn sé öflugur vörður um sjálfstæði landsins á viðsjárverðum tímum? Opnum umræðuna og lyftum henni yfir smuguróg og skúmaskotaskrif!

Ragnar Örn Árnason (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 13:52

14 identicon

Ég er aðeins að velta fyrir mér athugasemd Ragnars Örns hér og hvert hann er að fara. Viltu að farið verði að ritskoða Smuguna vegna þess að skoðanir sem þér mislíkar birtist þar?

Agnar Kr. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 14:46

15 identicon

Stundum er furðulegt hvernig fólk getur skynjað sama atburðinn með gjörólíkum hætti. Ég var þátttakandi í umræðum á málefnaþingi VG um helgina og hlýddi þar á panelumræður sem Bjarni Harðarson tók þátt í. Að mínu áliti er það hrapallegur misskilningur, ef ekki vísvitandi rangtúlkun, að halda því fram að Bjarni hafi sagt þar um Heimssýn að „vissulega væri þar ákveðinn hópur sem byggði andstöðu sína við Evrópusambandið á að vilja ekki mæta blámönnum á götu í Reykjavík“, eins og Björg Eva Erlendsdóttir fullyrðir í vefritinu Smugan. Þetta sagði Bjarni alls ekki. Hann sagði að vísu að til væri fólk sem andvígt væri ESB og bæri það fyrir sig að það vildi ekki sjá blámenn á hverju götuhorni. En framsetningin bar þess skýr merki að orðfærið væri tekið úr munni þessa fólks og hann væri síður en svo ánægður með þess háttar málflutningi. Þvert á móti! Það þarf mikla illkvittni í garð Bjarna til að leyfa sér að snúa út úr ummælum hans og kenna þau við „þjóðernisöfgatal“ eins og Björg Eva gerir. Ekki er síður ósvífið að kenna þess háttar viðhorf við Heimssýn, því að málflutningur Heimssýnar hefur aldrei snúist um þjóðerni fólks heldur um fullveldi landsins og þau fullveldisréttindi sem þjóðin afsalar sér til ESB, ef til aðildar kemur, t.d. rétti sínum til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki. Ég hef starfað í Heimssýn frá stofnun fyrir átta árum og hef aldrei heyrt þar nokkurn mann tala af óvirðingu um fólk af öðrum litarhætti. Röksemdir okkar snúast um framsal fullveldisréttinda, auðlindamál og efnahagsmál. Björg Eva á margt ólært ef hún ímyndar sér að Íslendingar séu eina þjóðin sem óttast verulega skerðingu fullveldis síns við ESB-aðild. Bráðum eru fjórir áratugir liðnir síðan Bretar og Danir gengu í ESB og í báðum ríkjum er enn mjög sterk andstaða gegn frekari samrunaþróun; sem sagt þar hefur fólk uppi öflug mótmæli gegn frekari skerðingu fullveldisréttinda. Margsinnis hafa Danir hafnað því í þjóðaratkvæði að taka upp evru og Bretar hafa aldrei léð máls á því. Ástæðan er sú að þessar þjóðir telja það mikilvægan þátt í fullveldi sínu að hafa eigin gjaldmiðil. Satt að segja er nú orðið leitun á fólki sem leyfir sér að afneita því blákalt að ESB-aðild feli í sér skert fullveldi, eins og Björg Eva reynir þó að gera í pistli sínum.                                                                Ragnar Arnalds

Ragnar Arnalds (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 15:35

16 Smámynd: Vendetta

Ég er sammála Ragnari Arnalds. Það sem Bjarni sagði gæti á engan hátt túlkazt sem rasismi, en hins vegar er Björg ekki eini ESB-sinninn sem hefur fallið í þá gryfju að setja stóran hóp mismunandi fólks undir sama hatt. Einn ónefndur bloggari, sem er krati alveg í gegn, hélt því fram, að bara af því að það hefðu verið 2-3 nýnazistar á Austurvelli þegar mest bar á, þá væru allir sem voru staddir þar þann dag líka hálfgerðir nazistar. Því að ef nýnazistar væru á móti ríkisstjórninni, þá hlutu allir aðrir, sem væru á móti henni líka að vera nýnazistar.

Eins og fram hefur komið, þá snýst andstaða við ESB-aðild ekki um aðrar þjóðir og aðrar menningar, heldur um baráttu gegn algjöru framsali fullveldis til embættismanna í Bruxelles. Enda er þessi andstaða þverpólítísk.

Vendetta, 26.10.2010 kl. 15:56

17 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Bjarni skipti um flokk - það hafa fleiri gert - að hann hafi skipt um kyn og/eða orðið rasist - er eitthvað sem hefur farið framhjá mér.

Ekki erum við Bjarni alltaf sammála en að kalla hann rasista er fáránlegt og þeim til skammar sem slíkt gera.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 26.10.2010 kl. 16:02

18 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það sem að mætir íhaldsmenn og gamlir allaballar eiga sameiginlegt er að hafa takmarkaða þolinmæði eða virðingu fyrir lýðræði. Líta á sig sem handhafa hins eina sannleika. Það er með ólíkindum að sjá kaldastríðsöflin sitthvoru megin frá sameinast í Heimssýn. Mætast nú í bandalagi um óttann við ESB.

Þar er mörgu snúið á haus og staglast á því að við munum tapa fullveldinu. En samkvæmt svona hugsunarhætti höfðum við sjálfstæðið í tvö ár. Frá 1944 og þar til við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Eru t.d. samningar um loftslagsmál ekki alþjóðlegar skuldbindingar og fullveldisafsal, sem að Heimssýn ætti að berjast gegn til að vera sjálfri sér samkvæm?

Umræða af þessum toga minnir á málflutning National Rifle Association í Bandaríkjunum. Rétturinn til að bera vopn. Upphafning þess að vera engum háður. Nálgunin er undarleg blanda af barnslegu sakleysi og hroka. Verkefnið sé ekki að stilla saman strengi með öðrum, heldur einungis að passa upp á og verja sína litlu þúfu. En um leið og við eflum íslenskt, þurfum við að efla samstarf þjóða.

Við náum bestum árangri í stærri málum, með samvinnu innan Evrópu. Þessu hafa samstarfsflokkar VG í mörgum löndum gert sér grein fyrir. Óvíða er meiri gróska í umhverfismálum en á vettvangi ESB. Þó samningur um aðild skerði fullveldi sem nemur skuldbindingum, þá tryggir það á vissan hátt stöðu og sjálfstæði einstaklinga í Evrópu.

Ragnar Arnalds nefnir hér nokkrar þjóðir í ESB og telur þær lifa í ótta við að tapa fullveldi sínu. Þarna er þó sleppt því sem vegur þyngst í þessu samhengi. Hvergi hefur myndast meirihluti fyrir því að segja sig úr sambandinu eftir að lönd hafa gerst aðilar. Það segir okkur miklu meira en mörg orð og hræðsluáróður.

Verjum sjálfstæði, réttindi og tækifæri Íslendinga í sameinaðri Evrópu!

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.10.2010 kl. 17:41

19 identicon

Agnar Kr. Þorsteinsson - Þú gerir því skóna að ég kunni að vilja koma á ritskoðun, amk á Smugu. Aðdróttun þín missir marks. Af hverju? Af því að ritstjórn Smugunnar forðast að gera hana að opnum lýðræðislegum vettvangi sem þó að var stefnt í upphafinu. Í staðinn er hossað músarholusjónarmiðum og persónulegu naggi. Það á að afnema núverandi ritskoðun á Smugu vinstri grænna, opna hana og bjóða öllum frjálshuga vinstrisinnum inn. Núverandi Smuga er svo þröng að þar er ekkert rými fyrir fregnir af starfi, hugsunum, viðfangsefnum, hugsjónum vinstri grænna. Hún er ekki fjölmiðill heldur eins konar einmiðill örfárra þröngsýnna einstaklinga sem aðallega mæla við sjálfa sig. Ég tala fyrir því að Smugan sé losuð úr einhverfukrepping þeirri sem nú tröllríður henni. Dæmið frá vikulokunum síðustu er skýrt: Allir fjölmiðlar landsins gerðu málefnaþingi VG málefnaleg skil, og voru svo eftir atvikum með ýmsar útleggingar. En ekki Smugan. Þar var ekkert að sjá um málefnaþingið nema útleggingu Bjargar Evu. Eins og hún var nú víðsýn og málefnaleg. Annað dæmi: Í haust var haldinn aðalfundur flokksfélags vinstri grænna í Reykjavík. Þar gerðust þau tíðindi að ung og skelegg baráttukona var kjörin formaður á afar fjölsóttum fundi. Uppstillingu kjörnefndar var sópað burt. Hvað kunni Smugan frá þessu að segja? Einfalt svar: ekki neitt! - Ég vil að lokum víkja að framlagi tveggja annarra skrifenda hér að ofan. Elías Jón Guðjónsson fer orðum um „upplifun“ sína af orðræðu Bjarna bloggskrifara og sér ástæðu til að bera blak af ónotaskrifum Bjargar Evu. Sveinn Sveinsson minnir Elías Jón Guðjónsson á orð sem hér verður ekki endurtekið af velsæmisástæðum. Orðið féll í tölvuskeyti Elíasar Jóns í sumar þegar hann, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, þurfti að senda manni í hans fyrra starfi, aðstoðarmanni fjármálaráðherra, góð ráð og jafnvel fyrirmæli. Orðið olli að vonum hneykslun hjá mörgum félaganum sem er annt um heiður ráðherra sinna og unir því illa að á þá falli blettur af sóðalegum munnsöfnuði aðstoðarmanna. Þarna hefði hin sómakæra Björg Eva sannarlega haft ástæðu til íhlutunar en ekki nýtti hún sér Smuguvettvang sinn til að vanda um fyrir Elíasi Jóni. Þakkarverð miskunnsemi og því komið að endurgjaldi hjá honum.

Ragnar Örn Árnason (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 21:43

20 identicon

Ragnar,

 ég hef nú fylgst með og skrifað á Smugunni reglulega pistla. Ekki hef ég orðið var við þessa ritskoðun sem þú kvartar undan né að þar hafi ekki verið að birtast pistlar ýmiskonar sem falla að skoðunum þínum varðandi andstöðu við ESB frá þeim Heimssýnarmönnum sem eru til vinstri. Frekar að hafi hallað á þá sem telja að rétt sé að klára þetta og svo fá úr þessu máli endanlega skorið í málflutningi þar eða vinstri manna sem telja að ESB sé ekkert svo slæmt og þess virði að skoða sem valkost.

Svo má benda á það að þetta er fjölmiðill sem rekinn er sem fyrirtæki og þar er ritstjóri við völd sem hefur meira en nóg að gera enda fáliðað. Fáliðað fyrirtæki getur ekki sinnt öllu né skrifað allar fréttir um allt mögulegt líkt og þú ætlast til heldur verður að velja og hafna um hvað er þess virði að birta. Sjálfum finnst mér ekkert að því þó það hafi ekki birst frétt af formannnskjöri í félagi hér í Reykjavík enda var það á öllum fjölmiðlum og hvað málþingið varðar þá má einfaldlega spyrja hvort að fólkið þar hefði ekki átt að gera eins og Björg Eva og skrifa sína sýn á málþinginu eða má hún það ekki fyrst það passar ekki við Heimssýn annarra? 

Til viðbótar má benda á að Smugan er með fáar fréttir um helgar eða varla nokkrar þar sem tja, eins og áður var sagt, er fáliðað og fólk þarf frí. 

Og svo má velta því fyrir sér hvað stjórnmálaflokkur ætti að vera að fjalla um hvað eigi að birtast á fjölmiðli? Er það ekki hættulegt skref? Nægir okkur ekki að horfa á Fréttablaðið undir stjórn eins arms Sjálfstæðisflokksins og svo Morgunblaðið undir stjórn Heimssýnar-arms Sjálfstæðisflokksins og náhirðar Davíðs Oddsonar sem hefur valdið hér hvað mestum hörmungum þjóðarinnar?

Og svo má spyrja, hvað í andskotanum eru vinstri menn að gera upp í bóli með öfgahægrimönnum sem hæða þá og spotta við hvert tækifæri, og láta nota sig til að þjóna hagsmunum kvótagreifa og klíkunnar á bak við verstu kapitalistaklíkurnar innan Sjálfstæðisflokksins? Er vinstrið orðið klikk að hórast svona fyrir hægrið eins og Steinríkur myndi orða það?

Agnar Kr. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 22:36

21 identicon

Eitt enn, það birtist frétt af formannskjörinu í Reykjavík á Smugunni. Getur m.a. séð það hér, Ragnar:

http://www.smugan.is/forsidugreinar/2010/9

Agnar Kr. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 23:07

22 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Bjarni er of rólyndur til að láta píkuskræki, jafnvel þó þeir komu úr smugu á sjálfan kvennafrídaginn, raska ró sinni, hvað þá að láta þá halda fyrir sér vöku.

Sigurður Þórðarson, 27.10.2010 kl. 09:28

23 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þar er mörgu snúið á haus og staglast á því að við munum tapa fullveldinu. En samkvæmt svona hugsunarhætti höfðum við sjálfstæðið í tvö ár. Frá 1944 og þar til við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Eru t.d. samningar um loftslagsmál ekki alþjóðlegar skuldbindingar og fullveldisafsal, sem að Heimssýn ætti að berjast gegn til að vera sjálfri sér samkvæm?

Munurinn á þessu og ESB er sá að við getum sagt nei við þeim lögum sem við fáum send núna frá hinum ýmsu félögum sem við erum í samvinnu við, það gæti kostað það að við þurfum að segja upp þeirri samvinnu en við getum ákveðið það sjálf, ESB innlimun er ekki eins, þar fáum við lögin beint af færibandinu og eru þau orðin virk hjá okkur áður en við fáum þau send til að lesa yfir þau (ekki það að það skipti nokkru máli hvort við fáum þau send eða ekki því við getum ekkert við þau gert annað en að fara eftir þeim).

Löggjafarvald verður flutt til brussel ef við innlimumst í ESB, eins og staðan er núna þrátt fyrir EES, SÞ og önnur samtök þá er löggjafarvaldið en á Íslandi. 

Merkileg árátta hjá ESB sinnum að halda því fram að ekki sé hægt að vinna með evrópu löndum án þess að innlimast inn í evrópu, ESB er um 8% af jörðinni fólksfjöldalega séð, afhverju eigum við að loka okkur inni með þessum 8% í staðin fyrir að vera opin fyrir 100% með því að standa utan ESB.

Við náum bestum árangri í stærri málum, með samvinnu innan Evrópu. Þessu hafa samstarfsflokkar VG í mörgum löndum gert sér grein fyrir. Óvíða er meiri gróska í umhverfismálum en á vettvangi ESB. Þó samningur um aðild skerði fullveldi sem nemur skuldbindingum, þá tryggir það á vissan hátt stöðu og sjálfstæði einstaklinga í Evrópu.

Að halda því fram að við komum til með að hafa einhver áhrif á hluti sem skipta máli fyrir Ísland er brandari, innan ESB höfum við 0.06% áhrif eða eitthvað álíka, hvernig er það betra fyrir Ísland að hafa engin áhrif á sín eigin mál?

Halldór Björgvin Jóhannsson, 27.10.2010 kl. 10:21

24 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það hefur verið mín skoðun um allnokkuð skeið að Norðurlöndin þurfi að stilla sig inn á ríkjabandalag sem kemur sem eining inn í starf ESB með álíka vægi og stærri löndin. Þannig tryggjum við eðlilega lagskiptingu valds (Norðurlandaráð gegnir hlutverki sem millistig milli ríkisstjórnar og ESB).

Varðandi fullyrðingu að með ESB "þar fáum við lögin beint af færibandinu" og "Löggjafarvald verður flutt til brussel ef við innlimumst í ESB" þá er þetta hræðsluáróður. Við tökum núna við flestum þessum lögum án nokkurra áhrifa  eða aðkomu í gegnum EES samningnum.

Það sem meira er að þetta er í flestum tilfellum lagasetning sem að er til heilla fyrir alla íbúa álfunnar enda finnast ekki dæmi um óánægju með lagasetningu frá ESB nema nokkrir ofuríslenskir trukkabílstjórar töldu sig frábrugðna öðrum kollegum í álfunni að þeir gætu keyrt sína bíla daga og nætur án hvíldar og án þess að ógna öðrum í umferðinni.

Baldur Þórhallsson hefur bent á að það er vart hægt að finna dæmi um það hjá ESB að ákvarðanir hafi verið teknar með því að keyra í gegn meirihluta atkvæðagreiðslur. Slík lagasetning sem að er látin gilda í öllum aðildarríkjum þarf að njóta velvildar fulltrúa allra ríkja til að ná fram.

Hugsið ykkur allar þessar þjóðir sem að hafa glaðar gengið til samstarfsins. Vita greinilega ekki að þær eru búnar að "innlimast". Glata sjálfstæði sínu og fullveldi. Nei, við höfum ekkert að óttast í samskiptum við þessar þjóðir. Ekki nema óttast það að festast í óttanum. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.10.2010 kl. 21:34

25 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ef Gunnlaugur heldur að innganga í Evrópusambandið, sem hefur í dag meiri eða minni völd yfir flestum og sífellt fleiri málaflokkum ríkja sambandsins, sé sambærileg við veru í Sameinuðu þjóðunum eða hverju öðru alþjóðlegu samstarfi sem við eigum aðild að þá ætti hann að kynna sér alþjóðamál talsvert betur.

Evrópusambandið er á mörkum þess að verða að einu ríki og út frá alþjóðlegum skilgreiningum, s.s. Montevideo ráðstefnunni frá 1933 og Badinter nefnd Evrópubandalagsins frá 1991, má færa rök fyrir því að því takmarki hafi þegar verið náð. Það er hins vegar æði langt í það að Sameinuðu þjóðirnar verði að einu ríki eða þá NATO svo dæmi séu tekin.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.10.2010 kl. 22:03

26 Smámynd: Vendetta

"Baldur Þórhallsson hefur bent á að það er vart hægt að finna dæmi um það hjá ESB að ákvarðanir hafi verið teknar með því að keyra í gegn meirihluta atkvæðagreiðslur."

Skv. reglugerðum og sáttmálum sambandsins eru í langflestum tilfellum ákvarðanir teknar með meirihluta-atkvæðagreiðslu (qualified majority). Búið er svo til að afnema neitunarvald einstakra ríkja, sem þau höfðu í EBE.

Vendetta, 27.10.2010 kl. 22:07

27 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það mætti annars hafa langa tölu um ummæli Gunnlaugs hér að ofan, en tökum eitt dæmi. Ef það væri nú rétt að vart sé hægt "að finna dæmi um það hjá ESB að ákvarðanir hafi verið teknar með því að keyra í gegn meirihluta atkvæðagreiðslur. Slík lagasetning sem að er látin gilda í öllum aðildarríkjum þarf að njóta velvildar fulltrúa allra ríkja til að ná fram." Hvers vegna hefur þá einróma samþykki verið afnumið í svo mörgum málaflokkum innan Evrópusambandsins á liðnum árum og aukinn meirihluti tekinn upp í staðinn til þess að auðvelda ákvarðanatöku eins og það er kallað að einróma samþykki telst í dag til algerra undantekninga??

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.10.2010 kl. 22:07

28 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Svo má geta þess til gamans í tilefni af athugasemdum Gunnlaugs hér að ofan að nýlega var t.d. birt skoðanakönnun í Bretlandi sem sýndi að meirihluti Breta vildi ganga úr Evrópusambandinu. Væntanlega vegna þess að það er svo æðislegt að vera þar, ekki satt?

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.10.2010 kl. 22:10

29 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Og að lokum, heildarlöggjöf Evrópusambandsins er í dag hátt í 100.000 gerðir af ýmsu tagi. Á Íslandi eru í gildi 5.000 lagagerðir, þar af um þúsund lög og um fjögur þúsund reglugerðir. Tal um að við höfum þegar tekið upp flest lög sambandsins gengur ekki upp enda hefur sú fullyrðing aldrei verið studd haldbærum rökum.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.10.2010 kl. 22:13

30 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

En ef að hreinmeyjarstefnan um sjálfstæði og fullveldi á að standast þá þurfum við að segja okkur frá Kýótósamkomulaginu í loftslagsmálum, segja okkur úr NATÓ (margir vinstrimenn töldu aðildina að NATÓ móðgun við fullveldið og föðurlandið) og síðast en ekki síst að segja okkur frá EES.

Auk þess eru útgerðarforkólfarnir búnir að selja undan okkur allt sjálfstæði með skuldsetningu í sjávarútvegi með því að veðsetja okkar sameiginlegu auðlindir hjá Deutshe Bank. Sennilega af því að þeir trúðu Hólmsteinskunni líkt og Hjörtur J og Davíð Oddsson, að verið væri að búa til peninga úr engu.

Það er ekki nema von að Björg Eva brýni vinstrimenn til að standa í lappirnar og hafna samstarfi við slíka landráðamenn.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.10.2010 kl. 22:28

31 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það er þekkt staðreynd að þátttaka í alþjóðlegu samstarfi geti haft í för með sér takmarkaða skerðingu á fullveldi. En Evrópusambandið felur hins vegar í sér í bezta falli takmarkað fullveldi fyrir ríki sambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson, 27.10.2010 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband