Jón þumlungur og þjóðlenduréttlætið

Séra Jón Magnússon prestur á Eyri í Skutulsfirði varð fyrir ásókn galdramanna fyrir nokkrum mannsöldrum og fékk þá dæmda á bál. Eigur þeirra, 10 jarðarhundruð, runnu til klerks.

Þetta þótti ekki nema sanngjarnt á þeirri öld þegar heimurinn trúði sterkt á makt djöfulsins og raunar vildi Jón kallinn þumlungur meira.

Bændahöfðinginn Birkir Friðbertsson rifjaði þessa sögu upp á nýlegum stofnfundi Landssamtaka landeigenda og líkti þar eignaupptöku klerksins við hervirki þjóðlendumála nú. Og ég er honum sammála þar og vil halda aðeins áfram með samlíkinguna. Birkir benti á að í stað þess að kaupa lönd af bændum eða taka eignarnámi við verði færi ríkið nú þá leið að dæma löndin af þeim. Rétt eins og Jón þumlungur gerði á sinni tíð.

kveisubladÞað tilheyrir þeirri mildun sem orðið hefur á aldarandanum að enginn nennir nú að horfa upp á bændur brennda á báli og því er slíku sleppt.  

 

 

Pappírstrúin...

En annars hefur ekkert breyst því allt þjóðlendumálið vitnar um trúarbrögð samtímans. Rétt eins og skynsamir og menntaðir 17. aldar menn og stofnanir þeirra höfðu vissu fyrir göldrum lifum við líka í ákveðinni vissu. Samtíminn byggir algerlega á því að ekkert er til nema til sé bréf upp á það! Lönd eru dæmd af bændum af því að þá vantar skjalfesta samninga til stuðnings landamerkjabréfum. Þó svo að hvergi hafi komið fram efasemdir fyrr um réttmæti landamerkjanna og ekkert í samtímanum sem kalli á slíkar efasemdir. Annað dæmi um þessa blindu bréfatrú eru Landnámufræði þjóðlendumálanna. Bændur sem geta bent á Landnámu máli sínu til stuðnings teljast yfirleitt hólpnir. 100 ára landamerkjabréf sem ekki styðjast við Landnámu eru sum léttvæg fundin þó enginn hafi leitt efa að þeim fyrri. Landamerki aftan úr pappírslausu samfélagi eru ekki virt viðlits þó allir viti að þau eru rétt.  

 

 

...og réttlætið

Illt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti,- lætur Laxnes delikventa 17. aldar segja smáða og hrakta undir torfvegg á Alþingi. Í þjóðlenduréttlætinu hefur auk þess að spyrja um pappíra verið spurt um réttlæti í breiðu sögulegu samhengi.

Þannig komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að fjalllendi á Hellisheiði skyldi vera þjóðlenda því ekkert réttlæti hefði verið í því hjá Ingólfi Arnarsyni að taka sér svo stórt land til eignar. Hæstiréttur er hérna á mjög hálli braut að ætla að draga fram réttlæti sögunnar.

Eða hvernig skyldi hafa reitt af þeim 10 jarðarhundruðum sem Jón þumlungur eignaðist eftir að hafa brennt til dauðs eigendur þeirra. Flestir nútímamenn munu sammála um að þar hafi farið fram óréttlætanlegt níðingsverk og réttarmorð sem byggði á hindurvitnum og geðveiki. En jarðarhundruðin skiptu engu að síður um hendur og eignarhald á þeim í dag er grundvallað á þessari grimmdarlegu eignaupptöku.

Sjálfur á ég til þeirra manna að telja sem boðnir voru upp á hreppsþingum og sviptir bæði eignum og mannréttindum fyrir litlar sem engar sakir. En það að draga slíkt og annað óréttlæti fyrri tíðar fram sem eigna- eða fjárkröfu í nútímanum er litlu minni bilun en galdraþrugl Eyrarklerks þess sem kallaður var Þumlungur.

(Áður birt í Sunnlenska en Sigríður Laufey Einarsdóttir hefur nú skrifað á sömu nótum og snilldarlegum rökum í bloggi við síðustu þjóðlendugrein,- takk fyrir það. Myndin í greininni er af kveisublaði frá vestfirsku galdraillþýði,- sjá www.http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/viskubrunnur/m_jon-thumlungur.htm)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já hún er óskiljanleg þessi afstaða ríkisins að taka jarðir af eigendum þeirra þó þeir séu með séu þinglýst landamerkjabréf, kaupsamninga og afsöl, oft meira en 100 ára gömul sem enginn hefur nokkru sinni mótmælt. Ríkið krefst þess að núverandi jarðareigendur geti sannað mörk jarða sinna með óslitnum heimildum frá landnámi.  Hæstiréttur virðist líta þannig á að ef einhverntíman í íslandssögunni, einhver hefur stækkað jörð sína eða selt öðrum jörð án þess að hafa rétt á því, þá skuli eignin vera tekin af núverandi eiganda án bóta. Og meira að segja þarf núverandi eigandi að geta sannað að þetta hafi aldrei átt sér stað, hann er ekki látin njóta vafans. Einhver lögmaður sagði í útvarpinu um daginn að þarna væri verið að beita þeirri meginreglu að enginn mætti selja það sem hann ætti ekki.  Það er svo sem góð og gild regla, en ef sá glæpur kemst ekki upp fyrr en mörgum mannsöldrum síðar, er þá sanngjarnt að láta það bitna bótalaust á þeim sem á viðkomandi eign í dag. Segjum að ég kaupi mér hús í Reykjavík og svo komi í ljós að fyrir 50 árum seldi einhver maður öðrum manni þetta hús án þess að eiga það (t.d. með því að falsa erðaskrá). Kaupandinn og seljandinn eru báðir dauðir núna og húsið búið að ganga kaupum og sölum nokkrum sinnum.  En þá kemur fjármálaráðuneytið, gerir húsið upptækt og hendir mér út á götu....

steinisv (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 13:07

2 identicon

Sæll og blessaður Bjarni !

Mátti til,, aldrei fæ ég nógsamlega þakkað þeim, sem muna, og vilja muna Síra Jón þumlung, þykist vita, að þú hafir séð hina ágætu mynd snillingsins Hrafns Gunnlaugssonar á dögunum ''Myrkrahöfðingjann''; í ríkissjónvarpinu. 

Get ekki að því gert, Bjarni, þegar glotti þeirra skúma, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Jóns Sigurðssonar, flokkforingja þíns, bregður fyrir í fjölmiðlum, þá allt í einu kemur sonur prestsekkjunnar Jóns þumlungs, átvaglið og stórskyttan Snorri upp í huga mér; þeir Hannes og Jón álíka aumkunarverðir í þvaðri sínu og útúrsnúningum, líkt og Snorri, fóstri Síra Jóns, í meðferð skotvopna; af 17. aldar tækni. 

Takið nú á ykkur rögg, Bjarni! fleygjið Jóni Sigurðssyni út af lest ykkar, eða......... endurreisið Bændaflokkinn að nýju, OG HÆTTIÐ AÐ SPÁ Í, HVAÐ ÞÉTTBÝLISBÚUNUM VIÐ MIÐBIK FAXAFLÓANS þætti um það þjóðþrifaverk,svona Bjarni;; drífið í þessu, sem allra fyrst !!! 

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 23:54

3 identicon

Já, sem laganemi hef ég neyðst til að lesa nokkra Þjóðlendudóma Hæstaréttar og úrskurði Óbyggðanefndar líka um hvað teljist þjóðlenda og hvað ekki...og ég verð að segja að ég er afar hneykslaður á framgangi ríkisins í þessum málum.  Það er fáránlegt að vera að neyða bændur út í dýr og tímafrek dómsmál til að þeir geti haldið sínum löndum.  En einhver þessara mála eru nú komin í biðröð í Strasbourg þar sem Mannréttindadómstóllinn mun vonandi taka þau til meðferðar skilst mér á kennaranum mínum...Það verður mjög spennandi að sjá hvernig það kemur út.

Ég er á því að andstaða við þjóðlendukröfur fjármálaráðherra eigi að vera aðalkosningamál Framsóknar.

Máni (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband