Mennt er máttur - Framsóknarleg framtíðarsýn IV

Það eru 300 milljón konur í Kína. En það er ekki nóg að sjá, maður verður að fá. Þessi óborganalega setning var höfð eftir Árnesingnum Gvendi eilífa og það fyrir löngu síðan sem sést á því hvað konur voru þá fáar austur þar. En í þessum grínaktugu ummælum er fólgin sú viska að ekki er nóg að eitthvað sé möguleiki, við verðum að gera möguleikann að veruleika. Á Bifröst í Borgarfirði er rekinn Háskóli og við hann kenna menn búsettir um heim allan og nemendur sitja vítt breitt líka. Allt er þetta háhraðanettengingum að þakka. Þær hafa gefið þessa möguleika þar. Við sem áhuga höfum á byggðamálum í landinu höfum lengi vitað að hraðar og góðar tölvutengingar gefa mikla möguleika en samt er því fjarri að þær nái til alls landsins. Miðað við annan kostnað í samgöngum eru þær þó alls ekki dýrar. En það er ekki nóg að stjórnmálamenn hafi vilja til að koma þeim á. Það þarf athafnir.Raunar er alls ekki víst að nettengingar sem þessar þurfi að vera okkur kostnaður. Þær geta hreinlega verið ábatasamur atvinnuvegur. Víða um heim byggjast nú upp svokallaðir netþjónabúgarðar þar sem stórfyrirtækjum í fjarskanum er þjónað með hjálp loftneta og gervitungla. Það margt í okkar aðstæðum sem kallar á að við getum átt hér möguleika. Hér er örugg raforka, griðastaður fyrir margskonar óstöðugleika og hryðjuverkaógn, jafnframt því að landið býr að vel menntuðu vinnuafli. Það er ekki nóg að þjóðin láti sig dreyma um framfarir sem þessar, stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að taka höndum saman í nýrri markaðssetningu íslenskra orkulinda. Samfara því að byggja upp netbúgarða út um landið gætum við hraðað til muna allsherjar háhraðatengingu alls landsins. Slík tenging myndi ekki aðeins auðvelda okkur tölvunördunum að skrifa bloggið okkar og lesa Moggavefinn heldur einnig stórauka alla námsmöguleika í landinu. Það er alls ekki svo að nokkurntíma verði ofgnótt af menntun. Við þurfum sem aldrei fyrr á því að halda að opna fyrir menntunarmöguleika allrar þjóðarinnar. Því meiri menntun, því meiri velsæld. Þó ekki sé af öðru en því að menntunin ein sér skilar fólki ánægjulegra og innihaldsríkara lífi. Framfarir, nýjungar, tækni og hagvöxtur eru líka allt hlutir sem eru samofnir því að í landinu búi menntuð þjóð. Þar gildir spakmæli Gvendar eilífa. Það er ekki nóg að sjá, maður verður að fá!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband