Vér landlausir og þjóðlendufarsinn

Þjóðlendulög voru samþykkt árið 1998 og síðan þá hefur samfélagið kostað til hundruðum milljóna í flókin og erfið réttarhöld um eignarhald á landi á Íslandi. Einsdæmi mun vera í vestrænu lýðræðisríki að gengið sé með þessum hætti skipulega fram í þjóðnýtingu og véfengingu eignarréttar.

Ófarnaður rangsælis um landið

Í ferlinu hefur ríkinu tekist að vinna til sín að nýju lönd sem það hafði áður selt bændum og sveitarfélögum. Landeigendur hafa í réttarkerfinu verið sett skör lægra en almennir sakamenn þar sem sönnunarbyrðin hefur að jöfnu verið lögð á þá eins og ríki en í refsirétti er venja að sönnunarbyrði fyrir sekt sé alfarið ákæruvaldsins.

Þingmenn allra flokka hafa lýst því yfir að þeir telji framkvæmd laganna ekki í nokkru samræmi við það sem þeir bjuggust og alls ekki ásættanlega. Engu að síður hefur verið haldið áfram. Ófarnaður þessi hefur farið rangsælis um landið og eina breytingin sem verður við hvert nýtt svæði er aukin óbilgirni, aukin harka og óskiljanlegri niðurstöður. Þá hafa fjárveitingar til málefnisins farið hækkandi ár frá ári og ekki óvarlegt að ætla að allur kostnaður samfélagsins vegna þessa slagi nú í heilan milljarð en upphaflega var gert ráð fyrir nokkrum milljónum á ári hverju.

Í ljósi alls þessa er undarlegt að lög þessi skuli ekki hafa verið tekin til endurskoðunar og alger forgangskrafa að það verði gert sem allra fyrst. Fjármálaráðherra hefur í nokkru viðurkennt vandann og boðað mildari aðgerðir innan núverandi lagaramma. Í þeim tillögum er þó ekkert sem að haldi getur komið.

Stjórnvöld sem egna til ófriðar

Þeir menn eru til sem halda að flan þetta sé til hagsbóta fyrir okkur meirihluta landsmanna sem ekkert land eigum. Ekkert er fjær sanni.

Vér landlausir verðum það jafnt sem áður þó svo að ríkið skelli hrammi síns eignarhalds yfir. Fólk sem gengur með grillur um að ríkiseign sé eign þjóðarinnar hefur að líkindum lesið yfir sig af Maó Tsetung eða öðrum óhroða pólitískra bókmennta.

Það er aftur á móti okkur öllum borgurum þessa lands, bæði landeigendum og landlausum, áhyggjuefni þegar ríkisvaldið virðir ekki ágreiningslaust eignarhald manna á þinglýstum eignum. Í sumum tilvikum eignir sem sama ríki eða forveri þess í Kaupmannahöfn seldi íslenskri alþýðu.

Það skilur raunar milli þeirra landa þar sem ríkir hagvöxtur og velsæld og hinna þar sem það gerir það ekki að mannréttindi eru þar yfirleitt í góðu fari. Grundvallaratriði þessara mannréttinda og kannski það mikilvægasta fyrir viðgang hagkerfisins er virðing fyrir eignarrétti og vilji stjórnvalda til að halda frið við þegna sína.

Það er vissulega svo um allt eignarhald og yfirleitt öll réttindi manna að þau má draga í efa. Sjálfur lúri ég miklu af margskonar lausafé sem ég get engan veginn fært sönnur á að ég eigi með réttu. Sama gildir til dæmis um lóðaréttindi í þéttbýliskjörnum landsins, þau eru mörg harla óviss. Forverum okkar á þessum lóðum var bent á að byggja hér eða þar og fengu að stika út skika af ekki mikilli nákvæmni. Ef menn vilja þá gætu þeir fyrirskipað öllum lóðareigendum að láta reyna á sín í milli með blóðugum málaferlum og leiðindum hvar hin rétta lína er. En það hefði engan tilgang.

Líkt er með þjóðlendurnar. Úrskurður sem kveðinn er upp í dag um eignarhald á einstökum fjallatindum hefur engan tilgang fyrir framtíðina. Áfram er nytjaréttur óljós og margskiptur og líklegt að ef til þess kæmi að eitthvað þyrfti nytja á íslenskum eyðisandi þá gæfist bæði bónda og ríki rök til þess að höfða mál að nýju miðað við nýjar forsendur. Og það er mikilvægt hlutverk dómstóla að skera úr um vafamál þegar ágreiningur rís. En það er jafn fráleitt að etja dómstólum í þarflausan málaþvætting.

Það fylgir svo hraða þessara mála og mikilli yfirferð að mjög víða í úrskurðum Óbyggðanefndar gætir misskilnings í örnefnanotkun, flaustri í landlýsingum og misskilningi í lestri fornra heimilda að það eitt mun vafalaust duga til að dómstólar barna okkar munu líta á þjóðlendumálið allt sem farsa en ekki hluta af marktækum gögnum.

Hagsmunir okkar landlausra

Fyrir utan að eiga lóð á Selfossi er ég einn hinna landlausu Íslendinga. Og við erum í miklum meirihluta þó að það færist vissulega í vöxt að ríkir þéttbýlisbúar kaupi sér jarðir. Og við landlausir eigum svo sannarlega hagsmuni gagnvart landinu sem skerpa þarf á.

Í dag er staðan sú að fjölmargir landeigendur leyfa sér að loka fyrir umferð almennings um lönd sín. Gamlar þjóðleiðir eru eyðilagðar, klofa þarf yfir rafmagnsgirðingar til að ganga á þekkta fjallatoppa og árbakkar eru eyðilagðir með óbrúðum framræsluskurðum. Merkir sögustaðir eru afgirtir og eina merking þeirra er nöturlegt skilti þar sem á stendur: Allur aðgangur bannaður. Svo kuldalegar kveðjur til útivistarfólks og ferðalanga eru alls ekki algild regla en alltof algengar. Þetta sést á löndum bæði heimamanna og burtfluttra, nýríkra jarðeigenda og þetta sést meira að segja í löndum sem eru í eigu ríkisins og stofnana þess.

Þeim milljarði sem eytt er í þjóðlendumálin hefði mikið betur verið varið í að skýra og skilgreina þau hagsmunamál sem hér eru nefnd. Þá vantar enn gríðarlega mikið á að fyrir liggi skilgreiningar á því hvaða slóðar í óræktarlandi á Íslandi eru heimilir vélknúnum ökutækjum og hverjir þeirra eru það ekki. Meðan mokað er hundruðum milljóna í þjóðlendumál fást örfáir þúsund kallar til þess að koma upp stígum og bæta aðgengi á vinsælum stöðum. Svo mætti lengi telja hin raunverulegu hagsmunamál okkar landleysingjanna.

Staldrað við!

Því er þráfaldlega haldið fram í þjóðlenduumræðu að ekki sé hægt að stöðva málið þar sem með því yrði ekki gætt jafnræðis gagnvart öllum landsmönnum. Með sömu rökum mætti rökstyðja að í raun og veru megi aldrei breyta lögum. Og ef nú fjármálaráðherra væri alvara með það að breyta allt í einu vinnulagi við þjóðlendur þannig að mildilegar sé farið að Húnvetningum en Árnesingum er fyrst um að ræða jafnræðisbrot þar sem lögin væru þau sömu en framkvæmdin ólík.

"Það er ekki hægt að snúa við í miðri á," sagði einn talsmanna þjóðlendumálsins við mig um daginn en vitaskuld eru þjóðlendumálið fúafen en ekki á og algengt með menn sem lenda í slíkum pyttum að þeir snúi til sama lands.

Jafnvel þó fallist sé á þau sjónarmið að skilgreina þurfi fyrir framtíðina hvaða lönd tilheyra ríki og hvaða lönd tilheyra öðrum lögaðilum geta allir málsaðilar fallist á að litlu skiptir hvort úrlausn þessa máls lýkir árinu fyrr eða seinna. Framsóknarmenn hafa nú lagt fram hlutlausa tillögu um að lögin verði tekin til endurskoðunar. Á meðan sú endurskoðun fari fram verði staldrað við og ekki lýst frekari kröfum af hálfu ríkisins.

Hér er ekki slegið föstu hver niðurstaðan yrði úr slíkri endurskoðun. Ef þetta er einhverskonar stríð milli landlausra Íslendinga og landeigendaaðals ætti endurskoðun málsins að vera áhættulaus svo lítil sem ítök bænda og annarra landeigenda er í löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

En ef að það er svo að þjóðlendulögin séu sá óskapnaður að þau standist engan vegin vandaða skoðun lögfræðinga og annarra sérfræðinga þá er ekki óeðlilegt að forstokkaðir þjóðnýtingarmenn, makráðir lögfræðingar og yfirgangssamir stjórnherrar standi nú saman um að ekki megi einu sinni líta upp í verkinu miðju.

(Grein þessi hefur ekki birst á prenti en efni hennar var hlutað niður í tvær smærri greinar sem birst hafa í Blaðinu í Reykjavík.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein og orð i tima töluð/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 15.3.2007 kl. 14:25

2 Smámynd: Ólafur Þröstur Stefánsson

Áfram Bjarni. Góðar greinar um þessi mál. Hvernig er hægt að koma þessari umræðu í fjölmiðla? Þeir virðast eingan áhuga hafa.

kveðja, landlaus Mývetningur. 

Ólafur Þröstur Stefánsson, 15.3.2007 kl. 19:30

3 identicon

Þess má svo líka geta að upphaflega voru þjóðlendulög sett í þeim tilgangi að skapa vissu um eignarréttindi manna yfir landi en það hafa þau ekki gert.  Bændur hafa þvert á móti þurft að þola mikla óvissu um hvar landamæri þeirra eigin lóða liggja sem aftur veldur þeim fjárhagslegu tjóni, t.d. er mjög erfitt að veðsetja eða selja lóð sem hefur ekki ljós landamæri.  

Það má svo líka benda á að fyrst gerði fjármálaráðherra sína kröfugerð, svo minnkaði óbyggðanefnd þjóðlendukröfur ráðherrans mjög mikið en engu að síður hefur hellingur af bændum þurft að fara með sín mál fyrir almenna dómstóla.  Þ.e. ráðherrann var upphaflega ennþá frekari en endanlegar kröfur hans sögðu til um.

Mikið vona ég að bændur vinni sín þjóðlendumál fyrir Mannréttindadómstólnum. 

Máni frændi (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 20:17

4 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Góð grein. Þessu verður að halda á lofti og vinna að áfram.

Ragnar Bjarnason, 15.3.2007 kl. 21:27

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já en kæri Bjarni voru ekki Framsóknarmenn í stjórn 1998?

Annars er ég þér nokkuð sammála og auðvitað eiga bændur meiri eignarrétt í gegnum sögu Íslands en Ríkið og þannig á það að vera! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.3.2007 kl. 00:38

6 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Góð grein og það er óskandi að þú farir með þetta mál inná alþingi þegar þú ert kominn þangað.

það er hrein skömm að því hvernig ríkið hagar sér í þessu máli, og þingmenn þykjast enga ábyrgð bera því lögin séu með öðrum hætti en þeir höfðu hugsað sér í upphafi.

Í kjölfarið sitja landeigendur (í flestum tilfellum bændur) eftir með sárt ennið og tómar skuldir eftir kostnaðarsöm réttarhöld og lögfræðikostnað.

Guðmundur Örn Jónsson, 16.3.2007 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband