Mótvægi við íhaldið - eða hvað?

Samfylkingin er aðeins að skríða upp á við og einhvernveginn þykir mér ekkert ósennileg niðurstaða að þeir eigi í kosningunum eftir að halda þeirri stöðu sinni að vera næststærsti flokkurinn. Eiginlega sennilegra heldur en það að Vinstri grænir haldi sínu flugi vikum saman.

videy

Draumur Samfylkingarinnar hefur einmitt verið að mynda sterkt mótvægi við íhaldið í landinu. Mynda hinn turninn í pólitíkinni, eða hvað? Þetta kvað mjög við í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum og raunar lengur. En nú kveður við annan tón. Samfylkingin gætir sín endalaust á að styggja ekki stóra bróður, Sjálfstæðisflokkinn. Hann er helst ekki nefndur á nafn og alls ekki að til standi að klekkja á honum.

Ástæðan er einföld. Draumur Samfylkingarinnar er ekki lengur mótvægi við íhaldið,- heldur samstarf við það. Samfylkingin sem átti eins og nafnið bendir til að fylkja saman vinstri mönnum hefur nú áhuga á öllu öðru en því að mynda í landinu vinstri stjórn. Þetta eru frekar dapurleg örlög að flokkur þessi eigi sér nú þann draum helstan að viðhalda og framlengja 16 ára valdatíma íhaldsins með nýrri Viðeyjarskottu.

Obbobobb... kann einhver að segja. Hvað er Framsókn að rífa sig! Hafandi verið í stjórn með íhaldinu í meira en áratug! Hér er þó ólíku saman að jafna. Það hefur aldrei verið hugsjónamál Framsóknar að starfa bara til vinstri til þess erum við of skynsamir. Markmið Framsóknar er að viðhalda skynsamlegri og farsælli landsstjórn. Þar hefur margt tekist mjög vel í 12 ára samstjórn með Sjálfstæðisflokki þó óneitanlega séu þar hnökrar á.

Sjálfur óttast ég mjög um hag landsbyggðar og landbúnaðar undir samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks,- að ég tali nú ekki um það hvað staðan í Evrópumálum verður þá ótrygg því þar er ekki bara að íhaldið geti snúist á einni nóttu,- það er eiginlega víst að það mun gera það. Við vitum bara ekki hvaða nótt það verður...

Framsóknarflokkurinn er vitaskuld vinstri flokkur og það sem meira er. Sterk staða hans er alger forsenda þess að hægt sé að mynda ábyrga vinstri stjórn í landinu. Þetta veit Ingibjörg Sólrún og biðlar því sterkt til íhaldsins þessa dagana.

En þetta er nú nógu þungmelt í morgunsárið. Nú leggjum við Guðni í austurveg, höldum fund í Golfskálanum á Strönd á Rangárvöllum í kvöld og verðum svo við opnun kosningaskrifstofu á Höfn á morgun...

(Þessa fallegu mynd af Viðey fann ég á vef Hagaskóla en það var þarna sem síðasta samstjórn krata og íhalds varð til og hefur af því verið kölluð Viðeyjarskotta. Sú stjórn varð ekki farsæl og varla einu sinni fyndin.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Kosnningarnar í ár munu ekki síst snúast um það  hvort 101 R.vík, með þjóðnýtingaröflin þar í fyrirrúmi, tekst að  ná undir sig landsstjórninni, með tilheyrandi þjóðnýtingu, Ríkisvæðingu, sjávarútvegsins og eyðingu landsbyggðar, Ríkiseignaupptöku á löndum bænda, stoppobobb bíðum nú við, stefnu í atvinnuuppbyggingu í suðurkjördæmi, allt frá Stafnesi í vestri að Hvalnesi í austri, ég ætla rétt að vona að þú Bjarni hafnir slíkri stefnu og náir að koma því til kjósenda að svo sé.

Sigurgeir Jónsson, 20.4.2007 kl. 10:37

2 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Samfylkingin er ekki eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem biðlar til Sjálfstæðisflokksins. VG hafa frá upphafi kosningabaráttunnar kysst bláu höndina sem ákafast. Enda er staðan nú þannig að þeim er farið að fatast flugið þar sem einhverjir í þeirra herbúðum eru farnir að sjá í gegn um "málefnin". Það er allt að því kátbroslegt að sjá forystumenn Samfylkingarinnar og VG hamra á Framsóknarflokknum sem einhverskonar höfuðandstæðings en láta Sjálfstæðisflokkinn vera á meðan. Enda má segja að góð staða Sjálfstækisflokksins sé fyrst og fremst Samfylkingunni og VG að þakka.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 20.4.2007 kl. 15:13

3 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Gangi ykkur Guðna vel í Austurvegi.

Skilaðu til Guðna með kveðju að ég trúi ekki að hann hopi fyrir misvísandi skoðanakonnunum. Enn þá síður að hann skjóti sér undan merkjum eftir kosningar ef stjórnin fær meirihluta.

Hann má ekki gleyma að hann er í kjördæmi Gunnars á Híðarenda og Hallgerðar ekki má gleyma henni!

Hallgerður hefði varla hopað fyrir Kaffibandlaginu.

Með kveðju.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 20.4.2007 kl. 16:29

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég er e.t.v. dálítið undarlegur í pólitík - að því leyti að ég er yfirleitt ekki svo mjög á móti flokkum eða framboðum, heldur misjafnlega mikið hlynntur þeim. Ekki mun ég kjósa Framsóknarflokkinn, enda get ég aðeins kosið eitt framboð, en ég óska þess samt af heilum hug að Framsókn vaxi ásmegin fram að kosningum, líkt og segja má að reglan hafi verið á lokasprettinum á síðari árum. Þig þekki ég nánast ekkert, ágæti Bjarni, en ég þekki svolítið minn gamla skólabróður og samstúdent Jón Sigurðsson. Engum manni í forystusveit íslenskra stjórnmála um þessar mundir treysti ég betur en honum, þessum hógværa, góðviljaða, samviskusama, trausta og afburðagáfaða manni.

Hlynur Þór Magnússon, 20.4.2007 kl. 18:26

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Obbobboobbb hvaða rugl er hér í gangi, nú hefurðu tekið einhvern andskotan með morgunkaffinu Bjarni, þú værir vís með að fara ranglega með höfuðáttirnar núna....????

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.4.2007 kl. 21:30

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

"Framsóknarflokkurinn er vitaskuld vinstri flokkur og það sem meira er. Sterk staða hans er alger forsenda þess að hægt sé að mynda ábyrga vinstri stjórn í landinu. "

Þarna ertu að grínast Bjarni er það ekki ?

"síðasta samstjórn krata og íhalds varð til og hefur af því verið kölluð Viðeyjarskotta. Sú stjórn varð ekki farsæl og varla einu sinni fyndin."

Bjarni...það þarf sterk framsóknarsólgleraugu að sjá ekki að þetta var stjórnin sem leiddi Ísland í EES sem er mesta framfaraspor í áratugi og lykillinn að því sem vel gengur í dag. Sennilega eru að grínast þarna líka tel ég fullvíst annað væri ábyrgðarleysi eða alvarlegt minnisleysi

Jón Ingi Cæsarsson, 20.4.2007 kl. 22:01

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Jamm, þú segir það. Ekki yrði það óskaríkisstjórnin mín, viðurkenni það fúslega. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.4.2007 kl. 00:14

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 Bjarni minn, ekkert svona myrkra hjal, SF er ekkert á uppleið, þetta er bra bull. Þið eruð að koma til, vittu til.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 00:46

9 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Mæl þú manna heilastur Bjarni!  Það væri slys ef þú færir ekki inn á þing. 

Kveðja!

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 21.4.2007 kl. 01:45

10 Smámynd: Haukur Kristinsson

nokkuð viss um að þið náið í ykkar atkvæði aftur frá síðustu kosningu, enda viljum við sömu stjórn áfram og þig innan borðs.

Haukur Kristinsson, 21.4.2007 kl. 04:38

11 Smámynd: Haukur Kristinsson

en soldið sár að þú kallir ykkur vinstri menn, hélt það væri miðjan

Haukur Kristinsson, 21.4.2007 kl. 04:42

12 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er auðvitað verið að fiska í gruggugu eins og alltaf Haukur og ég get lofað þér því að þeir fá ekki það sem logið var á þá síðast...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 21.4.2007 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband