Fréttastofa í kviksyndi

Lítil þúfa getur velt þungu hlassi. Vinur minn Helgi Seljan hefur varla séð fyrir það kviksyndi sem hann var að koma sér og sinni stóru stofnun út í með Bjartmarsmálinu. En áður en lýkur á þetta mál eftir að verða Ríkisútvarpinu dýrkeyptara en nokkru sinni okkar Framsóknarmönnum og það er greinilegt af athugasemdum Þórhalls Gunnarssonar í dag að hann gerir sér grein fyrir þessari grafalvarlegu stöðu.

Nú ætla ég ekki að gera Helga það upp að hafa sett fréttina fram í pólitískum tilgangi en vitaskuld hefði verið heppilegra fyrir RÚV að setja varkárari fréttamann í málið í byrjun og helst fréttamann sem ekki var alinn upp á DV og á ekki að bakgrunni að hafa verið starfsmaður Samfylkingarinnar.

"Fréttin" um meinta spillingu við veitingu ríkisfangs Gvatemalastúlkunnar byggir frá fyrstu tíð á getgátum og það sér hver vanur fréttamaður að í hana vantar alveg allan trúverðugleika og heimildir. Það hefur einfaldlega enginn, hvorki Kolbrún Halldórsdóttir, Sigurjón Þórðarson né nokkur annar sýnt fram á hið óeðlilega. Ef  við skoðum þetta útfrá hefðbundnum glæpafræðum þá vantar bæði sannanir og ástæðu fyrir glæp. Það segir sig algerlega sjálft í þessu máli að hagsmunir Jónínu Bjartmars af því að tilvonandi tengdadóttir hennar fengi ríkisfang á Íslandi eru ekki svo ríkir að líklegt sé að hún hafi þar hætt pólitískum frama sínum og beitt bellibrögðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hafa vitnað um það að afgreiðsla á erindinu var algerlega eðlileg og það er ekkert handfast til þess að draga yfirlýsingar þeirra í efa enda hefðu þau haft meiri pólitískan hag af öðru svari eða hreinlega því að þegja. Ásakanir Kolbrúnar og Sigurjóns eru aftur á móti ótrúverðugar og lykta af því að kosningar eru í nánd.

Það alvarlegasta í fréttaflutningi RÚV er svo hvernig allar venjulegar reglur um mikilvægi mála og forgangsröð hafa verið brotnar á undanförnum dögum með því að margendurtaka þessa frétt án þess að nokkuð nýtt hafi komið fram. Hér er frekar um að ræða krossferð en venjulegan fréttaflutning. En hversvegna, kann einhver að spyrja? Er þeim Þórhalli Gunnarssyni og Helga Seljan svo mikið í mun að klekkja á okkur Framsóknarmönnum? Ég held ekki. Ég held að þeir hafi einfaldlega starfsheiður sinn og stofnunarinnar að verja. Þeir brjótast hér um í kviksyndi sem þeir sökkva dýpra ofan í með degi hverjum. Það er nefnilega allt sem bendir til að allt Bjartmarsmálið sé frá upphafi stormur í vatnsglasi. En það er fyrir heiður og hlutleysi virðulegustu og bestu fréttastofu landsins mjög alvarlegt að hafa fallið í aðra eins og gryfju. Það að gera þannig atlögu að einum stjórnmálaflokki korteri fyrir Alþingiskosningar er algerlega utan þess sem hægt er að réttlæta.

Daginn eftir viðtal Jónínu og Helga Seljan hafði útvarpsstjóri tvær leiðir út úr stöðunni. Önnur var að reka Helga og veita Þórhalli alvarlega áminningu. Hin var að berja í brestina og reyna að hrópa hærra og vinna traust almennings aftur með því að hamast á málinu og grafa dýpra í þeirri veiku von að finna eitthvað sem gæfi málinu rætur og festu.

Sú von fréttastofunnar hefur nú fyrir löngu brugðist og við Framsóknarmenn skemmtum okkur því það er langt síðan þetta mál hætti að skemma fyrir okkur. Við skemmtum okkur því eftir því sem fréttirnar verða fleira verður trúverðugleiki RÚV í málinu minni...


mbl.is Kastljós svarar Jónínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Heyr á endemi Bjarni. Hreinsaðu úr eyrunum. Hefur einhver haldið því fram að glæpur hafi verið framinn? Hver sagði það?

Hins vegar eru Framsóknarmenn samir við sig, ómóralskir og hygla sínum. Enda kjósa engir Framsóknarflokkin lengur nema þeir sem eru þar á spena. Synd ef þið sjáið það ekki sjálfir.

Sigurður Hrellir, 3.5.2007 kl. 19:43

2 Smámynd: ragnar bergsson

Bjarni minn vertu nú heiðarlegur og horfðu á málið án framsóknargleraugnanna þetta er spilling og brot á reglum.

ragnar bergsson, 3.5.2007 kl. 20:28

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Er einhver stoltur af RÚV eftir þessa gjörninga? Ekki ég. Það liggur við að maður fari að kjósa Framsókn, a.m.k. í skoðanakönnunum, svona í sárabætur. 

Júlíus Valsson, 3.5.2007 kl. 20:47

4 identicon

Ef fréttastofur og almenningur hefði ekki brugðist við þessu máli væri ráð að hafa sig í burtu af skerinu.  Sem betur fer eru ekki allir dofnir en kurteisishjalið allt of ríkt í samskiptum fréttamanna við stjórnmálamenn.  Hræðilegt sjóið hjá Denna og Ingu í kvöld, þoldi reyndar aðeins ca.10-15sek.  Stúlkan er ekki það sem málið snýst um og hún ætti ekki að þurfa að taka pusið.  En hagsmunir??? Hvað með námslán?  Íslenskur borgari vs. gvatamali?

Ægir (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 21:46

5 Smámynd: Lýður Pálsson

Ég er sammála þér Bjarni, stolt Sjálfstæðisflokksins Ríkisútvarpið ohf er í vondum málum. Trúverðugleiki fréttastofunnar hefur rýrnað, - og rýrnar með hverri "frétt" þeirra um þetta hið svokallaða "Jónínumál".  "Kviksyndi" er góð lýsing á stöðu fréttastofu RUV. Spurning hvort einhver finnist til að draga fréttastofuna upp.

Lýður Pálsson, 3.5.2007 kl. 23:10

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er nú svo smáborgaralegur að íslenskukunnátta stúlkunnar og glæsileiki, bræddu mitt miðaldra hjarta. Þessi stúlka er íslenskri þjóð til sóma og að mínu mati verðmætari íslenskur ríkisborgari en íþróttamennirnir sem fengið hafa hrað-afgreiðslu. Auk þess hef ég ekki nokkra trú á að Jónína Bjartmarz sé svo skini skroppin að tefla pólitísku lífi sjálfs síns eða Framsóknarflokksins í hættu með óeðlilegum afskiptum af málinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.5.2007 kl. 23:26

7 identicon

Allir þeir sem hér taka til máls vilja ekki sjá að um réttláta merðferð var um að ræða. Menn vilja grýta einhvern – bara einhvern. Þegar bent er á að ekkert óeðlilegt var um að ræða stinga gárungarnir hausnum bókstaflega í sandinn, alveg á kaf. Menn fara að væla í höfundi þessa pistils að vera óheiðarlegur. Heiðarlegri pistil og beint frá hjartanu er vart að finna. Allt sem Bjarni skrifar hér er heiðarlegt og einlægt að mínu mati. Hvernig er hægt að sjá að hann sé óheiðarlegur? Ég bara kem ekki auga á það. Útúrsnúningur Sigurðar Hreins er auðvitað út í hött Halló... þú hefur heyrt um samlíkingar ekki satt Sigurður. Mér finnst ótrúlegt að sjá hvernig menn verða að þurfa að sjá eitthvað óeðlilegt í þessu máli. En samsæriskenningar gleðja gárungana. Það er ekkert annað að hafa.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 23:36

8 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Sammála Gunnari, glæsileg stúlka, en siðspiltir stjórnmálamenn.

Ester Sveinbjarnardóttir, 3.5.2007 kl. 23:37

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Bjarni minn.

Hættu nú alveg. Ég tel það nokkuð ljóst að ef hér væri ekki um þinn flokk að ræða í þessu tilviki, þá hefður þú án efa dregið eins og skot þær ályktanir að hér væri " maðkur í mysunni " .

Það á ekki að skipta nokkru einasta máli hvaða flokkur eða hvaða flokkar lenda í slíkum vafa sem mál þetta er undirorpið.

Slíkur vafi á ekki að vera til.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.5.2007 kl. 00:21

10 identicon

Það er Framsóknarflokkurinn sem hefur sokkið hvað dýpst í kviksyndið og ekki undarlegt að þjóðin sé hætt að treysta honum.

Ein af þeim spurningum sem enn er ósvarað í þessu máli er af hverju Jónína Bjartmarz veifaði blöðum um mannréttindabrot og bága stöðu kvenna í Gvatemala í Kastljósi síðasta föstudag, þegar hún vissi vel að það voru alls ekki ástæður þess að tengdadóttirin sótti um ríkisborgararétt? Þær ástæður sem tilgreindar eru í umsókninni er þær að umsækjanda finnst þægilegra að hafa ríkisborgararétt og sleppa þannig við ákveðna pappírsvinnu þegar hún heimsækir Ísland í sumarleyfum.  Í "viðtali" við fyrrum spunameistara Framsóknarflokksins í Íslandi í dag fyrr í kvöld, sagði tengdadóttirin það sjálf, án þess að hika, að mannréttindabrot tengdust umsókn hennar á engan hátt. Hvers vegna var Jónína Bjartmarz þá að blanda slíku í málið? 

Bjarni Þór Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 00:46

11 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Kann að vera að við fyrstu sýn hafi málið þótt hið dularfyllsta, en ef hér hefðu verið á ferðinni alvöru fréttamenn hefðu þeir séð að málið er fjarri því að vera jafn alvarlegt og umfjölun um það í fjölmiðlum sýnir. Hallast helst að storminum í vatnsglasinu.

Guðmundur Örn Jónsson, 4.5.2007 kl. 00:49

12 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Þú hittir akkúrat naglann á höfuðið, Bjarni.  Kastljósið byrjaði á fréttinni áður en búið var að kanna staðreyndir.  Þetta virðist hafa verið gert í von um að eitthvað hneyksli væri þarna að finna.  Við nánari meðhöndlun á "fréttinni" kom í ljós að þarna var ekkert hneyksli á ferðinni.   En menn höfðu verið gagnrýndir svo mikið fyrir vinnubrögðin að þeir halda áfram í von um að eitthvað komi fram sem réttlæti vinnubrögðin eftirá.  Þetta eru afara snautlegar aðfarir svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Hreiðar Eiríksson, 4.5.2007 kl. 07:29

13 identicon

Hreiðar, það var fínt að kastljós óð oní drulluna með ekki meira af gögnum til að byrja með. Þá sáum við hið sanna, Jónína reyndi að troða upp með eitthvað bull um mannréttindabrot í guatemala.

 Svo kom stelpan brosandi í viðtal í íslandi í dag og fullyrti að Jónína hefði verið að reyna ljúga uppá okkur ástæðu um ríkisborgaraveitinguna með bullshjit um mannréttindabrot.

 Risastór mistök Jónínu.... :)

Ari (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 07:37

14 identicon

Sæll Bjarni

Ég er sammála þér. Hér er um óvönduð vinnubrögð að ræða hjá Helga (  Kastljósi ). Það er búið að hrekja allt sem sagt var í upphafi málsins. Það sem er athyglisverðast er að "þingmenn" skuli gera sig seka um að beita aðferðinni : Látum þá þurfa að afsanna málið.

Ég átti nú svo sem von á slíku frá Sigurjóni Þórðarsyni ( enda maðurinn kjáni ) en Kolbrún brást nú.

kveðja,

Páll í Samfylkingunni

Páll í Samfylkingunni (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 08:15

15 Smámynd: Gunnar Freyr Rúnarsson

Þetta er hrikalega slæmt mál fyrir OKKUR Framsóknarmenn.  Sjálfur skynja ég allstaðar mikla reiði, vegna þess að það er klárlega maðkur í mysunni.  Ég hitti bara fólk sem er að springa úr reiði, enda þekki ég mikið af fólki (og aðstandendum) sem hafa flestir þurft að bíða sjö ár (en ekki rúmlega ár) eftir að fá íslenskt vegabréf.  Sjálf umsóknin tekur svo yfirleitt hálft ár, ef sótt er um eftir hefbundnum leiðum, en ekki tíu dagar eins og í okkar tilfelli.  Framsóknarmenn!  Viðurkennum nú einu sinni mistök okkar og verðum meiri menn fyrir vikið.  Bara eitt dæmi!  Hvar er okkar maður Guðjón Ólafur?  Af hverju er maðurinn hlaupinn í felur?  Skert ferðafrelsi!  Þetta er auðvitað bara brandari að veita ríkisborgararétt á þeim fosendum. Allir útlendingar frá þriðja heiminum sem hingað koma búa við skert ferðafrelsi.   EN á hinn boginn er það rétt hjá okkur Framsóknarmönnum að gera þá Helga Seljan, Sigurjón Þórðar og Kolbrúnu Halldórs tortryggilega.  Það er bara vika í kosningar og við Framsóknarmenn verðum að beita öllum brögðum á síðustu metrunum til að halda í fylgið.

Gunnar Freyr Rúnarsson, 4.5.2007 kl. 09:42

16 Smámynd: Haukur Nikulásson

Því meira sem Framsóknarmenn verja þetta spillingarmál þeim mun ókræsilegri verða þeir í kjörklefanum 12. maí.

Hér átti bara að viðurkenna að málið hefði notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu og þá hefði trúlega verið fyrirgefið og dáið sama daginn. Þess í stað greip ótrúlegur fjöldi fólks til þess í örvæntingarsamráði að reyna að ljúga sig út úr þessu dæmalausa klúðri. 

Skiptir hér engu máli hvort fréttamaðurinn hafi verið "leiðinlegur" við Jónínu eða ekki. Hún var bara jafn "leiðinleg" við hann. Þetta var "leiðinlegt" viðtal vegna þess að það varðaði ómerkilega lygi.

Haukur Nikulásson, 4.5.2007 kl. 10:07

17 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sínum augum sér hver gjörninginn.

Ef það er almenn skoðun framsóknarfólks og annarra sem að þessu komu, að um sé að ræða eðlilega málsmeðferð, þá segir það okkur hinum að þeim þykir fyrirgreiðsla fyrir sig og sína sjálfsögð.

Nú eru spunameistarar framsóknarflokksins á fullu við að breiða yfir skítinn með því að koma þessari frambærilegu ungu stúlku í fjölmiðla og hún fengin til að staðfesta að Jónína Bjartmarz hafi ekki komið að málinu á óeðlilegan máta.

Opinber spilling er landlæg í Gvatemala og því má leiða líkur að því að viðmið stúlkunnar á hvað er eðlilegt eða óeðlilegt í afskiptum ráðherra séu önnur en okkar hinna.

Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 4.5.2007 kl. 11:43

18 Smámynd: Gúrúinn

Málið snýst um þetta:

To give the Icelandic nationality to a person for whom “it is inconvenient not to have a European passport” and be bound by the EU rules on immigration and visas when going to study abroad is immoral and surely illegitimate. There were no humanitarian reasons, no children involved, no urgency at all, just a private interest.

og hefði aldrei gerst ef viðkomandi væri ekki tengdur (og varla það, kærasta telst varla samband í lögfræðilegum skilningi, er það?) réttum aðilum. Þetta er hins vegar jafnmikið ef ekki meira hneyksli fyrir Bjarna Ben (Sjálfsstæðisflokkinn), Guðrúnu Ögmunds(Samfylkinguna) og Guðjón Ólaf, sérstaklega í ljósi undarlegra og misvísandi svara þegar yfirhöfuð þetta fólk lætur svo lítið að ná í sig.

Gúrúinn, 4.5.2007 kl. 13:27

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sigurjón Þórðarson þreytist ekki á að velta sér upp úr drullumallinu. Hann segir á bloggsíðu sinni að hann hafi nú komist yfir gögn í málinu, en megi ekkert segja því hann sé bundinn trúnaði. Það er sem sagt eitthvað fleira í gögnunum sem ekki hefur þegar komið fram. Nú er aðalatriðið hjá honum, hraði afgreiðslu málsins. það er þá ekki það að sjálfsagt var að líta til sérstakra aðstæna stúlkunnar heldur að blýantanagararnir hjá ríkinu hreyfðu á sér rassgatið óvenju hratt.

Það er nebblega það. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2007 kl. 13:52

20 identicon

Mér finnst allt þetta mál ekkert nema léleg tilraun til að sverta Framsóknarflokkinn rétt fyrir kosningar.

Mér finnst ótrúlegt að fólk sé að gera mál út af þessu, sérstaklega þessu máli þar sem stúlkan talar góða íslensku, sem er meira en hægt er að segja um alla íþróttamennina sem fá, er mér skilst, hraðferð í gegnum kerfið.

Þetta er fréttastofunni til skammar og mér finnst skrýtið yfir höfuð að þeir skuli hafa fjallað um þetta til að byrja með þar sem þeir höfðu ekki öll gögn undir höndum. Léleg fréttamennska!

Einar Freyr (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 18:08

21 Smámynd: Þórbergur Torfason

Bjarni, ertu að gera þá kröfu á Sigurjón Þórðarson eða Kolbrúnu Halldórsdóttur að annaðhvort, eða bæði brjóti trúnað og birti gögn sem allsherjarnefnd hefur undir höndum. Af hverju í ósköpunum ertu með svona ómerkilegan málflutning í dauðastríði flokksins? Af hverju krefstu þess ekki að þinn eiginn fulltrúi birti þessi trúnaðargögn til að taka af allan vafa í þessu leiðinlega máli sem getur hvort sem er aldrei orðið nema til vansa fyrir framsókn. Getur verið að ein athugasemdin hér að framan hitti naglan á höfuðið. Er þetta spurning um fyrirgreiðslu í formi námslána? ´Þar væri reyndar framsókn rétt lýst. Strákar hey einn banki hér, eitt tryggingarfélag hér, eitt skipafélag hér, nokkrir kaupfélagssjóðir þar. Hiðið þetta bara þetta er hvort sem er ónýtt drasl. Að lokum Bjarni minn, ég votta þér mína dýpstu samúð vegna skjólstæðinga ykkar í Írak

Þórbergur Torfason, 4.5.2007 kl. 23:13

22 identicon

Sæll Bjarni.

Að allt öðru.   Þú varst með skondna skýringu á fjórflokknum í viðtali um daginn, sagðir að hann ætti rætur að rekja til landnámsaldar.  Langar að biðja þig að greina frá hér hvernig þú tengdir þá núverandi fjórflokk.  Náði því ekki alveg þegar það var sagt.

Kveðja og þakkir. 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 13:55

23 Smámynd: Björn Heiðdal

Seljum RÚV þá getur Framsóknarflokkurinn bara keypt allt draslið.  Rekið Helga eða seljann án þess að það komi nokkrum við.  Ég hef alltaf haft mikið álit á Jónínu alveg þangið til hún fór að réttlæta Íraksstríðið.  Stuðningur hennar við þann gjörning var ekki bara tæknileg mistök heldur skortur á dómgreind.

Björn Heiðdal, 5.5.2007 kl. 15:10

24 Smámynd: haraldurhar

   Bjarni ég álít að þinn pólitíski verði annsi stuttur, ef dómgreind þín nær ekki lengra, að þú ráðist á boðbera fréttarinnar, um Jónínu, því hefði ég aldrei trúað. 

   Hættu nú að læra af Guðna, og  mundu að þegar Halldór Ásgríms, tilkynnir afsögn sína á Þingvöllum sl. sumar, þá sagði hann að hann og varaform. hefðu ákveðið að stíga til hliðar.. Efndir Guðna á loforðinu náði ekki út fyrir þröskuldinn á Þingvallabænum, eins og þú kannski mannst.

    Jónínu er kannsi bara best að senda aftur heim til íhaldsis

haraldurhar, 7.5.2007 kl. 00:31

25 identicon

Skemmtilegt nýja slagorðið: Skyldfólk í fyrirúmi!

Davíð Þór (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 11:05

26 Smámynd: Þórbergur Torfason

Skarpskyggn Davíð. Ertu loksins að sjá þetta núna. Þetta er margnotað þó ekki hafi verið gert opinbert fyrr en í gær

Þórbergur Torfason, 7.5.2007 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband