Höfðinglegar móttökur

Hefi eytt dögunum með okkar kære nordiske venner á Vestnorrænni þingmannaráðstefnu á Húsavík. Lærdómsríkt og skemmtilegt fyrir nýliða og þarna í hópi margir eftirminnilegir karakterar. Að öðrum ólöstuðum verða þeir mér eftirminnilegastir þjóðfrelsismaðurinn færeyski Högni Hoydal og Jónatan Mosfeld foringji Grænlendinga. !cid_A99281A5-B3D0-4D0B-B72E-3CB7BD8C2E11@local

Þingeysk veðursæla, gráðugar hvalskepnur og alúðlegir heimamenn, - allt tók þetta á móti okkur þingmönnunum af miklum höfðingsskap og rausn. Kvöldferð á Skjálfandaflóa í blankalogni og miðnætursól tók flestu fram. Við fréttum að það hafi reyndar verið upppantað í allar hvalaferðir þegar við komum en Árni Johnsen náði samningum við fyrirtæki Stefáns Guðmundssonar, Gentle Giants Whale Watching sem á heiður og þökk skilda fyrir frábæra þjónustu.

Á laugardag fórum við í langan og góðan bíltúr um Þingeyjarsýsluna þá nyrðri, Dettifoss, Ásbyrgi, Hljóðakletta og enduðum á Mývatni. Komum til Húsavíkur aftur klukkan 10 og þá tók ég blátt strik austur á Egilsstaði til þess að geta þvælst um erinda minna um Austfirði næsta dag. Sá dagur varð reyndar stuttur mjög í annan endann af þeirri ástæðu að þegar ég kom í hús hjá stórhöfðingjanum Lofti Jónssyni biðu þeir félagar hann og Frosti í ofvæni eftir að komast í hjólaferð inn í nóttina. Strákarnir höfðu semsagt klambrað til aksturs og skeytt númeri á gamlan Dakargrip Lofts en sjálfur ekur hann um á 400 kúbika Hondupriki þessi misserin. Gamli Dakarinn er í eigu Hjalta hins Borgfirska sem heldur hefur sýnt honum litla rækt en Frosti fór um hjólið alúðarhöndum nosturs og særinga þannig að hvorki voru nú í því skrölt né demónar. Og svo var ekið inn dal mikinn sem liggur upp frá Sandfelli í Skriðdal eftir nýlega lögðum línuvegi þar sem gnæfa þau tröllkynjuðustu rafurmagnsmöstur sem mín augu hafa barið til þessa. Ef ekki hefðu verið Austfjarðaþokur í fjallaskörðum þá hefðum við séð niður í gullbæinn Reyðarfjörð um óttubil en þar á miðjum vegi urðum við sneypast til baka vegna fannfergis sem útséð var að mín færni og farskjóti réði við hvað sem hænsnaprik þeirra Lofts og Frosta hefðu gert enda öll léttari og meiri tryllitæki. En fráleitt jafn virðuleg og alvöru Dakar.

Fjórði maður í hópnum, þýski skógfræðingurinn Kristó var í ferðalaginu á sexhjóli sem einnig átti orðið í þæfingi.

Eftir höfðinglegar og frábærar móttökur Þingeyinga verður þó að játast að næturævintýri upp af Skriðdal tók þó öllu öðru fram...

(Myndin er af okkur ráðstefnufélögum, fræðimönnunum Gunnari Haraldssyni, Magnúsi Árna Magnússyni og mér á merkum sögustað á leiðinni, semsagt Ystafelli við minnisvarða um stofnun Sambands íslenskra samvinnufélaga.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Meiriháttar gaman að vita af þessum sterku norrænu tengslum og
að skógfræðingurinn hinn þýzki Kristó hafi verið með í för. Ég var
einmitt í dag að blogga um hin norrænu og þýzku tengsl, sem við
eigum að styrkja mjög og efla í framtíðinni........

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.6.2007 kl. 01:13

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Haltu öllu samviskusamlega til haga.

Svo í ellinni getur þú búið til bíómynd sem gæti heitið "Þingmannslíf".   Hún verður þá í anda fyrri "líf- mynda.       Ég er viss um að þú sérð þetta í öðru og skemmtilegra ljósi en flestir aðrir þingmenn. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 20.6.2007 kl. 17:02

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Heldurðu þá Gunnar að þingmaðurinn hafi hugsanlega mútað Stebba? Ekki svo viss um það, Stebbi gengst upp í að snúast um svona kalla..alveg ókeypis, þess vegna, en ég trúi að þjónustan hafi verið fín hjá honum, hann er lipurmenni.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.6.2007 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband