Freðfiskar í sumarblíðunni!

Lífið er saltfiskur átti í eina tíð við og síðar freðfiskur eftir að sú tæknin kom til. Nútíminn með allri sinni tækni hefur svo fært okkur það heim að alltaf þarf færri og færri til að vinna þann fisk sem að landi berst. Sjávarútvegurinn er engu að síður undirstaða efnahagsins og nú syrtir að. Talið er að sjávarútvegsráðherra gefi út tölur um þorskkvóta næsta árs á morgun...

Sjálfur hef ég eytt stórum hluta helgarinnar og reyndar alls sumarsins í að tala við sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslufólk og trúnaðarvini sem ég tek mark á - og mest talað um þorskinn. Hvað eigi að veiða mikið og hvernig eigi að bregðast við aflasamdrætti. sjomenn2

Hér syndum við fiskarnir...,- segir í máltæki um þá sem telja sig stærri en þeir eru og kannski finnst einhverjum sem þetta les að stjórnarandstöðuþingmaðurinn líti stórt á sig. Niðurlag þessa málsháttar er einmitt ... sögðu hornsílin. Gerum við í stjórnarandstöðunni nokkuð annað en að reka hornin í og er ekki einfalt að bíða eftir því hvað sjávarútvegsráðherra segir og segja svo bara eitthvað annað! Segja helst það sem sjómenn vilja heyra,- að það eigi bara að veiða sem mest.

En svo einfalt er þetta ekki. Stjórnarandstaða sem gerir aldrei ráð fyrir að komast að stjórnun landsins getur auðvitað sýnt slíka takta en það á ekki við um okkur Framsóknarmenn. Við höfum stjórnað þessu landi og þar með sjávarútveginum - Sjálfstæðismenn eru reyndar búnir að fara með það ráðuneyti í samfelld 16 ár núna. Við munum taka ábyrga afstöðu þegar kemur að þorskinum. Það þýðir ekki endilega að standa blint með Hafrannsóknarstofnun en það þýðir alltaf og skilyrðislaust að standa með heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar. Meira um þetta síðar - en við erum á fundum um þetta mál í allan dag og það er síst of mikið eins mikið og er í húfi fyrir sjávarbyggðir landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni þarna erum við sammála við verðum að hugsa um þjóðarhag fyrst og siðast/Ver ekki eitthver skrýtla um sitthvern Þingmann sem sagði hvað varðar okkur um Þjóðarhag drengur minn/en þessi sjáfarútvegur vegur þungt i okkar buddu/allra/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 2.7.2007 kl. 16:08

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Því miður Bjarni, þá eru hagarnir kringum Ísland í ekki nógu góðu ástandi.Frá því Jón Jónsson hvarf úr starfi forstjóra Hafró, hefur lítið verið hugað að því að undirstaða þorsks er að hann fái að éta, rétt eins og ég og þú.Rækja og sandsíli á grunnslóð finnst varla.Samt telur Hafró að þorskur eigi að vera á sama blettinum og hann var á fyrir tuttugu árum þótt nú sé þar ekkert æti.Þegar bændur í Tungunum eða Öræfunum auka bústofn sinn þá sjá þeir jafnframt til þess að þeir verði ekki heylausir.Fyrsta skilyrði þess að hægt verði að ná þorskstofninum upp, er að menn viðurkenni að hann þarf að éta.En að sjálfsögðu er ekki vitlegt að veiða í hlutfalli við minnkandi æti, þar til síðasti þorskurinn er veiddur.Þú segir að sjómenn vilji bara veiða sem mest.Þetta er bull í þér.Þú skalt lesa betur ályktunina frá Sjómannasambandinu. 

Sigurgeir Jónsson, 2.7.2007 kl. 23:28

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Bjarni.

Því miður hefur Framsóknarflokkurinn flotið sofandi að feigðarósi ásamt Sjálfstæðisflokknum varðandi fiskveiðistjórn við Ísland, um áratuga tímabil , þar sem hvað rekst á hvers annars horn skipulaginu í raun. Það er nefnilega löngu fyrirséð að þorksstofninn vorum við EKKI að byggja upp með aðferðafræðinni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.7.2007 kl. 03:04

4 identicon

Sæll Bjarni. Af hverju er svona lítil umræða um að þessi aðferðafræði sem við höfum notast við í rúm tuttugu ár sé ekki nógu góð. í upphafi voru veidd nærri 400 þús. tonn en þrátt fyrir kvótasetningu allt eftirlitið og nánast árlegan aflasamdrátt er stefnt núna að 130 þús. tonnum. Ég held við þyrftum að skoða grunninn núna vera óhrædd við að taka upp aðrar stýringar, það virðist hvort eð er ekki miklu vera að tapa, a.m.k ef við miðum við árangur síðustu 20ára.

Bestu kveðjur

Magnús

Magnús (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 08:24

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það hefur viljað gleymast Bjarni,viljandi eða óviljandi, að kvótakerfinu var ekki síst komið á vegna þess að reyndar höfðu verið aðrar stýringar, sem höfðu reynst ónothæfar.Eftir að svarta skýrslan kom út 1975 um hættu á ofveiði þorsks, þá var komið á svokölluðu skrapdagakerfi, sem byggðist á því að ekki mátti veiða þorsk á ákveðnum dögum.Aldrei í Íslandsögunni hefur einsmiklu af þorski verið hent eins og þá.Síðan var dagakerfi við lýði á smábátum  með ýmsum tilbrigðum til 2006 að aðeins var einn bátur eftir og var þá dagakerfið lagt niður sem ónothæft.

Sigurgeir Jónsson, 3.7.2007 kl. 09:06

6 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Alveg er það með eindæmum hvernig menn reyna að verja sig. Segja að sjálfstæðisflokkurinn hafi farið með sjávarútvegsráðaneytið síðastliðin 16 ár. Var framsókn ekki með í stjórninni, ertu Bjarni að segja okkur að framsókn hafi bara flotið með, stólanna vegna og ekkert haft um málin að segja? Síðan að halda því fram að við sjómenn viljum ekkert heyra annað en veiða meira, er hræsni og lítilsvirðing. Hvað erum við að benda á? Við upplifum allt annað en það að enginn þorskur sé í sjónum. Einnig bendum við á það að aðferðarfræði Hafró sé handónýt svo sem togararallið. Hvernig stendur á því að niðurstöður úr netarallinu eru ekki notaðar? Hvaða líffræðilegar forsendur eru notaðar? Menn sem ekki þekkja muninn á hungruðum fiski og ofveiddum eiga að vinna við eitthvað annað.

Hallgrímur Guðmundsson, 5.7.2007 kl. 12:21

7 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Sigurgeir villt þú ekki segja okkur sannleikann í málinu? Hver lagði niður dagakerfið í smábátakerfinu og af hverju var það gert? Fyrir hverjum var það ónothæft? Það væri gott að koma smá rökstuðning fyrir þessum skrifum. Einnig skaltu kinna þér hvað er að gerast í Færeyjum og hvað hefur verið bent á áður en þú fullyrðir hrun á þorskinum þar. Sannleikurinn er sá að það var bent á að niðursveifla yrði einsog alltaf hefur verið. Það hefur líka verið bent á hvenær henni líkur og stofninn fari að vaxa aftur og hvernig menn geta séð það fyrir.

Hallgrímur Guðmundsson, 6.7.2007 kl. 01:34

8 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Miða við þín skrif Sigurgeir geri ég ekki ráð fyrir öðru en að  þú lítir á menn sem fara eftir líffræðilegum vísbendingum og rökum sem hryðjuverkamenn og stórhættulega umhverfinu.

kv.Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 6.7.2007 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband