Pólitísk og ábyrg tillaga um þorskveiðar

Framsóknarmenn hafa lagt til að þorskkvótinn verði lækkaður úr 193 þúsundum tonna í 150 þúsund. Tillöguna í heild má finna hér. Með henni er vissulega ekki gengið eins langt og ítrustu tillögur Hafrannsóknastofnunar gera ráð fyrir. market-trader-with-large-cod-i

Einhverjum kann að þykja sem svo að við séum að hjakka í því sama fari og gert hefur verið í 16 ár að fara þannig framúr ráðgjöfinni og að við séum þar með að gefa lítið fyrir vísindin. En það er ekki svo.

Það er oft munur á því hvað er skynsamlegast að gera og hvað er vísindalegast að gera. Ef við förum þá leið að skera niður í 130 þúsund tonn - sem ég er reyndar hræddur við að sjávarútvegsráðherra geri, þá getur það haft mjög slæm áhrif á vistkerfið. Undanfarin ár höfum unnið að því að minnka brottkast og margskonar villimennsku í kerfinu. Bærileg sátt hefur verið milli stjórnvalda og útgerðar. Og við höfum náð árangri. Á sama tíma eru ýmsar aðrar þjóðir - t.d. í Evrópu - þar sem fullkomið stríð virðist ríkja milli stjórnunarinnar og þeirra sem nytja hafið. Slíkt ástand gerir alla fiskveiðistjórnun afar erfiða og allt að því ómögulega.

Niðurskurður á þorski í 130 þúsund tonn þýðir það að við þurfum líka að skera ýsukvótann niður þó svo að ýsustofninn sé í reynd alveg talinn þola meiri veiði. Það væri einfaldlega ekki hægt að ná þeirri ýsu nema með ólöglegum þorskveiðum. Veiðum sem að einhverju leyti yrðu faldar með brottkasti.

Að þessu öllu athuguðu og einnig því að ekkert bendir til að stofninn þoli ekki sókn upp á 150 þúsund tonn. Þar má benda á að Norðuratlantshafsfiskveiðiráðið hefur lagt til að kvótinn verði 152 þúsund tonn. Tillaga okkar Framsóknarmanna er því ábyrg án þess þó að vera öfgafull.

Vonandi verður tillaga sjávarútvegsráðherra á svipuðum nótum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjarni.. fín rök og gott innlegg hjá ykkur. Ætlaði að skoða tillöguna í heild sinni en þá virkar ekki tengillinn hjá þér inn á plaggið. Kveðja  

Lúðvík Börkur Jónsson (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 15:02

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Bjarni, það næst aldrei neinn árangur í að byggja upp þorskstofninn fyrr en menn viðurkenna þá staðreynd að hann þarf að hafa eitthvað að éta. 

Þórir Kjartansson, 4.7.2007 kl. 22:57

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Að ávísa sama lyfseðli aftur og aftur án þess að hann hafi fært viðkomandi nokkra minnstu bót er klikkun. Slíkt mál yrði umsvifalaust sent til Landlæknis.

Ráðleggingar Hafró hafa ekki borið neinn árangur. Eitthvað er mikið að. Ég held að strúturinn verði að fara að taka hausinn upp úr sandinum.  

Gunnar Skúli Ármannsson, 4.7.2007 kl. 23:25

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Kvótakerfið grefur undan sjávarútvegnum, menn þurfa að viðurkenna það og leggja það niður.  Þeir sem róa eiga að fá að veiða t.d. eins og gert er í Færeyjum, þeirra kerfi hefur reynst vel og þess vert fyrir okkur að taka það okkur til fyrirmyndar.

Ester Sveinbjarnardóttir, 5.7.2007 kl. 01:26

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nafni minn.

Sást þú fréttirnar í fyrradag?  Þar voru sýnd myndskeið sem kafari nokkur, sem ég því miður er búin að gleyma nafninu á, tók við iðju sína á hafsbotni.

Það var ljótt að sjá.  Tegundamengun (í þessu tilfelli ígulkerja) hvefur valdið slíkum spjöllum á grunnsævinu, að þar er sem hörðustu heiðarþorp, hvar ekkert grær, nema barin strá á stangli og skófir á steni.

Illt væri fyrir uppsveitarbændur, væri hálendið svona illa leikið og trúlega væru heimtur af slíku fjalli andskoti rýrar.  Skolli hefði það að vísu gott, því hrææta er hann blessaður og nyti um stund, líkt og Ýsan okkar á sjo´varbotni.

Vonandi birtir til í hugum Alþingismanna, nú á haustdögum og þeir láti af þessari ofsatrú á Kvótakerfið. 

Það er þjóðarnauðsyn.

 Kveðjur úr Ketlubyggð

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 5.7.2007 kl. 09:32

6 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Það vaknar hjá mér spurningar um þetta. Hvernig getur Norðuratlandshafsfiskveiðiráðið lagt til að veidd verði 152.000 tonn? Hvaða gögn hafa þeir sem gefur þeim þessa niðurstöðu? Stofnmat á þorski ekki áreiðanlegt, magn hrygningarstofns ekki þekktur. Þetta kemur fram í skýrslu þeirra. Eftir hverju fer Framsóknarflokkurinn þegar hann kemst að þessari niðurstöðu? Liggja þarna að baki einhverjar líffræðilegar rannsóknir?Hvaða rugl er þetta, er alveg sama hvaða stofnun, vísindasamkoma eða stjórnmálaflokkur kemur að þessum málum. Útkoman skal undantekningarlaust vera stjarnfræðileg vitleysa. Þegar grunn upplýsingarnar eru fengnar með handónýtum aðferðum, getur niðurstaðan aldrei verið önnur en þvæla. þegar ég tala um handónýtar aðferðir er hægt að lesa um það  Hér   Ég held Bjarni að ykkur í Framsóknarflokknum væri hollast að kynna ykkur þau mál sem þið fjallið um, áður en þið farið að framleiða kolgeggjaðar tillögur um hluti sem þið hvorki hafið vit á eða skiljið. Það er einkennileg hræsni að leggja til að hunsaðar séu tillögur Hafró án þess að líst sé yfir vantrausti á stofnunina og allar hennar niðurstöður að vinnuaðferðir rannsakaðar frá A - Ö

kv Halli.

Hallgrímur Guðmundsson, 5.7.2007 kl. 11:56

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er agndofa. Og mér er spurn í fullri einlægni:

Í hverju höfum við náð árangri?

Ég er kominn yfir sjötugt og hef fylgst með fiskveiðum við Ísland frá fyrstu sporum, stundað fiskveiðar með öllum veiðarfærum, stundað útgerð, rekið fiskvinnslu og útflutning á fiski.

Mín niðurstaða er sú að við höfum náð ótrúlegum árangri í að tortíma sjávarútvegi okkar með botntrolli, flotttrolli, snurvoð, hvata til brottkasts og undanskota á afla og framhjálöndunar. Nú eigum við að treysta á "heiðarleika sjómanna" sem eiga þess enga kosti að sækja fisk í sjó án þess að brjóta reglur vegna þess, eins bent hefur verið á getur enginn valið sér fisktegundir.

Íslenskir vísindamenn og stjórnmálamenn vita betur en Færeyingar hvað þeim er fyrir bestu. Færeyingar, sem nota sóknardagakerfi prófuðu íslenska aflamarkskerfið í tvö ár og minnast þess með hryllingi. Í sóknarkefinu er brottkast útilokað. Hagnaðurinn liggur auðvitað í því að koma öllum afla í verð.

Með þessu liggja allar aflatölur á borðinu.

Er ekki eitthvað bogið við það að hanga á svika-brottkasts-og undanskotakerfi okkar eins og hundur á roði?

Skapar það kannski einhverjum ákveðnum útgerðum og sægreifum ábata? Auðvitað er það málið og ÞAÐ VEIT ÖLL ÞJÓÐIN.!

Það er ámælisvert að tala um árangur og ábyrgðarfullar tillögur.    

Árni Gunnarsson, 5.7.2007 kl. 12:12

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞArna erum við innilega sammála þér Árni Gunnarsson

Við virðumst vera bæði blindir og heyrnalausir, þegar móðir Náttúra er að taa til okkar í hennar  ýmsu myndum.

 Fugladauði, tegundamengun og svo mætti lengi telja.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 5.7.2007 kl. 15:02

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ástandið á færeyska þorskstofninum er verra en á þeim íslenska ,þótt það sé viðurkennt að íslenskur þorskur hafi gengið inn í færeyska lögsögu.Færeyska dagakerfið er ekkert öðruvísi en það dagakerfi sem íslendingar gáfust upp á,að því leyti, að þegar menn róa á dögum og mönnum er frjálst að veiða hvaða tegund sem er, þá veiða menn að sjálfsögðu dýrustu tegundina sem er þorskur.Þá verður ofveiði á þorski og þá er dögum fækkað þar til skip verða að liggja við bryggju meirihluta ársins, 

Sigurgeir Jónsson, 5.7.2007 kl. 21:54

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er allt of mikil einföldun Sigurgeir. Auðvitað rakst dagakerfið á hindranir, enda var það tilgangur ákveðinna útgerðarmanna að svo yrði. Þegar svo er komið eins og nú er að mati Hafró þá sýnist mér einboðið að skerða togarana um allan niðurskurðinn og auka kvótann í grunnveiðunum þar sem dagakerfið yrði notað. Nákvæmni í aflatölum yrði ekki upp á einhver kíló og allir sjómenn vita að þó bátarnir færu eitthvað fram úr heimild yrði það hégómi miðað við hin ósköpin. Og þá væri allt uppi á borðinu.

En auðvitað verða engin mál leyst ef það er fyrirfram ákveðið að þau séu óleysanleg.

Spurning Sigurgeir: Ber að skilja þig svo að dagakerfið hafi reynst Færeyingum svo illa að rekja megi til þess meinta fiskþurrð?

Og fyrir þá sem skilja varpa ég fram spurningu: Væri það talinn glöggur fjárbóndi sem bæði heylaus og haglaus setti á allar sínar gimbrar? Ætisleysi í sjónum er vandamál sem margir sjómenn telja sig sjá um skýr merki. Þrátt fyrir það er höfuðáhersla lögð á að friða allan smáþorsk!

Og kosta svo kapps við að veiða sem mest af loðnunni.

En farðu nú endilega að koma vitinu fyrir vini okkar í Færeyjum Sigurgeir minn.  

Árni Gunnarsson, 5.7.2007 kl. 22:22

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Færeyska dagakerfið, rétt eins og það sem við notuðum og gáfumst upp á, er eifaldlega þannig að þega talið er að þorskstofninn sé í hættu vegna ofveiði, þá er dögum fækkað og skipum er lagt, jafnvel þótt hægt væri að sækja í aðrar tegundir.þú ættir að skilja það Árni sem gamall útgerðarmaður að það er lítill hagnaður af skipi sem er bundið við bryggju. En ég get ekki svarað því af hverju þorskstofninn við Færeyjar er hruninn, en ég veit að Færeyingar eru sammála um að það þurfi að fækka dögum og skipafoti þeirra verður lengur bundinn við bryggju.

Sigurgeir Jónsson, 5.7.2007 kl. 23:23

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Rússarnir hafa sennilega "reddað" þorskstofninum í Barebtshafi með "ofveiði sinni". Getur einhver útskýrt það fyrir mér? Kvótakerfi og fiskveiðistjórnun eru tvö aðskilin mál og merkilegur andskoti að ekki sé hægt að ræða þessi má í sitt hvoru lagi. Af hverju er þorskstofninn í Barentshafi svon vel settur? Svar óskast.

Halldór Egill Guðnason, 6.7.2007 kl. 02:59

13 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Í Barentshafi, en ekki "Barebtshafi".  Af hverju er þorskstofninn í Barentshafi svona vel settur?

Halldór Egill Guðnason, 6.7.2007 kl. 03:00

14 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Lesið það sem Kristinn Pálsson hefur til málanna að leggja.

Halldór Egill Guðnason, 6.7.2007 kl. 03:03

15 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sæll Bjarni.

Þetta kvótakerfi er fundið upp af okkar fyrrverandi formanni er arfa vitlaust eins og það er í dag og hefur verið undan farin ár alveg síðan að framsalið var leyft.  Það verður aldrei sem við náum að byggja upp stofninn meðan að að er ekkert spekúlerað hvernig þetta er veitt og með hverju og einnig að hvernig lífríkinu er raskað með hömlulausum flottrollsveiðum og friðun á hvali og öðru arfa vitlaust á allan hátt enda sýnir reynslan okkur þetta það er alltaf verið að minnka kvótan erþað ekki

Einar Vignir Einarsson, 7.7.2007 kl. 10:50

16 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Alltaf þegar ég les eða heyri eitthvað sem tengist kvóta, fiski, eða fótbolta þá geyspa ég pínu og athyglin hverfur.........veit ekkert afhverju en bloggið er samt fínt.

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 7.7.2007 kl. 12:43

17 identicon

Sæll, Bjarni ! Meira djöfulsins uppgjafarhjalið í þér; maður. Hvaðan ert þú sprottinn ? Á að gleypa ''fræði'' og ''vísindi'' hins aumkunarverða frænda míns, Jóhanns Sigurjónssonar, þegandi, út í eitt ?

Vilt þú, Bjarni Harðarson; liggja hundflatur fyrir möppu blesunum, í Reykjavík (Hafrannsóknastofnun Íslands og Fiskistofu);; miklu fremur en hlusta á rök sjómanna og fiskverkafólks, firðir og flóar vaðandi í fiski ? 

Taktu þér tak, maður ! Fyrirgefðu, er líklega of mikill Vestlendingur, til þess að geta tekið undir þennan snubbótta Sunnlenzka hjalkór þinn, og allmargra flokkssystkina þinna. Þakka Skaftfellingnum Þóri Kjartanssyni hans innlegg, sérstaklega. Sigurgeir Jónsson er bezt geymdur, í sandgryfjum Sjálfstæðisflokksins, myndi bera Geir H. Haarde á gullstól, fengi hann tækifæri til. Árni Gunnarsson fer á kostum, að vanda, engin hálf kveðin vísa þar. 

Rektu af þér slyðruorðið Bjarni, og taktu upp hanskann, fyrir menn, eins og Gunnlaug Finnbogason, vestra, hann hvetur til að sjómenn sammælizt um, að hafa ráð möppu flónanna, að öngvu.

Með lítt hlýjum kveðjum / Óskar Helgi Helgason        

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband