Björgvin G. biðlar til hægri arms Framsóknar

Stórveldisdraumar eru annað nafn á vanmetakennd og slíkir draumar hafa lengi einkennt vinstra litrófið á Íslandi. Og úr þeirri átt er sífellt von upphrópana. Nú síðast slær nýbakaður viðskiptaráðherra því fram í Morgunblaðinu að Samfylkingin geti haldið áfram að sameina stjórnmálaflokka og næst tekið Framsóknarflokkinn undir sinn verndarvæng. Og þar með komið á tveggja flokka kerfi á Íslandi. Og jæja.

Ég get svosem alveg skilið að Björgvini leiðist að vera Samfylkingarmaður í Hreppunum svo fágætir sem þeir eru þar efra en hélt einhvernveginn að ráðherrastóllinn svíaði það versta úr þeirri tilfinningu. Hef líka trú á að Björgvin eigi eftir að standa sig þar og þykir vænt um að hann stendur nú á móti einkavæðingarvitleysunni hjá hinum enskuskotna græna geysi sem vill eignast orkugeirann. Hver veit nema Gnúpverjanum Björgvini G. Sigurðssyni verði með tíð og tíma bara heimilt að ganga í Framsóknarflokkinn - og umsóknareyðublaðið ætti hann að finna á heimasíðu flokksins, http://www.framsokn.is/. mynd

En það er í þessum undarlegu fabúleringum tónn sem kemur mér á óvart hjá jafn vinstri sinnuðum og skynsömum manni og Björgvini G. Sigurðssyni. Tökum þetta aðeins fyrir á kratíska vísu í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.

Hornsílisnafnið

Í fyrsta lagi þá hefur Samfylkingin ekki sameinað neina flokka á Íslandi. Stofnun hennar var nafnbreyting á gamla Alþýðuflokknum sem með strandhöggi í gamla Alþýðubandalagið sveigði sig örlítið til vinstri frá því sem var í tíð hægri krata á borð við Jón Baldvin og Gylfa Gísla. Um sama leyti var nafni Alþýðubandalagsins svo það heitir síðan Vinstri grænir. Þjóðvaki var dáinn þegar þessir atburðir urðu og sömuleiðis Kvennalistinn þannig að hvorugum þeim fjaðratætlum getur Samfylkingin skreytt sig. Í meira en mannsaldur hafa verið fjórir flokkar á Íslandi og margt sem bendir til að svo verði áfram. Reyndar hef ég að gamni mínu haldið því fram að flokkarnir hafi verið fjórir frá öndverðu í sögu þjóðarinnar og skrifað um það pistil en það er önnur saga.

Það hefur ætíð verið ákveðinn rembingur í nafngiftum vinstri flokka á Íslandi sem reyna með henni einni að sanna að þeir séu eitthvað annað en þeir eru. Flokkar alþýðunnar, sameiningarflokkar, bandalagsflokkar og nú síðast samfylking. Samfylking hverra. Nokkurra óánægðra Alþýðubandalagsmanna og Alþýðuflokksins gamla. Ekkert meira. Svolítið eins og með hornsílin sem syntu glöð um og sögðu keik,- hér syndum við fiskarnir.

 

Armur sem ekki er til!

Í öðru lagi,- skoðum aðeins hvað ráðherrann sjálfur segir um Framsóknarflokkinn á heimasíðu sinni, bjorgvin.is. Þar er skrifað um Framsóknarflokkinn í tveimur nýlegum greinum:

"Að mínu mati gæti þorri Framsóknar runnið saman við Samfylkingu ásamt ýmsum frjálslyndum félagshyggjuöflum í öðrum flokkum," segir í upphafi greinar sem skrifuð er nú í júlí og þar er í lokaorðum þessi setning: "Þá er ónefnd sú staðreynd að afar lítið ber í milli framsækinna Framsóknarmanna á mölinni og Samfylkingarfólks almennt. Heilt yfir fólk sem aðhyllist frjálslyndi í ríkisrekstri en sterka velferð og sanngjarna félagshyggju."

11. júní skrifar viðskiptaráðherra í kjölfar varaformannskjörs í Framsóknarflokknum: "Guðni stímir til vinstri. Frá Evrópu og frjálslyndri þéttbýlispólitík sem má kenna við Halldór og hægri ásinn. Um leið siglir hann frá möguleikum um fylgisaukningu á mölinni. Stefnan er tekin á sveitina þar sem flokkurinn stendur enn bærilega. Keppnin verður við Vinstri græna á næstu árum. Að endurheimta vígið í dreifbýlinu. Taka utan um kjósendur sem aðhyllast þjóðleg og varfærin viðhorf. Þá sem fylgja ríkulegum beinum stuðningi við landbúnað, höft á fullvinnslufrelsi og innflutning matvæla."

Ég er reyndar ekki að öllu leyti sammála þessari greiningu á Framsóknarflokknum og það stenst ekki alveg að Framsóknarflokkurinn muni sigla frá þéttbýlinu og um leið keppa við Vinstri græna sem eru aðallega með fylgi á mölinni fyrir sunnan.

En það athygilisverðasta er að Björgvin er að bjóða er, svo notuð séu hans eigin orð, að "hægri ás" Framsóknarflokksins renni inn í Samfylkinguna. Væntanlega meintur Evrópuarmur. Og armur sem ekki stendur heill með landbúnaðinum. Ég held reyndar að þessi tiltekni hægri ás sé hvergi til og kannski gildir um hann að sá á þar fund sem finnur, kratar eða aðrir. Hugmyndin um það að í Framsóknarflokknum hafi verið til sérstök frjálslynd hægri sinnuð Evrópusambands-þéttbýlislína sem glópamótvægi við hina gamalgrónu og jarðbundnu Framsóknarstefnu er í mínum huga ekkert annað en misskilningur. Kannski svo útbreiddur að hann hefur hreinlega kostað okkur þingsætin í Reykjavík en það er þá verkefni dagsins að leiðrétta þann misskilning.

Sjálfur hefi ég ekki efast um að Samfylkingin eigi á næstu árum eftir að sveigjast aftur inn á þá hægri stefnu sem einkenndi Alþýðuflokkinn um langt árabil. Ingibjörg Sólrún hefur boðað slíka stefnubreytingu oftar en einu sinni. Skilmerkilegast þegar hún skammaði flokksmenn fyrir að þeim væri ekki treystandi vegna vinstri öfga. En sú hægri stefna mun ekki færa Samfylkinguna nær Framsóknarflokknum nema síður sé.

Átakalínan í pólitíkinni

Í þriðja lagi og það er aðalatriði - það eru fleiri ásar í pólitíkinni en hægri og vinstri ásinn. Á gamla vinstri-hægriásnum eiga Framsókn og kratar vissulega nokkra samleið, t.d. þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja, umhverfisvernd og um sumt í utanríkismálum. En óvart eru þeir þar á sömu skoðun og allur meginþorri þjóðarinnar. Fylgja hófsamri meðalhófsreglu.

Þegar kemur að þeim málum sem virkileg átök eru um er enginn flokkur eins langt frá hinni heilbrigðu þjóðlegu Framsóknarhugsjón eins og hinn alþjóðlegi sósíaldemókratismi.

Þetta á við um byggðamálin, Evrópumálin, landbúnaðinn, þjóðræknina, menningarpólitíkina, utanríkispólitíkina, sveitarfélagapólitíkina og síðast en ekki síst jafnaðarstefnuna. Kratar aðhyllast jafnaðarstefnu fárra útvalinna. Þegar kemur að efnalitlum bændum eða alþýðufólki í hinum dreifðu byggðum sem á alla sína fjárhagslegu stöðu undir því að byggðin dafni ber meiri á ójafnaðarmennsku hjá hinum svokölluðu borgaralegu og frjálslyndu krötum þessa lands.

Ég hélt reyndar að hæstvirtur viðskiptaráðherra sem er úr sveit tilheyrði öðrum armi þessa flokks enda ættaður úr Alþýðubandalaginu sáluga en það verður að vera hans mál ef hann vill kvarða sig niður með hægri krötum landsins. Hægri krötum sem hafa lengstum verið mun lengra til hægri en grasrót Framsóknarflokksins.

(Birt í styttri útgáfu í Mbl. í síðustu viku.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta er of langt til að nenna að ........Hvað er orðið af bóksalanum sem kominn er á þing???

Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 01:53

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

það verður fróðlegt að fylgjast með hvort "rothöggið" muni hafa afleiðingar til framtíðar.  Vonandi hressistu fljótt. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 9.7.2007 kl. 22:19

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það verður ekki komið á tveggja flokka kerfi á Íslandi með því einu að Framsókn renni inn í SF.Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema taka upp einmennings kjördæmi líkt og er í Bretlandi.En ég held að ef Framsókn á að rísa upp aftur, þá verði forystu Framsóknarflokksins fyrst að verða ljóst, að sá Framsóknarflokkur sem einu sinni var kemur aldrei aftur.Fyrst og fremst vegna þess að samvinnuhreyfingin er horfin, en hún var þungamiðjan í hugmyndafræði flokksins.Það dugir ekki að skammast út í kommúnista í einu orði, en segja svo í hinu að menn séu vinstri menn.Þið Guðni mættuð líka hugleiða það, að samkvæmt skoðanakönnunum kusu 28 prósent fólks, sem kusu Framsókn 2003, Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum 2007.

Sigurgeir Jónsson, 11.7.2007 kl. 21:23

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Því miður þarf að koma leiðrétting. 28 prósent af fylgistapi Framsóknar, miðað við 2003 fór til Sjálfstæðisflokks 2007.

Sigurgeir Jónsson, 11.7.2007 kl. 21:30

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

KLUKK!

Halldór Egill Guðnason, 12.7.2007 kl. 01:06

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það býr í okkur öllum eitthver KRATi///Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.7.2007 kl. 15:30

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Nú kaus ég ekki kratana þrátt fyrir að telja mig hægri krata. Og skil ekki alveg skilgreiningu þína á ójafnaðarmennsku gagnvart efnaminni bændum. En ég ber enn traust til Björgvins, skal vera fyrsti maður til að viðurkenna þau mistök ef það reynist rangt. Það er aftur á móti þitt hlutverk að gera Framsókn að einhverju öðru en auðsveipum meðreiðarsveini. Pólitísku afli sem hefur heila og ígrundaða mynd af Íslandi framtíðarinnar. Þá er ég ekki að tala um slagorðaklisjurnar eins og "Fólk í fyrirrúmi" heldur óforpokaðri og nútímalegri mynd af nýju Íslandi.

Og óska þér góðs gengis. 

Ævar Rafn Kjartansson, 13.7.2007 kl. 00:00

8 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

O. Var búið að klukka þig. Ég allavega klukka þig líka......og koma svo

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 13.7.2007 kl. 11:46

9 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Góða helgi

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 13.7.2007 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband