Ríkidæmið er réttarsúpunnar

Góðbændur og sænskar hestastelpur, þingmenn og kaupstaðarfólk í lopapeysum
hnappar sér allt saman í miðjum almenningnum og syngur um blágresi en í
nálægum dilk er verið að segja sögur innan úr Arnarfelli hinu mikla og
aðrar af orðtaki héraðslæknis. Allt í einni kös. Tveir kenndir en flestir
aðeins ölvaðir af gleði dagsins. Það er nefnilega réttadagur. 
 
Í dag í Hreppunum báðum og á morgun í Tungum og Skeiðum. Í þeim öllum fleira fólk
en fé og stemmningin eins og hvort sem hann rignir eða ekki. Ósvikin og
íslensk. Á eftir er réttasúpa á Hrafnkelsstöðum.
IMG_8000
Þeir eru til sem halda að sauðfjárbúskapur á Íslandi sé aukaatriði,
réttagleðin eins og hvert annað fyllerí og hvorugt komi velsæld okkar
Íslendinga við.  En án þess að við gerum krónum og hagnaði of hátt undir
höfði þá er það samt svo að við erum aðeins ríkir út á réttarsúpuna og
systur hennar í hinni þjóðlegu menningu.

Ríkidæmið er ekki reiknisdæmi...
Ef kaldur veruleiki reiknivélarinnar réði gæfu þjóða þá er það
fljótreiknað að Íslendingar hljóta að vera allra þjóða fátækastir. Fáir og
smáir í hörðu landi, langt frá heimsins glaumi. Veðrið rysjótt og við
sjálf frek til fóðurs og mörg gírug. Ekkert í spilunum sem gefur tilefni
til að hér sé standandi velsæld.

Reiknivélamenn hafa reyndar margir reiknað út að við ættum að hætta
landbúnaði, leggja sveitirnar af og Vestfirðina líka, flytja suður sem
flestir en vera kannski örfáir eftir við hringveginn með þjóðvegasjoppur
fyrir ferðamenn. Þessir menn eru að reikna á sömu reiknivélar og sýna
okkur að við hljótum að vera fátækir í öðru eins landi. Og ef við gefum
reiknivélamönnunum frítt spil þá fer það líka að vonum að við verðum fátæk
og vesæl í litlu borgríki.
...velsældin er í sérviskunni!
Það er langt síðan alvöru hagfræðingar áttuðu sig á því að ríkidæmi er
ekki reiknisdæmi. Það er spurning um afstöðu,- einkanlega svokallaða
sjálfsmynd. Við Íslendingar erum ríkir af því að við trúum á mátt okkar og
megin. Afar okkar (OG ÖMMUR SAMKVÆMT VINSAMLEGRI ÁBENDINGU HÉR AÐ NEÐAN,TAKK FYRIR ÞAÐ, ÞETTA VAR KARLREMBULEGUR KLAUFASKAPUR!) tóku við boðskap ungmennafélaga og þjóðernisrómantíkur
og drukku í sig óbilandi trú á sveitinni, firðinum, fjöllum sínum og
afdölum. Lögðu vegi heim að hverju koti og spurðu ekki um arðsemi.
Úrelt segir sumt nútímafólkið. Hefur vitaskuld rétt fyrir sér í því að það
eru nýir tímar með nýjum viðhorfum. Við lifum ekki öll á fjárbúskap feðra
vorra eða skaki úti fyrir Skerprestinum í Eyjum.  Nýir tímar útheimta
vissulega að við horfum til fleiri átta.
En til þess að vita þvert á alla skynsemi að okkur mörlandanum séu allir
vegir færir þá þarf sjálfsmyndin að vera í lagi. Án hennar komust við
hvergi, hvorki í útrás eða uppgangi. Grunnurinn að sjálfsvitund og kannski
á köflum svolitlu stórmennskubrjálæði eru hinar menningarlegu rætur.
Ef við Íslendingar verðum svo lánlausir að klúðra ofan í landbúnaðarstefnu
kratanna og byggðastefnu frjálshyggjunnar bæði sauðfjárbúskapnum í
Hreppunum og mannlífinu í Vestmannaeyjum þá er kominn kengur í þá
sjálfsmynd sem við hljótum að byggja á. Það sem sparast verður klink eitt
í samanburði við það sem tapast.
Brotin sjálfsmynd mun svo sannarlega bitna á peningalegu ríkidæmi okkar í
bráð og lengd fyrir nú utan hvað það verður leiðinlegt að geta ekki farið
í réttasúpu á Hrafnkelsstöðum.
 
(Áður birt í Blaðinu sl. laugardag og skrifað á bænum Jörfa á Flúðum á sjálfan Hreppa-réttadaginn.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sæll Bjarni.

Ég hef verið að lesa allt sem þú hefur verið að skrifa varðandi Grímseyjarferju málið og einnig hlustaði ég á viðtalið við Róbert M. í  Kastljósinu.  Allt sem þú hefur verið að skrifa um þetta Grímseyjarferju er rétt og þó er ekki allt sagt eða skrifað eins og það er í rauninni því þetta mál er enn verra en fram hefur komið.  Einnig er fyndið og aumkunarvert hvernig Kristján Möller hefur tekið á málum eins og hann spriklaði í kosningabaráttunni og missir síðan niður buxurnar þegar á hólminn er komið og reynir að klóra yfir skítinn,  og svo kemur gólftuskan hans og reynir að ata þig aur og skít.  Ekki eru málefna staðan sterk hjá þessum mönnum. 

Einar Vignir Einarsson, 16.9.2007 kl. 23:45

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Bjarni þú mátt ekki skrifa svona í karlrembustíl. Þá færðu yfir þig dembu sem ekki verður mæld í millimetrum.

"Afar okkar tóku við boðskap". Hefði verið heppilegra að orða þetta tengt báðum kynjum.

Þegn í Suðursveit.

Þórbergur Torfason, 17.9.2007 kl. 10:25

3 identicon

Í næsta fjölskylduboði væri gaman ef þér tækist að útskýra fyrir mér hvernig drekking 108 kinda (maður hefur á tilfinningunni að pynding og aftaka hafi stafað af hefð, öllu heldur íslenskri karlmennskuhefð og þvermóðsku í stíl framsóknarmannsins Bjarts í Sumarhúsum) getur peppað upp sjálfsmynd mína eða tínt saman hugsanleg framtíðarbrotin.

Göngur og réttir eru ekkert annað en dýramisþyrmingar, framdar af mismunandi sauðdrukknu fólki.  Ég mun fagna þeim degi þá þetta athæfi leggst af!

Harpa mágkona (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 17:22

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Harpa, þetta er skelfilegur misskilningur sem stafar vonandi af þekkingarleysi. Smölun, leitum og rekstrum er stjórnað af reyndum mönnum sem leggja sig fram við að lágmarka allt það hnjask sem óhjákvæmilega fylgir rekstri hjarðar. Sjálfur hef ég langa reynslu af þessu starfi sem óhjákvæmilega fylgir frjálsræði sauðkindarinnar í sumarhögum. Í þeim tilvikum þegar ungir og óreyndir galgopar sýndu af sér kæruleysi á þeim siðareglum sem gilda, fengu ofanígjöf sem þeir urðu að taka mark á.

Árni Gunnarsson, 18.9.2007 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband