Þegar ég varð kaffidama...

Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur lagt fyrir þingið tillögu um að hætt verði að nota heitið ráðherra og þess í stað fundið hæfilegt kynlaust starfsheiti. Ég er þingkonunni sammála að hér er breytinga þörf en konan mín sem þekkir mig betur en ég sjálfur segir að ég sé að verða silkimjúkur í skoðunum, - gott ef ekki hálfgerð kelling! Og auðvitað er það ekki bara Steinunn Valdís sem hefur rétt fyrir sér, kona mín hefur það líka,- og hún hefur það alltaf sem er nú meira en hægt er að segja um nokkurn þingmann Samfylkingar. Elin_Gunnlaugsdottir

En jæja, þetta er orðinn svoldill inngangur að stuttri sögu. Það er nefnilega ástæða fyrir þessari afstöðubreytingu. Það er reynsluheimur (sár og djúpur )sem ég bý yfir og hef ákveðið að deila með ykkur, kæru lesendur.

Fyrir liðlega ári síðan ákvað ég að leggja fyrir mig pólitík eftir langan feril sem blaðamaður og hætti um leið í blaðamennskunni enda fer hún illa saman við pólitíkina. Um svipað leyti stofnuðum við hjónin lítið kaffihús  og ég taldi því heppilegast að starfsvettvangur minn samhliða prófkjörsbaráttu væri í kaffihúsinu. Ég starfaði semsagt við það að hella upp á kaffi, framreiða kökur og selja bækur því kaffihúsið er um leið bókabúð og notaði tvo titla sem mér þóttu báðir hæfa af þessu tilefni, semsagt bóksali og kaffidama. Það vita allir að það er ekkert til sem heitir kaffidrengur, kaffisveinn eða kaffistrákur en kaffidama er þekkt hugtak yfir starfsstúlkur sem framreiða kaffi. Í anda þess jafnréttis að konur kalla sig í dag ráðherra og skipstjóra taldi ég mig vera kaffidömu. Jæja!

Nánir vinir mínir hvísluðu að mér að þetta væri MJÖG óviðeigandi án þess að útskýra það nánar. Ókunnir sem ráku nefið inn í búðina og heyrðu þessu hent á loft brugðust við eins og upp hefði komið eitthvað óviðurkvæmilegt og ónefnanlegt. Þar sagði líkamstjáning og þögn miklu meira en nokkur orð og sagði mikið.

Þetta minnti mig á atvik sem ég lenti í sem ungur maður árið 1980. Þá vann ég í frystihúsi austur á landi, í móttökunni. Það var frekar lítið að gera og við yfirleitt sendir heim klukkan 5 og launin því fyrir litlu meiru en mat og gutlandi póstkröfum. Svo gerist það einn daginn að Lolla vinkona mín sem vann á borði inni í sal segir við mig að það sé alltaf kvöldvinna hjá krökkunum í humrinum, þau standi jafnvel við smátittir til 10 á kvöldin. Við þangað og verkstjórarnir þar tóku okkur fagnandi enda svo mikið að gera og 11 og 12 ára krakkaskammirnar dauðþreyttir á löngum degi. Þetta gekk í tvö kvöld,- þá fór að spyrjast út um húsið: Það eru strákar á borði og setningin var sögð með sömu ógeðstilfinningunni eins og það hefði átt sér stað einhver kynferðislegur glæpur inni í húsinu. Og okkur var leyft að vera gegn því að við létum okkur ekki ALDREI detta þetta í hug aftur!21680

Síðan hefur margt lagast í frystihúsunum en áfram lifa þeir fordómar að karlar geta ekki tekið sér neitt það í munn sem konu tilheyrir öðru vísi en að niðurlægja sjálfan sig. Kona skal aftur á móti verða af því montnust að mega nota titil karls. Meðan við hugsum svona næst ekki jafnrétti. Þessvegna fagna ég tillögu Steinunnar Valdísar þó ég vilji reyndar miklu frekar sjá þá breytingu verða í samfélaginu að karlar fari einfaldlega að kalla sig starfstitlum kvenna þar sem það á við!

Höfundur er alþingismaður, bóksali og kaffidama

(Birt í 24 stundum sl. laugardag.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Freyr Hólm Ketilsson

Launin fyrir litlu meira en gutlandi póstkröfunum...
Kannast við það...

Skemmtileg lesning hjá þér Bjarni. 

Freyr Hólm Ketilsson, 26.11.2007 kl. 09:19

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábær lesning, þú hittir algjörlega naglann á höfuðið!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.11.2007 kl. 10:11

3 identicon

Bjarni minn. Þetta var flott færsla hjá þér. Bestu kveðjur til Elínar og barnanna. Við heyrumst vonandi fyrir n.k. fimmtudagskvöld. Hrefna Birgisdóttir.

Hrefna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 12:55

4 Smámynd: Solveig Pálmadóttir

Bjarni, lestu þessa færslu, þvílík snilld

http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/entry/371835/

Knús Sp

Solveig Pálmadóttir, 26.11.2007 kl. 15:20

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eitt það allra besta sem komið hefur frá þér Bjarni.

Áfram með smérið - í svipuðum dúr og moll helst líka! 

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 26.11.2007 kl. 21:14

6 identicon

Ég hélt að fólk sem afgreiddi kaffi í dag væri kallað kaffiþjónar eða kaffbarþjónar. Já og þú þarft að lesa færsluna hans Stormsker, reyndu bara að sía út bullið, það eru nokkrir góðir punktar þarna inn á milli.

Bjöggi (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:39

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Margar konur hafa verið: Skipstjórar, flugmenn, bílstjórar og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp en engum hefur dottið í hug að breyta starfsheitinu.  Það er ekki rétt munað hjá Steinunni Valdísi, að starfsheitinu Hjúkrunarkona hafi verið breytt vegna þess að karlmenn fóru að vinna við það, heldur var breytingin gerð til þess að færa starfsheitið nær nútímanum og var þetta gert að kröfu hjúkrunarkvenna á sínum tíma.  Gæti ég best trúað að fóstrudæmið, sem hún tiltók líka, sé eins tilkomið.  En er virkilega svo lítið að gera á Alþingi að þetta sé mesta málið?

Jóhann Elíasson, 28.11.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband