Af árekstrum hins hörundsára bæjarstjóra

Sjálfstæðismaðurinn Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ hefur ekki bara hæfileika til að sitja í senn beggja megin borðs í samningaviðræðum. Bæjarstjórinn telur sig einnig geta haft tvær andstæðar skoðanir í senn og ef honum þóknast að segja að svart sé hvítt þá skal það svo vera. Þetta kemur glöggt fram í grein bæjarstjórans í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.

111. meðferð á bæjarstjóra

Grein sína byrjar bæjarstjórinn á að rekast í vikugömlum mismælum undirritaðs í ræðustól Alþingis sem ég leiðrétti í sama ræðustól samdægurs. Ef bæjarstjóranum er fró í því að byrja hér eftir allar greinar á að geta um þessa illræmdu meðferð sem ég á að hafa veitt honum þá er honum það meira en velkomið. Mismæli um bæjarstjóra mætti hér eftir skilgreina sem óguðlega 111. meðferð í anda Ólafs Ljósvíkings.

Í niðurlagi kvörtunar sinnar yfir mismælinu skrifar bæjarstjórinn nær viku eftir atburðinn: „Það hefur nú verið leiðrétt," og þýðir af orðanna hljóðan að liðið hafi langur tími áraunar hinnar 111. meðferðar sem bæjarstjórinn varð að þola af minni hálfu. Þetta er óréttmætt þar sem ummælin voru leiðrétt samdægurs en skal fyrirgefið og engrar afsökunar krefst ég vegna þessa. Tel einfaldlega að við sem í stjórnmálum störfum þurfum þykkari skráp heldur en bæjarstjórinn á Reykjanesi virðist hafa.

Sárindin eini skjöldurinn

Verst þykir mér þó að bæjarstjórinn skuli nota meint sárindi vegna mismælis til þess að skauta framhjá allri málefnalegri umfjöllun um þátt sinn í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar þar sem hann hefur verið mjög á ystu brúnum almennra reglna um hæfi og vanhæfi.

Þannig tilnefnir Steinþór Jónsson þáverandi stjórnarformaður SSS (Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum) Árna sem fulltrúa sinnar stjórnar í stjórn Kadeco ehf. og skömmu síðar kemur sami Steinþór sem er þá orðinn stjórnarformaður, einn aðaleigandi og prófkúruhafi hlutafélagsins BASE og kaupir ríkiseignir af Kadeco ehf. fyrir hundruðir milljóna.

Umræddur Steinþór er reyndar einnig í bæjarstjórn Reykjanesbæjar undir forystu Árna og sama má segja um þrjá aðra einstaklinga og samflokksmenn bæjarstjórans sem allir kaupa hluta af þeim ríkiseigum sem Kadecostjórnin hefur til umráða.

278_Undirritun%201    untitled

(Tvær undirskriftarmyndir af vef Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Af sætaskipan má lesa að á annarri situr Árni Sigfússon sem fulltrúi kaupenda sem er háskólafélagið Keilir þar sem hann situr í stjórn. Á hinni myndinni sem fulltrúi seljenda en þar er kaupandi fasteignafélag Keilis, Háskólavellir ehf. Í báðum tilvikum er Kadeco að selja eignir ríkisins. Sjá nánar hér og hér, (tvíklikkið.))

Beggja vegna borðs

Umsvifamest í kaupum er félagið Háskólavellir sem Reykjanesbær stofnar með fleiri aðilum og það félag starfar í nánum hagsmunatengslum við háskólafélagið Keili þar sem bæjarstjórinn er í stjórn. Háskólavellir kaupa eignir af Kadeco með einum 14 milljarða samningi þar sem bæjarstjórinn situr af þremur ástæðum beggja megin borðs.

Í fyrsta lagi vegna þess að hann er í stjórn Keilis sem byggir tilveru sína á samningum Háskólavalla.

Í öðru lagi vegna margháttaðra tengsla bæjarins og stjórnar Keilis við einstaka eigendur Háskólavalla.

Í þriðja lagi vegna eignarhlutdeildar Reykjanesbæjar í Háskólavöllum (allt eins þó hann hafi verið seldur nú löngu eftir að samningum var lokið.)

Eitt af þessu þrennu hefði ef til vill mátt skýra sem óheppni og klaufaskap en þegar um svo margháttaða hagsmunaárekstra er að ræða verður slík skýring í besta falli hjákátleg.

Að þessu sögðu er rétt að geta þess að margt er gott í þeim verkum sem efnt er til á Keflavíkurflugvelli og þar á Árni Sigfússon sinn hlut í því sem þakka ber. Þar er ánægjulegt að sjá herstöð breytast í þekkingasetur. Um það eru menn allra flokka á Suðurnesjum sammála. En hversu gott sem viðfangsefnið er réttlætir það ekki þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð við útdeilingu eigna almennings.

Ná reglur ekki yfir Sjálfstæðismenn

Vera má að reglur um vanhæfi, sannsögli og samkvæmni séu aðeins taldar ná til stjórnmálamanna utan Sjálfstæðisflokks. Þögn margra fjölmiðla um málið gæti bent til þessa en hin sterku tök Sjálfstæðisflokksins á fjölmiðlum landsins koma nú skýrt fram.

Það er því að vonum að liðsmenn sama flokks telji sig geta haft athugasemdalaust tvær eða fleiri andstæðar skoðanir í senn. Þannig átelur Árni Sigfússon nú bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins Eystein Jónsson fyrir að ræða viðsnúning Sjálfstæðismanna gagnvart einkavæðingu Hitaveitunnar og sölu orkuauðlinda á Reykjanesskaga. Fyrir málefnalega umræðu sína er Eysteinn settur á bekk með okkur meintum ósannindamönnum sem ekki eru Sjálfstæðisflokki þóknanlegir.

Það rétta í málinu er að 12. júlí lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ fram bókun þar sem fagnað var 32% eignarhlutdeild Geysis Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja og sagt um þann atburð:

„Samkomulagið tryggir jafnframt fyrstu skref einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi þar sem kraftar einkaframtaksins verða virkjaðir á sviði orkuframleiðslu..."

Ef 32% eignaraðild er fyrsta skrefið í einkavæðingu orkufyrirtækja og auðlindanna er stefnan greinilega ekki að almenningur eigi meirihlutann í sömu eignum. Nú segir Árni Sigfússon aftur á móti að tryggja beri „forgang almennings að auðlindunum sjálfum, ýmist með skýrri löggjöf eða meirihlutaeigu."

Bæjarstjóranum er vitaskuld heimilt að skipta um skoðun í þessu máli og batnandi manni er best að lifa eins og fyrrnefndur bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins bendir á. En batinn er afar ótraustur ef Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ telja sig geta talað tungum tveim þegar kemur að eignarhaldi á orkufyrirtækjum. Slík pólitík er hvorki líkleg til farsældar eða árangurs.

(Að stofni til grein sem birtist í Mbl. sunnudaginn 16. desember. Ljósmyndir fengnar af vef Kadeco ehf.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þú verður varla lengi í pólitíkinni ef þú ert svona hörundssár.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.12.2007 kl. 18:17

2 identicon

Það var ömurlegt af þér Bjarni að slá þessu fram á Alþingi, þú veist það manna best að fólk grípur það sem er slegið fram með upphrópum en ekki afsökunarbeiðnirnar sem koma hvíslaðar seinna. Ég er nokkuð viss um að þú vissir alla tíð að Árni var ekki persónulega skrifaður fyrir nokkrum hlut í félögunum en hafir í hita leiksins ákveðið að slá þessu fram. Og það á Alþingi, sem í mínum huga er ekki rétti staðurinn til að fara með ósannindi.

Agnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 22:55

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Gangi þér vel Bjarni að gæta hagsmuna okkar skattgreiðenda. Það er ekki ásættanlegt að flokksskírteini séu mikilvægustu pappírarnir í þessu ferli. Í eðlilegri tilhögun sölu hefði það átt að vera útboð Ríkiskaupa. Árni Sigfússon er að reyna að draga athyglina frá þessum kjarna málsins.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.12.2007 kl. 00:48

4 identicon

Sæll, Bjarni.

Er sammála um undarlega afgreiðslu á sölu varnarliðseigna en spyr:  Hvernig ætlarðu að fylgja málinu eftir?

Kveðja með ósk um velgengni í hvívetna,

Lýður Árnason (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 04:22

5 Smámynd: skilningur

Ég skil.

skilningur, 17.12.2007 kl. 14:20

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það gildir annað siðferði hjá sjálfstæðismönnum. Þeim finnst alltaf jafn undarlegt að aðrir skuli hafa eitthvað við það að athuga.

Man enginn lengur eftir olíumálinu?

Enginn slær þó Davíð við s.br. ráðningu "sendiherranna" svo eitthvað sé nú nefnt.

Árni Gunnarsson, 17.12.2007 kl. 19:29

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Halli gamli er sjálfstæðismaður,en sjálfstæður!!!það er misjafn sauður i mörgu fé/kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 19.12.2007 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband