Pennavinurinn minn Árni
20.12.2007 | 10:57
Við Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar höfum skrifast lítillega á í Morgunblaðinu undanfarna daga og til þess að öllu sé til skila haldið tel ég rétt að birta hér saman síðustu grein bæjarstjórans og svargrein mína þar aftan við og vona að þar með séu þessi skrif að baki, a.m.k. til jóla. Grein Árna sem heitir, Enn fer hann með rangt mál, er svohljóðandi:
"ÉG geri kröfu til að sérhver þingmaður leggi sig fram um að fara með rétt mál. Í grein sem Bjarni Harðarson alþingismaður ritar í Morgunblaðið sl. sunnudag fjallar hann enn á rangan og villandi hátt um amk. þrjú mikilvæg atriði er tengjast endurreisn Vallarheiðar.
1. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum tók fyrir erindi forsætisráðuneytisins um skipun sambandsins á einum af þremur fulltrúum í stjórn fyrirhugaðs þróunarfélags. Stjórn sambandsins er skipuð bæjarfulltrúum frá 5 sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þessi stjórn samþykkti einum rómi á fundi sínum 13. október 2006 að skipa Árna Sigfússon bæjarstjóra í Reykjanesbæ sem fulltrúa sveitarfélaganna í stjórn fyrirhugaðs Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Sigurð Val Ásbjarnarson bæjarstjóra í Sandgerði, sem varamann. Það er því alrangt hjá Bjarna að þáverandi formaður Sambandsins hafi skipað hann sérstaklega.
2. Reykjanesbær stóð að hugmyndafræði og stofnun Háskólavalla. Félagið var stofnað í janúar sl. og bærinn greiddi kr. 125 þúsund í stofnframlag. 28. júní sl. gekk Reykjanesbær út úr félaginu. (Sjá fundargerð bæjarráðs 28. júní, 7. mál og Fyrirtækjaskrá sama dag.) Samningar Háskólavalla og Þróunarfélags Keflavikurflugvallar voru undirritaðir 5. október sl. Það er því alrangt hjá Bjarna að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hafi setið báðum megin við borðið þegar unnið var að kaupsamningum vegna nemendaíbúða á svæðinu.
3. Enn er því haldið fram að fjórir bæjarfulltrúar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ hafi átt persónulega hagsmuni í samningum við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
Enn skal ítrekað að þetta er rangt hjá Bjarna. Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi, sem stjórnarformaður Base ehf. (Hótel Keflavík á þar 9% hlut), kom að slíkum samningum við Þróunarfélagið, aðrir ekki.
Þetta leiðréttist hér með.
ÁRNI SIGFÚSSON,
bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Svargrein mín sem birtist í Mbl. í dag undir heitinu Jólakveðja til Árna Sigfússonar er svohljóðandi:
Drottningin í Englandi ku hafa talað um sjálfa sig í fleiritölu og gerir kannski enn. Slíkt er skrýtið en styðst við hefðir. Það er þó enn skrýtnara að bæjarstjóri Reykjanesbæjar skuli tala um sjálfan sig í þriðju persónu með eiginnafni eða þá fornafninu hann" í greinarstúf sem ber heitið: Enn fer hann með rangt mál! Tilefnið er umfjöllun um eignir sem ríkið átti á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið skipt milli valinna sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.
Við fyrstu sýn gæti grein þessi því litið út fyrir að vera iðran og sjálfsgagnrýni en við nánari lestur kemur í ljós að þriðju persónu fornafnið hann er einnig notað um undirritaðan í grein þessari og ekki grunlaust um að það sé ég sem bæjarstjórinn telur fara með rangt mál.
Í fyrsta lagi vegna þess að Steinþór Jónsson formaður SSS og einn helsti kaupandi eigna á vellinum hafi ekki skipað Árna sérstaklega í stjórn Kadeco ehf. Það er alveg rétt enda segi ég það aldrei, það er þó auðvitað staðleysa hjá bæjarstjóranum að stjórn SSS hafi skipað hann í stjórnina, hún tilnefndi hann en ráðherra skipaði. Ég benti bara á að Steinþór hafi verið oddviti þeirrar stjórnar sem tilnefndi Árna og það staðfestir Árni í grein sinni. Allt annað er útúrsnúningur.
Það er líka útúrsnúningur að einhverju skipti hvort hlutur Reykjanesbæjar í Háskólavöllum hafi verið seldur 28. júní, þegar salan er samþykkt í bæjarráði, eða um haustið þegar ákvörðun bæjarráðs er endanlega staðfest í bæjarstjórn, sem er réttur ákvörðunaraðili málsins.
Síðan segir bæjarstjórinn að ég fari rangt með að fjórir bæjarfulltrúar hafi haft persónulega hagsmuni af sölu eigna ríkisins vegna þess að Steinþór Jónsson hafi einn komið að slíkum samningum við Þróunarfélagið. Annar bæjarfulltrúanna fór reyndar þá leið að kaupa skemmur ríkisins af fyrirtæki Steinþórs, sá þriðji situr í stjórn Sparisjóðsins sem er orðinn stór eignaraðili á svæðinu. Máske öll þessi störf séu unnin í ungmennafélagsanda og persónulegir hagsmunir komi hér hvergi nærri.
En það er von að bæjarstjóra sem talar um sjálfan sig í þriðju persónu yfirsjáist eitt og annað og gleymi því sömuleiðis hvar hann hefur sjálfur verið, hvenær það var hann sem gerði og hvenær bara einhver annar hann" eða einhver þriðju persónu Árni.
Ef bara er horft á heimasíðu Þróunarfélags Keflavíkur koma merkilegir hlutir fram. Þar er mynd af Árna Sigfússyni, sem er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, bæjarstjóri sama sveitarfélags og stjórnarmaður á ýmsum stöðum, þ.á.m. í Kadeco og Keili, að undirrita pappíra. Þann 5. október situr hann sölumannsmegin við undirskriftarborðið við milljarða sölu eigna til Háskólavalla, en er þá vísast búinn að gleyma því að hann sat við sama borð daginn áður eða þann 4. október, en er þá óvart kaupendamegin, sem fulltrúi Keilis. Af því er líka mynd á vef Kadeco.
Ef Árni myndi þetta hefði hann aldrei þrætt opinberlega fyrir það að hafa verið beggja megin borðs en bæjarstjóranum og stjórnarmanninum til afsökunar er rétt að hafa í huga að minnisglöp geta háð okkur öll. Ruglandi í notkun persónufornafna getur ýtt undir slíkt.
Að svo mæltu vil ég óska bæjarstjóranum gleðilegra jóla og ráðlegg kaflann um persónufornöfn í málfræðibók Björns Guðfinnssonar sem jólalesningu. En uppbyggingu á þekkingasetrinu á Keflavíkurflugvelli óska ég velfarnaðar og vona innilega að það skaðist ekki af þeim vinnubrögðum sem illu heilli hafa verið viðhöfð við eignasölu á svæðinu.
Bjarni Harðarson alþingismaður
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Athugasemdir
Glæsilegt svar hjá þér Bjarni !
Óskar Þorkelsson, 20.12.2007 kl. 11:40
Sumir eru haldnir þeirri þráhyggju að það eigi ævinlega að segja sannleikann.
Sannleikurinn er í sannleika sagt mesti vandræðagripur.
Aldrei kom mér annað í hug en að sjallarnir myndu hægt og hljótt eigna sér þau verðmæti sem Kaninn ánafnaði þessari þjóð.
Annað hefði verið stílbrot.
Árni Gunnarsson, 20.12.2007 kl. 18:10
Bjarni, ég vonast til að sjá ykkur Atla Gísla koma því til leiðar að þessum kaupum verði rift og farið verði að lögum.
Mér finnst hins vegar sorglegt að sjá hversu áhugalausir flestir þingmenn eru um að uppræta spillingar- og græðgismál. Þetta segir manni að flestir þingmennirnir séu á þingi til að þjóna miklu meira sjálfum sér, einkavinum og leiðtogum fremur en samfélaginu.
Haukur Nikulásson, 21.12.2007 kl. 10:18
Bjarni þetta er flott hjá þér, það virðist vera ótrúlegt andvaraleysi hjá okkur um þessi mál. Árni Sigfúss, er söluaðili að þessum eignum og eftir að hann hefur valið kaupendahóp sem var honum þóknanlegur hljótum við að ætlast til að hann segi "strákar þið verðið að gera betur " þegar kemur að verðlagningu, annars er hann og stjórn Þ.félagsins ekki að vinna vinnuna sína, að segja "það kom ekki hærra tilboð" er engin afsökun fyrir því að selja "okkar eigur" á hálfvirði því þá átti einfaldlega að finna fleiri áhugasama, starfsemin var komin í gang og ekkert stress yfir sölumálum. ps getur verið að starf bæjarstjóra sé orðið mjög umfangslítið, hann virðist vera í öllum opinberum nefndum sem sem hér eru starfandi ?
Snorri Gestsson (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.