Verðbólgufjárlögin 2008
21.12.2007 | 18:42
Ný ríkisstjórn hefur fengið sín fyrstu fjárlög samþykkt og markar nokkur tímamót. Þau mest að í stað þess að reynt sé að gæta aðhalds og haga fjárlögum í samræmi við almennar ráðleggingar hagfræðinga og alþjóðlegra greiningaraðila gefur hin nýja ríkisstjórn skynseminni langt nef. Fjármálaráðherra skellir í andlit þjóðarinnar mestu verðbólgufjárlögum síðari ára og leita þarf aftur til 1993 að ríkið taki eins stóran hluta vergrar landsframleiðslu í sína eyðslu.
Hækkun fjárlaga milli ára er um 20% sem er meiri munur en sést hefur frá því fyrir tíma þjóðarsáttar eða í nær tvo áratugi. Látlausar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans sem kosta hvert heimili nú tugi þúsunda á mánuði hverjum í auknum útgjöldum má beint rekja til hátt stemmdra fjárlaga og þess að lausatök eru á allri efnahagsstjórn landsins.
Sama dag og fjárlögin urðu að lögum segir utanríkisráðherra að framlag ríkisins til kjarasamninga verði að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Geir H. Haarde gengur hér skrefinu lengra í óskhyggjunni og lýsir forsætisráðherra því yfir í útvarpsviðtali að stöðugleiki sé nú að komast á og verðbólguhjólið að stöðvast rétt eins og veður í fjármálalífinu ráðist af forspá ráðherra.
Raunveruleikinn og ráðgjöfin
Í umræðu haustsins um hagstjórnina hafa allir greiningaraðilar, hagfræðingar, Seðlabanki og erlend matsfyrirtæki lokið upp einum munni um að gæta þurfi aðhalds í hagstjórninni. Þeir þessara aðila sem hafa á annað borð lagt mat á fjárlagafrumvarpið drógu ekki af sér í að gagnrýna það fyrir of hátt stemmdan útgjaldaboga. Í greiningum frá sjálfu fjármálaráðuneytinu kvað við heldur hjáróma og óvissan tón um þessi atriði og slegið úr og í. Og til réttlætingar eyðslunni var hafður sá fyrirvari að svona þyrfti að bregðast við þar sem stóriðjuframkvæmdum væri nú lokið og sjálfur sagði fjármálaráðherra í ræðu að fjárlögin nú væru há til að mæta yfirvofandi atvinnuleysi! Allir sem fylgjast með vita þó að tímabili stórframkvæmda tengdum orkugeiranum er langt því frá lokið. Þessari pólitíska þversögn er plantað inn í forsendur fjármálaráðuneytisins og málflutning ráðherrans til þess að knýja megi fram þá niðurstöðu að skynsamlegt sé að gefa hressilega í við öll ríkisútgjöld.
Hættan við mjög sterkan ríkisstjórnarmeirihluta er mest í því að hann getur auðveldlega talið sér trú um að svart sé hvítt. Gagnrýnin verður vitaskuld veikari, einkanlega í hinni samfélagslegu umræðu. Þetta höfum við fengið að reyna á liðnum vetri þar sem fjölmiðlar hafa lítið skeytt um þau varnaðarorð í efnahagsmálum sem við Framsóknarmenn höfum haft uppi. Gagnrýni okkar á hagstjórnina kemur helst fyrir almenningssjónir þegar vekja þarf athygli á að stjórnarandstaðan tali ekki einum rómi því auðvitað hafa okkar ágætu sósíalistar í VG ekki áhyggjur af of miklum ríkisútgjöldum. Og ekki Frjálslyndir heldur. En það er reyndar undarlegur misskilningur að stjórnarandstöðuflokkum beri að samræma málflutning sinn. Það eru stjórnarflokkar sem þurfa að gera það og hefur hörmulega tekist.
Skömm Framsóknarmanna!
Sá mæti þingmaður Kristján Þór Júlíusson varaformaður Fjárlaganefndar lauk umræðunni um fjárlögin á þessu ári með því að skamma Framsóknarflokkinn fyrir að vera ekki með í allri þeirri óráðssíu sem núverandi stjórnarflokkar standa að. Hafi þeir skömm fyrir Framsóknarmenn, sagði þingmaðurinn og ég þakka honum fyrir að viðurkenna þó að við framsóknarmenn höfum einir haft kjark til þess á liðnu haustþingi að tala fyrir nauðsynlegu aðhaldi í ríkisfjármálum sem sárlega skortir á í nýsamþykktum fjárlögum. Og við höfum nefnt þar leiðir til sparnaðar sem heita í máli varaformanns fjárlaganefndar að níðast á gamalmennum og hundsa landsbyggðina. Fátt er þó fjær sanni.
En það er rétt að við gagnrýndum tvöföldun vegafjár frá því sem er á liðnu ári sem þó er metár í vegabótum. Hér er um að ræða loforð sem engin trygging er fyrir að hægt sé að efna vegna stöðu einstakra mála í skipulags- og umhverfismatsferli. Að stórum hluta sannast þar á hinn nýja ríkisstjórnarmeirihluta að honum er ekki nóg að lofa því fé sem mögulegt er að eyða heldur þarf líka að lofa því sem aldrei verður hægt að koma í lóg.
Engu að síður verka slíkar tölur í fjárlögum á hagkerfi landsmanna til aukins óstöðugleika og það er hvorki höfuðborgarsvæðinu né landsbyggðinni til góða. Þvert á móti hefur landsbyggðinni blætt fyrir ógnarlega þenslu hagkerfis suðvesturhornsins á umliðnum misserum. Brýnasta verkefnið fyrir byggðirnar er að koma þar böndum á.
Það er rétt að undirritaður hefur einnig bent á að hægar hefði mátt fara í því afnámi tekjutenginga sem ríkisstjórnin boðaði nú milli umræðna um fjárlögin. Það var í rauninni dæmafátt að sjá ríkisstjórnina bæta á eldinn þegar allir sem mark er takandi á höfðu þá áður boðað eftir fyrstu framlagningu að fjárlögin væru of hátt stemmd. Óstöðugleikinn mun bitna harðast á bótaþegum sem hvorki hafa gagn af afnámi tekjutenginga maka eða rýmri ákvæðum til að afla sér tekna en þar er sá hópur sem verst stendur. Hann mun verr standa fyrir yfirboð helgrar Jóhönnu nú í velferðarmálum.
Í máli Framsóknarflokksins í sölum þingsins höfum við einnig talað fyrir því að hinum almenna ramma fjárlaga sé haldið en sjá má hækkanir langt umfram verðlag á nær öllum liðum. Þannig eru krónutöluhækkanir í löggæslumálum og iðnaðarmálum álíka og var samfellt allt síðasta kjörtímabil. Hvorugt er þó vegna landsbyggðar eða til hagsbóta fyrir hina verst settu.
Blindingsleikur fjármálaráðherra
Það er langt því frá að vera okkur Framsóknarmönnum létt verk að tala hér máli skynseminnar og léttara væri að taka þátt í því lýðskrumi hinna stjórnarandstöðuflokkana að koma hvevetna með tillögur um aukin útgjöld og yfirboð.
En í skrumi hafa þessir flokkar þó varla tærnar þar sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur sökkt hælum sínum í fen yfirlýsinga um að fjárlögin nú séu þau aðalhaldssömustu sem samþykkt hafa verið. Raunar er yfirlýsingin ekki í neinu samræmi við framsöguræðu ráðherrans við fyrstu umræðu fjárlaga þar sem hann sagði að nú yrði að auka ríkisútgjöld verulega til að mæta yfirvofandi atvinnuleysi.
Rök ráðherrans nú fyrir því að fjárlögin séu aðhaldssöm eru þau að afgangur sé nú meiri en sést hafi fyrr. Um gildi þeirra útreikninga má deila því stór hluti af meintum afgangi þarf að koma af fjármagnstekjuskatti sem mjög getur brugðið til beggja vona með á tímum lágflugs á hlutabréfamarkaði.
Aðalatriði er þó að aðhaldssemi í fjárlögum hefur ekkert með afgang þeirra að gera heldur hlýtur aðhaldsstigið að mælast af heildarútgjöldum sem hafa aldrei fyrr í sögunni hækkað eins mikið milli ára í krónum talið og ekki í prósentum síðan fyrir þjóðarsáttarsamninga. Staðreyndin er að hin hátt stemmdu fjárlög með afgangi nú eru ábyrðgarlausari en mörg hallafjárlög fyrri ára þegar verr hefur árað. Ríkinu er beinlínis skylt að gefa nokkuð á garðann þegar tímabundnar lægðir ganga yfir en nú er ekkert í hendi um að slík lægð sé yfirvofandi þrátt fyrir óvissu á fjármálamörkuðum. Vitaskuld er meiri óvissa í hagkerfinu fram undan en oft áður en fæst bendir þó til atvinnuleysis strax á næsta ári. Vilji ríkisstjórnin þó vera búin undir slíka stöðu er fljótvirkara og ábyrgara að ná nú innan stjórnar samstöðu um mögulegar skattabreytingar - þegar og ef til harðæris kemur.
Það varð vissulega of mikil hækkun á fjárlögum milli áranna 2006 og 2007 og er áratugareynsla fyrir því að erfiðara er að halda aðhaldsstiginu á kosningaári en í venjulegu árferði. Hækkunin á fjárlögum nú er að sönnu heldur minni en stefnir í á ríkisreikningi ársins 2007 en þá er að athuga að reynslan segir okkur að hlaupið milli fjárlaga og ríkisreiknings er verulegt og verður miklu mun hærra núna vegna umdeildra breytinga á stjórnarráðinu. Í ofanálag er svo framundan erfiður vetur kjarasamninga sem ekkert tillit er tekið til við fjárlagagerðina en verður sýnu erfiðari en ella fyrir slaka hagstjórn.
Verðbólgufjárlögin
Sem fyrr segir hafa viðlíka hækkanir á fjárlögum ekki sést í landinu frá því fyrir tíma þjóðarsáttar. Yngstu þingmönnum þjóðarinnar er sumum óljóst hvað það merkir en allir sem fylgst hafa með stjórnmálum undanfarin 30 ár á að vera í fersku minni hvað lausatök af þessu tagi kalla yfir þjóðina.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem í 12 ár sigldu þjóðarskútunni af varkárni með Framsóknarflokki er flestum ljóst, þrátt fyrir gífuryrði um skömm Framsóknar, að hin nýja Viðeyjarskotta leiðir nú yfir þjóðarbúið vaxta- og verðbólgubál sem verður fyrr en varði orðið slökkviliði Seðlabankans erfitt og vísast óviðráðanlegt í stjórnarsamstarfi eins og því sem þjóðin býr nú við.
(Birt í Mbl. 18. desember síðastliðinn)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tek undir orð ERlings og GLEÐILEG JÓL
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.12.2007 kl. 22:10
Kæri Bjarni - langur pistill í dag- enda málið umfangsmikið. Verð að lesa um jólin. En....... af hverju í ósköpunum var aukafjárframlag til Rúv. ohf., samþykkt algerlega orða- og gagnrýnislaust í afgreiðslu þingsins, til aukafjárlaga? Útvarpsstjóri rekur fyrirtækið eins og um einkafyrirtæki væri að ræða, en gengur orðalaust í vasa eigenda með fulltyngi alþingismanna, við að jafna hallarekstur á stofnunni. Samþykktar eru ,,litlar aukasporslur" svo sem 9 milljón króna bíll utan verðbótaþáttar, vaxta o.fl.
Hvað á þetta eiginlega að þýða! Þetta er eitt öflugasta lýðræðistæki þjóðarinnar - á að vera það - og krefst þess af ykkur fulltrúum fjárveitinga- og löggjafarvaldsins að þið kynnið ykkur málin og komið með röksemd fyrir atkvæðum ykkar.
Ef reka á þessa stofnun eins og einkafyrirtæki - hefði þá ekki verið ráð að skipta um kallinn í brúnni í stað þess að verðlauna hann fyrir slíkan rekstur? Hvað með prinsippin?
Annars ágæti vinur - Megið þið öll fjölskyldan eiga gleðileg og góð jól.
Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 03:13
Einu af mörgu sem gleimdist við þessi fjárlög var lækkun á Diseloliunni/Hún er dyrarri en bensín og umkverfisvænni ef segja má svo,þetta er skömm,hvar er þetta Umkverfisráðuneyti/er það bara að gera ekki neitt/Kveðja og Jólaóskir góðar til þin og familyjunar/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 22.12.2007 kl. 13:03
Er bara í þvi að pakka inn jólagjöfum og hef ekki tíma til að lesa þetta svo ég segi bara Gleðileg jól
Valgerður Halldórsdóttir, 22.12.2007 kl. 13:35
Góður pistill. Þessi mikla aukning á ríkisútgjöldum er líkleg til að hafa þau áhrif sem þú spáir og kemur þar hvort tveggja til að eyðsla ríkisins veldur þenslu ekki síður en eyðslusemi einstaklinga og óhóf hjá ríkinu hvetur til óhófs hjá öðrum. Ríkið slær taktinn í óráðsíunni fyrir sveitarstjórnir og gefur tóninn fyrir alls konar fyrirtæki sem dansa eftir pípu stjórnvalda.
Atli (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.